Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn, Rússland og Bandaríkin
—
1. mars síðastliðinn gaf Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn út handtökuskipun á hendur Vladimir Pútíns forseta Rússlands og Maríu Alekseyevnu Lvova-Belova, sem er einhvers konar umboðsmaður barna á skrifstofu forsetans. En hver er staða þessa dómstóls og hvaða lögmæti hefur hann?
Stríðsglæpir voru skilgreindir með Genfarsamningunum og Haag-samningunum á árunum 1864 til 1929 og loks með fjórða Genfarsamningnum 1949. Þar sem ekki hafði verið komið á fót neinum dómstóli sem gæti tekið á slíkum glæpum við lok seinni heimstyrjaldarinnar var komið upp sérstökum tímabundnum dómstólum til að fjalla um stríðsglæpi Þjóðverja og Japana, gjarnan nefndir Nürnberg- og Tókýó-dómstólarnir (International Military Tribunal og International Military Tribunal for the Far East).
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn
Hugmyndir um varanlegan stríðsglæpadómstól komu fram fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld og voru meðal annars ræddar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en vegna kalda stríðsins þóttu þær óraunhæfar. Um 1990 fól Allsherjarþingið Alþjóðalaganefndinni (International Law Commission – ILC, ráðgefandi nefnd á vegum þingsins) að kanna möguleika á stofnun slíks dómstóls. Árið 1993 var settur á laggirnar sérstakur dómstóll vegna stríðsins í Júgóslavíu, Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu (International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia – ICTY), og árið 1994 vegna fjöldamorðanna í Rúanda, Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir Rúanda (International Criminal Tribunal for Rwanda – ICTR). Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stóð fyrir báðum þessum dómstólum.
Eftir allmikinn undirbúning var á vegum Allsherjarþingsins haldin ráðstefna í Róm í júní 1998 og gengið frá samningi sem kallaður hefur verið Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn (Rome Statute of the International Criminal Court). Hann var samþykktur 17. júlí 1998 af 120 ríkjum. 21 ríki sat hjá en sjö ríki greiddu atkvæði gegn honum. Samkomulag var um að ekki yrði gefið upp hvernig einstök ríki greiddu atkvæði en fullvíst er talið að meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn samningnum hafi verið Kína, Ísrael og Bandaríkin og líklegast að hin fjögur ríkin hafi verið Írak, Líbía, Katar, og Jemen. Samþykktin tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu staðfest undirritun sína. Í október 2022 höfðu 123 ríki staðfest undirritun sína.
Ísrael, Bandaríkin og Jemen undirrituðu þó samþykktina síðar, öll á árinu 2000, en hafa ekki staðfest hana. Alls hafa 31 ríki ekki staðfest undirritun sína, þar á meðal Rússland og Úkraína. Fjögur þessara ríkja, Ísrael, Rússland, Súdan og Bandaríkin, hafa tilkynnt formlega að þau muni ekki staðfesta undirritun sína, en með því hafa þau komið sér undan öllum skyldum sem þau tóku á sig með undirrituninni. Rússland dró undirritun sína til baka árið 2016 eftir að dómstóllinn hafði gefið út skýrslu þar sem hann skilgreindi yfirtöku Rússlands á Krímskaga sem hernám (occupation).
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur verið sakaður um að vera verkfæri vestrænnar heimsvaldastefnu. Sú gagnrýni hefur einkum komið frá Afríku enda hafa flestar rannsóknir og réttarhöld á vegum dómstólsins beinst að Afríkuríkjum og Afríkumönnum.
Til þess að dómstóllinn geti fjallað um mál sem varða tvö ríki þarf annað ríkjanna að hafa gerst aðili að honum með því að staðfesta undirritun sína eða viðurkennt lögsögu dómstólsins. Ennfremur getur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna falið dómstólnum að fjalla um mál. Úkraína viðurkenndi lögsögu dómstólsins árið 2015 og þess vegna gat dómstólinn gefið út ákæru á hendur Vladimir Pútín. Þess má geta að stjórn Úkraínu stefnir að því að sækja um aðild að dómstólnum, en það þurfa þau ríki að gera sem ekki höfðu undirritað Rómarsamþykktina fyrir tiltekinn tíma.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn og Bandaríkin
Þar sem Írak hefur ekki undirritað Rómarsamþykktina og Bandaríkin hafa ekki staðfest undirritun sína hefur dómstóllinn ekki lögsögu varðandi aðgerðir Bandaríkjanna í Írak og Öryggisráðið getur ekki skorist í leikinn vegna neitunarvalds Bandaríkjanna. Bráðabirgðaríkisstjórn Íraks ákvað reyndar í febrúar 2005 að Írak skyldi gerast aðili að dómstólnum en dró þá ákvörðun til baka tveim vikum síðar. Líklegt þykir að hafi verið fyrir þrýsting frá Bandaríkjunum. Hins vegar hóf dómstóllinn árið 2005 rannsókn á framferði Breta í Írak en málinu var lokað árið 2006. Það var aftur tekið upp árið 2014 og lokað árið 2020.
Afganistan staðfesti Rómarsamþykktina 10. febrúar 2003 og varð fullgildur aðili að Alþjóðlega sakamáladómstólnum 1. maí sama ár. Þess vegna hefur dómstóllinn lögsögu yfir framferði Bandaríkjamanna þar. Veturinn 2017 til 2018 safnaði dómstóllinn vitnisburðum varðandi stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni af hálfu Talibana og stríðsglæpi af hálfu Þjóðaröryggisveita Afganistans og Bandaríkjahers og Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) í Afganistan. Árið 2019 lagði þáverandi aðalsaksóknari dómstólsins, Fatou Bensouda, til að rannsókn yrði formlega hafin en því var hafnað á þeim grundvelli að litlar líkur væru á að hún mundi leiða til árangursríkrar saksóknar þar sem langt væri liðið frá því hugsanlegir glæpir hefðu verið framdir og stjórnvöld í Bandaríkjunum og Afganistan væru ósamvinnuþýð. Eftir að þeirri ákvörðun var áfrýjað var ákveðið 5. mars 2020 að rannsókn yrði formlega hafin, enda hefði undirbúningsrannsóknin, að sögn Piotr Hofmański dómara við dómstólinn og núverandi forseta hans, sýnt að ríkar ástæður væru til að ætla að stríðsglæpir hafi verið framdir í Afganistan.
Bandarísk stjórnvöld hafa hafnað lögsögu dómstólsins. Árið 2002 voru sett lög í Bandaríkjunum, American Service-Members’ Protection Act (ASPA), stundum kölluð „Haag-innrásarlögin“ (Hague Invasion Act), til verndar bæði hernaðarlegum og borgaralegum starfsmönnum Bandaríkjastjórnar gegn saksókn alþjóðlegs sakamáladómstóls sem Bandaríkin eiga ekki aðild að. Lögin veita forsetanum vald til að beita öllum nauðsynlegum og tiltækum ráðum til að frelsa bandaríska borgara sem hafa verið handteknir eða fangelsaðir á vegum Alþjóðlega sakamáladómstólsins og reyndar á það líka við um starfsmenn bandalagsríkja, það er NATO-ríkja og nokkurra ríkja að auki, þar á meðal Ísraels. Það er þetta ákvæði sem er tilefni áðurnefnds óformlegs heitis á lögunum, enda veitir það forsetanum heimild til að beita hervaldi svo sem með innrás í Haag þar sem dómstóllinn hefur aðsetur.
Í stjórnartíð Baracks Obama sýndu Bandaríkin dómstólnum meiri samstarfsvilja, án þess að neitt breyttist formlega, en Donald Trump sneri blaðinu aftur við og árið 2019 fyrirskipaði hann ferðatakmarkanir og fleiri refsiaðgerðir gagnvart starfsfólki dómstólsins vegna Afganistan-rannsóknarinnar. Þannig var bandarísk vegabréfsáritun Fatou Bensouda aðalsaksóknara afturkölluð í apríl 2019 en nokkru áður hafði Mike Pompeo þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýst yfir að starfsfólk dómstólsins fengi ekki sjálfkrafa leyfi til að ferðast Bandaríkjanna „Ef þú berð ábyrgð á að leggja til rannsókn á starfsmönnum Bandaríkjanna í tengslum við ástandið í Afganistan máttu reikna með að þú fáir ekki vegabréfsáritun og þér verði ekki heimilt að ferðast til Bandaríkjanna,“ sagði hann við fréttamenn og bætti við: „Við erum tilbúnir til að taka fleiri skref, þar á meðal efnahagslegar refsiaðgerðir ef Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn breytir ekki um stefnu.“ Í júní 2020 tilkynnti stjórn Trumps hertari refsiaðgerðir gegn starfsfólki dómstólsins og í þeim fólust líka takmarkanir á vegabréfsáritunum handa fjölskyldum starfsmannanna. Talsmenn stjórnarinnar upplýstu jafnframt að þetta væri aðeins byrjunin á viðvarandi baráttu gegn Alþjóðlega sakamáladómstólnum.
1. apríl 2021 gaf Anthony Blinken utanríkisráðherra út tilkynningu um að Joe Biden forseti hefði aflétt þessum refsiaðgerðum. Jafnframt lýsti hann yfir að Bandaríkin væru áfram algerlega ósammála aðgerðum dómstólsins varðandi ástandið í Afganistan og Palestínu og að þau stæðu við það af hafna lögsögu dómstólsins yfir starfsmönnum ríkja sem ekki eiga aðild að dómstólnum, svo sem Bandaríkjanna og Ísrael. Palestína gerðist aðili að dómstólnum árið 2015 og í desember 2019 tilkynnti aðalsaksóknari dómstólsins að rannsókn yrði hafin á hugsanlegum stríðsglæpum í Palestínu af hálfu Ísraels og Hamas og öðrum vopnuðum sveitum í Palestínu. Þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, lýsti þá yfir andstöðu Bandaríkjanna við þessa ákvörðun dómstólsins. Þegar tilkynnt var að formleg rannsókn yrði hafin sagði Antony Blinken utanríkisráðherra að Bandaríkin „lýstu eindreginni andstöðu og miklum vonbrigðum“ vegna þessarar ákvörðunar dómstólsins. Hins vegar hefur Joe Biden fagnað handtökuskipun dómstólsins á hendur Vladimir Pútín þótt dómstóllinn, bætti hann við, „sé ekki annars ekki viðurkenndur af okkur“.