Ótti við sjúkdóma selur, en besta vörnin er hunsuð

2. ágúst, 2022 Jón Karl Stefánsson

Í gær dóu tæplega 165 þúsund manneskjur; 6800 manneskjur á hverri klukkustund, 114 á hverri mínútu og tæplega tvær manneskjur á hverri sekúndu. Þessar 165.000 manneskjur létust af ýmsum ástæðum. Sumir úr þeim a.m.k. 10 þúsund sjúkdómum sem áætlað er að til séu á jörðinni. Alls dóu um 60 milljón manneskjur árið 2020, þar af um 2300 Íslendingar.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga í hvert skipti sem ný óttaherferð fer í gang í fjölmiðlum. Um daginn birtist frétt um að tveir einstaklingar hefðu látist úr sjaldgæfum veirusjúkdómi í Rúanda. Kemur veiran hingað? Skyldum við vera í hættu? Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur svo nú varað við heimsfaraldri af völdum Apabólu, hvorki meira né minna. Hingað til eru 70 skráð dauðsföll af völdum þessa sjúkdóms í heiminum. Skyldum við vera í hættu? Til samanburðar hafa rúmlega 6 milljón manneskjur dáið úr hungri það sem af er ári, og má búast við því að um 6 milljónir í viðbót látist úr hungri áður en árið er liðið. Um 1,35 milljónir hafa dáið í umferðarslysum á sama tíma. Svo mætti lengi telja.

Það koma upp mis-nýir sjúkdómar reglulega. Þetta er eðli lífsins. Meðal þess fyrsta sem þróaðist í lífverum var ónæmiskerfi sem vinnur gegn veirum, sveppum, bakteríum og öðrum örverum sem þróuðust samhliða lífinu. Þetta kerfi er orðið gríðarlega öflugt, flókið og þróað í manneskjunni. Langbestu lausnirnar við sjúkdómum almennt eru ætíð þær sömu: Heilbrigður lífsstíll, samfélag sem gerir manneskjum kleift að lifa mannsæmandi lífi, góð og aðgengileg heilbrigðisþjónusta og hreinlæti.

Rökvillur misnotaðar

Æsifréttir og óprúttnir aðilar geta alltaf nýtt sér ótta við sjúkdóma. Hægt er að æsa upp ótta með því einfaldlega að benda á einhvern af þessum fjölmörgu sjúkdómum sem rúlla um mannkynið ár hvert. Ef æsifréttamenn tæku sig t.d. til og bentu á einhvern af stóru sjúkdómunum, t.d. berkla, mætti hæglega koma af stað fjölmiðlafári í kringum þá. Berklatilfellum fer nú fjölgandi á heimsvísu og árið 2020 létust a.m.k. 1,5 milljónir vegna þeirra samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni. Talið er að minnst 5 milljónir manna hafi nú berkla, en hafi verið ranglega sjúkdómsgreindir með covid-19. Þetta er faraldur sem hefur verið í gangi í meira en 5 þúsund ár.

Þessi tegund æsifréttamennsku misnotar rökvillu sem kallast „tiltækisreglan“ (availability heuristics). Manneskjan hefur tilhneigingu til að meta algengi og mikilvægi atburða á grundvelli þess hversu auðveldlega upplýsingar koma um þá úr minni. Rökvillunni var gefið nafn í kjölfar rannsókna Amos Tverskys og Daniels Kahnemanns á áttunda áratugnum þar sem fólk var meðal annars beðið um að meta hversu algeng tiltekin tegund dauðsfalla væru. Þær tegundir dauðsfalla sem höfðu fengið mikla athygli í fjölmiðlum voru álitin mun líklegri en þau voru í rauninni og t.d. voru morð álitin algengari dánarorsök en sjálfsmorð þrátt fyrir að öfugt væri farið; sjálfsmorð eru um 10 sinnum algengari dánarorsök en morð. En sjálfsmorð koma yfirleitt ekki fram í fjölmiðlum; morð gera það. Ótalmargar rannsóknir hafa komist að þessari sömu niðurstöðu. Þegar tiltekin tegund atburða, t.d. hryðjuverk og sjúkdómar, er mikið í sviðsljósinu álítur fólk þá algengari en þeir eru í raun og veru.

Skylt fyrirbæri er útskýrt í stuðningskenningu (support theory) Tverskys og Koehlers. Samkvæmt henni verður atburður álitinn algengari og alvarlegri en ella því betur sem honum er lýst; þ.e. þeim meiri nákvæmni sem notuð er til að lýsa honum. Með öðrum orðum, því oftar sem manneskjan kemst í tæri við upplýsingar um tiltekið fyrirbæri, og því nákvæmar sem þessu fyrirbæri er lýst, þeim algengara og alvarlegra finnst manneskjunni fyrirbærið. Í tilfelli apabólu er þetta augljóst. Þessi sjúkdómur er mikið í sviðsljósinu nú, en tölfræðilega séð eru 70, jafnvel 7000 dauðsföll, nánast engin í samanburði við aðra sjúkdóma.

Afvopnum óttaáróðurinn

Það væri hægt að æsa upp ótta og setja upp safaríkar fréttir á áhorfendaþyrsta fjölmiðla um aukna tíðni krabbameina, um mikla fjölgun á geðröskunum í kjölfar sóttvarnaraðgerða gegn covid-19 og um sjúkdóma á borð við allskyns nýlegra sjúkdóma á borð við ný afbrigði af meningókokkasjúkdómi C sem hefur verið að koma upp hér og þar. Þá væri réttilega hægt að benda á að fjöldi fólks hefur látist úr þessum og hinum sjúkdómnum og að svo og svo mörg tilfelli hafi komið upp hér og þar. Þetta væri í hverju tilfelli satt. Þess vegna er alltaf hægt að búa til æsifréttir og óttaboð um sjúkdóma. Þetta er eitthvað sem ætíð er hægt að grípa til.

Kannski er þetta einhvers konar hobbý alþýðunnar. Skemmtilegt umræðuefni við kvöldmatarborðið. En þetta hjálpar engum. Við verðum að vera meðvituð um að sumir aðilar, t.d. lyfjafyrirtæki, stunda áróður (almannatengsl og auglýsingar) til að selja vörur sínar og þar koma óttaboð um sjúkdóma við sögu. Hvað eigum við svo að gera? Eigum við að hlaupa til og láta sprauta okkur með nýju apabólu-bóluefninu? Eigum við að þróa með okkur smá heilsutengda þráhyggjuröskun og ganga um með grímur og hanska til eilífðarnóns?

Þessi eilífi hræðsluáróður er hættulegur samfélaginu. Hann skapar óþarfa kvíða, hann beinir athygli fólks á ranga staði og hann getur haft mjög alvarlegar pólitískar afleiðingar. Hræddur almenningur er hlýðinn, undirgefinn og auðsveipur fyrir ægivald og sannfæringarmátt hinna öflugu sem þykjast hafa lausnirnar. Bítum ekki eilíft á agnið. Notum orkuna í að byggja upp heilbrigt samfélag sem getur hjálpað einstaklingnum að byggja upp heilbrigðan líkama og heilbrigða sál, komið í veg fyrir fátækt og misrétti, haldið uppi kerfi sem veitir okkur það sem við þurfum og tryggt okkur öryggi. Stöðvum niðurrif heilbrigðiskerfisins og þá þróun sem er að leiða til æ meiri misskiptingar. Sagan hefur sýnt að til lengri tíma er þetta er besta vörnin gegn heilsuógnum.