Um Lýðræði í Miðausturlöndum og Afríku

8. október 2017 — Valtýr Kári Daníelsson

Mohammad Mosaddegh í heimilisfangelsi í Ahmadabad
Mohammad Mosaddegh í heimilisfangelsi í Ahmadabad

Söguskoðun hvítrar yfirburðarhyggju

Nýlega var vakin athygli á því að ritstjóri Morgunblaðsins vitnar oft í einn Pál Vilhjálmsson sem gaf nýverið út grein um „negra-“ og múslimalýðræði. Eins og ein athugasemd við greinina sagði var hún „svolítið rasísk.“ Og Miklagljúfur er svolítið stór skurður. Nú, ein stutt og asnaleg grein frá einum manni er varla tilefni til að fara út í langdregin skrif, en í greininni endurtekur hann mýtur og orðræðu sem er mjög algeng meðal opinskárra rasista en líka þeirra sem fara aðeins leyndar með rasismann sinn og er því þess virði að skoða punkta greinarinnar.


Út frá greininni virðist sem að Páll þjáist af heilkenni sem hrjáir marga aðra rasista og það heilkenni myndi ég kalla sögulega rörsjón. Þeir sjá bara þá hluta sögunnar sem þeir vilja sjá og virðast ekki geta tengt atburðina saman né hugsað um þá í sínu viðeigandi samhengi og láta forsögu atburðanna sig engu máli skipta.


Í byrjun kastar hann fram niðurstöðu greinarinnar sem ætti alveg eins heima í Völkischer Beobachter, að lýðræðið sé hvítt. Hann segir að lýðræðið eigi sér uppruna í Aþenu. Og vissulega var til útfærsla af lýðræði í Aþenu sem er til mikið af heimildum fyrir og var ein sú fyrsta í heiminum. Það var líka til svipuð útfærsla af lýðræði í Haudenosonee bandalaginu, betur þekkt sem Iroquois bandalagið. Þar höfðu konur meira að segja mun jafnari stöðu en í Aþenu þar sem þeim var forboðið að kjósa. Einnig mætti nefna Kongsi bandalögin sem voru stofnuð í sambandi við kínverskan námuiðnað í Borneó þar sem allir íbúar hvers bandalags gátu kosið. Það er ólíkt Aþenu þar sem fólk mátti ekki kjósa nema að þau væru Aþenskir borgarar, þó þau byggju á áhrifasvæði Aþenu.

Síðan minnist hann á þroska lýðræðisins í frönsku byltingunni og segir að allt hafi þetta verið hvítt. Ekki evrópskt eða vestrænt, heldur hvítt. Hann talar um hvíta uppreisnarmanninn Jesú. Já, miðausturlenski Gyðingurinn Jesú sem var uppi áður en hluti Gyðinga blandaðist þjóðum sem í nútímanum eru taldar hvítar á víst að hafa verið hvítur. Svo gerðu hvítu Rómverjarnir Jesú Krist að andlegum leiðtoga Evrópu. Það er að segja eftir allar ofsóknirnar gegn kristnum á milli stofnun Kristninnar og til 313. „Allt hvítt.“ Á sama tíma var þungamiðja Kristninnar í Miðausturlöndum, en Palli virðist ekki kæra sig um að stór landsvæði Norður-Afríku og Miðausturlanda hafi ekki síður verið hluti af rómarveldi en Íbería og Frakkland.

Annað sem angrar mig er lýsingin á þjóðum sem hvítum löngu áður en hugtakið um hvítan kynþátt varð til. Hægt er að lesa meira um uppfinningu þessa hugtaks í bókinni The Invention of the White Race eftir Theodore W. Allen og í þessum fyrirlestri er farið yfir helstu punkta bókarinnar.

Hann skrifar um áhlaup múslima gegn Evrópu, með því að yfirtaka stóran hluta af Íberíuskaganum og hluta af suður Frakklandi. Og vissulega frömdu múslimarnir sem aðild áttu að verki ofbeldisverk og glæpi með þeirri innrás. Hann hefur þó ekkert að segja um innrásir Evrópubúa sem hluti af krossferðunum í lönd sem höfðu þá haft múslima sem meirihluta íbúa í árhundruð. Hann virðist líka hafa engar athugasemdir um innrás Visigotanna í Íberíuskagann, sem þá var setinn af Rómarveldi. Það er víst bara slæmt ef það eru brúnir múslimar sem ráðast á hvít kristin lönd. Það er líka hlægilegt að hann kenni fall Al-Andalús við óbeit Evrópu gagnvart „and-lýðræðislegu“ Sharía lögunum, en mikill hluti hvítu kristinnar Evrópu á þeim tíma hefði getað kennt Al-Andalús eitt og annað um and-lýðræði og mannfjandlega samfélagsbyggingu.

Í næstu efnisgrein virðist hann gera lítið úr hvítri yfirburðarhyggju í Bandaríkjunum. Það er raunar algengt á breiðara pólitíska sviðinu, alveg frá sumum sjálfyfirlýstum kommum til miðjunnar og hægrisins, að hugsa um hvíta yfirburðarhyggju í Bandaríkjunum sem einhverja jaðarhugmyndafræði hægri-öfgasinna, en ekki sem raunverulegt fyrirkomulag Bandaríkjanna til þessa dags.

Það virðist líka að honum finnist óviðeigandi að Afríkanar í Bandaríkjunum kenni sig við Afríku með því að kalla sig Afríska-Ameríkana. Ég myndi reyndar ganga enn lengra með því að taka upp Pan-Afríkanísku línuna og kalla þá sem oft eru kallaðir þeldökkir eða Afrískir-Ameríkanar í staðinn Afríkana. Í því felst viðurkenning á þeim raunveruleika að Afríka er enn setin nýlenduveldunum Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og fleiri minni aðila og að í mörgum þeim samfélögum þar sem þeir búa séu Afríkanar ekki almennt viðurkenndir borgarar heldur innvortis nýlenda, og að samstaða Afríkana í Afríku, Karíbaeyjum, Bandaríkjunum og víðar sé nauðsynleg til að þeir geti kastað af sér hlekkjum nýlenduveldanna, hvort sem þeir Afríkanar eru Yoruba, Zuluar eða Berberar. Að því leyti eru Afríkanar allra heimshluta, sameinaðir í baráttu sinni gegn nýlenduherrum sínum og samvinnumönnum þeirra (sem oft eru sjálfir Afríkanar), og eru að því leyti sameinaðir sem Afríkanar. Þetta er niðurstaða Pan-Afríkusinna eins og Thomas Sankara, Malcolm X og Frantz Fanon.

Í næstu efnisgrein er sögunni snúið á haus með mætti fáviskunnar. Bretar og Búar komu með lýðræðið til Suður-Afríku! Ég býst við að lögregla SA hafi verið að skjóta lýðræðinu í „negrana“ í Sharpeville fjöldamorðinu. Að Umkhonto we Sizwe og Kommúnistaflokkur Suður-Afríku lýstu yfir stríði gegn ríkisstjórn SA til að koma í veg fyrir að Afríkanar myndu fá lýðræði.

Hann reynir síðan að telja upp lýðræðin í Miðausturlöndum, og telur þar upp ránríkið Ísrael sem þaggar niður í stofnunum og fjölmiðlum sem gagnrýna kúgun Ísraels gegn Palestínuaröbum.

Nýlendustefna nútímans

Hann dregur svo saman að „negralýðræði“ sé ekki til og ekki heldur múslimalýðræði. Hvað varðar Afríku sé ég ekki að t.d. Senegal, Kenýa, Nígería og Búrkína Fasó eins og stendur séu ekki síður lýðræðisríki en hvert annað vestrænt lýðræðisríki. Þá strax heldur þessi staðhæfing ekki vatni. En við getum kafað dýpra. Hví skyldi það vera að í Afríku og Mið-Austurlöndum hafi verið svo mikið af pólitískum krísum og valdatökum?

Sumir virðast nefnilega halda að í fortíðinni hafi verið nýlendutímabil og nú sé ekki lengur neinar nýlendur. Raunin er sú að við búum enn í nýlendutímabili en form nýlendanna hefur breyst. Nú höfum við ekki lengur einkaríki stakra kónga í Afríku eða nein Austur-Indíafélög. Við höfum hinsvegar fjármálaáætlanir AGS og Heimsbankans. Við höfum lúsarlaun íbúa þróunarlandanna. Við höfum stjórnarskipti að tilstilli Vesturlanda. Við höfum stríðið gegn hryðjuverkum sem allir ráðamenn sem að því koma vita vel að ýtir aðeins undir hryðjuverk. Við höfum „mannúðar“íhlutanir NATÓ ríkjanna, t.d. í Líbýu. Við höfum AFRICOM og fjármögnun hópa sem ætla sér að skapa arðbærara landslag fyrir vestræna fjárfesta og fyrirtæki í þróunarlöndunum.

Tökum tvö dæmi af þessari nútíðar nýlendustefnu. Árið 1951 varð Mohammad Mossadegh lýðræðislega kjörinn forsætisráðherra Írans. Á þeim tíma áttu bandarískkk og bresk olíufyrirtæki gífurlegan hlut í olíuauðlindum Írans. Hans glæpur var að reyna að þjóðvæða olíuauðlindirnar svo þær myndu hagnast Írönsku alþýðunni sem vann olíuna frekar en breskum og bandarískkkum fjársfestum og kom á umbætum sem bættu aðstæður verkamanna í Íran á kostnað arðbærni fyrirtækjanna sem þar unnu. Sem svar við því beitti Bretland og Bandaríkin sínum frægu lýðræðislegu aðferðum og skipulögðu valdatöku Fazlollah Zahedi. Það er lýðræðið sem vesturríki settu fyrir urlöndum, annaðhvort urðu þau nýlenduríki þeirra eða þau myndu setja til valda eins fasískar ríkisstjórnir og þyrfti til að bæla niður alþýður landanna.

Annað dæmi má finna í Afríku. Patrice Lumumba var lýðræðislega kjörinn fyrsti forsætisráðherra Lýðræðislega Lýðveldisins Kongó 1960, eftir harða baráttu fyrir sjálfstæði Kongó frá Belgíu. Skömmu eftir kosningarnar lýsti nýja ríkið Katanga yfir sjálfstæði frá Kongó, með fjármögnun og íhlutun Belgíu. Að auki studdu Belgía og Bandaríkin andstæðinga Lumumba í ríkisstjórninni og höfðu yfirsýn með og afskipti af handtöku hans og morði árið 1961. Í kjölfarið brutust út fleiri borgarastyrjaldir og seinna tók Mobutu alræðisvöld yfir Kongó.

Greinin upphefur því rasísku heimsveldastefnu vesturlanda og meira að segja er reynt að klæða hana í framsækinn búning, útbreiðslu lýðræðis. Líkt og gömlu nýlenduveldin „siðmenntuðu villtu negrana“ eins snemma og á 15. öld en þó aðallega á 19. og 20. öld með ofbeldi og þrælkun breiða nýlenduveldi nútímans út lýðræði til Miðausturlanda og Afríku með því að gjöreyða innviðum þeirra og hneppa íbúa þeirra í launaþrælkun, eða þá beinlínis þrælkun.