Twitterskrárnar sýna: „djúpvaldið“ stýrir ritskoðuninni
—
Kaup Elon Musk á Twitter voru frágengin í október. Þau fóru fram af hans hálfu undir merkjum tjáningarefrelsis og „afnáms ritskoðunar“. Í íslenskum fjölmiðlum var okkur sagt að eigendaskiptin boðuðu að öllum líkindum stóraukna „hatursorðræðu“. Í desember sl. gerðist það svo að af hálfu nýrra eigenda var gefin, í nokkrum skömmtum, innsýn í innri tölvuskrár Twitter, og þar birtist mikið „ritskoðunarveldi“. Um það heyrum hins vegar lítið í fjölmiðlum.
Twitterskrárnar (Twitter Files)
Þessi rafrænu skjöl, Twitterskrárnar sýndu að á Twitter hafði farið fram gríðarleg ritskoðun. Ritskoðun innan þessa eina tæknirisa, sem varpar um leið ljósi á netheima í heild því engar ástæður eru til að ætla að ástandið hjá t.d. tæknirisunum Google og Facebook sé annars konar (að allir „tæknirisarnir“ eru að mestu í eigu sömu fjármálaelítu fáeinna risasjóða er önnur umræða). Og vel að merkja: þessir miðlar eru ekki nein héraðsfréttablöð eða fréttastofur „úti í bæ“. Þetta eru voldugustu upplýsingaveitur í heimi, upplýsingaveitur sem hálf heimsbyggðin notar, eða meira, og helstu samskiptamiðlar og umræðuvettvangur alls almennings um leið. Þarna stendur og fellur stór hluti af því sem við köllum tjáningarfrelsi í samtímanum – og verðum við ekki að segja ástand lýðræðis um leið?
Elon Musk hafði sem sé veitt nokkrum blaðamönnum aðgang að þessum „innanbúðar“skrám eftir kaupin. Fyrstir til að miðla því sem þar kom fram voru Matt Taibbi og Bari Weiss, óháðir blaðamenn, síðan Lee Fang frá miðlinum Intercept, David Zweig og svo nokkrir í viðbót. Þetta eru rannsóknarblaðamenn, fylgjandi málfrelsi og hugsanafrelsi, en líklega ekki ýkja samstæður hópur hugmyndafræðilega að öðru leyti. Viðbrögð vestrænna meginstraumsmiðla við útkomunni úr rannsóknum blaðamannanna segja mikla sögu. Á meðan mikið hefur verið þusað og rifist um hvatir og ástæður Elon Musks í þessu máli er það meira en sláandi hvílík grafarþögn hefur víðast hvar ríkt um sjálft innihald skjalanna sem birt hafa verið. Um það er yfirleitt ekkert fjallað, og að því marki sem það er gert þá til að segja að ekkert merkilegt kæmi þarna fram. Ekki þarf þó nána rannsókn til að sjá að innihaldið er vert mikillar athygli, og gefur okkur glugga og innsýn í ástandið á þessu meginsviði upplýsinga og umræðu í samtímanum.
Um þetta hafa síðan skrifað og rætt ýmsir sem mark er á takandi. Þar á meðal Glenn Greenwald, heimsþekktur Pulitzer-verlaunahöfundur sem var m.a. lykilblaðamaður kringum hinar sögulegu afhjúpanir Edwards Snowden frá 2013 og áfram. Við gerum Greenwald hér hátt undir höfði, bæði í frásögninni af umræddum afhjúpunum og áyktunum hans þar af. Sjá má Rumble-þætti Greenwalds hér. https://rumble.com/c/GGreenwald. Mikilvægur þáttur um Twitterskrár t.d þessi: https://rumble.com/v20hgja-the-twitter-files-what-you-need-to-know-with-matt-taibbi-system-update-with.html og þessi: https://rumble.com/v23wcgu-twitter-files-reveal-media-complicity-in-stunning-govt.-censorship-campaign.html Eins má skoða góða yfirferð ritsins Jacobin um málið: „Why the Twitter Files are in Fact a Big Deal“ https://jacobin.com/2022/12/twitter-files-censorship-content-moderation-intelligence-agencies-surveillance
Hve miklu stjórnar Big Brother/Deep State?
Að Twitter og aðrir tæknirisar ástundi ritskoðun og þöggun er ekki leyndaramál og hafa margir á það bent. Umræðan í samfélaginu, stjórnmálaumræða sem önnur, hefur færst yfir á netið en þar ráða nokkur risafyrirtæki ríkjum sem kunnugt er. M.a. hafa menn talsvert rætt þetta á Neistum, hafa t.d. velt fyrir sér muninum á gamaldags „opinberri“ ritskoðun og nýrri ritskoðun einkafyrirtækja gagnvart notendum sínum. Sjá t.d. hér. https://neistar.is/greinar/ritsko%C3%B0un-og-%C3%BE%C3%B6ggun/
Af Twitterskránum að dæma má þó ljóst vera að skilin milli „opinbers“ og „einka“ eru þarna að mestu óraunveruleg. Það er meginniðurstaða hjá Matt Taibbi að FBI og Öryggismálastofnunin (Homeland Security) hafi verið á kafi í því að ákveða, frá einu máli til annars, hvaða sjónarmið megi heyrast hjá Twitter og hver ekki, sem og hvaða fréttir megi koma. Eftir opnun Twitterskráa þarf ekki getgátur lengur, staðreyndirnar liggja opnar í dagsljósinu.
Alríkislögreglan FBI, leyniþjónusturnar CIA og ODNI og CENTCOM innan Pentagon (U.S Central Command) halda í flesta þræði. Og í samskiptunum við tæknirisann Twitter (um að hagræða og ritskoða efni á samfélagsmiðlum) eru þessar ríkisstofnanir ráðandi aðilar. Matt Taibbi skrifar: “Ríkisvaldið er ekki aukaleikari í ritskoðun sem fer aðallega fram í einkageiranum. Það er aðalgerandinn, augljóslega verkstjóri fyrir þessum aðgerðum og greinilega líka drifkrafturinn í því að síauka þær, nokkuð sem við getum sýnt í myndum.“ Og í viðtali sínu við Taibbi tók Glenn Greenwald undir þetta: „Ef ég ætti að nefna mikilvægustu afhjúpunina myndi ég líka nefna þessa, nefnilega hina mjög beinu, stöðugu og reglulegu þátttöku bandarískra öryggismálastofnana (U.S. Security State) í ákvarðanaferlinu um hvaða upplýsingar við eigum að fá.“ https://rumble.com/v20hgja-the-twitter-files-what-you-need-to-know-with-matt-taibbi-system-update-with.html Á hinn bóginn kom frumkvæðið að ritskoðun oft frá fyrirtækinu líka, svo að rétt er að tala um samvinnu milli ríkisvaldsins og tæknirisans í pólitískri stýringu á umræðunni.
Útkoman er sú að ástand lýðræðis, a.m.k. í Bandaríkjunum sé afskaplega bágborið. Látum okkur – með nokkrum svipmyndum og dæmum – skoða hvernig hið ríkjandi vald (ríkisvald og fyrirtækjavald) gerir stefnu sína gildandi á einu sviði af öðru á samfélagsmiðlinum, þeim vettvangi sem eitt sinn kynnti sig sem „vettvang almennings, frelsis og lýðræðis“, lausan undan miðstýrðu valdi.
Kóvidstjórnarfarið
David Zweig var sá sem fjallaði um stýringu umræðunnar í kóvidfaraldrinum, eins og hún birtist í Twitterskránum. Skrárnar sýna að umræða óháð opinberu sóttvarnarstefnunni var bæld niður hjá Twitter. Ýmist var það að frumkvæði yfirstjórnar fyrirtækisins eða að tilhlutan bandarískra stjórnvalda, fyrst undir Trump en eftir að Bidenstjórnin settist að völdum harðnaði baráttan við „falsupplýsingar“ verulega. Gagnrýnar greinar og færslur voru merktar „villandi“ eða „fals“, þeim hagrætt eða twitterreikningum manna lokað, m.a. sérfræðinga allt upp í Harward-prófessora, ef þeir í faraldrinum ástunduðu umræðu óháða „opinberu vísindunum“.
Niðurstaða David Zweig er svohljóðandi: „Twitter tók þá ákvörðun, á grundvelli pólitískra skoðana yfirmanna og þrýstings yfirvalda, að nálgun sóttvarnaryfirvalda við faraldurinn – það að kappkosta að takmarka dreifingu veirunnar umfram allt annað – væri „vísindin með stóru V“. Upplýsingar í blóra við þetta viðhorf, svo sem um öryggi og virkni bólusetninganna eða upplýsingar sem túlka mátti sem vanmat á hættunni af veirunni, m.a. fyrir börn, var hagrætt eða þeim eytt… Hvernig liti nú faraldurinn og eftirmál hans út ef opnari umræða hefði farið fram á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum – hvað þá stóru fréttamiðlunum – umræða um upphaf veirunnar, um lokunarstefnuna, um raunverulega hættu fyrir börn og margt fleira?“ https://www.thefp.com/p/how-twitter-rigged-the-covid-debate
Þjónusta við herinn
Í viðtali spyr Glenn Greenwald Lee Fang hvað sé markverðast í rannsóknarniðurstöðum hans, og svarið er: “Við horfum á ákveðna tegund af hræsni hjá Twitter, þú veist – þetta er fyrirtæki sem lofaði því árið 2016 að það myndi skjótlega bera kennsl á og gera að engu eða fjarlægja hvers konar ríkisreknar áróðursherferðir, þú veist leynilegar tilraunir ríkisstjórna til að hafa áhrif á þennan vettvang – sem nota gerfinöfn og fölsk auðkenni til að hafa áhrif á almenningsálit utan eigin lands eða koma fyrir hernaðaráróðri eða leyniþjónustuáróðri…”
Twitter heitir því sem sagt að fjarlægja sérhvern ríkisrekinn þrýsting, en ekki bara leyfir miðillinn þrýsting frá Bandaríkjaher heldur veitir honum mikil sérréttindi. Fang heldur áfram
«Uppljósdtranir okkar skoða jafnframt Bandaríkjaher og víðtæk samskipti hans við Twitter. Twitter veitti í reynd útkastaraþjónustu við CENTCOM, U.S. Central Command, sem hefur stjórnað þessum áróðri og sálfræðilegum aðgerðum um Miðausturlönd, og notar arabískumælandi Twitterreikninga til að búa til það sem sýnast vera raunveruleg samskipti, raunverulegt fólk og fréttaveitur og fréttavefgáttir… Þetta samband á milli hersins og Twitter nær a.m.k. aftur til 2017. Þá sendir CENTCOM netpósta til Twitter með lista yfir Twitterreikninga og biður um sérsök forréttindi fyrir þá reikninga. Og ég sé á Twitterskránum að um leið og sú bón berst, sama dag, fara tæknimenn Twitter í græjurnar sín megin og setja inn sérstök merki við reikningana sem CENTCOM bað fyrir og gáfu þeim merki sem í reynd er gæðavottun og viðurkenning án sýnilegs vottunarmerkis.» https://rumble.com/v21xd8m-the-twitter-files-bombshell-pentagon-psyop-revealed-with-lee-fang-full-inte.html
Í beinu framhaldi af viðtalinu við Lee Fang streymdi Greenwald þætti um Úkraínustríðið sem hann nefndi: «Media rewrites Ukraine’s dark history»:
«Jafnskjótt og Rússland gerði innrás mátti sjá – í rauntíma – hvernig vestrænir fjölmiðlar algjörlega námu úr gildi og endurskrifuðu eigin sögu um Úkraínu á bókstaflega öllum mikilvægum sviðum varðandi það land: þeir tóku 180 gráðu snúning og hættu að segja það sem þeir höfðu sagt í áratug, af því þau sannindi grófu undan hagsmunum Bandaríkjanna og ESB í stríðinu í Úkraínu… Það er vandfundið grófara dæmi um hvernig stríðsáróður virkar – á nákvæmlega þann hátt sem George Orwell spáði svo oft um, sérstaklega í sinni frægu bók 1984, að alræði virkaði.»
Demókratar kasta málfrelsi fyrir róða
Að síðustu skal fjallað um það sem Glenn Greenwald kallar «mestu breytingu í bandarísku stjórnmálalífi í áratugi, ef ekki lengur». Þá á hann við það «hvernig málfrelsið hefur fallið úr þeim sessi þar sem það hefur setið í sögu Bandaríkjanna sem algilt gildi, yfir í gildi sem hálft landið hafnar af harðfylgi.»
Þegar Greenwald talar um «hálft landið» sem nú hafni malfrelsi á hann við fylgjendur Demókrataflokksins. Þessi skerðing og «aftignun» og málfrelsisins opinberast að dómi Greenwalds mjög skýrt í opnun Twitterskránna og hávaðanum sem varð bæði fyrir og eftir yfirtöku Elon Musks á Twitter:
«Við sjáum þetta í taumlausri reiði talsmanna Demókrataflokksins og frjálslyndra þjóna þeirra hjá ráðandi auðhringafjölmiðlum gagnvart Elon Musk, fyrir það eitt að lofa smávegis endurreisn málfrelsis [og þetta «smávegis» má undirstrika, breytingarnar sem fylgja þessari yfirtöku verða naumast djúptækar] á þeim eina samfélagsmiðli sem þeir mögulega geta ekki ráðið lengur. Demókratar á þinginu hafa notað a.m.k. tvö undanfarin ár í að misnota meirihluta sinn í Washington til að ógna forstjórum tæknirisanna til að, ef þeir ekki ritskoði betur pólitískt innihald sem Demókratar sætta sig ekki við eða telja stuðandi, þá megi fyrirtækin þola lagalega og stjórnunarlega refsingu frá ríkisstjórn Bandaríkjanna.»
Það þarf ekki að útskýra það lengi að brotthvarf frá málfrelsi á þeim lykilvettvangi sem samfélagsmiðlar eru er alvarlegt högg fyrir lýðræði og stórt skerf til alræðis. „Ritskoðunarstjórnarfar“ má líka kalla það. Sem áður sagði sýna „skrárnar“ hvernig ritskoðunarferlinu er kyrfilega stjórnað af „djúpvaldinu“ (Deep State). Og Demókrataflokkurinn er nú traustasta stoðin undir ríkjandi valdi og ríkjandi stofnunum auðræðisins í BNA. Og Greenwald fellir dóma sína án miskunnar:
„…ein mikilvægustu og valdamestu flokksstamtök í Bandaríkjunum, Demókrataflokkurinn og þeir vinstrifrjálslyndu sem styðja hann, flokkur sem mestu ræður í Washington, Hollywood, á fjölmiðlum, í háskólaumhverfi og smám saman í stærsta hluta auðhringavaldsins, trúir einfaldlega ekki lengur á málfrelsi, hvorki sem samfélagsgildi né stjónskipunarreglu.“ https://rumble.com/v20aq4w-system-update-live-debut-on-rumble.html
Sláandi dæmi um ritskoðun í framkvæmd var náttúrlea þegar sitjandi forseti Bandaríkjanna var gerður brottrækur af Twitter og fleiri samskiptamiðlum fyrir „uppreisnaráróður“, og hin svokallaða „uppreisn“ (og „tilraun til valdaráns“) hefur síðan verið skipulega notuð sem vopn af núverandi stjórn og réttlæting fyrir frekari skerðingum á tjáningarfrelsi. Annað dæmi um stjórnun frá „djúpvaldinu“ sýndi Matt Taibbi fram á þegar aðalmálflutningsmaður FBI varð snögglega málflutningsmaður Twitter og kom í veg fyrir að óhagstæðar fréttir bærust um feðgana Hunter og Joe Biden (af spjaldtölvu þess fyrrnefnda) síðustu vikurnar fyrir forsetakosningar 2020. Þessi tvö dæmi segja vissulega sögu um ritskoðunaræði Demókrata. En þó segja þau enn frekar sögu af annars vegar forsetaefni sem tilheyrir valdakerfi djúpvaldsins og hins vegar þjóðernispopúlista á forsetastóli sem tilheyrir því ekki.
Að áliti Greenwalds er alvarlegast í umræddri breytingu stjórnmálanna höfnun bandarískra frjálslyndra á málfrelsi – til að takmarka vald valdastofnana og sem gildi og verkfæri til að leysa úr ágreiningi. Hann segir að grundvöllur bandarísku stjórnarskrárinnar sé skilningur upplýsingarstefnunnar á mannlegri náttúru, á tilhneigingu mannanna til að líta ólíkt á heiminn og að stefna upp á við gegnum málfrelsi og með því að tjá skoðun okkar þótt hún gangi gegn ríkjandi valdi, án þess að vera refsað fyrir. Málfrelsið er miðlægt í bandarískri sjálfsmynd, þess vegna er breytingin dramatískari. Samkvæmt Greenwald er:
„enginn vafi að málfrelsinu hefur verið kastað með valdi út úr musterinu sem geymir sameiginleg bandarísk gildi og sem flest okkar styðja bara í krafti þess að vera bandarísk. Ég er ekki lengur viss um að slík sameiginleg gildi séu til.“
Niðurstaða okkar verður að Twitterskrárnar sýni hvernig voldugustu stofnanir í heimi kappkosta að stjórna pólitískri orðræðu samtímans, og þær hafa tólin til þess. Viðbrögð þeirra við afhjúpunum Twitterskránna eru í samræmi við það: þögn.