Sýrland og dauðalistinn
—
Stjórn Bashar al-Assads í Sýrlandi féll snemma í desember fyrir íslamíska andstöðuhópnum Hayat Tahrir al-Sham (HTS) og vopnabræðrum hans. Þessu var lýst á Vesturlöndum sem uppgjöri almennings við illræmdan einræðisherra, eins og Sýrlandsstríðinu hefur verið lýst frá byrjun 2011. Þeir sem ekki gleypa vestrænar fjölmiðlafréttir hráar vita hins vegar að þetta „borgarastríð“ hefur í óvenjulegum mæli verið geopólitískt stríð um Sýrland, stríð utaðanaðkomandi afla og íhlutana.
Nokkrir í því sambandi rifjað upp bandarískan lista frá árinu 2001, dauðalista yfir útsigtaðar ríkisstjórnir í Austurlöndum nær, lista yfir lönd sem þá voru skilgreind sem skotmörk bandarískra hermálayfirvalda. Sýrland var land númer tvö á listanum.
Listinn komst í hámæli árið 2007. Þá ljóstraði Wesley nokkur Clark upp um hann og kom með frásögn úr valdamiðstöðvum bandarískra hermála. Wesley Clark var enginn N.N. úti í bæ, og engin Edward Snowden, heldur fjögra stjörnu bandarískur yfirhershöfðingi og fyrrum æðsti yfirmaður NATO í Júgóslavíustríðinu. Hann lýsti m.a. heimsókn sinni í hermálaráðuneytið Pentagon til þeirra Dick Cheney og Paul Wolfowitz árið 1991. Samkvæmt Clark sagði Wolfowitz þá að lok Kalda stríðsins gæfu alveg nýja möguleika, aðilar sem áður voru valdaðir af Sovétríkjum væru nú óvarðir:
„Við getum notað her okkar án þess að vera refsað, Sovétríkin munu ekki koma og stöðva okkur. Við höfum um það bil fimm eða tíu ár til að hreinsa upp gömlu skjólstæðingastjórnir Sovétríkjanna – Sýrland, Íran, Írak – áður en næsta stóra stórveldi kemur til sögunnar og skorar okkur á hólm.“
Já „áður en næsta stórveldi skorar okkur á hólm“ segir Wolfowitz-skýrslan og það var miðlægt atriði í hugsun strategistanna. Þetta var samtímis því (í ársbyrjun 1992) að Pentagon lagði fram sk. Wolfowitz-kenningu. Glefsum úr henni var þá lekið til New York Times og þar mátti lesa: „Fyrsta verkefni okkar nú er að koma í veg fyrir að til verði nokkur hnattrænn keppinautur [Bandaríkjanna]… “ Lok Kalda stríðsins skópu ný skilyrði fyrir bandaríka heimsvaldastefnu náði nú fullum þroska sem hnattræn yfirráðatefna.
Zbigniev Brzezinski, annar enn áhrifaríkari strategisti en Wolfowitz og í nánum tengslum við hann skrifaði árið 1997 bókina The Grand Chessboard. Þar segir í inngangi: „Ósigur og hrun Sovétríkjanna var lokaskrefið í uppgangi hins vestræna jarðarhvels, Bandaríkjanna, sem hið eina, og raunar fyrsta, hnattveldi… á meðan er áríðandi að enginn evrasískur keppinautur komi fram sem fær er um að verða ráðandi í Evrasíu og um leið að ögra Bandaríkjunum.“
Svo kom 11. september 2001. Hvernig svo sem hann kom til virkaði hann sem rásmerki. Í beinu framhaldi af honum, á fyrri hluta árs 2002 settu stjórnvöld í Washington fram lista yfir „öxulveldi hins illa“ sem voru Miðausturlöndin Íran, Írak, Sýrland og Líbía auk gömlu óvinanna Norður-Kóreu og Kúbu. Þetta var opinber listi um þau stjórnvöld sem ryðja þyrfti úr vegi. Eins og smám saman kom í ljós var þetta aðgerðaáætlun Risaveldisins eina á hernaðarsviðinu.
Dauðalistinn
Frá sama tíma er svo til talsvert lengri listi yfir skotmörk bandarískra heimsvaldasinna. Sá listi var ekki opinber heldur notaður að tjaldabaki. Á ný var það hershöfðinginn Wesley Clark sem sagði okkur frá þessum lista. Hann sagði frá því að hann hefði fljótt eftir sprengingarnar á Manhattan 11. september 2001 heimsótt Pentagon og hitt bæði Rumsfeld varnarmálaráðherra og aðstoðarráðherrann Wolfowitz. Vel að merkja, stríðið í Afganistan var þegar nýhafið. Clark hitti í ráðuneytinu annan hershöfðingja (ónefndan) sem hafði verið undirmaður hans í Júgóslavíustríðinu. Sá sagði honum tíðindi úr ráðuneytinu sem Clark þóttu hörð undir tönn:
„Hann dró upp blað af borðinu sínu – hann sagði: „Ég var að fá þetta minnisblað frá skrifstofu varnarmálaráðherra. Það lýsir því hvernig við munum ráðast á og eyðileggja ríkisstjórnir í sjö löndum á fimm árum – við ætlum að byrja á Írak og flytjum við okkur til Sýrlands, Líbanon, Líbíu, Sómalíu, Súdans og endum á Íran.“
Clark sagðist hafa orðið fyrir áfalli af hinum kappsfulla lista Wolfowitz, „væri þá tilgangur hersins að koma af stað styjöldum og steypa stjórnvöldum? Ekki að fæla þau frá átökum?“ Clark var þó síst neinn uppreisnarmaður heldur maður úr innri hring í hermálakerfi Bandaríkjanna
Hér má bæta við eftirfarandi: Samkvæmt orðum Jeffrey Sachs var
„listinn sem Wesley Clark sagði frá… upphaflega settur fram á 10. áratugnum af Benjamin Netanjahú, þar sem hann sagði: “Við þurfum að steypa öllum þessum ríkisstjórnum af stóli”.“
Líklega er ekki rangt að tala um dauðalistann sem sameiginlegan verkefnalista Bandaríkjanna og Ísraels, eða þá að segja að Netanyahu hafi talað fyrir hönd Bandaríkjanna þegar hann sagði „við þurfum að steypa öllum þessum ríkisstjórnum“.
Áætlun – aðgerð – ætlunarverki lokið
Ekki tókst Bandaríkjunum að fullnusta hina herskáu valdaskiptastefnu á 5 árum eins og áætlunin hljóðaði upp á. En það tókst á rúmlega tveimur áratugum að steypa 6 af 7 stjórnvöldum þessara landa í bandarískum og bandarísk-studdum valdaskiptaaðgerðum og styrjöldum. Förum nú örstutt yfir aðgerðaröðina:
1) Írak. Bandaríkin réðust sjálf þar inn árið 2003 (með Bretum og minniháttar aukahjálp) og steyptu stjórnvöldum landsins af stóli.
2) Sýrland. Stríð hófst 2011 með mikill bandarískri íhlutun frá byrjun og eftir 13 ár er Assadstjórnin loks fallin.
3) Líbanon. Landið hefur orðið fyrir ítrekuðum innrásum Ísraels með hjálp Bandaríkjanna og hefur því verið „misheppnað ríki“ um langt árabil.
4) Sómalía varð fyrir innrás Eþíópíu árið 2006 með stuðningi Bandaríkjanna.
5) Líbía. Stjórn Gaddafís var steypt af NATO – í samvinnu við hryðjuverkahópa íslamista – árið 2011, og Líbía hefur síðan verið „misheppnað ríki“ í eymd og upplausn.
6) Súdan. Fyrst: Bandaríkin studdu uppreisnaröfl til að kljúfa landið og stofna ríkið Suður-Súdan 2011. Síðan var stjórnvöldum Súdans steypt af stóli árið 2019 í valdaráni með mikilli CIA-íhlutun, og landið er síðan sokkið niður í hroðalegt borgarastríð.
Flestum þótti líklega þessi aðgerðaáætlun of ótrúleg til að geta verið raunveruleg þegar Wesley Clark sagði frá henni árið 2007. En þróun mála í þessum heimshluta sýnir að áætlunin er gallharður veruleiki, henni hefur verið fylgt stefnufast, í áratugi, skref fyrir skref. Þessi stríð hanga augljóslega saman, þau eru öll háð út frá sömu áætlun, eru öll á sama valdaskipta-verkefnalista frá 2001. Framkvæmdin var jafnan þannig að fyrst kom áætlun (mission) svo kom aðgerð (beint stríð, stríð gegnum staðgengla og/eða efnahagslegar refsiaðgerðir) og loks „ætlunarverki lokið“ (mission accomplished) með valdaskiptum sem yfirleitt hefur þýtt upplausn og eyðilegging viðkomandi ríkis.
Frá 2001 hafa fjórar ríkisstjórnir setið í Washington, tvær frá hvorum flokki. En utanríkisstefnan Bandaríkjanna kemur frá bandaríska djúpríkinu, í meginatriðum skiptir engu máli hvor tvíflokkanna situr við völd. Beitt er fjölbreytilegum aðferðum til valdaskipta, frá beinum innrásum yfir í misjafnar tegundir staðgengilsstríðs þar sem mjög er beitt baráttuaðferð trúarbragðaátaka – auk efnahagsstríðs.
Stríðin eru hins vegar háð undir göfugum og fögrum yfirskriftum, kölluð stríð „gegn hryðjuverkum“ eða „gegn harðstjórum“. Allt eru það sjónhverfingar: Hryðjuverkahópum er miskunnarlaust beitt í „stríði gegn hryðjuverkum“, enda eru hryðjuverkaherir meginverkfæri í aðgerðum Bandaríkjanna. Ráðist er gegn óæskilegum „harðstjórum“ með hjálp „æskilegra“ harðstjóra. „Friður og lýðræði“ eru liðssöfnunarslagorð, letruð á stríðsfána.
Tilfellið Sýrland – „uppreisnin“
Chris Hedges ræddi nýlega við breska diplómatann Alastair Crooke um Sýrland, m.a. um rætur „arabíska vorsins“ þar í landi sem okkur er sagt að hafi vertið “uppreisn”. Fram kom að Dick Cheney varaforseti hélt fund 2006 eftir misheppnaða innrás Ísraels í Líbanon þar sem Hezbolla vann sigur. Cheney var óánægður, Íraksstríðið hafði átti að veikja Íran, en Íran hafði þvert á móti styrkst og eignast öflugan bandamann í Hizbollah. Á fundinum var Bandar prins, yfirmaður sádísku leyniþjónustunnar, sem sagði að Sáda-konungur teldi veika hlekkinn á svæðinu vera Sýrland. Það þarf að „taka út“ Sýrland, sagði hann, til að einangra Íran. Og aðferðin var þessi: „Íslömsku uppreisnarmennirnir geta unnið verkið fyrir ykkur, og við getum skipulagt það.“ Hagsmunir Sáda láu augljóslega í því að auka vald og áhrif súnnía á svæðinu á kostnað sía-múslima og tryggja um leið stuðning Risaveldisins við þann málstað.
Sem sagt skyldi beita súnnískum öfgahópum fyrir vagn vestrænna hagsmuna. Og þetta var gert. Þegar árið 2007 skrifaði skarpasti rannsakandi bandarískrar heimsvaldastefnu, Seymour Hersh, í ritið New Yorker um „nýju stefnu“ Bandaríkjanna í Miðausturlöndum í greinnni „Redirection“, stefnan væri sú að styðja súnnía gegn sía-múslimum, sem tengdist því að meginafl sía-múslima á svæðinu væri Íran. Hersh skrifaði:
„Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnnía sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir Al-Qaeda.“
Þegar árið 2006 birtist „nýja stefnan“ í tölvupóstsendingum og skilaboðum bandaríska sendiráðsins í Damaskus (birtum af Wikileaks) um að hvetja skyldi til uppreisnar í landinu og vekja samtímis ótta sýrlenskra stjórnvalda um valdarán til að „auka líkur á of-viðbrögðum stjórnvalda sem kæmu þeim í koll“ í formi ofbeldisöldu (Wikileaks 2006, „Influencing the SARG in the end of 2006“, Wikileaks, 6. desember 2006)
Áformin um ofbeldisöldu gengu eftir árið 2011 í bænum Daraa við jórdönsku landamærin, sviðsett „mótmæli“ breyttust strax í vopnuð átök mikið vopnaðra aðvífandi vígahópa við lögreglu sem breiddu sig ört út. Í hinni CIA-stýrðu „uppreisn“ var beitt sömu aðferðum og beitt var í Líbíu nokkrum mánuðum fyrr, sem þar gekk miklu hraðar fyrir sig (og vígahópanrinr komu að hluta til þaðan). Vestrænir fjölmiðlar kölluðu það „Arabíska vorið“. Ríkisútvarpið hefur síðan sagt okkur 1000 sinnum að orsakir Sýrlandsstríðsins liggi í því að Assadstjórnin hafi af svo mikilli grimmd „barið niður mótmæli almennings“.
Vopnasendingar og fjármögnun til uppreisnarinnar og herþjálfun að nokkru leyti kom vissulega frá Sádum og Persaflóaríkjum en skipulag og aðgerðastjórnun var í höndum CIA gegnum hið leynilega Timber Sycamore, leyniþjónustubatterí sem rekið var frá Amman í Jórdaníu. Sjá Wikipedíugrein um Timber Sycamore: https://en.wikipedia.org/wiki/Timber_Sycamore
Pentagon-skýrsla frá ágúst 2012 (frá leyniþjónustunni DIA) sýnir að bandarískir strategistar sjá þá fyrir komandi salafista-furstadæmi ISIS í Austur-Sýrlandi (og Írak), og styðja það. Aðalatriðin eru þar tíunduð:
„A. Atburðarásin tekur stefnu trúaröfga. B. Salafistar, Múslima-bræðralagið og AQI [Al-Qaeda í Írak, verðandi Al-Nusra og ISIS] eru höfuöflin í uppreisninni. C. Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja andspyrnuna á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“
Ennfremur segir að stofnun furstadæmis salafista sé „einmitt það sem stuðningsríkin við andspyrnuna vilji til að einangra Sýrlandsstjórn sem er skoðuð sem liður í ásókn sía-ríkja (Írak og Íran).“
Árið 2013 varð stefnan um að „styðja uppreisnina“ opinber stefna Bandaríkjanna, það ár gaf Obama CIA forsetatilskipun um að styðja uppreisnarhópana í Sýrlandi, sem meginaðferð við að „taka niður“ Sýrlandsstjórn.
Ofan á stuðninginn við vopnuðu andstöðuna í stóðu Bandaríkin og ESB fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn landinu sem smám saman hafa eyðilagt efnahag þess. Með bandarísku lögunum Caesar Act, frá 2020 hafa þær aðgerðir orðið kyrkjandi og raunar aðalhlið stríðsins gegn Sýrlandi.
Sagan er löng (vopnaðar íhlutanir Bandaríkjanna og Rússlands m.m.). Tökum þá svolítið stökk til nýliðinna atburða. Helstu hóparnir sem steyptu Assad nú í desember voru þrír, þessir: Frá Idlib í norðaustri, studdur af Tyrkjum, kom stærsti heraflinn, íslamski hryðjuverkahópurinn HTS, í norðaustri herjuðu kúrdnesku SDF og úr suðri kom her að nafni „Suður-aðgerðasviðið“ sem er tiltölulega nýr en byggður á hinu eldra CIA-batteríi, Timber Sycamore. Það sem sameinar hópana er að CIA stendur á bak við þá og styður þá alla. Það er óháð því þó grunnt sé á því góða þeirra á milli eins og er í tilfelli HTS og SDF, og þó HTS sé formlega skilgreindur sem hryðjuverkahópur, þangað rötuðu vestrænu vopnin.
Fjórði herinn sem steypti Assad var IDF, Ísraelsher sem gert hefur loftárásir á Sýrland árum saman. Meðan HTS nálgaðist og yfirtók Damaskus gerðu ísraelskar (bandarísk ættaðar) sprengjuþotur hunduðir af loftárásum á Sýrland, fyrst og fremst á loftvarnarkefi landsins og skotmörk sem það loftvarnarkerfi hafði áður varið. Tryggja þarf að Sýrland geti ekki varið sig til framtíðar, tryggja að það verði ekki endilega “vinur“ Vestursins og Ísraels heldur „misheppnað ríki“.
Aðeins eitt land af sjö stendur eftir
Þá blasir það líka við að það eru ein – og aðeins ein – stjórnvöld á lífi af listanum, aðgerðaáætluninni frá 2001, sem sitja enn við völd – í Íran. Það vekur auðvitað spurninguna um hvað nú vofir yfir Íran. Sérstaklega í ljósi þess að Sýrland var nánasti bandamaður Írans, og Sýrlandsstríðið var frá upphafi hluti af hernaðinum gegn Íran.
Aðgerðaáætlunin frá 2001 varð ekki til úr engu og átti sér aðdraganda. Eftir ósigra í Indó-Kína kringum 1975 og andheimsvaldasinnaða byltingu í Íran 1979 settu bandarísk hermálayfirvöld hin olíuauðugu Austurlönd nær í brennidepil upp úr 1980. Innan Bandaríkjahers var sett var á fót árið 1983 Herstjórn Miðsvæðisins, CENCOM, („Miðsvæðið“ er Miðausturlönd útvíkkuð til Miðasíu). Því fylgdi gríðarleg uppbygging herstöðva á því svæði. Írski fræðimaðurinn John Morrissey birti 2020 niðurstöður sínar um hana:
„Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum. Á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Sjá nánar
Sovétríkin voru hverfandi úr sögunni þegar þessi hraða uppbygging varð. Vígvæðingin tengdist annars vegar útþenslusókn bandarískrar heimsvaldastefnu við lok Kalda stríðs og hins vegar þróuninni í Íran, þungvægasta landi Miðausturlanda, efnahagslega og geopólitískt, sem er mikilvægasta hindrunin fyrir fullum yfirráðum Bandaríkjanna í heimshlutanum. Frá CENTCOM og herstöðvum þess er styrjöldum sjórnað, í Írak, í Palestínu, Líbanon og Sýrlandi sem og stríðsundirbúningnum gegn Íran.
Sýrland breytist nú frá því að vera andheimsvaldaafl (lengi eina slíkt meðal arabaríkja)og mikilvægasti bandamaður Írans í Miðausturlöndum í það að verða „misheppnað ríki“ með aðstöðu fyrir heimsvaldasinna og hryðjuverkahópa þeirra til að skipuleggja og heyja átökin við Íran – og bandamenn þess, m.a. í Írak og Líbanon.
Fall Sýrlands er þar með einnig áfall fyrir frelsisbaráttu Palestínu, og henni tengan Andspyrnuöxul í Miðausturlöndum.°
The Times of Israel tengdi um daginn eyðileggingu Lofthers Ísraels (IAF) á loftvarnakerfi Sýrlands (86% þess) beint við áformin um árásir á Íran:
„IAF sér möguleika til árása á kjarnorkustöðvar Írana eftir að hafa slegið út loftvarnir Sýrlands… Lofthersyfirburðir yfir Sýrlandi geta tryggt loftleiðina fyrir Ísraelska loftherinn til að gera árásir á Íran.“
Fall Sýrlands þýðir nokkur skref í átt að stórstríði í Miðausturlöndum, sem líklega er nú óumflýjanlegt. Þangað til gildir aðgerðaáætlunin frá 2001.