Ályktun um ráðstafanir í Covid-kreppu


Alþýðufylkingin mótmælir ríkulegum fjáraustri úr ríkissjóði til stórra og stöndugra fyrirtækja vegna Covid-kreppunnar. Fyrirtækja, sem jafnvel nota skattaskjól til að koma sér undan skatti og eru nýbúin að greiða eigendum sínum milljarða í arð.

Það er sláandi að bera örlæti ríkistjórnarinnar í garð stórra fyrirtækja saman við andúð á því að verja alþýðuheimili fyrir skuldavanda í kreppunni fyrir rúmum áratug. Þetta sýnir í hnotskurn stéttareðli ríkisvaldsins og gangverk kapítalismans, þar sem gróðinn er einkavæddur og komið fyrir í öruggu skjóli eignarhaldsfélaga, en tapinu er velt yfir á alþýðuna.

Bent hefur verið á að stuðningur við fyrirtækin sé til að tryggja hagsmuni starfsfólksins. Það næst hins vegar betur fram með félagslegu framtaki í atvinnu- og fjármálum, sem skapar möguleika á að laga framleiðslu og þjónustu að þörfum fólksins og hagsmunum þess, fremur en þörfum fjármagnsins til vaxandi fjárfestinga og gróða.

Ekki er séð fyrir endann á afleiðingum kreppunnar og hvort hún breiðist út þegar frá líður. Kreppa er lögmál í kapítalismanum, en covid-kreppan kallar á ný verkefni og áskoranir verkalýðssamtakanna í stéttabaráttunni. Alþýðufylkingin hvetur til samstöðu um þá kröfu að félagslegt eignarhald komi á móti ríkisstuðningi við fyrirtæki yfir ákveðinni stærð. Það er sanngjörn krafa.

Samþykkt á fundi Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík 6. júní 2020