Var ykkur sama um sýrlenskan almenning þegar allt kom til alls?

12. mars, 2025

Ég renndi yfir helstu netfréttamiðla á Íslandi í morgun; Rúv, MBL, Vísi, DV og Heimildina. Þar voru vissulega ýmsar fréttir. Af erlendum vettvangi er sagt frá að „Chererios-reglugerð“ ESB sé tilbúin, sagt frá hverjir hneyksluðust á Trump í gær, hvað er að gerast í stríðinu í Donbass, svo íþróttir og dægurmál. George Clooney er kominn með nýtt útlit.

Ekki einu orði var eytt í að á þessari stundu á sér stað hrein útrýmingarherferð í vöggu siðmenningar. Herferð sem er svo hryllileg að erfitt er að lýsa henni. Í fyrradag var örlítið minnst á þetta, en talað um „mikil átök“ milli „hersveita hliðhollum Assad“ og herliðs hinnar nýju stjórnar sem hefur verið hampað sem frelsurum.

Þetta er galin fréttamennska; engin „átök“ eiga sér stað, heldur hrein slátrun á óvopnuðu, varnarlausu fólki. Til að komast að því hvað er að gerast í raun og veru þarf að fara á samfélagsmiðla þar sem íbúar á svæðinu, eða gerendurnir sjálfir, geta sjálf sent inn efni. Einungis hugrakkir, sjálfstæðir blaðamenn sem hefur verið úthýst af stóru fjölmiðlunum, blaðamenn eins og Vanessa Beeley, hafa dug í sér að áframsenda þetta efni af bestu getu.

Sýrland í gær: Vígasveitir öfgasinnaðra Sunni-múslima losa sig við lík unglinga sem þeir höfðu myrt. Mynd, Syrian Justice League.

Það sem er raunverulega að gerast er þetta: Þær vígasveitir sem við höfum hampað sem „frelsisher“ frá árinu 2011, eru heilagir stríðsmenn með öfgafyllstu útgáfu af rasisma og trúarhatri sem til er. Þessir heilögu stríðsmenn voru studdir af Ísraelum, Tyrkjum, bandarískum öfgamönnum, og svo konungsríkjunum við Persaflóa sem hata ekkert meira en arabískan sósíalisma. Sýrland stóð einfaldlega í vegi fyrir geópólitískum áformum þessara ríkja. Stjórn Erdogans vill skera höfuðið af uppreisnarhreyfingu Kúrda, Ísraelar vilja ganga milli bols og höfuðs á Hesbollah, Sádar og Katarar eru alltaf hræddir um uppreisn fólksins og fyrir þeim eru hreyfingar eins og Baath flokkurinn ógn.

En í nútímastríðsrekstri þarf ekki að notast við eigin herafla. Æ algengara, og að því er virðist áhrifaríkara, er að nota „óhefðbundinn hernað“ (Unconventional Warfare). Bandaríski herinn hefur hannað nákvæma kennslubók í þessari tegund hernaðar, en í stuttu máli felst hann í notkun leynilegra aðgerða á borð við undiróður (subversion), skemmdarverk (sabotage), njósnir, efnahernað, efnahagshernað, áróður og svo, ekki síst: að fjármagna, þjálfa og styðja vígahópa innan ríkisins sem á að mola niður til að sjá um vopnaða baráttu.

Hvað áróðurinn varðar er oftast fylgt sömu formúlu: Andlit stjórnvalda, oftast forsetinn), er málaður sem illmenni og öll stjórnsýslan svo tengd við þennan einstakling; mótmæli, sem eru annað hvort tengd einhverju innanríkismáli (við höfum sjálf stundað mótmæli), eða eru einfaldlega kokkuð upp, eru blásin upp í fjölmiðlum, vígasveitirnar eru sendar inn til að koma af stað ógnarástandi og vekja viðbrögð stjórnvalda, og sagt að nú sé uppreisn fólksins byrjuð gegn illum einræðisherra. Þessa uppreisn skal styðja með ráðum og dáð. Öllum fréttum sem stangast á við þessa mynd er haldið eftir, en minnsti grunur um ill verk stjórnarinnar blásin upp. Almenningur, t.d. á Vesturlöndum, sendir glaður fé til uppreisnarsveitanna og tekur þátt í skrúðgöngulestinni; vill vera með. Fyrr eða síðar hrynur svo ríkið og „sigur“ hefur unnist. Eftirmálinn skiptir ekki máli, nýr einræðisherra hefur verið fundinn einhvers staðar á heimskringlunni og athyglin beinist þangað.

Sýrlensku „uppreisnarmennirnir“ hafa nú öll völd í landinu.

Í tilfelli Sýrlands voru „frelsishermennirnir“ sem við sendum peninga til mögulega versta fólk sem hægt er að ímynda sér. Þetta voru meðlimir úr tugum samtaka sem nærri öll eiga það sameiginlegt að aðhyllast versta form af trúarofstæki sem til er. Hinn nýji forseti Sýrlands, sem enginn kaus, Ahmad al-Sharaa, var leiðtogi eins þessara hópa; Al-Nusra fylkinguna. Markmið þeirra samtaka var ætíð að útrýma stjórn Baath-flokksins og forsetans, Bashar al-Assad, og koma á fót íslömsku ríki undir Sharia lögum. Og þessi tilteknu Sharialög leyfa engin undanbrögð. Fylgja þarf ströngum Sunni-Íslam. Shia-múslimar, Alavítar, kristnir og guðlausir kommúnistar verða að hlýða, annars er voðinn vís.

Vestrænir ráðamenn og fjölmiðlar bjuggu til þjóðsögu um „hófsama“ hópa, ótengda Al-Quaeda, sem ættu að fá vopnaaðstoðina, en Al-Quaida liðið endaði með hana alla – hverja kúlu. Nú eru þessar hryllilegu sveitir með öll völd í landinu; ekki síst þökk sé skattfé almennings, einnig hér á landi. Hver haldið þið nú að niðurstaðan sé?

Á þessari stundu ganga vígasveitir öfgamanna um borgir og bæi Sýrlands til að finna Alavíta, kristna, Jesída og aðra villutrúarmenn; pynta þá, myrða og henda þeim út á götu. Þá skiptir engu máli hvort um sé að ræða börn eða fullorðna. Einhverjar stúlkur verða eftir sem kynlífsþrælar. Allar eignir eru teknar.

Þessi útrýmingarherferð kemur beint í kjölfar ræða nýrra Imama sem birtar eru í ríkisfjölmiðlum þar sem hvatt er til Jíhads í landinu, eftir að völdum hefur verið náð.

Sýrlenskur Imam í hinu nýja Sýrlandi hvetur til Jihad gegn villutrúarmönnum. Mynd: Syrian Justice League.

Þrátt fyrir að yfirmenn þessara hersveita leggi áherslu á það við vígahópa sína um að taka engar myndir eða myndbönd, og hafa fyrir því að taka símana af fórnarlömbum sínum, þá hafa bæði myndskeið og myndir af því þegar heilu fjölskyldurnar eru pyntaðar til dauða sloppið inn á alnetið. Það væri kannski réttara að birta þessi myndbönd hér, svo alvaran væri augsýnileg, en það væri um leið vanvirðing við hina látnu og svo lesendur hér. Sjáið bara fyrir ykkur götur þorpa þöktum blóðugum líkamsleifum saklausra borgara; borgara sem okkur eitt sinn var annt um – að við héldum.

Viðbrögð sömu fréttamanna og stjórnmálamanna og örguðu eftir stríði til að vernda saklausa borgara, þegar áróðurinn var í þá átt, eru þögn. Þeir bera jú hluta ábyrgðarinnar á því að Sýrland er nú orðið helvíti á jörðu fyrir alla þá sem aðhyllast ekki öfgafulla tegund Sunni-Íslam. Það kom á daginn að hin vondu stjórnvöld sem steypt var af stóli með vopnavaldi, voru að berjast við þessa hópa, ekki síst til að vernda einmitt fólk á borð við kristna, Jesída og Alavíta; börn og gamalmenni. Þau voru veraldleg og hver mátti stunda sína trú eða siði í friði. Eðlileg lög sem tryggðu réttindi kvenna og stúlkna, verkafólks og minnihlutahópa, voru í gildi.

Þá, foringi Al-Nusra; í dag, forseti á leið til Brussels. Mynd frá the Last American Vagabond.

Öll stjórnvöld, um allan heim, eru spillt, og öllum forsetum má lýsa sem skrímslum. Þetta á ekki síst við um Vestur Asíu og mið-Austurlönd þar sem Netanyahu og Erdogan virðast hafa náð einhverju helmingaskiptasamkomulagi. Við eigum að vera orðin nógu fullorðin til að sjá í gegnum áróðursherferðir óhefbundinna hernaðaraðgerða eins og þeirra sem höfðu það að markmiði að kremja Sýrland.

Það er engin afsökun til fyrir þeirri hræsni sem sýnd er með þögn fjölmiðlanna um hverjar afleiðingar stríðsins gegn Sýrlandi eru í raun og veru. Stríðið gegn Sýrlandi er kannski skítugasta stríð sem við höfum tekið þátt í hingað til – og er langt til jafnað.

Hér bregðast fjölmiðlar, eins og svo oft áður. Hver skyldu svo viðbrögð stjórnmálamanna á Vesturlöndum vera við útrýmingarherferð á minnihlutahópum í Sýrlandi? Þau láta ekki á sér standa. Jú, Evrópusambandið hefur boðið hinum nýja forseta, Ahmed al-Sharaa, til Brussel til að sækja ráðstefnu sem snýst um að fjármagna hin nýju stjórnvöld. Frá því er greint í Brussel Morning í dag. Leiðtogi Al-Nusra fær höfðinglegar viðtökur og má búast við vænum dúsum.

Svo annt er stjórnmálamönnum okkar í dag um sýrlenskan almenning.

Mynd á forsíðu kemur af Telegram-síðunni Syria Justice Archive.