Ályktun gegn heimsvaldastefnu og stríðsstefnu.


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018.

Spenna á alþjóðavettvangi vex stig af stigi. Umfangsmikil NATO-æfing við Ísland í þessum mánuði, 10 herskip, 6000 sjóliðar, landgöngusveitir æfa landgöngu á Suðurnesjum og aðrir æfa sig í Þjórsárdal. Bandaríkin boða aukin hernaðarumsvif á N-Atlantshafi.

Heræfingin við Ísland er undanfari gríðarlegrar NATO-æfingar í Noregi í haust – Trident Juncture. Þar sem taka þátt 40 þúsund hermenn, 70 herskip, 130 flugvélar og þúsundir stríðsökutækja og skriðdreka. Mesta heræfing í Skandinavíu í marga áratugi. Í september var mikil æfing í Úkraínu með þátttöku 3000 frá NATO. Úkraína og Noregur eiga landamæri að Rússlandi. Rússar hafa þegar svarað með 300 þúsnd manna heræfingu í Austur-Síberíu, með þátttöku Kínverja.

Hvað er að gerast? Þetta eru ekki átök kapítalisma og sósíalisma heldur átök auðvaldsblokka. Undir átökunum liggur gróðadrifin heimsvaldastefna, á tíma hnattvæðingar. Tvær tilhneigingar einkenna þróun síðustu tíma:

A) Annars vegar er taflið um heimsviðskiptin, þar sem Bandaríkin með bandamönnum sínum (ESB, Japan) eru á hröðu undanhaldi fyrir nýjum keppinautum, fyrst og fremst Kína í bandalagi við Rússland og önnur nýmarkaðsríki (BRICS). Viðskiptataflið harðnar viðskiptastríð er staðreynd.

B) Hins vegar er svo hernaðartaflið um hnöttinn þar sem ófriðarský hrannast upp. RÚV segir okkur eins og venjulega – og hefur það eftir vestrænu sjónvarpsrisunum – að því valdi vondir einræðisherrar eins og Saddam Hussein, Gaddafi, Assad og nú síðast Pútín, en árásarhneigðin hefur undanfarna áratugi fyrst og fremst komið frá Bandaríkjunum og NATO eftir að kaflaskipti urðu um 1990 með falli Sovétríkjanna. Þá tóku Bandaríkin stefnu á „einpóla heim“ með miðju í Wall Street. NATO þandi sig um alla Austur-Evrópu í áföngum að landamærum Rússlands. Árið 2001 lýstu svo Bandaríkin og NATO yfir svokölluðu „stríði gegn hryðjuverkum“ sem hefur staðið linnulaust síðan í Stór-Miðausturlöndum og valdið gríðarlegri upplausn og flóttamannavanda.

Síðustu fimm ár hafa stórveldaátökin magnast hraðar. Annars vegar er það af því stórveldið Rússland er aftur komið upp á fæturna og ver hagsmuni sína af kappi, hins vegar af því hvað Kína (og önnur nýmarkaðsríki) sækir hratt fram á heimsmarkaði. Við því eiga Bandaríkin og gömlu heimsveldin fyrst og fremst eitt svar: Vígvæðingu. Eins og stundum áður er Rússagrýlan mjög notadrjúg til að kynda undir vígvæðingu, en höfum þá í huga að NATO er eina hernaðarbandalag heims og hernaðarútgjöld Rússa voru árið 2016 aðeins 1/12 af herútgjöldum NATO-ríkja.

Eftir tímabundinn ósigur sósíalismans og með fullkomnari tökum heimsvaldasinna á helstu áróðurs- og heilaþvottatækjum hafa mestu morðingjar heimsins náð að dulbúa hernaðarútrásir sínar sem leiðangra til stuðnings „mannréttindum“ ellegar sem stuðning við „uppreisnir gegn harðstjórn“. Meirihluti svokallaðra vinstri flokka á Vesturlöndum, þ.á.m. á Íslandi, hafa keypt megnið af þessum áróðri.

Fyrir andheimsvaldasinna er allra verst að sama gildir um þá vestrænu friðarhreyfingu sem hefur stundum hefur barist hatrammlega gegn stríðsöflunum (nefnum Víetnam, Írak) en er nú nánast lömuð. Friðarhreyfingin hefur að undanförnu gengið fram undir merkjum ópólitískrar friðarhyggju og siðferðilegrar mannréttindahyggju, en hefur sleppt hugtakinu „heimsvaldastefna“ úr orðaforða sínum.

Baráttan gegn heimsvaldastefnunni er æpandi nauðsyn. Að öðrum kosti blasa við fleiri svæðisbundin stríð og stigmögnun þeirra í átt að stórstyrjöld.