150 ár frá fyrstu tilraun til kommúnisma


Þann 18. mars eru 150 ár liðin frá því að kommúnardar tóku völdin í París og stofnuðu Kommúnuna sem entist frá 18. mars til 28. maí 1871 eða þangað til að hún var barin niður af franska hernum í blóðugum átökum.

borgarstríðið í frakklandi kápa

Margir kommúnistar og anarkistar byggja mikið af kenningum sínum á þessari Kommúnu, þar á meðal Karl Marx sem skrifaði um atburðina í 35 blaðsíðna bæklingi sem ber nafnið Borgarastríðið í Frakklandi (Der bürgerkrieg in Frankereich) á meðan á þeim stóð. Bæklinginn skrifaði hann í London þar sem hann safnaði úrklippum úr enskum, þýskum og frönskum fréttablöðum sem fjölluðu um atvikin í París. Svo hafði hann sem heimildamenn ýmsa forustumenn Kommúnunnar eins og Paul Lafargue og Pyotr Lavrov

Ritgerð Marx má lesa í Úrvalsrit Marx/Engels II, bls 221 eða á ensku á netinu hér: https://www.marxists.org/archive/marx/works/1871/civil-war-france/

Í textanum dásamar Marx Kommúnuna og lýsir henni sem fordæmi fyrir byltingarsinnaðar ríkisstjórnir framtíðarinnar. Hann segir að Kommúnan og verkafólkið í París verði ávallt hyllt sem fyrirboðar nýs samfélags. Ennfremur: «Píslavottum hennar hefur verið búinn staður í hinu stóra hjarta verkalýðsstéttarinnar. Sagan hefur nú þegar neglt tortímendur hennar við þá níðstöng sem allar bænir klerka þeirra fá ekki losað þá af.»


Hvernig byltingin varð að tímabundnum veruleika.

Það getur verið erfitt að fjalla um orsakir Kommúnunnar og hvernig hún komst á fót því svo margir þættir spila þar inn í. Einnig voru þarna allmargar fylkingar sem ýmist börðust eða unnu saman og flækja málið þannig ég biðst afsökunar ef eitthvað sem hér kemur er rangt.

Þann 2. september árið 1870 beið Frakkland ósigur í stríði við Prússland og keisari Frakklands (þá Napóleon 3.) tekinn sem fangi. Þegar fréttist af þessu í París næsta dag fór alþýðan öskureið út á göturnar til að mótmæla og þar með flúði keisarynjan Eugénie sem hafði þá ríkt um örskamma stund. Þetta markaði fall seinna keisaraveldis Frakklands. Lýðveldissinnar og róttækir meðlimir þingsins (Assemblée Nationale) stofnuðu Þriðja lýðveldi þjóðarinnar (sem entist þangað til 1940) og mynduðu stjórn í þeim tilgangi að halda áfram stríðinu við Prússa. Vegna þessa marseruðu prússneskir hermenn nú til Parísar.


Fyrirboðar um róttækni verkafólksins í París.

Kommúnan varð að veruleika vegna vaxandi óánægju verkamanna Parísar. Óánægjuna má m.a. rekja til fyrstu verkalýðsuppreisnarinnar Frakklands sem bar nafnið Canut-uppreisnin (Révolte des canuts), í Lyon og París 1830 (Canut var einskonar viðurnefni fyrir verkafólk sem vann við silkiiðnað í Lyon). Margir íbúar Parísar, sérstaklega verkafólk og lægri millistéttin, studdu hugmyndina um lýðveldi. Sérstök krafa byrjaði að myndast í Canut-uppreisninni. Sú krafa var að París ætti að vera sjálfsstjórnarsvæði með eigin borgarstjórn, sem var raunin í minni bæjum Frakklands en neitað Parísarbúum vegna hræðslu við óviðráðanlegan lýðinn. Krafist var líka réttlátari stjórnar efnahagsmála, eins konar frumhugmynd sósíalisma og kratisma sem var mjög tengt ákalli verkalýðsins um la république démocratique et sociale!“

Sósíalískar hreyfingar, ekki síst Fyrsta alþjóðasamband verkamanna (Fyrsti internationalinn) höfðu áhrif á hundruði samfélaga verkamanna tengdum því sambandi um allt Frakkland. Snemma árs 1867 reyndu vinnuveitendur brons-verkamanna í París að berja niður verkalýðsfélög starfsmanna sinna. Þessu var hrundið með verkfalli sem var skipulagt af Alþjóðasambandinu. Seinna það ár var skipulögðum mótmælum sambandsins svarað með því að leiðtogarnir voru sektaðir og stjórn sambandsins leyst upp. Þetta leiddi til aukinnar spennu og varð til þess að Alþjóðasambandið kaus nýja nefnd og setti fram ennþá róttækara prógram. Yfirvöldin svöruðu þessu með því að fangelsa leiðtoga sambandssins og þar með varð ennþá róttækari og byltingasinnaðari stefna sett á dagskrá og tekin fyrir á þingi fyrsta Alþjóðasambandsins í Brussel 1868. Internationalinn hafði mikil áhrif, einnig meðal ópólitískra og ótengdra verkamanna, sérstaklega í París og öðrum stórborgum.

Atvik sem hafði gríðarleg áhrif á róttækni verkalýðssins voru morð á fréttamanninun Victor Noir og einnig handtökur á fréttamönnum sem voru gagnrýnir á keisarann. Þetta leiddi til mikilla átaka í borginni. Stuttu síðar ráðast Prússar á París, sigra og handsama keisarann.


Blanqui
Louis Auguste Blanqui málaður af konu hanns, Amelie Serre Blanqui, 1835.

Róttæklingar og byltingasinnar

París var aðsetur róttækra hreyfinga Frakklands þar sem byltingarsinnar höfðu verið á götum borgarinnar til að mótmæla ríkisstjórnum landsins í alþýðuuppreisnum í júlí 1830, febrúar 1848 og oftar.

Róttækustu byltingasinnarnir í París voru fylgismenn Louis Auguste Blanqui (Blanquistar) sem var karismatískur atvinnubyltingarmaður og eyddi flestum fullorðinsárum sínum í fangelsi (og var í fangelsi allan tíma Kommúnunar). Hann hafði þúsundir fylgismanna og margir þeirra voru vopnaðir og skipað í litlar sellur með ekki meira en tíu manns í hverri sellu. Hver einasta sella starfaði sjálfstætt og þær vissu lítið um meðlimi hver annarrar. Þær áttu bara samskipti við leiðtoga sína í gegnum kóða.

Blanqui skrifaði mikilvægt rit sem var eins konar byltingarhandbók (Instructions pour une prise d'armes) til að gefa fylgjendum sínum leiðbeiningar. Þó að fjöldi þeirra hafi ekki verið mikill þá voru þeir öguðustu hermenn Kommúnunnar og margir beinlínis leiðtogar hennar.


Aðdragandi Kommúnunnar

Upphaf kommúnunnar er sterklega tengt stríðinu við Prússa og hvernig Franski herinn skiptist í hluta.

Seint í september 1870 hafði þýski herinn umkringt París þar sem Frakkar höfðu takmarkað herafl. Stærsti her Parísar var Þjóðvarðliðið sem var samansafn af mönnum úr öllum stéttum en hafði litla sem enga þjálfun og reynslu af hernaði. Þeir sem voru í efri stéttunum voru hlynntari ríkisstjórninni á meðan þeir sem voru í lágstéttunum hlynntari róttækari hugmyndum (enda margir tekið þátt í verkföllum og óánægðir með kjör sín). Þjóðvarðliðið var ekki hluti af hinum fasta her ríkisins og var þegar hér var komið orðið pólitískt róttækt. Það varð síðar meginherafl kommúnunnar. Undir hinu prússneska umsátri um París sáu hinir róttæku borgarbúar að ríkisstjórn Frakklands var hernaðarlega veikburða.

19. september marseruðu þjóðvarliðar inn að borgarmiðju og heimtuðu nýja stjórn (Kommúnu). Þeim var ögrað af her ríkisstjórnarinnar, en mótmælin leystust upp friðsamlega.

5. október 1870 fór fimm þúsund manna kröfuganga að Hotel de Ville (ráðhúsinu) og heimtaði kosningar og skotvopn.

8. október marseruðu nokkur þúsund þjóðvarðliðar undir forrystu Eugéne Varlin að miðborginni syngjandi „Lengi lifi kommúnan!“ en mótmælin leystust síðan upp án átaka. Allt gerist þetta á meðan París er hernumin af Prússum.

Mikið af her Frakka var orðin að stríðsföngum Prússa eins og til dæmis 160 þúsund manna her í Metz. Von Parísarbúa um sigur gegn Prússum var að engu orðin og svo fengu þeir fréttir af því að herinn í Metz hefði gefist upp þann 28. október.

28. október kölluðu helstu byltingarleiðtogar Parísar til mótmæla fyrir utan ráðhúsið (Hotel de Ville) gegn ríkisstjórninni (sem leidd var af Louis Jules Trochu). Mótmælendurnir söfnuðust saman fyrir utan ráðhúsið í mígandi rigningu og heimtuðu að Trochu viki og að París yrði gerð að kommúnu. Meðal þeirra byltingarleiðtoga sem staddir voru á þessum mótmælum voru þeir Blanqui, Félix Pyat og Louis Charles Delescluze.

Eftir smá átök var skotið frá ráðhúsinu (Trochu næstum skotinn) og mótmælendurnir stormuðu á bygginguna heimtandi nýja ríkisstjórn og gerðu lista yfir þá sem þeir vildu fá í stjórnina.

Blanqui sem er minnst á hér að ofan hafði sínar eigin höfuðstöðvar nálægt Signu þaðan sem hann gaf skipanir til fylgismanna sinna og vildi mynda sína eigin stjórn á meðan aðrir voru að smíða nýja í ráðhúsinu. Þjóðvarðliðar sem enn voru tryggir Trochu fóru og hertóku þessar höfuðstöðvar og ráðhúsið án mikilla átaka, leyfðu mótmælendum að fara. Það batt enda á þessa tilraun til valdatöku.


Uppreisn og vopnahlé

Á milli 11. og 19. janúar 1871 hafði franski herinn verið sigraður á fjórum víglínum og París svalt. Trochu fékk fréttir um að óánægja og aðgerðir gegn ríkisstjórninni og stjórn hersins færi vaxandi í pólistískum hreyfingum og innan hersins og aðallega þó innan Þjóðvarðliðsins.

22. Janúar mættu þrjú til fjögurhundruð þjóðvarðliðar og meðlimir róttækra hópa (að mestu blanquistar) fyrir utan ráðhúsið. Í ráðhúsinu voru hermenn frá Brittaníu til að verja bygginguna ef illa færi og byggingin yrði fyrir árás. Kröfur þeirra sem höfðu safnast fyrir utan voru að herinn skyldi settur undir vald fólksins og að kosið yrði um kommúnu. Mikil spenna var í andrúmsloftinu og ekki leið langur tími þar til báðar hliðar byrjuðu að skjóta. Sex mótmælendur voru drepnir, tvö fréttarit voru bönnuð (Le Reveil og Le Combat of Pyat) og 83 byltingarsinnar voru handteknir.

Meðan þessi mótmæli stóðu höfðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar staðsettir í Bordeaux ákveðið að stríðið gæti ekki haldið áfram. Þann 26. janúar sömdu þeir um vopnahlé með sérstöku tilliti til Parísar. Samningurinn fól í sér að hefðbundnir hermenn myndu afvopnast en yrðu ekki fangelsaðir og að París myndi láta Prússa hafa 200 milljón franka. Samið var að þjóðvarðliðið í París héldi vopnum sínum til þess að viðhalda lögum og reglu í borginni.


Þjóðvarðliðið tekur völdin

Fyrri hluta febrúar 1871 á meðan ríkisstjórnin hafði verið að skipuleggja sig í Bordeaux hafði önnur stjórn verið mynduð í París af Þjóðvarðliðinu sem hafði ekki verið afvopnað. Þessi stjórn var óstöðug og seint 18. mars þegar hefðbundnir hermenn voru að yfirgefa borgina tóku þjóðvarðliðar frá fátækum hverfum og byltingasinnar völd í þjóðvarðliðinu og þar með borginni. Þeir fyrstu til að taka af skarið voru Blanquistar sem voru fljótir að sölsa undir sig vopnabúr borgarinnar sem hýsti skotvopn og byssupúður og tóku einnig Orleans lestarstöðina.

Róttækir byltingasinnar (aðallega blanquistar) vildu marsera til Versala og binda enda á nýju ríkisstjórn Þjóðvarðliðanna sem höfðu tekið völdin en meirihutinn vildi frekar bíða og gera það með löglegri hætti. Stjórnin hélt kosningar 23. mars.


Upphaf kommúnunnar

Í borginni urðu væringar á milli stjórnar lýðveldissinna og stjórnar Þjóðvarðliðsins (taldi sig vera réttmæt stjórn borgarinnar). Mikil fjöldamótmæli og aðgerðir urðu í borginni þar sem róttækir meðlimir Þjóðvarðliðsins tóku yfir ráðhús borgarinnar. Þetta var upphaf Kommúnunnar.

Byltingasinnar héldu kosningar 26. mars og sköpuðu kjörna nefnd með 92 meðlimi. Fyrir kosningarnar hafði Alþjóðasambandið (internationalinn) gefið út lista af frambjóðendum (flestir róttækir vinstri sinnar). Kandítatarnir höfðu aðeins orfáa daga til þess að kynna framboð sitt.

Ríkisstjórnin sem sat enþá í Versölum bað fólk um að sniðganga kosningar Kommúnunnar. Þegar kosningunum lauk höfðu 233 þúsund Parísarbúar kosið af þeim 485 þúsund sem voru á kjörskrá. Í borgaralegri hverfum hafði flest fólk fylgt tilmælum frá Versölum og sniðgengið kosningarnar. Þáttaka alþýðunnar úr fátækri hverfum var mikið meiri.


Stefnumörkun

Kommúnan hélt sinn fyrsta fund 28. mars. Meðlimir lögðu fram og samþykktu margs konar tillögur eins og að banna dauðarefsingar, binda enda á herskyldu, áform um að stuðla að stofnun kommúna annars staðar og að ekki hægt væri að vera meðlimur af Kommúnunni og ríkisstjórninni. Þeir gáfu líka Blanqui heiðurstitil sem forseta en hann hafði verið handtekin þegar hann yfirgaf borgina og var í haldi meðan á líftíma Kommúnunnar stóð.

Kommúnan tók margar ákvarðanir sem mörkuðu tímamót í sögunni eins og að fara gegn kirkjunni og koma á trúfrelsi, bundu enda á barnaþrælkun, næturvaktir bakaría, gáfu öllum öldruðum framfærslu (sem hafði aðeins verið fyrir gift fólk) og börnum þeirra sem höfðu látið lífið í herþjónustu og bönnuðu sektir vinnuveitenda á verkafólki.

átök í parís


Blóðuga vikan

Eftir tveggja mánaða baráttu og stefnumótun varð borgin hertekin af ríkisstjón lýðveldissins þar sem her lýðveldissins marseraði inn í borgina, gegnum fjölda götuvígja, elti uppi byltingasinna og róttæklinga og dæmdi þá til dauða.

Grimmileg átök innan borgarinnar stóðu frá 21. maí til 28. maí. Hundruðir fanga sem höfðu verið teknir með vopn eða byssupúður voru drepnir samstundis. Farið var með aðra að aðalherbúðum Parísar og þeir teknir af lífi eftir réttarhöld. Þeir voru grafnir í fjöldagröfum.

Sérstök réttarhöld voru haldin fyrir leiðtoga kommúnunnar sem eftir voru lifandi og voru í haldi. Eftir átökin höfðu 877, verið drepnir, 6500 slasast og um 180 týndir.

Með því lauk fyrstu tilraun til verkalýðsvalda, fyrsta kafla í sögu kommúnismans.