Af hverju er Sigurdagurinn Rússum ennþá svo mikilvægur?
—

Af rússneska vefritinu Strategic Culture

Raphael Machado
Líklega tekur ekkert land minninguna um sigurinn yfir Þýskalandi nasista í seinni heimsstyrjöldinni jafn alvarlega og Rússland. Rússar hafa meira að segja sérstakt eigið nafn yfir stríðið – Föðurlandsstríðið mikla – nafn sem kallar strax fram sérrússneska merkingu, sem þeir vilja einnig að aðrar þjóðir viðurkenni.
Seinni heimsstyrjöldin var mannskæðustu átök mannkynssögunnar. Í keppni sinni að heimyfirráðum hertók Þýskaland nasismans nánast alla Evrópu, með það að markmiði m.a. að tryggja kynþáttayfirburði þeirra sem þeir töldu tilheyra „aríska kynstofninum“. Árið 1941 – með því að nota herflutninga innan Sovétríkjanna sem yfirskin og í viðleitni sinni að tryggja Lebensraum im Osten („lífsrými í austri“) fyrir framtíðarnýlendu Þjóðverja – réðst Hitler inn í Sovétríkin.
Í upphafi fögnuðu sumir innrásinni bjartsýnum huga – leiðir á kommúnisma – en fljótt varð ljóst að Þjóðverjar höfðu ekki komið til að frelsa Slava, heldur til að kúga þá, eyða þeim og reka þá af löndum forfeðranna.
Fjórum árum síðar marséruðu Sovétmenn hins vegar inn í rústir Berlínar. Hitler var dauður, nasistastjórnin lá í rúst. Seinni heimsstyrjöldinni – eða Föðurlandsstríðinu mikla – var lokið. Þessi mynd af stríðinu er þó ekki sú mynd sem fæst af Hollywood-kvikmyndum eins og t.d. Saving Private Ryan.
Í vestrænum fjölmiðlum, menningu og sögubókum er sá atburður sem réði falli Þýskalands innrás herja Vesturveldanna á strönd Normandí á D-deginum. Frá barnæsku er fólki kennt að þakka megi það Bandaríkjunum að „heimurinn tali ekki þýsku“.
Raunveruleikinn er hins vegar allur annar – það þarf aðeins að skoða nokkrar tölur.
Um 75-80% af mannfalli Þjóðverja í stríðinu varð á austurvígstöðvunum. Sovétmenn ollu mannfalli þriggja milljóna af þýska hernum (drepnir, særðir eða teknir til fanga) af heildarmannfalli Þýskalands upp á 4,5 milljónir. Þær tölur sýnast afgerandi í að útkljá þessa umræðu.
Enginn neitar því að landtaka Vesturveldanna í Normandí hafi gegnt mikilvægu hlutverki. Með því að neyða Þýskaland til að berjast á tveimur vígstöðvum og beina hluta af herliði sínu frá austri til vesturs, stuðlaði vestræna sóknarherferðin að þeirri útkomu sem fékkst. En þessi vestræna sókn hófst ekki fyrr en árið 1944, en þá höfðu Sovétmenn rekið Þjóðverja aftur að upprunalegum landamærum sínum (á D-dag í júní 1944 lá víglínan gróflega eftir vesturlandamærum Sovétríkjanna, þýð.). Aðeins hugmyndafræðileg blinda getur leitt einhvern til að halda því fram að þessi landtaka – frekar en sigrar Sovétmanna við Stalíngrad, Kharkov, Kúrsk og víðar – hafi leitt til falls Hitlers.
Orrustur eins og Stalíngrad (1942-1943) og Kúrsk (1943) voru afgerandi hverfipunktar, þar sem Rauði herinn stöðvaði ekki aðeins framrás nasista heldur hóf gagnárásina sem endaði með falli Berlínar. Við Stalíngrad umkringdu og gjöreyðilögðu Sovétmenn 6. her Þjóðverja, sem markaði fyrsta stóra ósigur Wehrmacht (þýska hersins). Við Kúrsk – í stærstu skriðdrekaorustu sögunnar – brutu Sovétríkin á bak aftur vonir Hitlers um hernaðarlegan sigur.
En hvert var verðið sem Sovétmenn greiddu? Jú, 27 milljónir látinna, hermenn og almennir borgarar (mest almennir borgarar), samkvæmt nýjasta mati.
Þetta var um 17% af íbúafjölda Sovétríkjanna. Sum svæði, eins og Hvíta-Rússland nútímans, misstu yfir 25% af íbúum sínum. Úkraína varð fyrir svipuðum mannfalli.
Í næstum tvo áratugi hefur Rússland staðið að «göngu ódauðlegu herdeildanna» á Sigurdeginum ár hvert þar sem almennir borgarar ganga með myndir af ættingjum sem tóku þátt í Föðurlandsstríðinu mikla. Þessi gríðarvinsæla opinbera minningarathöfn hefur breiðst út um allan heim. Hvers vegna hefur hún svo mikla þýðingu í rússneskri vitund? Vegna þess að hver einasta rússnesk fjölskylda á ættingja – afa og ömmur, langafa og langömmur, frændur – sem dóu í stríðinu. Ekki ein einasta rússnesk fjölskylda slapp ósnortin af þessum harmleik.
Fyrir Rússa er seinni heimsstyrjöldin «Föðurlandsstríðið mikla» vegna þess að það var augnablikið þegar tilvist þeirra sem þjóðar var í mestri hættu. Þeir stóðu frammi fyrir mögulegri útrýmingu ef þeir yrðu sigraðir. En úr rústum lands síns, í gegnum blóð, svita og tár, tryggði sigurinn yfir Þýskalandi þeim áframhaldandi tilvist á jörðinni.
En hvernig hefur heimurinn endurgoldið Rússum þessa fórn? Fyrir 2022 var það helst með áhugaleysi, fáfræði og sögufölsun. Frá 2022 er það með hatri, kynþáttafordómum, ofsóknum og útskúfun.
Þetta eru þau miklu vonbrigði sem Rússar finna gagnvart umheiminum. Þeir líta í kringum sig og sjá að gríðarleg fórn þeirra er ekki virt eins og hún ætti að vera – að minnsta kosti ekki á Vesturlöndum.
En 80 árum eftir sigur þeirra yfir dauðanum, á meðan viðhorf Vesturlanda gagnvart rússneskri hetjudáð kann að valda þeim beiskju, finna Rússar ekki annað stolt gagnvart sjálfum sér og afrekum forfeðra sinna.
Upprunalegt heiti greinarinnar: Why is Victory Day still so important for Russians today?
Forsíðumynd: 200 herteknum fánum kastað á Rauða torgið framan við Stalín og aðra leiðtoga ríkis og hersins. Samtímamálverk.