Viðhorf í garð fátækra og afsakanir fyrir misskiptingu

30. september, 2020 Jón Karl Stefánsson



Fátækt er flókin vofa sem skaðar á ýmsa vegu. Þetta þekkja þeir einir sem hafa haft hana sér við hlið nógu lengi. Augljósasti skaðinn sem hún veldur er auðvitað skortur á efnislegum gæðum. Það er hægt að lifa á þindarhakki og núðlusúpum svo og svo lengi, en fyrr eða síðar tekur næringarskortur sinn toll, þá fylgir um leið orkuleysi og þunglyndi. Hugurinn og sálin þarf sína næringu líka.

Það eru alls ekki allir sem hafa efni á að kaupa inn mat sem getur talist mannsæmandi á hverjum degi í heilan mánuð. Það er þreytandi að svara spurningunni, af hverju kaupir þú þér ekki almennileg föt, þegar svarið á að vera augljóst: Ég vil frekar eiga mat síðustu vikuna í þessum mánuði. Það er leiðinlegt að það að þurfa að afþakka boð í skemmtileg verkefni, eða kveðja drauma sem krefjast hárra skólagjalda, sé mánaðarlegur viðburður. Það er leiðinlegt að búa í saggakjallara og vita að innan árs þarf að flytja í aðra holu. Það er leiðinlegt að þurfa að mæta eftir vinnu í aðra vinnu, eða úr skóla í aðra vinnu og reyna svo að safna orku til að vera hress við vini sína.

Það er leiðinlegt að heyra ríkt fólk segja að maður þurfi bara að spara, þegar afgangurinn eftir föst útgjöld, án matar, er í mesta lagi nokkrir þúsundkallar og hægt að gulltryggja að ef eitthvað er komið inn, þá kemur tannpína eða eitthvað annað sem togar þessa þúsundkalla aftur í hyldýpið. Það er leiðinlegt að komast ekki á skemmtilega viðburði af því strætókortið þitt rann út, það er leiðinlegt að geta ekki boðið vinum sínum, kærustu eða barni upp á neitt betra en sömu notuðu hálfónýtu hlutina og þú notar.

Það er margt ömurlegt við þann veruleika að lifa við efnislegan skort, reyndar sýgur það gleðina og lífsorkuna úr líkamanum. En það sem er allra sárast og verst við fátækt í hinum ríka heimi eru viðhorf hinna efnameiri sem skína í gegnum hver ummæli um fátækt fólk. Það er þegar gefið er í skyn að fátækt sé til marks um heimsku og/eða að fátækir geti sjálfum sér um kennt. Þeir hafi tekið of margar rangar ákvarðanir. Einhver tilbrigði við þetta stef eru gjarnan sögð beint út, stundum sem hluti af einhverju gríni, en oft í fullri alvöru til að útskýra málefni líðandi stundar. Oftast er þetta þó ekki sagt í beinum orðum á groddaralegan hátt, heldur gefið í skyn á ýmsan hátt. Hin fátæku vita að það eru milljón leiðir til að lenda í þeirri stöðu að launin dugi ekki. Áföll, ofbeldi, rangur frændgarður í klíkulandinu, að vera á röngum stað á röngum tíma, gjaldþrot, uppsagnir og sjúkdómar eru meðal þeirra. Lífið er samansafn af atburðum sem margir eru, ef ekki flestir, tilviljanir. Þetta er ekki sagt sem afsökun fyrir leti, fórnarlambshugsun, eða öfund í garð þeirra sem gengur betur. Allt eru það hlutir sem einstaklingurinn þarf að berjast gegn hjá sjálfum sér, enda gera þeir ástandið bara verra og koma í veg fyrir möguleikann á því að toga sig upp. En þetta er nú samt þannig; heimurinn deilir spilunum ekki eins út fyrir alla.

Ég er ekki fátækur í dag, jafnvel langt í frá. En fátæktarárin munu alltaf vera hluti af sálinni og það sem svíður enn í dag er einmitt ekki hin óþolandi leiðindi og skortur sem fylgdu peningaleysi, heldur einmitt þessi blanda af reiði, skömm, og vonleysi yfir því að vita að ofan á allt annað þá er þjóðfélagið fullt af fólki sem dæmir þig sem vanvita fyrir að líða skort.

Þetta fjallar auðvitað um meira en tilfinningar. Þegar þeir sem eru í aðstöðu til að taka ákvarðanir um hvaða reglur gilda í samfélaginu hafa þá skoðun að fátækir séu heimskingjar sem geti sjálfum sér um kennt verður lítill hvati til að færa burt þær hindranir sem hindra hina fátæku til að komast úr þessu ástandi. Leigumarkaðurinn heldur áfram að vera hákarlapyttur hinna gráðugu, almenningssamgöngur halda áfram að vera aukaútgjöld og seinleg fyrir þá sem þurfa að nota þær en búa langt frá vinnunni, matur heldur áfram að vera munaðarvara, persónuafslátturinn heldur áfram að lækka hlutfallslega miðað við verðbólgu, regluverkið beinir hagnaðinum í síauknu mæli upp á við til hluthafanna, samvinnurekstri er gert erfitt fyrir, heilbrigðiskerfið krefst æ hærri beinna gjalda og tannlæknakostnaður heldur áfram að vera út í hött.

Það sem kannski er mest lýsandi fyrir það hve mikið samfélagið okkar heldur fólki í fátæktargildru er hin stóra hindrun sem mennta- og framhaldsskólar eru. Ólíkt háskólanemum fá framhaldsskólanemar ekki lán eða styrki að ráði til að sinna námi sínu. Þeir sem ekki hafa aðstöðu eða frændgarð sem greiðir þann kostnað þurfa virkilega að hafa fyrir því að klára þau 3 til 4 ár, en án þess er einmitt ekki hægt að komast í háskólanám. Og það er einmitt þetta sem oftast er notað sem afsökun fyrir launamun: Þetta snýst allt um menntun. Þeir sem luku ekki menntun geta sjálfum sér um kennt.

Fyrir þann sem rétt hangir á horreiminni í hverjum mánuði er það mikil freisting að hreinlega hætta þessu og fara að vinna; fá almennilegar tekjur og lifa eins og manneskja. En fyrir t.d. mig var það stoltið og reiðin sem komu í veg fyrir það. Ég kláraði þennan helvítis menntaskóla þó að það þýddi eilífar skúringar og uppvask eftir skóla til að hafa tekjur og þó að ég þyrfti að ganga 20 kílómetra á dag til þess. Ég kláraði svo þennan háskóla sem allir voru að tala um, tvisvar, með hæstu einkunn, og ég held að það hafi að mestu verið til að sýna einhverju ósýnilegu fólki að innistæða á bankareikningi er ekki mælikvarði á greind mannkosti. En það fylgdi engin gleði að ná þessu. Ég var nú kominn í þennan mikla hóp háskólamenntaðra, þó að ég vissi að námið var barnaleikur miðað við ströggl daglega lífsins fyrir þá sem eru í fátæktargildrunni; og þeim fer nú fjölgandi á ógnarhraða.

Þetta þarf auðvitað ekki að vera svona. Það er vel hægt að hanna leikreglur samfélagsins þannig að allir hafi í raun og veru sömu tækifæri, sömu raunverulegu réttindi og möguleikann á mannsæmandi lífi. Stærsta hindrunin fyrir því eru og hafa alltaf verið undirliggjandi viðhorf þeirra sem eru í þeirri stöðu að taka ákvarðanir. Þau viðhorf munu ráða áfram á meðan hinir ríku vita ekki betur. Ein ástæðan fyrir því að þeir vita ekki betur er að fátækt fylgja einnig færri tækifæri á því að láta í sér heyra og vera sýnileg. Fátækt fólk er ósýnilegt og því, í augum margra, ómerkilegt. Fátækt fólk hefur ekki tíma, orku eða tækifæri til að koma máli sínu á framfæri. Það hefur notað alla orkuna í að vinna, að lifa af og borga reikningana sína. Það er ekkert eftir.

Einn byrjunarreitur til að breyta viðhorfum í garð fátæktar í samfélaginu, til að gera fátækt fólk sýnilegt og gefa hinum fátæku kraft í samstöðunni. Á morgun hefst samstöðufundur sem haldinn er að frumkvæði samtakanna Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt. Fólk sem er í þessari stöðu og geta komist á þennan fund (sem er auðvitað ekki sjálfsagt) geta þarna fundið hvert annað, rofið einangrunina, minnkað reiðina og gert sig sýnilegt.

Í tilkynningu frá samtökunum segir:

Boðað er til samstöðu á Austurvelli við þingsetningu Alþingis fimmtudaginn 1. október, samstöðu sem er þá nokkurskonar þögul mótmæli á vegum fólks í fátækt til að minna á að enn bíðum við eftir kjarabót Katrínar forsætisráðherra okkur til handa.

Hversu lengi á fólk í fátækt, fatlaðir og langveikir að búa við óviðunandi kjör og þurfa að leita til hjálparstofnana sér til aðstoðar, sem þó dugir skammt? Hversu langt aftur úr öðrum þarf þessi hópur að dragast áður en gripið er í (stjórnar)taumana?

Örorkugreiðslur duga ekki fyrir nauðsynjum og hafa ekki gert lengi. Hvað þá framfærslustyrkur sveitarfélaganna sem er enn lægri.

Fólk úr þessum hópi situr uppi með skömmina yfir fátækt og erfiðum aðstæðum sínum, aðstæðum sem að það bjó ekki sjálft til og kemst ekki sjálft úr. Það er þó engin skömm að því að lifa í fátækt. Skömmin er öll stjórnvalda – því skilum við skömminni þangað sem hún á heima. Til þeirra sem valdið hafa og taka sínar pólitísku ákvarðanir án þess að gæta að hvern þær skaða.

Því segjum við – Komum úr felum – mættu með okkur á Austurvöll á fimmtudaginn – sýnum Alþingi og ríkisstjórninni að við erum hérna – að við erum afl sem er ekki hægt að horfa framhjá lengur!!!

Fundurinn fer fram á Austurvelli frá 13.00 til 21.00 fimmtudaginn 1. október. Samtökin Pepp eiga mikið hrós skilið fyrir framtakið.