Ritskoðun og þöggun

10. febrúar 2022 — Jón Karl Stefánsson

þöggun
Mestu framfaraskeið sem við vitum um í sögu heimsins eiga flest það sameiginlegt að þeim fylgdi barátta fyrir málfrelsi, tjáningarfrelsi og frjálsri deilingu upplýsinga. Mannkynið nýtur enn góðs af lýðræðistímabili Aþenu til forna, þegar vísindi, heimspeki náði þvílíkum blóma að einungis brot af því sem lifði af hreinsanir og forheimsku miðalda lagði grunninn að endurreisninni í Evrópu löngu síðar. Mikilvægi mál- og tjáningarfrelsis er hrópað í lýsingum Platons á réttarhöldunum yfir Sókratesi og rökin með því að menn eins og hann gætu tjáð sig frjálst og rökrætt við andstæðinga sinna eru svo sterk að varla vill nokkur síðar telja sig í liði með Meletusi, Anytusi og Lycons í þeirri deilu. Þau rök sigruðu þó ekki í réttarhöldunum sjálfum. Sókrates var látin fyrirfara sér fyrir að hafa „spillt æskunni“ með framferði sínu. Betra væri að þagga endanlega niður í slíku fólki.

Um ritskoðunarfaraldur

Þau tímabil sem eru mörkuð af stjórn fólks sem telur sig vita fyrir fram hvað er rétt og hvað er rangt, þar sem kreddufestan (dogmatisminn) ræður og þeir sem ráða hafa enga þolinmæði fyrir gagnrýnendum, hafa ekki verið björt. Þegar kirkjan eða aðrir trúarhópar, pólitískir hópar eða annars konar valdastéttir hafa lýst yfir einkarétti á sannleikanum hefur mannkynið gjarnan tapað og samfélaginu farið aftur. Við höfum að eilífu tapað ómetanlegri þekkingu fyrri kynslóða í bókabrennum og sýndarréttarhöldum þeirra. Þöggun og ritskoðun er nánast ávísun á hnignun og ógnarstjórn. Þau sem brenna bókum telja sig þó ætíð hina réttu handhafa sannleikans hverju sinni. Í eigin augum eru þau hin góðu í baráttu gegn hinum vondu eða illa upplýstu.

Þegar Voltaire skrifaði setninguna „Ég er ósammála því sem þú segir, en ég berst með lífi mínu fyrir rétti þínum til að segja það“ var hættulegt fyrir fólk að gagnrýna valdhafana. Eitt ógætilegt orð gæti sent manneskju í dýflissu. Vísindamenn voru enn að átta sig á því að lykilatriði í því að finna bestu lausnirnar er ekki að kæfa gagnrýni, heldur kynna sér hana. Gagnrýni, jafnvel þegar hún hljómar fjarstæðukennd, er algjört lykilatriði í hinni vísindalegu aðferð. Það voru þau sem töldu sig vita fyrir fram hvort hugmyndir væru réttar eða fáránlegar sem þögguðu niður í, og jafnvel fangelsuðu, fólk eins og Hypatíu í Alexandríu, Ingnaz Semmelweis og Galileo Galilei og útrýmdu „villutrúarmönnum“ á miðöldum. Þau skorti allt það sem Voltaire barðist fyrir.

Pendúllinn snýr við

Eftir hálfgerða gullöld frjálsra upplýsingaskipta á netinu hefur vofa ritskoðunar og umburðarleysis aftur látið á sér kræla. Þessi þróun hefur hafist á toppnum, og er nú búin að dreifa úr sér niður á við. Æ færri berjast opinberlega fyrir hreinu tjáningarfrelsi. Það þykir æ eðlilegra að einfaldlega þagga niður í þeim sem hafa röng sjónarmið, færa upplýsingar sem samræmast ekki við eitthvað sem kallast almennt samþykki eða concensus, sem oftar en ekki á rætur sínar að rekja til upplýsingaherferða fyrirtækja. Í farabroddi í þetta sinn eru ekki ríkisstjórnir, heldur þeir miðlar sem langflestir nota nú í dag til að afla sér frétta og annarra upplýsinga; samfélagsmiðlarnir.

Samfélagsmiðlar hófu pólitískar hreinsanir sínar fyrir alvöru árið 2016 í kjölfar hins svokallaða „Russiagate“ máls, sem snerist um ásakanir Demókrataflokksins um að rússneska ríkið hafi aðstoðað Donald Trump við að ná óvæntum kosningasigri sínum með því að beita fyrir sér þúsundum gervireikninga, helst á Twitter. Kosningaósigur Hillarys Clintons mátti þannig útskýra með Pútín, eins og svo margt annað. Ekki hefur tekist að sanna með óyggjandi hætti að Trump og Pútín hafi haft neitt sérstakt samráð um slíka twitterherferð, en hvað sem sannleikanum um Russiagate líður, þá var þessi saga notuð til að færa rök fyrir nauðsyn ritskoðunar á samfélagsmiðlum.

Í fyrstu voru meintir gervireikningar tengdir Rússlandi teknir út. Um leið fylgdu hópar á borð við ISIS og nasistahópa. En listinn víkkaði stöðugt og fór að taka æ oftar til gagnrýninna blaðamanna og pólitískra hópa sem eru hliðhollir baráttu fátækra. Meðal fyrstu fórnarlamba þessara hreinsana voru þeir sem studdu Occupy-hreyfinguna svokölluðu í Bandaríkjunum. Notendurnir sem vöknuðu upp við það að reikningum þeirra hafði verið eytt fengu gjarnan engar skýringar á því hvers vegna þeir höfðu verið bannaðir. Stjórnendur Twitter sögðu ástæðuna fyrir því að þúsundum reikninga hafði verið eytt vera að „bæta heilsu opinberrar umræðu“ (Varghese, 2018). Facebook fylgdi fast á eftir Twitter og hóf einnig stórfelldar hreinsanir, að því er virtist nokkuð handahófskennt. Árið 2018 lokaði Facebook á hundruð reikninga, og meðal þeirra voru reikningar á borð við „the Free Thought Project“ (félagsskapur sem berst fyrir opinni umræðu), „End the Drug War“, „The Anti-Media project“ (áhugablaðamenn á vinstri vængnum sem deila fréttum og tilkynningum frá fólki á vettvangi) og „Global Revolution Live“. Nærri allir sem tengjast stjórnvöldum í Kúbu og Venesúela voru bannaðir á Twitter árið 2019 og svo mætti lengi telja. Undir yfirskyni Russiagate var nú hafin ritskoðun á samfélagsmiðlum sem var greinilega lituð af pólitík.

Áróður og ritskoðun í nafni sóttvarna

Árið 2020 var hrint í framkvæmd sameiginlegu átaki meðal stærstu fjölmiðla og samfélagsmiðlarisanna, um að henda út fólki sem sagði eitthvað hættulegt, upplýsingum sem sannleiksdómarar dæmdu sem misvísandi eða „falskar“, eða einstaklinga frömdu einhverja aðra hugarglæpi. Þetta var gert í hinu heilaga nafni bólusetninga.

Þessi ótrúlega samþykkt bar nafnið „Trusted News Initiative“ og er samstarfsverkefni risanna í heimi fréttafjölmiðla. Þetta voru í fyrstu atrennu AP, AFP; BBC, CBC/Radio-Canada, European Broadcasting Union (EBU), Facebook, Financial Times, First Draft, Google/YouTube, The Hindu, Microsoft , Reuters, Reuters Institute for the Study of Journalism, Twitter og The Washington Post. Síðan þá hafa fjölmargir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar gengið í hópinn. Tilgangur TNI er sagður vera „að vernda áhorfendur og notendur gegn óupplýsingum, sérstaklega í tengslum við hættustundir, eins og kosningar.“ Meðal verkefna hópsins er að „kanna skilvirkni mismunandi inngripa sem leitast við að fræða áhorfendur og koma í veg fyrir útbreiðslu heilsutengdra óupplýsinga“ (BBC, 2020). Þetta þýðir beinlínis að TNI mun rannsaka hvaða áróður virkar best og svo að TNI muni stunda virka ritskoðun. Það er okkur fyrir bestu.

TNI-hópurinn mun vinna saman að því að halda öllum upplýsingum frá okkur sem það vill ekki að við sjáum, enda gæti það valdið heilsufarslegu tjóni. Dæmi um upplýsingar sem TNI verndar okkur frá eru „meme sem tengja lygar um bóluefni við frelsi og einstaklingsfrelsi“ og „færslur sem leitast við að gera lítið úr hættunni á covid-19 og gefa í skyn að það séu einhver falin áform á bak við þróun bóluefnis“. Samstarfsaðilar í TNI munu „gera hvor öðrum viðvart“ og fjarlægja efni þegar eitthvað vafasamt kemur fram (BBC, 2020).

Þann sextánda mars 2020 sendu svo Facebook, Google, LinkedIn, Microsoft, Reddit, Twitter og YouTube frá sér sameiginlega fréttatilkynningu þar sem segir: Við vinnum náið saman að viðbragðsaðgerðum vegna COVID-19. Við hjálpum milljónum manna að tengjast, á sama tíma og við berjumst í sameiningu gegn svikum og röngum upplýsingum um vírusinn, lyftum upp viðurkenndu efni á kerfum okkar og deilum mikilvægum uppfærslum í samráði við opinberar heilbrigðisstofnanir um allan heim. Við bjóðum öðrum fyrirtækjum að ganga til liðs við okkur þegar við vinnum að því að halda samfélögum okkar heilbrigðum og öruggum (Facebook, 2020).

Síðan þessi yfirlýsing var birt hafa samfélagsmiðlarnir sett í háa gírinn að velja upplýsingar fyrir okkur, fjarlægja það sem þeir dæma sem óupplýsingar og hampa réttum upplýsingum. Meðal aðgerða er það sem kallað er „curating“ í leitarvélum. Þegar ástralska netrannsóknarstofnunin ASE gerði prófanir á Google síðasta sumar kom til dæmis í ljós að þegar orðið „covid“ var slegið í leitarvélina höfðu a.m.k. fyrstu tvær blaðsíður af niðurstöðum verið sérstaklega valdar fyrir fram til að birtast notendum Google (Purtill, 2021).

Staðreyndadómararnir

Fyrir flesta felst útilokun úr samfélagsmiðlun í því að svokallaðir staðreyndadómarar merkja og dæma innlegg eða síðu sem fals. Meðal stærstu fyrirtækja sem sérhæfa sig í þeirri staðreyndadómum er First Draft News. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 að frumkvæði Google News Lab, með samninga við Facebook, Twitter, the Open Society Foundation, Bellingcat, Democracy Fund auk fjölda annarra stórfyrirtækja. Fjármagn fær þessi stofnun hjá þessum sömu risafyrirtækjum. Þannig fékk First Draft 6,5 milljarða Bandaríkjadala frá Google árið 2020. Í viðtali við journalism.co.uk, sem er eitt afsprengi fjölmiðlarisans Thompson-Reuters, sagði Jenni Sargent, framkvæmdastjóri hjá First Draft:

Við skipuleggjum nú samstarfsvettvang blaðamanna og rannsakenda, fyrst í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Ástralíu og bætum við nýjum löndum á hverjum degi. First Draft deilir kynningarfundum og uppfærslum um þróun og þemu sem við erum að sjá, til að hjálpa til við að upplýsa og móta umfjöllun samstarfsaðila okkar. Næsti áfangi er að samræma það efni sem kemur út í fjölmiðlunum til að tryggja að brýnustu og nákvæmustu upplýsingarnar séu eins í öllum traustum stofnunum (Kunova, 2020).

Með öðrum orðum er um að ræða miðstýrt kerfi til að samræma hvaða efni fær að komast í stærstu og mikilvægustu fjölmiðla heims og hvað ekki. Þessar stofnanir ákveða hvað er satt og hvað er ekki, hvaða sannleika almenningur fær og fær ekki að sjá, hvaða fréttir eru grafnar og hverjum er hampað. Almenningi sjálfum er hér með ekki treystandi til að melta sjálft gildi fréttanna, þær verða matreiddar ofan í okkur á réttan hátt.

Gríðarlegt fjármagn fer í þessar stofnanir og kemur það allt frá risafyrirtækjum og hugveitum undir stjórn sömu risafyrirtækja. Meðal verkefna þessarar stofnunar er að rannsaka hvaða efni fólk leitar að á netinu og samræma svo aðgerðir til þess að velja það hvaða upplýsingar fólk fær sem leitar að þessum upplýsingum. Eins og Jenni Sargent orðaði þetta: „Við verðum að skilja betur hvaða upplýsingar þeir eru að leita að, hvað þeir efast um, hvað þeim finnst ruglingslegt og hvað þeir hafa beina reynslu og sérhæfingu í því að þeir óska eftir að ná til breiðari markhóps“ (Kunova, 2020).

Staðreyndadómarar vs. vísindin

Mjög lýsandi, en alls ekki einstakt, dæmi um eðli staðreyndadóma kom nýlega fram þegar staðreyndadómarar Facebook dæmdu sjálft British Medical Journal (BMJ), eitt elsta og virtasta vísindatímarit heims, sem dreifara falsfrétta á samfélagsmiðlum. Tilefnið var grein sem birtist þann 2. nóvember 2021 í undirflokknum BMJ Investigation, en sá dálkur er helgaður rannsóknarblaðagreinum. Greinin, sem var mjög vönduð og skjalfest eins og BMJ sæmir, fjallaði um upplýsingar sem tímaritinu bárust varðandi starfshætti Pfizers og undirverktaka þess. Hér er mikilvægt að skoða aðeins innihald þeirrar greinar sem staðreyndadómarar Facebook vildi brennimerkja sem fals. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Deildarstjóri sem starfaði hjá rannsóknarstofnuninni Ventavia Research Group [fyrirtæki sem Pfizer notaði til að rannsaka virkni og aukaverkanir bóluefnis síns] hefur sagt við The BMJ að fyrirtækið hafi falsað gögn, óblindað þátttakendur, notað ófullnægjandi þjálfaða bólusetningaraðila og ekki fylgt eftir á nægilegum hraða aukaverkunum sem greint var frá í III. stigs rannsóknum Pfizers. Starfsfólk sem framkvæmdi gæðaeftirlit réði engan vegin við að skoða hið mikla magn vandamála sem þeir fundu. Eftir að hafa tilkynnt Ventavia ítrekað um þessi vandamál sendi svæðisstjórinn, Brook Jackson, kvörtun í tölvupósti til Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA). Ventavia rak hana síðar sama dag. Jackson hefur látið The BMJ í té tugi innri skjala fyrirtækisins, myndir, hljóðupptökur og tölvupósta (Thacker, 2021).

Í greininni er svo farið yfir sláandi gögn sem sýna glæpsamlega aðferðarfræði Pfizers og Ventavia Research group í rannsóknum á aukaverkunum og virkni lyfsins sem við Íslendingar höfum notast hvað mest við. BJM hafði ítrekað sent bæði Ventavia og Pfizer beiðni um útskýringar á þeim gögnum sem uppljóstrarinn hafði látið þeim í té og farið yfir hvert einasta atriði hennar vel og vandlega. Engin svör höfðu borist frá Pfizer eða Ventavia. Hver einasta fullyrðing í greininni er vel og vandlega skjalfest og greinin er yfirfarin af hópi vísindamanna sem grannskoða hvern staf í greininni. Þannig virka vísindin. Þeir sem fara yfir slíkar greinar fyrir hönd virtra vísindatímarita á borð við The British Medical Journal eru lærðir í því sem þeir rannsaka og þjálfaðir í því að koma auga á galla. Greinar sem standast ekki skoðun þeirra er hafnað, eða sendar til baka í aðra yfirferð. Það er alvöru staðreyndaskoðun.

Þetta stöðvaði ekki staðreyndadómarana. Þegar tannlæknirinn Howard Kaplan setti hlekk á grein BMJ á lokaðan Facebook-hóp fékk hann eftirfarandi skilaboð:

censor
Facebook, Instagram og Lead Stories stimpla BMJ sem fals (Coombes, 2022).

Að hluta til rangar upplýsingar. Howard Kaplan deildi upplýsingum sem Lead Stories hefur skoðað. Við höfum bætt tilkynningu við færsluna svo aðrir geti séð að hún er að hluta til röng. Lærðu meira um hvernig staðreyndaskoðun virkar á Facebook. Frá óháðum staðreyndaskoðunarmönnum“.

Fljótlega fengu allir notendur sem reyndu að deila grein BMJ svipuð skilaboð. Þeir fengu hótanir þess efnis að ef þeir deildu greininni yrðu innlegg þeirra framvegis minna sýnileg. Ítrekuð „brot“ sem þessi gætu svo orðið til þess að notandinn væri fjarlægður frá þessum samskiptavettvangi.

Talsmönnum BMJ varð auðvitað brugðið. Þeir komust nú að því að þessir sjálfstæðu staðreyndadómarar voru ekki undir neinu eftirliti og gátu í raun stimplað hvern sem var, hvenær sem var sem misvísandi, fals eða eitthvað þaðan af verra og hindrað aðgang að upplýsingum. Ekki var neinn vettvangur til að verja þessa ákvörðun, ekki var hægt að fá upplýsingar um hvaða staðreyndavillur væri um að ræða og niðurstaðan væri einfaldlega ritskoðun eftir hentugleik. Ólíkt þeim vísindamönnum sem fara yfir efni í BMJ eru þeir sem brennimerktu greinina með merkimiðanum „missing context“ fyrir hönd Facebook svo alls engir sérfræðingar í málefninu sem um ræðir. Þetta eru að jafnaði blaðamenn með litla sem enga sérfræðiþekkingu á málefninu sem um ræðir, og það gildir um þetta dæmi. Hvaða forsendur hafa þeir til að dæma ritrýndar greinar virtra tímarita sem nákvæmt eða ónákvæmt?

Lead Stories og Pfizer

Hinn sjálfstæði staðreyndadómari í þessu tilfelli var fyrirtækið „Lead Stories“, sem er eitt tíu fyrirtækja sem Facebook greiðir fúlgu fjár til að sjá um ritskoðun af þessu tagi. Þegar þeir sem vildu skoða hvað lægi á bakvið stimpilinn við grein BJM og fylgdu hlekk að Lead Stories var ritskoðunin útskýrð á þá leið að engin af þeim uppljóstrunum sem Brook Jackson færði BMJ sýndu fram á að tilraunir Pfizers væru „vanhæfar“. Á bakvið þá niðurstöðu var vísað í talsmann frá Pfizer fyrirtækinu sjálfu, sem sagði að fyrirtækið hefði farið yfir ábendingar Brookes (sem var rekin fyrir uppljóstranirnar) og að þeir hefðu ekki fundið neitt sem „myndi ógilda gögnin eða stofna heilindum rannsóknarinnar í hættu“ (Coombes og Davies, 2022). Þetta var látið nægja sem sönnun.

Í útskýringu Lead Stories var British Medical Journal, tímarit sem var stofnað árið 1848 og þykir meðal mikilvægustu og vönduðustu vísindatímaritum heims, lýst sem „fréttabloggi“. Titillinn á útskýringunni var með háletraðri fyrirsögn „Farið yfir gallana“ (Flaws reviewed), þrátt fyrir að engir efnislegir gallar hefðu í raun fundist á greininni. Í vefslóðinni að útskýringunni mátti finna setninguna „hoax alert“ (svindl aðvörun).

BMJ hafði samband við Lead Stories og krafðist þess að þessi staðreyndaprófun yrði fjarlægð. Lead Stories neituðu á þeim forsendum að þeir væru ekki ábyrgir fyrir því hvað Facebook gerði, og bjó þannig til hringskýringu. Þeir réttlættu svo stimpilinn á þeim forsendum að þeir hefðu ekki dregið í efa heilindi og réttleika sjálfrar greinarinnar heldur aðeins „samhengið“ og því væri stimpillinn „samhengi vantar“ sett á. Auk þess hefðu hættulegir hópar „and-bólusetningarsinna“ (anti-vaxers) deilt greininni.

BJM hafði þá samband við „the International Fact-Checking Network (IFCN)“, sem er nú orðin stofnun sem fær fjármagn frá tæknirisum á borð við Google og Facebook og heldur utan um það hvaða fyrirtæki mega og mega ekki stunda staðreyndadómgæslu á efni á netinu. Þau viðurkenndu að engir staðlar væru um þessa staðreyndadóma, dómarnir væru ekki gegnsæir og því ekki gagnrýnanlegir, og engin bein leið væri til að verjast þessum ásökunum um fals. Við nánari eftirgrennslan viðurkenndi stofnunin að „staðreyndaprófun“ væri „háð áliti einstakra gagnrýnenda“ (“subject to individual reviewer opinion“)!

Sú grein sem um ræðir er reyndar sláandi og ætti að vera á hvers manns vörum. En, kannski vegna þess að staðreyndadómarar Facebook hafa brennimerkt hana, þá hafa fjölmiðlar haldið að sér höndum við að birta það sem í henni kemur fram. Þetta undirstrikar enn þann skaða sem staðreyndadómarar geta valdið. Þeir sem eyða ekki miklum tíma í upplýsingaöflun og rekast á svona stimpil eru eflaust ólíklegri en ella til að skoða málið nánar.

Vandamálið í stærra samhengi

BJM er auðvitað ekki eina stofnun virtra fræðimanna sem hefur lent á höggstokki staðreyndaprófara. Cochrane, sem er einhver virtasta stofnun heims á sviði raunverulegrar vísindalegrar gagnrýni, hefur fengið svipaða meðferð á efni sínu. Þeir voru „skuggabannaðir“ af Instagram með stimpli sem sagði að Cochrane hefði sett inn efni sem stríddi gegn leiðbeiningum um „fals efni“, en þá var sérstaklega talað um vel ritrýnda og vandaða grein um lyfið Ivermectin. Þegar Cochrane kvartaði undan þessari vitleysu var þeim tjáð að um væri að ræða eftirlitskerfi sem notaðist við gervigreind. Þar var allt jákvætt tal um Ivermectin sjálfkrafa stimplað sem fals. Þrátt fyrir að ekki væri hægt að benda á eina einustu staðreyndavillu hjá Cochrane hélst stimpillinn á sínum stað.

Ef meir að segja British Medical Journal og Cochrane tekst ekki að fjarlægja gjörsamlega fjarstæðukenndan stimpil á efni sitt, þá á í raun enginn þeirra sem eru teknir út af þessari nýju hugsunarlögreglu möguleika á því. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar rekist er á merkimiða um „fact check“ á samfélagsmiðlum.

Einstaklingar fjarlægðir

En helstu aðgerðir staðreyndadómara hafa verið að fjarlægja gagnrýna einstaklinga af samfélagsmiðlum. Öruggasta leiðin til að vera gerður útlægur úr fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og í raun samfélaginu öllu nú á dögum er að fjalla á gagnrýninn hátt um viðbrögðin á heimsvísu við covid-19 faraldrinum, og þá sérstaklega hvað bóluefnin varðar. Allt tal sem víkur frá þeim sannleika að bóluefnin séu fullkomin, skaðlaus og að stórfelld innilokun heilbrigðs fólks sé heilsufarslega snjöll aðgerð eru falsupplýsingar. Meðal þeirra fyrstu til að vera hent út af sannleiksembættum samfélagsmiðlanna var Li-Meng Yan veirufræðingur fyrir að gefa í skyn að sars-cov-2 hafi verið hönnuð í rannsóknarstofu. Meðal ótal annarra sem hafa framið þann glæp að benda á rannsóknir, segja eitthvað sem fylgir ekki línunni o.s.frv. eru Scott Atlas, prófessor í heilsuvísindum og geislafræðum hjá Stanford Háskóla, Robert W. Malone vísindamaður og frumkvöðull í mRNA lyfjatækni, Naomi Wolf, blaðamaður og rithöfundur, Alex Berenson, blaðamaður hjá New York Times, Martin Kulldorff, sóttvarnarfræðingur og prófessor í Harvard háskóla, Michael Yeadon, fyrrum varaforstjóri Pfizer og ótal fleiri, oft hámenntaðir sérfræðingar í læknisfræði, sóttvörnum og lífeindavísindum. Þau hafa verið brennimerkt og svo gott sem útilokuð úr frekari almennri umræðu. Þegar covid-faraldrinum lýkur tekur næsta eldfima efni við.

Ritskoðun – hið eðlilegasta mál

Smám saman hefur fjölmiðla- og samfélagsmiðlarisarnir gert okkur ljóst að þeir geta og mega ritskoða hvern sem er, hvenær sem er og það eru þeir sjálfir sem velja hvað er satt og hvað er ekki satt. Það vakti auðvitað mikla athygli að sjálfur þáverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var bannaður á öllum helstu samfélagsmiðlum eins og hendi væri veifað, og öll rúmlega 47 þúsund innleggin sem hann og embætti hans höfðu sett frá sér á samfélagsmiðlum á borð við Twitter voru hreinlega þurrkuð út. Áhrifamestu fjölmiðlarnir og samfélagsmiðlarnir tóku þátt í sameiginlegu og nánast útilokuðu sjálfan forseta öflugasta ríkis heims úr opinberri umræðu. Það sama gilti um stuðningsmenn hans og alla sem á einhvern mögulegan eða ómögulegan hátt var hægt að tengja við áhlaupið á Capitol-bygginguna í Bandaríkjunum. Twitter eyddi t.d. meira en 70 þúsund reikningum á einungis nokkrum dögum (Hutchinson, 2021). Það var gert í nafni þjóðaröryggis. Þetta samstarf, og sá hraði sem var á hreinsun efnisins var makalaus. Hraðinn og samræmingin var með ólíkindum, og öllum var nú ljóst að ef menn héldu sig ekki á línunni yrðu menn fjarlægðir.

Staðreyndaskoðun er blekkjandi

Staðreyndadómar eru vafasöm iðja, jafnvel þegar hún er framkvæmd af hinum bestu dómurum. Hægt er að taka dæmi af frægustu og mest notuðu vefsíðu staðreyndadómara; Snopes. Hún varð til árið 1994. Þetta er draumasíða þeirra sem nenna ekki að eyða tíma í langan lestur og vilja vita hvort stórar fullyrðingar eigi við rök að styðjast eða ekki. Þetta getur óneitanlega verið gagnleg síða og sparað tíma, og greinar Snopes hafa hjálpað við að losa heiminn við ýmsar rangar fullyrðingar í gegnum tíðina. En í starfsemi fyrirbæra eins og Snopes eru alvarleg þekkingarfræðileg vandamál sem gera það að verkum að efnisval þeirra og greinar geta sjálfar haft mjög blekkjandi áhrif.

Kalev Leetaru, blaðamaður hjá Forbes, sendi ítarlegan spurningalista til David Mikkelson, stofnanda Snopes, til að reyna að komast til botns í því hvort sögusagnir um það hvernig Snopes starfar í raun ættu við rök að styðjast og brá í brún að sjá svörin. Í ljós kom að Snopes hefur gert leynilega samninga við fyrirtæki á borð við Facebook og neitar að ræða efni þeirra. Þetta útilokar að Snopes starfi sjálft fyrir opnum tjöldum á hlutlausan hátt og gerir fyrirtækið sekt um hræsni ef það sakar aðra um að vera með leynilega samninga. Fjöldi starfsmanna hjá Snopes voru um leið virkir meðlimir í stjórnmálaflokki (Demókrataflokknum) eða starfsmenn í fyrirtækjum. Snopes hafði enga sérstaka síu fyrir slíka hagsmunaárekstra, sem er í sjálfu sér áhyggjuefni. Í svörum Mikkelson kom einnig fram að margir unnu saman að hverri grein, þó einungis eitt nafn væri sett við hana. Á síðunni er heldur engin rás þar sem höfundar greina sem hafa verið stimplaðar hjá Snopes geta svarað gagnrýni eða leiðrétt misskilning.

Það eru mjög mikil þekkingarfræðileg vandamál við það hvernig Snopes starfar, sérstaklega þegar engar kvaðir eru á því hvort þeir sem standa að baki þessum greinum séu hlutdrægir í sjónarmiðum og hagsmunum eða ekki. Síðan tryggir notendur sína að engu leyti gegn kirsuberjatínslu, þar sem veikustu rök eða gögn einhvers andstæðings eru sérstaklega valin, véfengd og svo notuð til að draga úr trúverðugleika andstæðingsins í heild sinni. Það hvaða fréttir verða fyrir valinu fyrir staðreyndaathugun og hverjar ekki getur einnig haft mikil áhrif á almannaálitið, ef Snopes nýtur mikils trausts í samfélaginu.

Nafngiftin á þessari stórfelldu ritskoðun „fact check“ er gildis- og merkingarhlaðin í sjálfu sér. Þegar upplýsingar eru fjarlægðar úr vettvangi samfélagslegra umræðna af einstaklingum sem kalla sig sjálfstæðir staðreynda-athugarar“ (independent fact checkers) þá gefur sú iðja beinlínis í skyn að upplýsingarnar séu rangar. Jafnvel þó að við gefum okkur að ásetningur þessara ritskoðara sé göfugur, þá er ekki annað hægt en að hnjóta um það hversu mikill hroki, forræðishyggja og vantraust á almenningi liggur á bakvið slíkt frumkvæði sem starfsemi þessara staðreyndadómara er. En þrátt fyrir það eru miðlar eins og Snopes ekki jafnmikið áhyggjuefni og hin stórfellda og samræmda ritskoðun sem nú á sér stað í gegnum samstarf ríkisvaldsins og einkarekinna fjölmiðla og samfélagsmiðla.

- Við eigum sannleikann

Ritskoðun á samfélagsmiðlum, þessum stærsta umræðuvettvangi samtímans, er auðveldari en hún hefur nokkurn tímann verið. Þetta er vegna þess að samfélagsmiðlarnir eru einkafyrirtæki, og eru því ekki bundin þeim lögum og reglum og hið opinbera er. Þau geta gert það sem þau vilja. Sú röksemdarfærsla að það sé einungis hið opinbera sem þarf að fylgja gildismiðum um lýðræði og mannréttindi, en einkafyrirtæki geti hagað sér eins og ógnar- og alræðisríki, hefur einhvern vegin fest sig í sessi og þá ekki síst hjá meintum vinstrisinnum. Þegar haft er í huga að Apple Inc. eitt og sér er metið á virði meira en þrjár billjónir (trillion) Bandaríkjadala (Nahar, 2022) og að einungis fjögur ríkishagkerfi eru stærri en það, þá er slíkt viðhorf orðhengilsháttur af verstu gerð. Sannleikurinn er sá að risafyrirtæki nútímans eru efnahagslega mun betur stæð en þjóðríkin. Völd Twitter eru meiri en völd Íslands, og umræðuvettvangur hans er mikilvægari en RÚV. Svo gróf ritskoðun og áróðursstarfsemi sem stunduð er á þessum vettvangi snertir okkur öll og gerir þessi risafyrirtæki hættuleg.

Þeir sem hreinsa út efni og aðgang fólks þurfa nú lítið sem ekkert að útskýra hvers vegna ritskoðunin átti sér stað. Facebook hefur þurft að viðurkenna það að það sem þeir kalla „staðreyndaskoðun“ (fact check) er í raun ekkert annað en „skoðun“. Þetta viðurkenndu forráðamenn Facebook í kjölfar málsóknar blaðamannsins John Stossel gegn fyrirtækinu, en í þeim tilgangi samt að koma í veg fyrir lögsóknir. Það er nefnilega ekki hægt að kæra skoðanir. Það að þeir kalli ritskoðunina „fact check“ er því beinlínis rangt (Stossel, 2021).

Eftir höfðinu dansa limirnir

Þetta viðhorf samfélagsmiðlanna, að hreinlega henda út upplýsingum og einstaklingum sem þeim finnst ekki vera með réttar skoðanir, er farið að dreifast til vefstjóra á blaðsíðum samfélagsmiðlanna. Æ algengara er að sjá umræðum sem vefstjórum finnst óþægilegar, skrítnar, eða bara hvað sem er, einfaldlega lokað eða þær fjarlægðar alveg. Æ fleiri herferðir eru í gangi meðal almennings um að loka á tjáningarleiðir einstaklinga, hér á landi og á heimsvísu. Grínarar eins og David Chapelle og Joe Rogan eru kannski stærstu og nýjustu dæmin, en það sem er virkilega áhyggjuefni er það hversu algeng og eðlileg þessi iðja, að loka á fólk, er orðin. Ritskoðun hefur verið normaliseruð.

Þessu hreinsunarátaki verður að linna. Ef fólk er, af ótta við félagslega útskúfun og jafnvel það að missa vinnu sína, orðið hrætt við að tjá sig, þá mun opinber umræða og framfarir sem af henni leiða hljóta alvarlegan skaða af. Ef ekkert er samþykkt nema örmjó ræma af sjónarmiðum tekur bergmálsklefinn, undir handleiðslu valdamesta fólks heims, við af lýðræðinu. Þöggun og ritskoðun mun ekkert gott leiða af sér og það er kominn tími til að við, meintir talsmenn málfrelsisins, tökum höndum saman og berjumst skýlaust fyrir tjáningarfrelsinu. Endurheimtum hugsjón um umburðarlyndi og frjálsa umræðu áður en það verður um seinan.


Heimildir

BBC. 2020 (10.12). Trusted News Initiative (TNI) to combat spread of harmful vaccine disinformation and announces major research project. BBC Media Centre. https://www.bbc.com/mediacentre/2020/trusted-news-initiative-vaccine-disinformation

Coombes, R. og Davies, M. 2022. Facebook versus the BMJ: When fact checking goes wrong. The British Medical Journal: Medicine and the Media, 376. doi: https://doi.org/10.1136/bmj.o95

Facebook. 2020 (16. Mars). Working With Industry Partners. Sameiginleg yfirlýsing frá Facebook, Google, LinkedIn, Microsoft, Reddit, Twitter and YouTube. Facebook. Sótt frá https://about.fb.com/news/2020/12/coronavirus/#joint-statement

Hutchinson, A. 2021. Twitter has suspended more than 70,000 accounts following the Capitol riots. Social Media Today. https://www.socialmediatoday.com/news/twitter-says-its-suspended-more-than-70000-accounts-following-the-capitol/593193/

Kunova, M. 2020. Google is giving $6.5 million to fact-checkers focusing on coronavirus. Journalism.co.uk, 2. Apríl 2020. Sótt frá https://www.journalism.co.uk/news/google-gives-6-5-million-to-fact-checkers-focusing-on-coronavirus/s2/a753952/

Nahar, P. 2022. Apple's m-cap at $3 trillion less than just 4 nations' GDP. The Economic Times (04.01). https://economictimes.indiatimes.com/markets/stocks/news/apple-m-cap-at-3-trillion-only-four-nations-worth-more-than-the-iphone-maker/articleshow/88685135.cms?from=mdr

Stossel, J. 2021. Here’s where the ‘facts’ about me lie — Facebook bizarrely claims its ‘fact-checks’ are ‘opinion’. New York Post. https://nypost.com/2021/12/13/facebook-bizarrely-claims-its-misquote-is-opinion/

Thacker, P. 2021. Covid-19: Researcher blows the whistle on data integrity issues in Pfizer’s vaccine trial. The British Medical Journal: BMJ Investigation, 371, (November 2021). doi: https://doi.org/10.1136/bmj.n2635

Varghese, S. 2018. Twitter has purged left-wing accounts with no explanation. Wired. https://www.wired.co.uk/article/twitter-political-account-ban-us-mid-term-elections