Aðför að verkfalls- og samningsrétti verkalýðsfélaga

27. febrúar, 2023 Þorvaldur Þorvaldsson

Framvindan í kjarabaráttunni að undanförnu hefur vakið ýmsar spurningar sem verkalýðshreyfingin getur ekki vikið sér undan því að velta fyrir sér. Undanfarna áratugi hefur margt verið gert til að koma böndum á kjarabaráttuna, m.a. með breytingum á vinnulöggjöfinni um miðjan 10. áratug síðustu aldar, þar sem hækkaðir voru þröskuldar fyrir verkfallsboðun og einnig fyrir að fella samninga eða miðlunartillögu. Um leið hafa viðbrögð samtaka atvinnurekenda orðið illskeyttari en fyrr ef þau virðast vera að missa stjórn á aðstæðum.

Að ganga í takt

Það hefur verið vaxandi krafa um aukna mistýringu í samningagerð. Fyrir nokkrum árum var mikið reynt að stofnanabinda miðstýringuna með svokölluðu SALEK-samkomulagi, sem dagaði uppi vegna þess að ekki var samstaða um það ínna verkalýðshreyfingarinnar. Samt sem áður hefur mistýringarkröfunni verið haldið til streitu af hálfu atvinnurekenda og mikið lagt undir.

Þótt hagnaður flestra stærri fyrirtækja hafi verið mikill undanfarið ár er kapp lagt á að hann dreifist ekki um of. Þannig fá forstjórar sumra þeirra jafnvel tugi milljóna á mánuði, en Halldór Benjamín kallar það trúnað við önnur félög að Efling fái ekki nokkrum þúsundum meira en önnur félög verkafólks.

Þungur áróður hefur verið mánuðum saman gegn kjarabótum almennings. Þar hefur seðlabankastjóri verið nokkuð áberandi. Þegar stýrivextir voru hækkaðir óvenju mikið síðasta vor sagði hann að bankinn stefndi að því að íslenska þjóðin „hætti að eyða peningum“. Borgaralegur hagfræðingur ætti hins vegar að vita að ef það gengi eftir yrði djúpstæð kreppa. Vaxandi velta í hagkerfinu er nauðsynleg fyrir gróðakröfu kapítalistanna. Síðan þá hefur seðlabankastjóri haft uppi lítt duldar hótanir um áframhaldandi vaxtahækkanir ef verðbólgan heldur áfram, og látið að því liggja að hún sé helst knúin áfram af launahækkunum láglaunafólks.

Skammtímasamningar

Þegar samningar runnu út í byrjun nóvember og ekkert lát var á verðbólgunni fannst mörgum innan hreyfingarinnar ráð að láta reyna á skammtímasamnig til rúmlega árs og láta koma í ljós hvort verðbólgan hjaðnaði í millitíðinn og meir stöðugleiki skapaðist til að byggja nýjan samning á að ári. Það má færa rök fyrir mismunandi skoðunum á þessari leið en hún varð niðurstaða fyrir flest félög ASÍ. Það eru hins vegar engin rök fyrir því að henni sé þröngvað upp á öll félög, enda er samnings- og verkfallsrétturinn hjá einstökum félögum.

Þótt Efling setti fram hófsama kröfugerð var hún sniðgengin í samningaferlinu og reynt með látalátum að grafa undan sjálfstrausti félagsins til að fylgja henni eftir. Þegar það gekk ekki og Efling hóf að undirbúa aðgerðir byrjuðu hótanir m.a. um að Efling fengi ekki afturvirkar hækkanir nema með því að skrifa undir sama samning og aðrir.

„Miðlunartillaga“

Næsti þáttur leiksins var með vandræðalegustu uppákomum í seinni tíð. Mikið hefur verið rætt um hvort svokölluð miðlunartillaga sáttasemjara hafi verið lögleg og fleiri lagaleg álitamál. Það er hins vegar ekki aðalatriðið enda er erfitt að lögbinda dómgreind embættismanna. Vandinn var sá að efnislega var ekki um miðlunartillögu að ræða þar sem hún var samhljóða kröfum Samtaka atvinnulífsins. Hún var greinilega sett fram í trausti þess að erfitt yrði að hafna henni þar sem fjórðungur félagsmanna þurfti að greiða atkvæði gegn henni til að fella hana, en það er meira en sem nemur algengri þátttöku í kosningum stærstu félaganna. Þegar sú lausn var úr sögunni með óvæntum úrskurði Landsréttar, sem hafnaði kröfu SA um að fá afhenta félagaskrá Eflingar, voru góð ráð dýr.

Þótt Efling slægi af kröfum sínum og frestaði verkföllum til að freista þess að ná samningum dugði það ekki til. Ekki vegna þess að kröfur Eflingar væru fyrirtækjunum ofviða, heldur vegna þess að það gæfi of slæmt fordæmi að sætta sig við frumkvæði einstakra félaga í eigin kjarabaráttu.

Verkbann

Að ganga að kröfum Eflingar hefði líklega kostað minna en verkföllin hafa nú þegar kostað, en SA eru tilbúin til að eyða miklu í að veita ráðningu þeim sem ekki hlýða. Þess vegna ætla þau að setja alla sína olíu á eldinn og hafa boðað verkbann á alla félaga Eflingar á almennum vinnumarkaði, rúmlega tuttugu þúsund. Til að kóróna smekkleysið hvatti Halldór Benjamín félaga Eflingar til þess, í viðtali, að gera kröfu á vinnudeilusjóð Eflingar til að bæta launamissinn. Það afhjúpaði þann tilgang að tæma sjóði Eflingar á augabragði. Greiðslur úr vinnudeilusjóði eru hins vegar ákvörðun félagsins og félögin hafa misjafnlega fastar reglur um greiðslur úr sjóðum sínum. Enda er ekki skynsamlegt að láta stærð vinnudeilusjóðs ákvarða úthald í kjarabaráttu.

Því hefur verið haldið fram að verkbann sé eins konar spegilmynd af verkfalli og sambærilegt að því leyti. Þar er hins vegar litið framhjá því að verkafólk og atvinnurekendur eru ekki jafnstæðir aðilar á markaði eins og oft er haldið fram. Atvinnurekandinn hefur mikil völd umfram hvern verkamann í krafti þess kapítals, sem samfélagið hefur hingað til sætt sig við að hann ráði yfir. Verkafólkið hefur hins vegar aðeins samtakamáttinn til að fylgja eftir sínum hagsmunum.

Fram að þessu hefur verkbönnum ekki oft verið beitt, en þó einkum til að spara launagreiðslur til hópa sem verða verklausir vegna verkfalla annarra, eða í svipuðum tilfellum. Nú er hins vegar greinilegt að ætlunin er að beita verkbanni til þess að knésetja sjálfstæðan verkfalls- og samningsrétt Eflingar í hefndarskyni fyrir að fylgja ekki taktslætti Samtaka atvinnulífsins. Ekki er útlit fyrir að verkbannið nái því markmiði sínu að brjóta Eflingu á bak aftur, enda hefur það mælst afar illa fyrir, og því hefur verið haldið fram að það hafi í raun verið ákall um að ríkisstjórnin stígi inn í deiluna með lagasetningu. Ekki er þó lagasetning í kortunum segja ráðherrar, enda segja þeir það alltaf alveg þangað til lögin eru tilbúin.

Önnur afleiðing verkbannsins gæti orðið sú að fleiri fari að velta fyrir sér að kannski sé ekki ráðlegt að kapítalistarnir fái áfram að ráða yfir kapítali samfélagsins. Hvað sem því líður er mikilvægt að verkalýðshreyfingin velti fyrir sér viðbrögðum við skefjalausri drottnunarstefnu atvinnurekendavaldsins, og slái skjaldborg um verkfalls- og samningsrétt einstakra félaga.

26.2. 2023
-Þorvaldur Þorvaldsson