Varnarmálin: „stóraukin framlög“ ofan í svarthol?
—

Utanríkisráðherra kallar eftir „stórauknum framlögum til öryggis- og varnarmála“.
Þegar stjórnmálamenn tala um að hækka útgjöld til hernaðarmála og NATO, þá er aldrei spurt:
1) Hvaðan kemur þessi peningur? Höfum við efni á þessu? Sem er þó alltaf spurt þegar talað er um að auka útgjöld t.d. til heilbrigðismála eða málefna sem raunverulega gagnast fólki.
2) Hvað græðum við eiginlega á þessum auknum útgjöldum til hernaðarmála? Hverju mun það breyta? Því er aldrei svarað heldur.
Hvernig stendur eiginlega á því að NATO-ríkin, sem bera sameiginlega ábyrgð á 70% af öllum hernaðarútgjöldum í heiminum, eru samt með svona tiltölulega litla heri og framleiða svona lítið af hergögnum (á mánaðar- eða ársgrundvelli)? Hvernig stendur á því að þrátt fyrir öll þessi gríðarlega háu útgjöld, þá tekst Rússlandi samt að framleiða fleiri skriðdreka og fleiri skotfæri (einkum fyrir stórskotalið) heldur en öll NATO-ríkin framleiða samanlagt? Meira að segja litla Norður-Kórea framleiðir meira af skotfærum fyrir stórskotalið heldur en Evrópa…
Þetta er þrátt fyrir að NATO-ríkin eyði 1.500 milljörðum bandaríkjadala ($1,5 trilljónum) í hernaðarútgjöld á hverju ári, samanborið við hernaðarútgjöld Rússlands sem eru $84 milljarðar. Samkvæmt mínum útreikningum er það 18 sinnum meira.
Í hvað fer eiginlega allur þessi peningur? Hverju mun það skila að setja meira fé í þetta? Það þýðir greinilega ekki bara að auka hernaðarútgjöld, eins og alltaf er talað um að gera (á mjög yfirborðskenndan hátt, samhengislaust og skilningslaust). Það þarf greinilega eitthvað að endurskipuleggja allan hergagnaðnaðinn á Vesturlöndum og heri þessara landa ef það á verulega að bæta hernaðargetu NATO-ríkja. Þetta er aldrei rætt.
Málið er auðvitað að þessi hergagnaiðnaður í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, hið svokallaða „military-industrial complex“ (her-iðnaðar samsteypa) eins og Dwight Eisenhower kallaði það (og varaði við), er nánast alfarið einkarekinn. Þetta er þess vegna eitt allsherjar risastórt „grift“. Örugglega eitt mesta grift allra tíma (ásamt þessum $200 milljörðum sem voru sendir til Úkraínu, eins spilltasta lands í heimi, þegar Zelensky var spurður sagðist hann aðeins hafa fengið „$75 milljarða“ af þessum peningum, og veit síðan ekkert hvert restin fór).
Mest allur peningurinn sem fer í hernaðarútgjöld virðist bara enda sem gróði í vasanum hjá einkareknum vopnaframleiðslufyrirtækjum, frekar en að skila sér í raunverulega aukinni hergagnaframleiðslu eða hernaðargetu. Því annars væri NATO að framleiða 18 sinnum meira af vopnum heldur en Rússland – ef við værum virkilega að fá fyrir pengininn það sem við leggjum í þessi mál.
Ef ekki 18 sinnum meira, þá allavega eitthvað meira heldur en Rússland. En verðmiðinn á vopnunum sem NATO-ríkin framleiða er yfirleitt miklu hærri heldur en á vopnum Rússa sem eru ódýr í samanburði. Þetta verður að taka með í reikninginn. En eru vestræn vopn og vestræn skotfæri virkilega meira en 18 sinnum dýrari í framleiðslu heldur en rússnesk vopn? Ef vestræn vopn eru svona svakalega dýr í framleiðslu, er það ekki alvarlegt vandamál sem hamlar aukinni framleiðslu og þarf að laga?
Þannig að hvað græðir litla Ísland eiginlega á því að fara að henda okkar dýrmæta fé ofan í þetta svarthol? Sem er auðvitað bara dropi í hafið í stóra samhenginu, bara klink í samanburði við þessa $1.500 milljarða sem eru öll hernaðarútgjöld NATO, og mun þess vegna ekki breyta neinu heldur væri algjör peningasóun.