Tyrkneskur þjóðréttarglæpur og kúrdískar villigötur
—
„Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi“, segir í ályktun ríkisstjórnarinnar, og þingflokkur VG „fordæmir harðlega innrás tyrkneska hersins inn í Norður-Sýrland“. Full fordæming á innrásinni er auðvitað meira en réttmæt. „Friðarvorið“ sem Erdogan nefnir hernaðaraðgerðina er brot gegn fullveldi Sýrlands, fótum troðinn þjóðaréttur, stórfelldur glæpur gegn friði og mannúð. Árásin á Kúrda mælist illa fyrir víða um heim, sérstaklega í Evrópu.
Margir þeir aðilar sem fordæma innrásina „harma“ samtímis „brottköllun“ Trumps á bandarískum hersveitum við norðurlandamæri Sýrlands og boðað frekara brotthvarf herja þaðan. Margir þeir aðilar sem mótmæla nú, m.a. stjórnvöld Íslands, studdu loftskeytaárásirnar á Damaskus í fyrra og hafa aldrei mótmælt neinu í hernaðinum gegn Sýrlandi öðru en árásunum á Kúrda.
Staðan í Norður-Sýrlandi er ekkert einföld. Fréttablaðið slær upp dag eftir dag: „Sýrlenski stjórnarherinn berst með Tyrkjum gegn Kúrdum.“ Það er mikill misskilningur. Ekki er um að ræða Sýrlandsher heldur leifar af hryðjuverkaher á snærum Tyrkja sem áður kallaði sig Free Syrian Army en nú „Syrian National Army“, her sem Erdógan sigar nú gegn Kúrdum. Þetta er reyndar talandi dæmi um þann fréttaflutning af Sýrlandsstríðinu sem Fréttablaðið (og reyndar helstu fjölmiðlar landsins) hafa boðið okkur upp á. Fréttablaðið er aðallega auglýsinga- og afritunarstofa en er þarna „lost in translation“.
Innrás Tyrkja gegn Kúrdum er aðeins einn millikafli í stríðinu gegn Sýrlandi. Aðalgerendur í því stríði eru Bandaríkin, NATO-veldi (Bretland, Frakkland einkum) og svæðisbundnir bandamenn þeirra, Tyrkir, Sádar, Ísrael. Sýrlandsstríðið er auk þess þáttur í umsátrinu um Íran.
Sýrlandsstríðið – stríð með nýjum aðferðum
Sýrlandsstríðið átti frá byrjun að verða allt öðruvísi en Íraksstríðið sem var óvinsælt stríð af almenningi, dýrt (m.a. í bandarískum mannslífum) og sóðalegt. Slík opin og bein innrás var nú álitin gamaldags. Hún yrði að vera óbein, staðgengilsstríð, leynistríð. Fótgöngulið innrásarinnar í Sýrland voru málaliðar og trúarvígamenn sem fjölmiðlar okkar hafa alltaf kallað „uppreisnarmenn“. Ísland hefur stutt þessa „uppreisn“ frá upphafi.
Í upphafi voru áformuð skjót „valdaskipti“ í Damaskus (Assad must go!) í beinu framhaldi af vel heppnaðri „valdaskiptaaðgerð“ í Líbíu, en Sýrlandsstjórn reyndist alls ekki völt í sessi. Þessi plön breyttust síðan í „plan B“, áætlun um sundurlimun landsins (eftir trúar- og þjóðernalínum). En þá fóru að koma fram brestir í samstöðu árásaraflanna, einkum þegar Bandaríkin fundu sína nytsamlegustu fótgönguliða í hersveitum aðskilnaðarsinnaðra Kúrda. Fyrir Tyrklandsstjórn var það breyting til hins verra ef uppskipting Sýrlands myndi þýða styrkingu „kúrdískra hryðjuverkamanna“!
Framan af gekk „uppreisnin“ vel og réði brátt yfir afar öflugum og þungvopnuðum herafla. Öflugasti herinn nefndi sig fyrst Al Qaeda í Írak en síðan Íslamska ríkið. Hann virtist lengi vel eiga í fullu tré við sýrlenska herinn og lagði undir sig hálft landið.
Árið 2012 gerði bandaríska leyniþjónustan DIA (heyrir undir Pentagon) skýrslu um Sýrlandsstríðið (skýrslan birtist 2015). Þar segir: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI [Al-Qaeda í Írak] eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi… Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Deir ez-Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“ Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og augljóslega um að ræða það sem seinna nefndist Íslamska ríkið. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“ Sjá skýrsluna hér.
Stuðningur Vestursins við ISIS og Al Qaeda var aldrei opinber heldur eftir krókaleiðum. En Íslamska ríkið stofnaði einmitt „furstadæmi“ eða Kalífat í Sýrlandi og Írak 2014. Opinberlega veðjaði Pentagon & co á „hófsama uppreisnarmenn“ sem þeir vopnuðu og kostuðu. Stöku sinnum eru bandarískir ráðamenn opinskáir. Joe Biden varaforseti viðurkenndi árið 2014 að „hófsöm miðja“ í sýrlensku uppreisninni hefði aldrei verið til. Hins vegar hefðu „vinir okkar“ í Arabaheimi verið svo ákafir að steypa Assadstjórninni það þeir hefðu hellt „hundruðum milljóna dollara“ í „Al Nusra, Al Qaeda og öfgasinnaða jíhadista, komna frá fjarlægum löndum“. Sjá hér.
Árið 2014 réðst „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“, inn í Sýrland í trássi við alþjóðalög, undir bandarískri forustu, stjórnað frá stjórnstöð CENTCOM í Florida (CENTCOM: Miðsvæðið, bandarískt herstjórnarsvæði, nær yfir Stór-Miðausturlönd). Tyrkland var þar á meðal, Tyrkland sem verið hafði helsti farvegur fyrir mannskap og vopnasendingar til ISIS og annarra hryðjuverkahópa fram að því. Nú skyldi kveða niður ófreskjuna sem sömu aðilar höfðu sjálfir vakið upp. Fjölþjóðaliðið stundaði einkum lofthernað og herþjálfun og studdust við „hófsama uppreisnarmenn“ (sem ekki eru til, skv. Biden). Nú kom ISIS aftur að fullu gagni, áður sem fótgöngulið en nú sem grýla og átylla til hernáms.
Þegar Rússar lögðu Sýrlandi til flugher 2015, að beiðni stjórnvalda í Damaskus, snérist stríðsgæfan og Sýrlandsher tók að endurvinna land. Á tveimur næstu árum féllu vígi Íslamska ríkisins hratt fyrir sókn Sýrlandshers með aðstoð Rússa, og mjög þrengdi líka að öðrum vígahópum „uppreisnarinnar“ (Al Nusra/Al-Sham o.fl.). Þar með voru Bandaríkin orðin í mikilli þörf fyrir fótgönguliða í stríðinu, að öðrum kosti féllu landssvæðin eitt af öðru aftur undir Damaskus. Það stóð ekki til af því hinn raunverulegi andstæðingur Fjölþjóðaliðsins var ekki ISIS heldur Sýrlandsstjórn.
Kúrdum lofað öllu fögru en svo..
Í norðausturhéruðum Sýrlands hafa aðskilnaðarkúrdar verið sterkir. Í upplausn stríðsins, frá 2011, bilaði stjórnkerfi landsins og norðurhéruðin tóku upp nokkurs konar sjálfsstjórn og kölluðu sig Rojava, undir stjórn flokksins PYD, sem ræður Varnarsveitum Kúrda, YPG. Þessi héruð þurftu þá að verja sig hatrammlega fyrir sveitum ISIS sem sóttu að úr suðri. PYD lýsti síðan einhliða yfir sjálfsstjórn 2016. Hitt var þó jafnvel örlagaríkara að á árunum 2015-16 gerðu Varnarsveitirnar og útvíkkaður her þeirra sem nefndi sig Sýrlenska lýðræðisherinn, SDF, samstarfssamning við herstjórn CENTCOM. Bandaraíkjaher vopnaði SDF-herinn eftir það og varði hann með lofthernaði sínum.
Forusta PYD, YPG og SDF féll fyrir bandaríska herbragðinu. Það voru skelfileg og örlagarík mistök. Samt er næstum hæpið að tala um herbragð. Héldu Kúrdarnir í alvöru að risaveldið væri vinur þeirra? Henry Kissinger sagði: „Bandaríkin eiga enga varanlega vini eða óvini, aðeins hagsmuni.“ Þetta er ekki í fyrsta sinn sem USA svíkur Kúrdana, Jon Schwarz skrifar að það sé í áttunda sinn sem þeir svíkja þá eftir að hafa notað þá í eigin þágu. Kúrdaforustan hlýtur að vita – og veit – að stríð stuðningsmanna sýrlensku „uppreisnarinnar“, m.a. Bandaríkjanna og Tyrkja, við ISIS er blekkingarleikur, og að BNA er meginaflið á bak við þessa „uppreisn“. Barátta Kúrda fyrir sjálfsstjórn getur nýst BNA sem liður í sundurlimun Sýrlands, en BNA fleygir Kúrdunum frá sér, enn og aftur, um leið og notin af þeim eru búin. Væntanlega sýnir sig þá skjótlega „sjálfsstjórnin“ er algjörlega háð bandarískri hervernd.
„dugmiklir og ábyggilegir bandamenn okkar“
En frá og með samningnum við CENTCOM hafa Kúrdarnir í SDF verið fótgönguliðar risaveldisins. Þeir hafa verið verkfæri til hernáms. Þeir unnu borgina Raqqa af ISIS – BBC afhjúpaði brottflutning ISIS-liða frá Raqqa skv leynisamningi – og unnu stór svæði austan Efrats sem verið höfðu svæði „Kalífatsins“. Bandaríkin, sem auðvitað réðu ferðinni, hafa haldið þeirri stefnu að skila engu svæði sem þannig vannst af hinu hrynjandi ISIS til lögmætra stjórnvalda landsins. Það hefur samt ekki dugað til að snúa meginstraumi stríðsins og heildarmyndinni, sem er nú gjörbreytt Sýrlandsstjórn í vil. Sjá hér.
Nytsemi Kúrdaherjanna fyrir Bandaríkin var staðfest um daginn af æðsta herforingja CENTCOM á þessum tíma (2016-2019), Joseph Votel, í grein í The Atlantic 8/10/19. Hann lýsir því í ljósi þess að bandarískur almenningur hafi „enga lyst á allsherjarinnrás“ hvernig við „prófuðum marga valkosti“ meðal „hófsamra uppreisnarmanna“ en sú viðleitni mistókst og við vorum „neyddir til að leita annars staðar“. Sú leit endaði hjá Kúrdum 2016 og samstarfið reyndist „the most successful partnerships“.
Í annarri grein gefur Votel SDF-hernum þennan vitnisburð:
„Að mínu viti voru þeir dugmiklir og ábyggilegir bandamenn okkar sem gerðu allt sem við báðum þá um, jafnvel þegar það var eitthvað sem þeir óskuðu ekki endilega eftir sjálfir. Að auki skýldu þeir okkur dag hvern.Vilji þeirra til að berjast og hollusta þeirra við okkur var mér alltaf augljós…“
Þegar Tyrkir réðust inn í Afrin-hérað í mars 2018 sendi Assadstjórnin nokkrar fremur fámennar hersveitir héraðinu til varnar. Í aðdragandanum hafði hún farið fram á að fá að taka við stjórn héraðsins til að geta varið það, en kúrdíska forustan hafnaði því. Nú nærri tveimu árum síðar, tveimur árum stríðs og hernáms, býður Assad ekki Rojava-Kúrdum neitt slíkt. Það er um seinan. Sjá hér.
Trump og Kerry
Brottkvaðning Bandaríkjamanna af vissum svæðum í Sýrlandi endurspeglar breytt styrkleikahlutföll í stríðinu, taktískar tilfærslur og það að Tyrkir reiknast mikilvægari bandamaður en Kúrdar. Donald Trump ver ákvörðun sína um „afturköllun“ og segir að hernaður BNA í Miðausturlönd undanfarið hafi verið „versta ákvörðun í sögu lands okkar“, árásir „á sannanlega fölskum forsendum“, sem hafi kostað „8 biljón dollara“, þúsundir bandarískra mannslífa og milljónir hinum megin, „millions on the other side“. Það síðastnefnda hefur bandarískur forseti aldrei áður minnst á.
Svo birtist í íslensku sjónvarpi John Kerry, bandaríski utanríkisráðherrrann 2013-17, einn helsti stríðsherra og arkítekt Sýrlandsstríðsins. Fréttastofa RÚV, sem alltaf studdi stríðið hans dyggilega, spyr hann andaktug: „Hver eru áhrif þess að Trump hafi yfirgefið Kúrda í Sýrlandi á bandamenn Bandaríkjamanna?“ Og stríðherrann svarar: „Þetta er að mínu mati hörmuleg ákvörðun sem hefur afleiðingar um allan heim… Þetta eru svik sem eiga eftir að vekja alvarlegar spurningar.“
Við neyðumst til að horfa á Tyrknesku árásina á Kúrda sem harmleik frekar en frelsisstríð af neinu tagi, en það gerir auðvitað ekki hlut Tyrkja neitt betri, eða blóðuga framgöngu þeirra gegn Kúrdum fyrr og síðar.
Viðbætir, 14. okt.
Yfirstjórn Kúrda í Norður-Sýrlandi hefur tilkynnt um samning við stjórnvöld í Damaskus, um herflutninga Sýrlandshers til landamærasvæðanna að Tyrklandi til að mæta tyrknesku árásinni, í samvinnu SDF. Þessir atburðir gerist í beinu framhaldi af því að bandarískar hersveitir yfirgefa svæðið. Frumkvæðið að samkomulaginu kom augljóslega frá SDF sem á ekki marga úrkosti í stöðunni. Þar sem SDF hefur haft formlega stjórn á stórum svæðum í norðaustur Sýrlandi þýðir þetta væntanlega að sýrlesnki herinn og Assadstjórnin munu taka yfir stjórn á þeim svæðum og reyna að girða fyrir frekari sókn Tyrkja. Svo hér er um að ræða raunveruleg og dramatísk umskipti í stríðinu. Þeir sem mest hafa stutt stríðið gegn Sýrlandi gnísta nú tönnum og ásaka hver annan, en við tökum ofan.
(Greinin er alveg á ábyrgð höfundar og tjáir enga opinbera afstöðu Neista, ÞH)