Þrjú innlegg gegn lokunarstefnu

29. október, 2020 Þórarinn Hjartarson(Eftirfarandi grein tjáir aðeins sjónarmið höfundar)

Alveg frá byrjun covid-19 faraldursins austur í Kína hefur ráðandi fjölmiðlaumræða talað um þetta fyrirbæri eins og plágu á borð við Spænsku veikina eða slíkar drepsóttir. Og á orðræðunni um „þriðju bylgjuna“ má enn skilja að covid sé helsta ógn og dánarorsök nú um stundir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessu, samræmd í flestum aðildarríkjum SÞ, allt frá byrjun mars sl. hafa verið samfélagslegar lokanir þar sem samfélögum, atvinnulífi, samgöngum og félagslegum samskiptum hefur verið lokað og læst að meira eða meinna leyti. Það er það sem hér er nefnt „lokunarstefna“.

Covid er ekki helsta ógnin. Ár hvert deyja milli 50 og 60 milljónir jarðarbúa. Hjartasjúkdómar drepa um 17 milljónir og krabbamein 9,6 milljónir á hverju ári. En hingað til árið 2020 eru 1.1 milljón dauðsföll í heiminum skráð sem „covidtengd“. Rannsóknir sýna að yfir 90% hinna látnu höfðu fyrirfram einn eða fleiri aðra undirliggjandi sjúkdóma sem einnig áttu þátt í viðkomandi dauðsfalli.

Covidhættan nægir samt stjórnvöldum og fjölmiðlunum til að halda almenningi í sífelldum ótta með háum tölum um smit. Fréttir RÚV nú í vikunni: „Metfjöldi smita greinist dag eftir dag í nær hálfri Evrópu. Þessi bylgja faraldursins er sú stærsta til þessa…“ „[Kórónuveirusmit] hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn braust út“.

Hópsmitið á Landakoti var alvarlegt mál. En langflestir sem látist hafa af covid-19, á Íslandi sem annars staðar, dóu í vor. Samt er samfélagið enn og aftur og áfram sett á hiðina „í sóttvarnarskyni“. Við horfum fram á annan vetur eymdar og volæðis og varanlega samfélagsbreytingu – upp rís eftirlitssamfélag í nafni sóttvarna.

„Umræðuna“ á Íslandi um viðbrögðin gagnvart covid verður að hafa innan gæsalappa. Ákvarðanir eru teknar í samráði þríeykis og ráðherra. Upplýsing og ákvarðanir ganga aðeins í eina átt, ofan frá og niður. Þar á ofan er sú sóttvarnarstefna sem framfylgt er í grófum dráttum samkeyrð á heimsvísu og óljóst hvar sú stefna var mótuð. Eiginleg umræða um hana, og eiginlegt lýðræði, eiga mjög erfitt uppdráttar.

Gagnrýnar spurningar um hina ríkjandi stefnu heyrast samt í vaxandi mæli þrátt fyrir glymjanda mötunarvélarinnar. Eðlilega koma margar þeirra úr heilbrigðisgeiranum. Erlend dæmi: Fjölþjóðlegur hópur nokkur hundruð lækna og vísindamanna á heilbrigðissviði stofnaði World Doctors Alliance á stofnfundi í Berlín nú 10. október. Meðlimir hópsins deila reynslu sinni og ganga gegn lokunarstefnunni með öllum hennar gríðarlegu hliðarverkunum. Undirskrifendur eru nú rún 30 þúsund. Læknasamband þetta kynnir sig á eigin netsíðu, sjá hér. Tveimur vikum fyrr var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki þar í landi. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og þess að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi í landinu. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Meiri athygli hefur þó vakið svonefnd Great Barrington-yfirlýsing. Það er yfirlýsing þriggja alþjóðlega viðurkenndra sérfræðinga í smitsjúkdómum sem eru prófessorar þriggja leiðandi háskóla – um stefnumótun vegna COVID-19, samin og undirrituð í Great Barrington í Bandaríkjunum 4. október 2020. Yfirlýsingin hefur fengið undirskrift yfir 10 þúsund lýðheilsusérfræðinga og yfir 30 þúsund lækna vítt um heiminn. En hópurinn hefur þó fengið krúnuna kembda og mátt þola mikla sverti-herferð á Google og ritskooðun á YouTube. Það auðveldaði andstæðingum hans leikinn að hugveitan sem stóð að fundinum i Barrington, American Institute for Economic Research, er þekkt fyrir frjálshyggjupólitík. Það breytir því þó ekki að yfirlýsing þessi er ljóst merki um faglegan ágreining um sóttvarnastefnuna, enda höfundarnir alveg leiðandi vísindamenn á sínu sviði.

Hér á eftir verða tilfærð þrjú innlegg í covidumræðuna í októbermánuði. Það fyrsta er einmitt Great Barrington yfirlýsingin. Hin innleggin tvö koma ekki frá neinum „uppreisnaröflum“ í covidumræðunni heldur birtust þau á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en þau gefa samt bendingu í öfuga átt við það sem haldið er að okkur frá morgni til kvölds. Þó innleggin séu úr ólíkum herbúðum eiga þau þó það sameiginlegt að varpa gagnrýnu ljósi á lokunarstefnuna.


I. Great Barrington-yfirlýsingin

Great Barrigton-yfirlýsingin veldur deilum og er ötuð auri. Það er ekki óvænt þar sem hún gengur gegn núgildandi aðferð í baráttunni við covid, einkum því atriði að lokunarstefna og einangrun viðkvæmra jafnt sem hraustra sé lykillinn að árangri. Sérfræðingarnir á Barringtonfundi ganga m.a. út frá þeim tölfræðilega veruleik að munur á áhættu gagnvart veirunni sé gríðarlegur milli ólíkra samfélagshópa, þúsundfaldur munur milli æskulýðs og þeirra elstu segir þar. Strategía þeirra er því aldursmiðuð. Einnig fjallar yfirlýsingin um óhemjuleg og niðurrífandi samfélagsleg – og heilsufarsleg – áhrif lokunarstefnunnar. Yfirlýsinguna má sjá hér https://gbdeclaration.org/view-signatures/ og stytt útgáfa hennar hljóðar svo í þýðingu:

„Núgildandi lokanir (lockdowns) hafa eyðileggjandi áhrif á lýðheilsu til styttri og lengri tíma litið. Áhrifin eru m.a. fækkandi bólusetningar á börnum, minni árangur af hjartalækningum, færri krabbameinsskoðanir og versnandi geðheilsa – sem leiða til hækkandi dánartíðni á komandi árum – þar sem verkafólk og ungt fólk verður verst úti. Að halda nemendum frá námi er mjög alvarlegt óréttlæti. Verði þessum aðgerðum haldið til streitu uns bóluefni er tiltækt valda þær óafturkræfu tjóni, sem einkum bitnar á lægri lögum samfélagsins.

Sem betur fer eykst þekkingin á vírusnum. Við vitum að hættan á dauða er þúsundfalt meiri hjá öldruðum og sjúkum en hjá ungu fólki. Raunar stafar börnum minni hætta af COVID-19 en af mörgum öðrum sjúkdómun, m.a. inflúensu.

Eftir því sem ónæmi eykst minnkar hættan á sýkingum almennt – og þá líka hjá viðkvæmum hópum. Við vitum að allar þjóðir munu einhvern daginn ná hjarðónæmi – þ.e. þeim punkti að hlutfall nýrra sýkinga verður stöðugt – og að þessa þróun má styðja með (en hún er samt ekki háð) bóluefni. Markmið okkar hlýtur því að vera að dauðsföll verði eins fá og hægt er og félagslegt tjón eins lítið og mögulegt er uns við náum hjarðónæmi.

Mannúðlegasta nálgunin til að ná hjarðónæmi er jafnvægi milli áhættu og árangurs. Þannig ætti að leyfa þeim sem eru í minnstri lífshættu að lifa eðlilegu lífi í því skyni að auka ónæmi gagnvart vírusnum – ónæmi sem er náð með náttúrulegu smiti. Á sama tíma á að verja þá sem eru í mestri áhættu. Þetta köllum við markvissa vernd.

Mikilvægasti þáttur opinberra aðgerða og fyrirmæla gagnvart faraldrinum er að verja þá sem eru viðkvæmir. Sem dæmi má nefna að starfsfólk hjúkrunarheimila þyrfti sem flest að hafa náð ónæmi og framkvæma þarf tíðar skimanir fyrir veirunni hjá öðru starfsfólki og öllum gestum. Starfsmannaveltu og -breytingum þarf að halda í lágmarki…

Þeim sem ekki eru í áhættuhópi ætti án tafar að heimila að snúa aftur til eðlilegs lífsmynsturs. Einfaldar varúðarráðstafanir, s.s. handþvottur og að dvelja heima í veikindum, þyrftu allir að gera til að lækka „hjarðónæmisþröskuldinn“. Skólar og háskólar ættu að kenna með staðnámi. Annarri virkni, s.s. íþróttum ætti að halda áfram. Ungt fólk í lágmarksáhættu ætti að vinna áfram með óbreyttu lagi, frekar en frá heimilum sínum. Veitingahús og aðrir í viðskiptum ættu að halda opnu. Listir, tónlist, líkamsrækt og önnur menningarstarfsemi ætti að halda áfram. Fólk í aukinni áhættu má taka þátt að vild, á meðan samfélagið sem heild verndar viðkvæma með skjóli þeirra sem mynda hjarðónæmi.“

Svo mörg voru þau orð. Höfundar eru Dr. Martin Kulldorff, prófessor við Harward-háskóla, dr. Sunetra Gupta, prófessor við Oxford-háskóla, dr. Jay Bhattacharya, prófessor við Stanford-háskóla. Öll eru þau faraldsfræðingar og ennfremur sérfræðingar í smitsjúkdómum og ónæmi.

Þessi covid-strategía sem nú er kennd við Great Barrington felur í sér viðhorf sem hvað algengust eru meðal þeirra sem hafna gildandi stefnu. Stefna þessi er líka í góðum samhljómi við þá nálgun sem mælt hefur verið með í þessu riti, ekki síst greinum Jóns Karls Stefánssonar, sjá hér og hér. Enn frekar sýnist þessi nálgun vera í góðum samhljómi við almenna skysemi.

Þá staðfestir yfirlýsingin það að valið stendur auðvitað ekki á milli „lokunarstefnu“ og þess að „gera ekki neitt“ í sóttvarnarskyni eins og gjarnan er gefið í skyn. Hún horfir til almennrar lýðheilsu – og samfélagslegs ástands – en einblínir ekki á smitbælingu. „Það er hættulegt að tala um lokanir án þess að viðurkenna hinn gríðarlega kostnað sem hún hefur fyrir aðra viðkvæma hópa samfélagsins“ segir Sunetra Gupta. https://unherd.com/2020/05/oxford-doubles-down-sunetra-gupta-interview/

— — — — — —

Látum þetta nægja að sinni frá „uppreisnaröflum“ og tilfærum í staðinn tvo texta koma frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO). Sú stofnun hefur framundir þetta verið boðberi þeirrar stórslysalegu sóttvarnarstefnu sem ríkt hefur – og hrollvekjandi spár þaðan sl. vetur voru hvað mest notaðar til að réttlæta lokunarstefnuna.


II. „Við í WHO mælum ekki með lokunarstefnu sem meginaðferð til að ná stjórn á veirunni“

Í faraldrinum í vor mælti Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) með lokunarstefnu sem aðferð gegn covid-19 (auk hins gríðarlega ofmats á drepsóttarhættunni). En 11. október sl. setti topp-enbættismaður WHO, David Nabarro, fram breytt viðhorf til samfélagslegra lokana í vitali við breska The Spectator. „Lokanir hafa afleiðingar sem aldrei má gera lítið úr og það er að þær gera fátækt fólk fátækara“, sagði hann. Þegar Nabarro var spurður um viðhorf áðurnefndrar Sunetra Gupta í Oxford, hin eyðileggjandi áhrif lokana á samfélagið og einkum þá viðkvæmari hafði þessi leiðandi enbættismaður WHO þetta að segja:

„Mjög mikilvægt atriði frá prófessor Gupta. Ég endurtek: Við í WHO mælum ekki með lokunum sem meginaðferð til að ná stjórn á þessari veiru… Sjáðu hvað gerðist hjá smábændum um allan heim… Sjáðu hvað gerist með fátæktarstigið. Það lítur út fyrir að við fáum tvöföldun fátæktar á næsta ári. Það er ekki ólíklegt að við fáum tvöföldun vannærðra barna. Við áköllum stjórnvöld allra landa: Hættið að beita lokunum sem meginaðferð til að ná stjórninni.“ https://twitter.com/spectator/status/1314573157827858434

Nabarro sýndi vissulega ekki nægan manndóm til að viðurkenna slysaleg mistök stofnunarinnar. Engu að síður sýnist þetta vera merki um að VIÐSNÚNINGUR sé í farvatninu hjá WHO, þar sem fulltrúar stofnunarinnar viðurkenna í raun skaðsemi þeirrar stefnu sem valin var sl. vetur. Ég ímynda mér að WTO sé hér að baktryggja sig þegar hrikalegar efnahags- og félagslegar „hliðarverkanir“ stefnunnar verða smám saman lýðum ljósar. „Hliðarverkaniranar“ eru vel að merkja ekki verkanir sjúkdómsins sjálfs heldur stafa þær af VIÐBRÖGÐUNUM við honum, lokunarstefnunni.

Hér á landi hafa Þríeykið og stjórnvöld gjarnan stutt orð sín og lokunarstefnuna með afstöðu WHO. Hvernig bregðast þau þá við þessum nýju merkjasendingum þaðan?


III. John Ioannidis: miklu lægra dánarhlutfall en metið var í byrjun

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur í Bulletin of the World Health Organization 14. október sl. birt ritrýnda grein eftir viðurkenndan faraldsfræðing, John Ioannidis (prófessor Stanford University), um dánartíðni af völdum covid-19 sem sýnir að dánarhlutfall allra smitaðra af veirunni fyrir fólk undir sjötugu er 0,05%, sem er talsvert lægra en fyrir venjulega inflúensu.

Rannsókn Ioannidis bendir til að dánarhlutfall smitaðra (IFR) af covid sé allbreytilegt frá einu svæði til annars í veröldinni:

„Óleiðrétt mat á dánarhlutfalli smitaðra af covid-19 var breytilegt, frá 0,01% til 0,67% (miðgildið 0,1%) á 19 stöðum með dánartíðni undir alþjóðlegu meðaltali, frá 0,07% til 0,73% (miðgildi 0,2%) á 17 stöðum með dánartíðni yfir meðaltali en samt með minna en 500 covidtengd dauðsföll pr. milljón íbúa, og frá 0,2% til 1,63% (miðgildi 0,71%) á 15 stöðum sem höfðu yfir 500 covid-dauðsföll pr. milljón íbúa. Miðgildi dánarhlutfalls var samkvæmt leiðréttu mati 0,09%, 0,20% og 0,57% fyrir þessa þrjá ólíkt staðsettu hópa.“

En fyrir aldurshópinn undir 70 ára aldri var niðurstaða Ioannidis hins vegar þessi: „Fyrir fólk undir 70 ára aldri var dánarhlutfall smitaðra af covid á 40 stöðum með aðgengilegu talnaefni frá 0,00% til 0,31% (miðgildi 0,05%). Leiðrétt mat var það sama.“ https://www.who.int/bulletin/online_first/BLT.20.265892.pdf

Talan 0,1% sýnist vera viðurkennd tala (meðaltal) fyrir dánarhlutfall árstíðabundinnar inflúensu í seinni tíð. Það þýðir þá að skv. tölum Ioannidis um covid-19 er dánarhlutfall smitaðs fólks undir sjötugu helmingi lægra af þeim sjúkdómi en af venjulegri inflúensu, en ef reiknað er fyrir alla aldurshópa er dánarhlutfallið nokkru hærra fyrir covid-19. Ionnadis skrifar í niðurstöðum sínum: „Hið ályktaða dánarhlutfall smitaðra virðist vera miklu lægra en í því mati sem gert var á fyrri stigum faraldursins.“

Enn aðrar upplýsingar komu frá WHO í október. Það var í tilkynningu frá framkvæmdaráði WHO þann 5. október. Þar er ályktað að um 10% jarðarbúa hafi þegar smitast af covid-19 (skv. okkar „bestu áætlun“) . Miðað við að 1 milljón hafi látist af völdum covid-19 gæfi það um 0,14% dánarhlutfall – sem er ríflega venjulegt hlutfall af völdum inflúensu . https://off-guardian.org/2020/10/08/who-accidentally-confirms-covid-is-no-more-dangerous-than-flu/


Hin raunverulega katastrófa

Í tölum John Ioannidis er aðeins metið hversu mannskæður sjúkdómur covid-19 er en ekkert fjallað um fórnarlömb lokunarstefnunnar þar sem tölur yfir fórnarlömb eru miklu hærri. Þar nægir raunar að minnast á orð Nabarros um tvöföldun fátæktarstigs í heiminum og tvöföldun vannæringar barna, einnig mætti minna á alla þá öldruðu sem nú lifa og deyja í einsemd og eymd, eða minnast á vaxandi alkohólisma, kvíða, þunglyndi og heimilisofbeldi meðal atvinnuleysingja o.s.frv.

Sem sýnir að lokunarstefnan drepur miklu meira en hún bjargar – og breytir farandveiki í djúpa samfélagslega kreppu. Og 1 milljón látnir er vissulega slæmt en það er 1 milljón af 7800 milljónum jarðarbúa og ef fátæktarstig og vannærð börn meðal allra þeirra milljóna tvöfaldast af völdum þessarar stefnu er það hin raunverulega katastrófa.

Merki