Samningar Kennarasambandsins og «umframhækkanir»

28. febrúar, 2025

Kennarar skrifuðu þriðjudaginn 25. febrúar undir nýjan kjarasamning við ríki og sveitarfélög. Með því var, a.m.k. í bili, frekari verkföllum afstýrt. Sem kunnugt er hefur gengið á með verkföllum kennara síðan í haust. Þeir hafa einkum beitt ákveðinni tegund skæruverkfalla.

Árangur baráttunnar sýnist allverulegur. Fyrir milligöngu ríkissáttasaemjara var loks samið um 12% heildarhækkun strax og síðan skilorðsbundnar hækkanir upp á 8% og meira sem er háð sk. «virðismati». Samningurinn «felur í sér um 24% launahækkun“ segir RÚV. Það sýnist ljóst að í heild gefi þetta talsvert umfram þær hækkanir sem fengust á almennum launamarkaði í fyrra, hækkanir sem metnar voru á um 17%.

Aðallærdómurinn frá sjónarhóli launafólks hlýtur að vera þau gömlu sannindi að «barátta borgar sig». Það eru dýrmæt sannindi.

En það eru líka forboðin sannindi – að verkföll borgi sig. Sigríður Margrét Oddsdóttir frkv.stjóri Samtaka atvinnulífsins sagði aðspurð á miðvikudag: „ við höfum verulegar áhyggjur af hvort innistæða sé fyrir svona miklum launahækkunum. Við veltum líka fyrir okkur hver á að borga“. Hún hefur áhyggjur af að „breið sátt á vinnumarkaði raskist“ með þessu, enda sé svigrúm til launahækkana nú aðeins 3,5-4%. 

Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ hefur sömuleiðis áhyggjur af því „hver á að borga þetta“ og að hækkunin sé „í allt, allt öðrum takti en við sömdum um“ (almenni launamarkaðurinn).

Hvorug viðbrögðin koma mikið á óvart. Hitt kom kannski ýmsum á óvart þegar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar brást við með því að segja að samningurinn „setji aðra samninga í uppnám“ og spyrja: „Hvert getur fordæmisgildið verið?“ 

Sólveig Anna sagðist hafa talið að samningarnir á almenna launamarkaðnum í fyrra hafi „sett merkið“ fyrir launastefnuna sem menn væru „skuldbundnir“ að fylgja, enda hefði Efling tekið alvarlega það verkefni að „ná niður vöxtum og verðbólgu“ en nú hefðu kennarar fengið verulegar „umframhækkanir“. Hún vísar til þess að innan raða Eflingar sé það fólk sem þurfi á mestri „leiðréttingu“ að halda, nefnilega láglauna-verkakonur. Við Spegilinn 26. febrúar segir hún orðrétt: 

Mér finnst skrýtið að sjá að verka- og láglaunafólk, láglaunakonur, hafi verið tilbúin… að leggja á sig þessa vegferð, en að viðsemjendur okkar hafi ákveðið að færa öðrum  hópum sem að mínu viti standa betur efnahagslega séð o.s.frv. [hækkun] umfram þær manneskjur sem verst hafa það á íslenskum vinnumarkaði.

Um þetta er það fyrst að segja, að ríki og sveitarfélög „ákváðu“ varla bara si sona að „færa“ kennurum þessar „umframhækkanir“, heldur varð þessi málamiðlun niðurstaða út úr harðri verkfallsbaráttu. Sem er allt annað mál.

Efling undir forustu Sólveigar Önnu Jónsdóttur er flaggskip verkafólks í íslenskri stéttabaráttu og á mikinn heiður skilinn. En hér gengur Sólveig Anna inn á ákveðið launastefnu-„módel“ sem maður á frekar von á að sjá frá Seðlabankanum og kannski frá ASÍ heldur en frá róttækustu baráttuöflum launafólks. Það er sú viðbára gegn hækkunum til einstakra starfsstétta launafólks að hækkanirnar muni leiða til „höfrungahlaups á vinnumarkaði“ sem valdi verðbólgu sem allir tapi á o.s.frv.

Í krafti slíks þankagangs hefur það orðið allt of algengur siður í kjarabaráttu að gera kjarasamning með skilyrðum um að samningurinn ógildist ef aðrir hópar sem semji síðar fái eitthvað meira. Slík ákvæði eru svo notuð til að lemja á þeim sem enn eiga ósamið og standa í samningum. Og þannig virðist bæði ASÍ og Sólveig Anna hafa litið á samningagerðina í fyrra.

Stéttarleg samstaða?

Samstaða launafólks skiptir öllu máli. En hvernig á að sýna stéttarlega samstöðu í kjarabaráttunni? Ég tel að ofangreind afstaða til samninga sé ekki merki um stéttarlega samstöðu heldur virkar slík afstaða klárlega gegn baráttu annarra hópa og virkar sundrandi.  

Ennfremur er með slíkri afstöðu í raun gengist inn á sk. „kökukenningu“ sem gengur út frá því að til sé einhver heildarupphæð sem renna skuli í laun til launafólks í heild. Sú „kaka“ sé skilgreind stærð og hún verði ekki stækkuð – þannig að stærri sneið handa einum þýði óhjákvæmilega minni sneiðar handa öllum öðrum hópum. Þetta er einmitt kenning eignastéttarinnar sem notar hana til að deila og drottna yfir launafólki og til að auka gróða sinn. En verkalýðshreyfingin þarf einmitt að stækka þann hluta þjóðarframleiðslu sem fer til launafólks – og er á kostnað gróða eignastéttar.

Að einhverju leyti virðist afstaða Sólveigar Önnu byggja á stéttgreiningu sem skiptir launafólki í annars vegar verkafólk eða láglaunafólk og hins vegar „millihópa“/menntafólk með aðra  hagsmuni en verkafólk, sem eigi því gjarnan litla samleið með því í kjaramálum.

Ég hef heyrt ýmislegt í sömu átt frá Sólveigu Önnu Jónsdóttur áður, svo sem áherslu hennar á að hækkanir og verðbætur á laun skuli helst ávallt vera krónutöluhækkanir. Því er t.d iðnaðarmaðurinn ég oft ósammála.

Að mínu áliti er réttara að líta svo á  að allur þorri launafólks eigi sameiginlega hagsmuni, og þeir eigi ekki síst hagsmuni af því að stækka hlut launafólks af þjóðarframleiðslunni. Kennarar í grunn- og framhaldsskólum tilheyra sannarlega þessum „þorra launafólks“. Segja má að samtök þeirra hafa lengi verið í fararbroddi í kjarabaráttu launafólks og minna menguð af stéttasamvinnustefnu en flest önnur launamannasamtök. Og það er viðbótarástæða fyrir baráttusinnað verkafólk til að sýna þeim samstöðu.

Í viðtalinu á RÚV segir Sólveig Anna samt annað um framhaldið sem samræmist betur kunnuglegum anda verkalýðsforingjans:

Að sjálfsögðu munum  við þá bara stefna að því að minnka launabilið aftur… Ég er sannarlega með margar og margmennar mikilvægar kvennastéttir sem sannarlega má fara að lyfta verulega upp.

Það er einmitt þannig sem einn hópur launafólks lætur árangur annars hóps verða sér hvatning í baráttunni.