Úkraínu-endatafl Trumps. Bandarískt undanhald verður dulbúið sem friður

21. ágúst, 2025

Þó að fundur í Hvíta húsinu í þessari viku milli Donalds Trump, Volodymyrs Zelensky og hóps evrópskra leiðtoga hafi ekki skilað neinum áþreifanlegum niðurstöðum, markaði hann engu að síður mikilvægt skref í átt að friði í Úkraínu. Í fyrsta skipti samþykktu úkraínski leiðtoginn og evrópskir starfsbræður hans að ræða stríðið á grundvelli raunveruleikans frekar en óskhyggju. Fram að því, fyrir aðeins nokkrum mánuðum, var innganga Úkraínu í NATO ófrávíkjanleg krafa hjá evrópskum stjórnmálamönnum og NATO. Nú virðist sá möguleiki ekki aðeins hafa verið endanlega lagður til hliðar, heldur hefur umræðan í fyrsta skipti færst frá „óskerðanleika“ Úkraínu yfir í hugsanlegar „land-tilhliðranir“.

Leiðtogafundurinn á mánudaginn ávann Trump lof jafnvel frá venjulega gagnrýnum fjölmiðlum.

„Þetta var besti dagur Úkraínu í mjög langan tíma… Donald Trump forseti sýndi merki um að hann gæti nálgast mikilleik í forsetaembættinu með því að bjarga Úkraínu, tryggja öryggi Evrópu og þannig sannarlega verðskulda friðarverðlaun Nóbels,“ sagði CNN með ákafa.

Samt hefði þessi fundur ekki átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir leiðtogafund Trumps með Pútín í Anchorage í Alaska, aðeins tveimur dögum áður, en sá fundur vakti þess í stað nær einróma gagnrýni frá stuðningsmönnum Úkraínu fyrir að „löggilda“ Pútín. En sú vandlega sviðsetta „afdjöflun“ (afskrýmslavæðing) Pútíns dældi nauðsynlegum skammti af raunsæi og hagnýtni inn í umræðuna.

Fundurinn í Alaska kom formlega aftur á fót beinum samskiptum milli tveggja stærstu hernaðar- og kjarnorkuvelda heims. Hann markaði fyrsta fund augliti til auglitis milli Bandaríkjanna og Rússlands síðan stríðið í Úkraínu braust út, og fyrsta slíkan fund á bandarískri grund í næstum tvo áratugi. Hann markaði einnig vendipunkt í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands sem, allt frá 2022, höfðu náð stigi óvináttu sem ekki hafði sést síðan í Kalda stríðinu.

Táknmyndin var vandlega sviðsett: allt frá rauða dreglinum og hátíðarakstrinum í forsetabílnum til óformlegrar tilvísunar Trumps í „Vladimír“. Allt var þetta ætlað til að boða nýjan kafla í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. En fyrir Moskvu þýddi það enn meira. Leiðtogafundurinn var pólitískur sigur. Sýnin af Trump að taka á móti Pútín afhjúpaði misheppnaða stefnu Vesturlanda í því að „einangra Rússland“ og „lama efnahag þess“. Í stað þess að vera jaðarsett hefur Rússland komið sterkara út: það hefur dýpkað strategískt samband sitt við Kína, aukið áhrif sín meðal ríkja hins hnattræna suðurs og staðið af sér þvingunaraðgerðirnar sem áttu að eyðileggja efnahag þess. Einfaldlega með því að taka í hönd Pútíns viðurkenndi Trump að Rússland er enn veldi sem þarf að taka tillit til, ekki útskúfað ríki.

Enn mikilvægara er að leiðtogafundurinn jafngilti óbeinni viðurkenningu á því að Vesturlönd hafi í raun tapað þessu stríði. Úkraínskar hersveitir geta ekki endurheimt landsvæðin sem Rússland innlimaði. Þvert á móti heldur Moskva áfram hægt og bítandi að sækja fram á vígvellinum. Sú staðreynd gerir samningalausn að einu mögulegu útgöngunni úr átökunum. Sú lausn mun óhjákvæmilega fela í sér landvinninga: Krím, auk fjögurra innlimaðra austur- og suðurfylkja.

Þetta skýrir kannski hvers vegna Trump dró hljóðlega til baka ýmsar hótanir sem hann hefur beitt gegn Rússlandi undanfarnar vikur. Í júlí tilkynnti hann um 50 daga frest sem Rússland hefði til að stöðva stríðið eða standa frammi fyrir „alvarlegum efnahagslegum afleiðingum“. Pútín hunsaði það. Trump stytti frestinn í 12 daga. Pútín brást ekki við. Jafnvel kvöldið fyrir leiðtogafundinn í Alaska hélt Trump enn fast við vopnahlé sem lágmarksniðurstöðu. Samt hafði Pútín verið skýr: Rússland hefur engan áhuga á vopnahléi sem myndi leyfa Úkraínu að vopnast á ný og styrkja varnir sínar með stuðningi Vesturlanda.

Enn fremur hafa kröfur Moskvu alltaf náð langt út yfir spurninguna um landsvæðaviðurkenningu og leitað eftir heildstæðri lausn sem tekur á „rótum átakanna“, eins og hann endurtók í Anchorage: að Úkraína muni aldrei ganga í NATO, að Vesturlönd muni ekki breyta landinu í raunverulega herstöð á landamærum Rússlands, og að víðtækara „öryggisjafnvægi í Evrópu“ verði endurheimt. Eins og jafnvel herskáa New York Times viðurkenndi nýlega:  „Meginmarkmið rússneska leiðtogans er fyrst og fremst að tryggja friðarsamning sem nær pólitískum markmiðum hans; ekki endilega að leggja undir sig ákveðið magn af landsvæði á vígvellinum.“

Í tilraun til að þvinga Pútín hótaði Trump einnig að setja á afleiddar þvingunaraðgerðir gegn kaupendum á rússnesku olíu – þar á meðal Kína og Indlandi. Þó höfnuðu bæði löndin fljótt hótununum og gerðu það ljóst að slíkar aðgerðir yrðu árangurslausar. Í stað þess að einangra Moskvu hefðu þvingunaraðgerðirnar aðeins ýtt Peking og Nýju-Delí enn nær Rússlandi.

Eftir Anchorage gaf Trump upp á bátinn báðar upprunalegu kröfur sínar. Hann sagði að friðarsamningur væri ákjósanlegri en vopnahlé, og að afleiddar þvingunaraðgerðir væru ekki lengur til umræðu. Fyrir Pútín var þetta stór sigur. Fyrir Bandaríkin var þetta óbein viðurkenning á því að Washington skortir áhrifamáttinn til að setja skilmála. Með orðum Trumps, þau [Bandaríkin] „hafa einfaldlega ekki spilin til þess“. Þetta var hreinskilin viðurkenning á minnkandi hernaðar- og efnahagslegu valdi Bandaríkjanna og sameiginlegra Vesturlanda.

Heildstæður friðarsamningur er þó enn ekki kominn. Engir skilmálar voru samþykktir í Alaska, að mestu leyti vegna þess að Evrópa og Zelensky sjálfur eru enn andvíg öllum samningum á rússneskum forsendum. Evrópskir leiðtogar eru svo mikið bundnir frásögninni um „sigur“ að það að fallast á jafnvel hluta af kröfum Rússlands væri sjálfsmorð. Eftir að hafa eytt tveimur árum í að fullvissa borgara sína um að Úkraína væri að vinna stríðið, geta þeir ekki skyndilega snúið við blaðinu án þess að mæta reiði almennings, sérstaklega í ljósi dramatískra efnahagslegra afleiðinga stríðsins á evrópsk hagkerfi.

En dýpra vandamálið er kerfislægt: evrópskir leiðtogar eru farnir að treysta á drauginn um viðvarandi rússneska ógn til að réttlæta áframhaldandi skerðingu lýðræðis, allt frá aukinni ritskoðun á netinu til ofsókna gegn andstöðuröddum, og jafnvel að afturkalla kosningar, allt undir því yfirskini að berjast gegn „rússneskum afskiptum“. Zelensky hefur einnig ástæður til að standa gegn friði. Að enda stríðið myndi þýða að aflétta herlögum í Úkraínu, sem myndi afhjúpa ríkisstjórn hans gagnvart uppsafnaðri óánægju vegna spillingar, kúgunar og hörmulegs reksturs á þessu stríði. Í raun leiddi nýleg könnun í ljós að Úkraínumenn sjálfir eru í sívaxandi mæli hlynntir samningaviðræðum frekar en endalausum bardögum. Ekki að furða að leiðtogafundurinn í Alaska vakti skelfingu í evrópskum höfuðborgum, sem og í Kíev.

Kannski skýrir þetta hvers vegna umræðan á mánudaginn forðaðist vandlega viðkvæmustu spurninguna; landvinninga, þar sem Zelensky og Evrópubúar þrýstu þess í stað á um öryggisábyrgðir fyrir Úkraínu í „5. greinar-stíl“ [5. grein NATO], sem í reynd meðhöndlar Úkraínu sem NATO-meðlim þó að hún sé það ekki formlega. Þó að Rússland hafi gefið til kynna almenna opnun fyrir hugmyndinni um vestrænar öryggisábyrgðir, liggur djöfullinn í smáa letrinu. Evrópskir leiðtogar kröfðust lagalega bindandi þátttöku og stuðnings Bandaríkjanna. Þetta er eitthvað sem hvorki Moskva né Washington er líklegt til að veita, miðað við hættuna á að dragast inn í bein átök hvort við annað. Ennþá óásættanlegra fyrir Rússland er hvers kyns fyrirkomulag sem felur í sér hernaðarlega nærveru NATO í Úkraínu, eins og Bretland og Frakkland hafa stungið upp á.

Það virðist sem evrópskir leiðtogar hafi tileinkað sér þá stefnu að lýsa yfir opnum hug gagnvart samkomulagi en tryggja um leið, með skilyrðum sínum, að ekkert slíkt samkomulag geti í raun orðið að veruleika.

Enn fremur er ólíklegt að Trump sjálfur sé reiðubúinn að fallast á kröfu Pútíns um heildarendurskipulagningu á alþjóðlegu öryggiskerfi; sem myndi draga úr hlutverki NATO, binda enda á yfirburði Bandaríkjanna og viðurkenna fjölpóla heim þar sem önnur veldi geta risið upp án afskipta Vesturlanda. Þrátt fyrir alla sína orðræðu um að binda enda á „endalaus stríð“, heldur Trump áfram að aðhyllast grundvallarhugsunina um yfirburðahlutverk Bandaríkjanna í heiminum – þó sýn hans sé sveigjanlegri og praktískari en sýn frjálslyndis-heimsvaldasinna. Stjórn hans heldur áfram að styðja endurvopnun NATO og jafnvel endurúthlutun bandarískra kjarnorkuvopna á mörgum vígstöðvum, allt frá Bretlandi til Kyrrahafsins. Stefna Trumps gagnvart Kína, Íran og Mið-Austurlöndum í víðara samhengi sýnir að Washington lítur enn á sig sem heimsveldi sem verður að viðhalda alþjóðlegum yfirburðum sínum fyrir alla muni, ekki aðeins með efnahagslegum þrýstingi, heldur einnig með hernaðarátökum þegar það er talið nauðsynlegt.

Í þessu samhengi er Rússland enn miðlæg áskorun. Sem mikilvægur bandamaður bæði Kína og Írans er það innbyggt í byggingu hinnar nýju fjölpóla skipanar sem ógnar yfirráðum Bandaríkjanna. Fyrir Washington er Moskva ekki einfaldlega mikið áhrifavald í sínum heimshluta heldur gegnir lykilhlutverki í víðtækari [hnattrænni] strategískri endurröðun.

Trump virðist hins vegar reiðubúinn, að minnsta kosti tímabundið að leggja „Rússlandsvandamálið“ til hliðar og einbeita sér þess í stað að stærri átökunum við Kína. En þetta bendir frekar til breytinga á forgangsröðun en meginreglum: rökfræði bandarískrar yfirburðahyggju tryggir að Rússland mun áfram vera á lista yfir andstæðinga, jafnvel þótt athyglin beinist stuttlega annað.

Í þessum skilningi væri Trump líklega sáttur við aðstæður þar sem Bandaríkin losa sig úr úkraínsku klípunni en skilja Evrópu eftir til að bera byrðarnar enn um sinn, hugsanlega þar til aðstæður á vettvangi versna svo alvarlega að samkomulag á rússneskum forsendum verður óhjákvæmilegt. Reyndar sögðu JD Vance og Pete Hegseth einmitt þetta og héldu því fram að Bandaríkin myndu hætta að fjármagna stríðið, en Evrópa gæti haldið áfram ef hún vildi og keypt bandarísk vopn í leiðinni. Þessi „verkaskipting“ myndi gera Washington kleift að endurúthluta auðlindum og útbúnaði  til væntanlegra átaka við Kína, en skilja Evrópubúa eftir fasta í óvinnandi stríði.

Rússar eru vel meðvitaðir um allt þetta. Þeir gera sér líklega engar grillur um raunveruleg markmið bandaríska heimsveldisins. Og þeir vita vel að hvaða samkomulag sem gert er við Trump gæti verið ógilt hvenær sem er. Hins vegar fara skammtímamarkmið Pútíns saman við skammtímamarkmið Trumps. Maður gæti sagt að Rússland og Bandaríkin séu strategískir andstæðingar þar sem leiðtogar baggja hafa engu að síður taktíska hagsmuni af samvinnu.

Séð í þessu ljósi mætti álykta að tilgangur leiðtogafundarins í Alaska hafi aldrei verið að tryggja samning um endanlegan frið. Bæði Trump og Pútín skilja án efa að slíkur samningur er ómögulegur eins og er. Þess í stað snerist fundurinn um að leyfa Bandaríkjunum að draga sig út úr Úkraínu án þess að viðurkenna ósigur, á meðan Rússland heldur áfram að sækja fram. Fyrir Washington skapar þetta pólitískt skjól: Trump getur haldið því fram að hann hafi reynt stjórnmálalega lausn, um leið og hann varpaði byrði stríðsins yfir á Evrópu. Fyrir Moskvu felst ávinningurinn í því að Úkraína veikist smám saman þegar stuðningur Bandaríkjanna dvínar. Til að hvetja til brotthvarfs Bandaríkjanna gæti Rússland jafnvel samþykkt tímabundið vopnahlé og hugsanlega einnig óljósar „öryggisábyrgðir“ Bandaríkjanna – þar sem Rússland og Bandaríkin kynna þetta sem mikilvægar ívilnanir og sigra, í þeirri röð – þó ólíklegt sé að slík vopnahlé haldi.

Líklegasta niðurstaðan verður tímabundin þíða í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands, þó víðtækari átök á heimsvísu haldi áfram. Og þau sem tapa mest verða Úkraína og Evrópa. Úkraínumenn munu halda áfram að deyja í stríði sem þeir geta ekki unnið, á meðan Evrópubúar halda áfram að borga reikninginn. Að lokum verða þeir einnig neyddir til að samþykkja samning á rússneskum forsendum, en aðeins eftir frekari þjáningar. Jafnvel þá mun Evrópa áfram vera föst í fjandsamlegu, hernaðarlegu sambandi við Rússland, með möguleika á endurnýjuðum átökum hvenær sem er. Í besta falli gefur leiðtogafundurinn í Alaska og afleiðingar hans til kynna tímabundna slökun í yfirstandandi átökum milli Vesturlanda og hins nýja fjölpóla skipulags. Í versta falli tryggir hann að Evrópa og Úkraína haldi áfram að borga verðið fyrir stríð sem Bandaríkin hafa þegar ákveðið að skilja eftir.

Grein þessi birtist 20. ágúst á  UnHerd.