Einfeldningsleg utanríkisstefna hjá Jóni Trausta og Heimildinni

14. maí, 2024 Tjörvi Schiöth

Voðalega rekur Heimildin einfeldningslega stefnu í utanríkispólitík. Sjá nýjasta dæmið hér.

Hérna tekur Jón Trausti Reynisson undir með hægri-íhaldsmönnum í Litháen, eins og Gabrielus Landsbergis (núv. utanríkisráðherra og leiðtogi hægri-íhaldsflokksins Homeland Union), sem hafa skorið sig úr í Evrópu (og á heimvísu) með sinni furðulegu harðlínustefnu gagnvart Kína. Sem birtist í eindregnum stuðningi þeirra við aðskilnaðarsinna í Taívan. Landsbergis og þessir harðlínumenn í Litháen hafa verið gagnrýndir heima fyrir, þar sem hefur verið bent á hvað þetta er óþarflega ögrandi og fjandsamleg stefna hjá þeim gagnvart Kína (sem nota bene Litháen hefur þurft að líða fyrir efnahagslega, án þess að hafa grætt neitt á slíkri stefnu). Þá hefur Landsbergis einnig látið falla margvísleg umdeild ummæli og misjafnlega vel úthugsuð.

Einn kunningi minn, sem er verkamaður frá Litháen, og hefur verið kvaddur í herinn (já, það er herskylda í Litháen), segir mér að stjórnvöld þar í landi séu eins og „lítill hundur að gelta“. Það er vissulega furðulegt þegar smáríki og örþjóð eins og Litháen stundar það að gelta á Kína, eitt stærsta stórveldi heims. Hvaða tilgangi þjónar það eiginlega? En þetta tekur Jón Trausti undir og lítur á sem einhverskonar fyrirmynd. Í greininni færir hann rök fyrir því að smáþjóðir eins og Ísland og Litháen eigi að beita sér á heimsvísu (fyrirmyndin er Landsbergis), ekki fyrir friði, sáttum eða einhverju slíku, heldur til að gelta fjandsamlega á stórveldi sem þeir líta á sem einhverskonar vonda karla í svarthvítum heimi, samanber „öxulveldi illskunnar“ (Axis of Evil) eins og George W. Bush orðaði það.

Stjórnin í Litháen hefur verið að skera sig mjög úr á heimsvísu með þessari höfnun sinni á stefnunni um „eitt Kína“ (One China Policy), en það er stefnan sem flestar þjóðir heims aðhyllast. Kína gerir kröfu um að ríki fallist á stefnuna um „eitt Kína“ þegar þau taka upp diplómatísk samskipti við stjórnvöld í Peking (skiljanlega, vegna þess að með því að hafna stefnunni um „eitt Kína“ er verið að grafa undan fullveldi Kína, sjá skýringu á því hér fyrir neðan). Bandaríkin tóku upp stefnuna um „eitt Kína“ á 8. áratugnum þegar þau tóku upp eðlileg diplómatísk samskipti við Kína (en þeir voru ansir seinir til). Eins furðulegt og það kann að hljóma þá var sú stefna tekin upp af Richard Nixon og Henry Kissinger, sem voru þekktir fyrir að aðhyllast svokallaða realpolitik. Þrátt fyrir marga galla þessara manna, eins og hrottalega stríðsglæpi þeirra í Indókína og víðar, þá voru þeir allavega nógu gáfaðir til að átta sig á því að Bandaríkin græða ekkert á fjandsamlegum samskiptum við Kína, heldur þvert á móti er það báðum ríkjunum í hag að byggja upp friðsamleg samskipti sín á milli og jafnvel að gerast einhverskonar bandamenn (en hugmyndin á þeim tíma var sú að ganga í lið með Kína gegn Sovétríkjunum, eftir að það sauð upp úr milli þeirra tveggja árið 1969, sjá „Sino-Soviet split“). En núna hafa Bandaríkin gert þau grundvallar geo-strategísku mistök að leyfa Rússlandi og Kína að ganga í bandalag gegn sér. Eins skrýtið og það kann að hljóma, þá eru núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum að reka enn heimskulegri og verri stefnu heldur en Nixon og Kissinger á sínum tíma, allavega þegar kemur að stefnu þeirra gagnvart Kína og Rússlandi/Sovétríkjunum (ef við prófum aðeins að láta alræmda stefnu Nixon og Kissinger í Indókína til hliðar). Sem segir ansi margt. Enn eitt dæmið um hnignun heimveldisins? Allavega, í þessu heimsskipulagi þar sem eru þrjú stórveldi í heiminum, Bandaríkin, Kína og Rússland, væru Bandaríkin mikið betur stödd ef þau væru í bandalagi með öðru hvoru af hinum tveimur stórveldunum. Í þessu þríhyrningslaga heimsskipulagi (tripolar system) er stórveldið sem stendur eitt á báti í veikri stöðu gagnvart hinum tveimur sem standa sterk saman. Þetta er „geopolitics 101“ og merkilegt að núverandi ráðamenn í Bandaríkjunum viti þetta ekki einusinni.

En við vorum að fjalla um hvernig Bandaríkin tóku upp stefnuna um „eitt Kína“ á 8. áratugnum, og hvernig það var mikilvægur hluti af því að byggja upp venjuleg diplómatísk samskipti á milli ríkjanna. Þetta mál með Taívan og „eitt Kína“ er nefnilega gríðarlega mikilvægt mál fyrir Kínverja sem þeir telja varða fullveldi Kína (eins og áður var bent á). Hvers vegna? Stefnan um „eitt Kína“ er sem sagt stefnan sem viðurkennir að Taívan sé hluti af Kína. En Taívan hefur tilheyrt Kína síðan á 18. öld og íbúar Taívan eru 95% Han Kínverjar sem tala kínversku, iðka kínverska menningu og trúarbrögð. Stefnan um „eitt Kína“ snýst um að líta á deiluna um Taívan, sem sagt deiluna á milli stjórnvalda í Peking annarsvegar og Taipei hinsvegar, sem innanríkismál Kína. Að viðurkenna að erlend ríki eigi ekki að skipta sér af þessari innanríkisdeilu Kínverja um hver séu lögmæt stjórnvöld í Kína, eða hvort það eigi að skipta landinu upp (eins og aðskilnaðarsinnar í Taívan vilja). Hvernig myndu Bandaríkin bregðast við ef erlend ríki myndu viðurkenna sjálfstæði Texas? Eða Þýskaland ef erlend ríki myndu viðurkenna sjálfstæði Bæjaralands? Við vitum að sjálfstæðishreyfingar í Skotlandi og Katalóníu eru mjög viðkvæmt mál fyrir stjórnvöld í Bretlandi og Spáni. Hvernig myndi það líta út ef Kína væri kerfisbundið að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að styðja sjálfstæði Skotlands og Katalóníu? Flestum myndi þykja það vera furðulegar áherslur, en einnig óþarflega fjandsamleg stefna gagnvart stjórnvöldum í Bretlandi og Spáni, vegna þess að með slíkri stefnu væri verið að grafa undan fullveldi þessara ríkja. Þetta er svipað dæmi og með Taívan.

Þeir einu sem aðhyllast í raun þennan stuðning við aðskilnaðarsinna í Taívan eru hægri-íhaldsmenn, harðlínumenn í alþjóðlegri krossferð gegn kommúnisma (gegn kommúnistaflokknum sem er við völd í Peking), og auðvitað neocons (svokallaðir ný-íhaldsmenn) í Bandaríkjunum. Þeir gera þetta í þeim mjög svo hentuga tilgangi að vilja skipta Kína upp. Sem er gamla góða strategían um að „deila og drottna“ (divide and conquer). Þetta er allavega lexía í „geopolitics 101“ sem bandarískir ráðamenn virðast ekki hafa gleymt, heldur beita þeir óspart þessu elsta trikkinu í bókinni.

Það er mjög mikilvægt að þekkja söguna í þessu máli. Vesturveldin hafa áður skipt Kína upp, sem var gert á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, þegar landinu var svo gott sem splundrað í öreindir. Þekkt dæmi um þetta er Hong Kong, sem var nýlenda Breska heimsveldisins alveg fram til 1997. Áður voru Þjóðverjar, Japanir og Portúgalar einnig með svipaðar nýlendur í Kína, og á millistríðsárunum var landinu skipt upp í ótal mismunandi svæði sem var stjórnað af stríðsherrum sem voru undir áhrifum frá ólíkum erlendum stórveldum. Það er nokkuð sem Kínverjar muna vel eftir, en þeir kalla þetta tímabil „öld niðurlægingarinnar“, og eru staðráðnir í að leyfa ekki erlendum öflum að endurtaka þann leik, þ.e. að skipta Kína upp (en slíkt hefur vitaskuld í för með sér að veikja landið og gera það ófært um að standa á eigin fótum).

Þessi geo-pólitíska strategía er yfirleitt réttlætt með hugmyndafræðilegu yfirvarpi, að þetta snúist um „lýðræði versus einræði“, og það sé verið að „vernda lýðræði” í Taívan. „Lýðræðisöflum” í Taívan er stillt upp gegn „einræðisöflum” í Peking. Hérna sjáum við neocon hugmyndafræðina í hnotskurn. Svona var innrásin í Írak 2003 réttlætt (en það voru neocons sem stóðu að baki þeirri innrás eins og kunnugt er): það var nefnilega verið að „frelsa“ Íraka undan einræðisstjórn Saddam Hussein, innrásin hét Operation Iraqi Freedom (FREEDOM!), það var verið að koma á „lýðræði” í landinu að fyrirmynd hinna göfugu Bandaríkjanna og Vesturlanda. Hvernig gekk sú tilraun eiginlega upp? En þetta vill greinilega Jón Trausti einnig gera í Taívan. Aðskilja eyjuna frá Kína, styðja við „lýðræðisöfl“ þar í landi, sem þýðir að innleiða þar stjórnkerfi að hætti Bandaríkjanna og Vesturlanda. Utanríkisstefna svokallaðra „liberals“ á Vesturlöndum er að endurskapa allan heiminn í eigin mynd (en þeir sem hafa stúderað alþjóðatengsl þekkja að „liberalismi“ er ein af helstu nálgunum í alþjóðastjórnmálum). Þeir sem aðhyllast þessa nálgun, eða réttara sagt þessa hugmyndafræði, munu ekki unna sér hvíldar fyrr en „lýðræði“ af vestrænni fyrirmynd hefur verið troðið ofan í kokið á öllum fátækum þriðja heims ríkjum í heiminum. Reyndar styðja Bandaríkin og Vesturlönd óspart við einræðisríki þegar það hentar þeim, eins og konungsveldið í Sádí-Arabíu, furstaveldin við Persaflóa, eða herforingjastjórnirnar í Suður-Ameríku á sínum tíma, en það er önnur saga. Þá voru einnig fasistastjórnir við völd á Spáni (Franco), Portúgal og Grikklandi á tímabili á meðan þessi lönd voru aðilar að „lýðræðisbandalaginu“ NATO. En hvað um það.

Svokallað „lýðræði“ hér á Vesturlöndum, sem var fundið upp af Breska heimsveldinu á 17. öld (stærsta nýlenduveldi allra tíma), þetta svokallaða þingræðisfyrirkomulag („fulltrúalýðræði“), er síðan auðvitað ekkert alvöru lýðræði, heldur auðræði og fámennisstjórn (oligarchy), eins og sést vel á lýðræðishallanum hér, í Bandaríkjunum og í ESB, hvernig stjórnmálamenn og teknókratar (sem eru oft ókosnir) hundsa kerfisbundið vilja almennings og streitast gegn öllum breytingum sem almenningur kallar eftir. Þetta svokallaða „lýðræði“ er ekki „stjórn almennings“ (skilgreiningin á raunverulegu lýðræði) heldur alræði stórfyrirtækja og milljarðamæringa. Það þarf ekki að kafa djúpt til að sjá að stórfyrirtækin og milljarðamæringarnir eru með stjórnmálamennina í vasanum. En þessir stjórnmálamenn gera ekkert annað heldur en að þjóna sérhagsmunaöflum, s.s. þeim sem eiga mesta peningana, og koma engu í verk, nema helst því sem snýst um skapa gróða fyrir einkaaðila og vildarvini sína.

Vestrænt lýðræði þýðir: „ein króna, eitt atkvæði.“ Þetta er ekki fyrirkomulag þar sem valdið dreifist jafnt á alla þegna landsins, heldur dreifist það eftir því hverjir eiga mesta peninga. Þeir sem eru ríkastir ráða mestu. Á meðan þeir sem eru tekjulágir, eða fátækir, eða eiga enga peninga, stjórna engu (og fá engu breytt). Að halda að stjórnmálamenn hér hlusti einhvern tímann á beiðnir fátækra, aldraðra, öryrkja, innflytjenda o.s.frv. um að fá bætt kjör, er ekkert annað en hlægileg tilhugsun sem allir vita að er ekki raunin. En þetta dæmi eitt og sér sannar að hér er ekkert raunverulegt lýðræði.

Ef við værum með raunverulegt lýðræði, þá værum við með gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, samfélagsbanka, félagslegt húsnæðiskerfi o.fl. sem er það sem almenningur vill (en ekki handónýtan leigumarkað og húsnæðismarkað þar sem leiguokrarar og lóðabraskarar fá að ganga berserksgang). En vegna þess að við erum ekki með lýðræði, heldur auðræði, þá fáum við plebbarnir ekkert slíkt. Við fáum bara að narta á brauðmolunum sem detta af borðum olígarkanna: sægreifanna, hluthafanna og framkvæmdastjóranna, sem hlægja alla leiðina á bankann á meðan okkur er talin trú um að við búum við einhverskonar „lýðræði“, að það séum við sem ráðum yfir þeim, en ekki öfugt! Þetta eru jakkafataklæddu lénsherrarnir í nútíma þjóðfélagi. Eini munurinn er búningurinn sem þeir klæða sig í.

Enn ginnkeyptari eru þeir sem stunda það að vera „nytsamir sakleysingjar“ (useful idiots) fyrir stjórnmálaelítuna í Washington DC, sem fara í hugmyndafræðilegar krossferðir erlendis fyrir þetta svokallaða „lýðræði,“ að vilja flytja það út um allan heim eins og einhverskonar útflutningsvöru. Að tala um að ætla að vernda svokallað „lýðræði“ í Taívan (eða í Úkraínu o.s.frv.) er svo mikill farsi að það er í raun hlægilegt. Talsmenn vestræns lýðræðis eru einnig margir hverjir miklir stuðningsmenn apartheid-stjórnarinnar í Ísrael (það er enginn tilviljun að Bandaríkin, ESB og NATO ríkin eru helstu bakhjarlar Ísraelsríkis), sem þeir benda óspart á að sé „eina lýðræðisríkið í Mið-Austurlöndum“ (enda svokallað „lýðræði“ af vestrænni fyrirmynd sem var sett á laggirnar af evrópskum innflytjendum). Það að benda á apartheid-stjórnina í Ísrael sem dæmi um „lýðræði“, sýnir auðvitað hversu mikill farsi þessi slagorðakennda orðræða er. Sömu aðilarnir sem eru mestu stuðningsmenn „lýðræðis“ í Taívan, nefnilega neocons í Bandaríkjunum, eru einnig mestu stuðningsmenn „lýðræðisríkisins“ Ísrael. Engin tilviljun. Þetta sýnir okkur hversu fjarstæðukennt þetta er.

Þessi stefna og þessi hugmyndafræði er byggð á svo mörgum fölskum forsendum að það hálfa væri nóg. Hér hafa verið taldar upp nokkrar. Önnur röng forsenda sem þessi hugmyndafræði byggir á, er sú að það sé ákjósanleg stefna að skipta sér að innanríkismálum annarra ríkja, að vilja að stuðla að samfélagsbreytingum erlendis, sem sagt að það sé vænlegt til árangurs „flytja út“ vestrænt „lýðræði“ til annarra landa. Þetta heitir að stunda svokallað „social engineering“, sem skoðanabræður Jóns Trausta aðhyllast, en neocons hafa stundað það að fara inn í lönd löndum hinum megin á hnettinum, lönd með framandi menningu og tungumál sem þeir vita ekkert um, og reynt að innleiða þar sitt eigið stjórnkerfi af fyrirmynd Bandaríkjanna og Vesturlanda.

Slík stefna er auðvitað dæmd til að mistakast og er ekkert annað en uppskrift að óförum. En þetta er stefnan sem skoðanabræður Jóns Trausta aðhyllast, furðufuglar í Litháen eins og Landsbergis, harðlínu-kaldastríðs haukar, and-kommúnískir krossfarar, og auðvitað neocons í Bandaríkjunum, sem hafa margoft reynt að gera slíkt í löndum víða um heim, og hefur alltaf mistekist. Hvernig gekk það t.d. síðast í Írak og Afganistan? Reynt var í 20 ár samfleytt að byggja upp „lýðræði“ í Afganistan af vestrænni fyrirmynd, verkefni sem kostaði Bandaríkin trilljónir dollara. Ef það tekst ekki á 20 árum (og með slíkum gífurlegum fjárfestingum), hvað þarf eiginlega til?

Maður veltir fyrir sér, hvernig getur fólk sem telur sjálft sig ekki vera hægrisinnað, heldur frjálslynt á pólitíska litrófinu, aðhyllst utanríkisstefnu sem er svona langt til hægri og í raun sú sama og hjá mestu harðlínumönnum í Evrópu og hjá neocons í Bandaríkjunum? Hvernig er hægt að aðhyllast svona einfeldningslega og yfirborðskennda utanríkispólitík, eins og þeir gera hjá Heimildinni?