Sveltu þig fyrir kapítalismann

5. maí, 2023 Andri Sigurðsson

Kapítalisminn í dag hefur fætt af sér neysluhyggju og eftirlitssamfélag byggt í kringum þarfir hinna ríku þar sem ómögulegt virðist að breyta nokkru sem skiptir máli og þar sem stór hluti fólks hefur hvorki tíma eða orku til að berjast fyrir réttlæti. Kapítalisminn er svo allt um lykjandi og ósýnilegur að margir mistúlka afleiðingar hans sem hluta af venjulegu mannlegu samfélagi. Flestir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn eiga jafnvel í stökustu erfiðleikum með að skilgreina kapítalisma til að byrja með.

Á sama tíma snýst framtíðarsýn stjórnmálafólks á vesturlöndum meira og meira um að láta einstaklinginn bera byrðarnar af umhverfisvandanum, dýrtíðarvandanum, og flestum öðrum vandamálum. Að verkafólk verði að svelta sig nánast eða í það minnsta að lifa við einhverskonar upplýstan skort. Það er ef stjórnmálafólk hefur einhverja framtíðarsýn yfir höfuð. Venjulegt fólk hefur ekki rétt á að gera vel við sig í mat eða drykk eða neinu öðru virðist vera. Sífellt stærra hlutfall fólks lifir á svo lágum launum að það hefur ekki efni á því. En í stað þess að fjalla um raunverulegar leiðir til að bæta hag okkar og gera framtíðina betri þá felast lausnirnar sem okkur er boðið upp á allar í því að gera minna, borða minna.

Kveikjan að þessum pistli var umfjöllun um fjölskylduna sem borðar kvöldmat fyrir aðeins sex þúsund krónur á viku. Fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á naglafræðingnum Katrínu Björk sem Vísir.is, Morgunblaðið, og Stöð 2 hafa fjallað um. Það er örugglega hægt að næra sig fyrir þá upphæð en er það framtíðin sem við viljum? Framtíð þar sem okkur er skammtað matvælum sem rétt duga til að halda hungrinu í skefjum en ekkert meira en það?

Það er líka áhugi fjölmiðla sem er áhugaverður og skilaboðin sem þeir vilja koma á framfæri. Á sama tíma og matvælaverð hefur hækkað gríðarlega og verðbólga er í hæstu hæðum þá virðast fjölmiðlar frekar áhugalausir um lausnir á vandanum en því áhugasamari um það hvernig við getum, sem einstaklingar, skorið niður okkar eigin neyslu. Eins og alltaf, er engin kerfislæg lausn í boði við vandanum en áhugi fjölmiðla á því hvernig verka og launafólk geti komist af með sem minnst er því mun meiri.

Nýlega las ég færslu frá manni sem var að furða sig á því hvað hefði orðið um hugmyndir fólks um framtíðina. Færslan fjallaði um það hvernig framtíðarsýn hans sem barns hafi snúist um geimferðir og að mannkynið flyttist út í geim og hvernig slíkar hugmyndir voru algengar á seinni hluta tuttugustu aldar. Hægrið og frjálslynda miðjan segir okkur að kapítalisminn einn geti fært okkur framtíðina. Framtíðin sem blasir við okkur í dag er hins vegar ekki mjög glæsileg.

Á síðustu áratugum hefur verð á farsímum, sjónvörpum, og öðrum neytendavörum lækkað á vesturlöndum á meðan húsnæðiskostnaður og matvælaverð hefur hækkað mikið. Laun hafa staðið í stað og almenningur hefur í staðin tekið á sig sífellt auknar skuldir. Hagnaður fyrirtækja hefur aukist til muna á síðustu árum og þar eru Íslensk fyrirtæki engin eftirbátur. Á sama tíma sýnir nýleg könnun að helmingur vinnandi fólks á Íslandi nær ekki endum saman. Í stað þess að færa okkur aukin lífsgæði hefur kapítalisminn aðeins fært okkur aukna misskiptingu, sífellt meira eftirlit, og alræðislegra samfélag þar sem borgararéttindi okkar og sjálft málfrelsið er í hættu. Þetta hafa Twitter-skjölin sýnt okkur en þar kemur fram hvernig Bandaríska ríkið vinnur með einkafyrirtækjum við að ritskoða samfélagsmiðla á stórum skala. Það er alls ekki langt síðan að mörg okkur bundu ákveðna von um að netið myndi færa okkur opnara og gegnsærra samfélag en hið gagnstæða hefur gerst. Á sama tíma fær auðstéttin að halda sínu og meira til. Loforð frjálslyndu stjórnmálanna um hækkun skatta á hin ríku sem lausn flestra samfélagslegra vandamála virðist enn fjarlægari draumur en nokkru sinni.

Stjórnmálafólkið okkar er pikk-fast innan hugmyndafræði markaðshyggjunnar sem undirbyggir kapítalísk samfélag. Eftir áratugi af nýfrjálshyggju, þar sem okkur var sagt að markaðurinn geti gert allt betur en ríkið,  vorum við komin á stað þar sem einhverskonar pólitísk lömunarveiki hafði tekið yfir. Svo kom faraldurinn og Viðskiptaráð var á einni nóttu farið að ræða um að skattgreiðendur gæfu fyrirtækjum peninga. Hin pólitíski ómöguleiki átti auðvitað alltaf aðeins við um almenning en ekki atvinnurekendur og þarfir þeirra.

Þetta hefur kannski aldrei verið jafn augljóst og í dag og kemur meðal annars fram í vaxtastefnu Seðlabankans og afneitun hans á því að grípa til annarra aðgerða en að hækka stöðugt vexti. Hækkanir sem hafa aðeins lagt enn þyngri byrgðar á herðar verkafólks. Ég hló upphátt þegar ég las nýlega fyrirsögn RÚV um að Seðlabankastjóri „treystir á samfélagslega ábyrgð bankanna“ þegar kemur að því að draga úr greiðslubyrði almennings. Hvaða sturlun er þetta? Þetta sýnir okkur líka hvers konar vitleysa hugmyndin um óháðann Seðlabanka er. Í stað þess að vera óháður er Seðlabankinn algjörlega óábyrgur gagnvart vilja eða skoðunum kjósenda.

Ekki er ástandið skárra í forsætisráðuneytinu. En Katrín Jakobsdóttir hefur oft látið hafa eftir sér allskonar beiðnir og óskir um að fyrirtæki breyti rétt í stað þess að beyta ríkinu. Í apríl skrifaði hún grein þar sem hún bað atvinnurekendur fallega um að „að sýna ábyrgð og gæta hófs í arðgreiðslum“. Ímyndið ykkur ef stjórnmálamenn myndu tala með þessum hætti til verkafólks. Í fyrra bað hún þá um gæta hófs og ekki greiða sér of há laun. Verkafólk hefur ekkert slíkt val auðvitað. Hin ríku fá hins vegar að velja hvort þau greiði meira til samfélagsins eða ekki. Þetta er þeirra samfélag eftir allt, ekki okkar. Þegar Vinstri græn hafa svo hnikað til reglunum hefur það aðeins verið til þess að skora ódýr PR stig. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður lítillega á síðasta kjörtímabili en útreikningi hans og forsendum breytt á móti til lækkunar. Allt í plati.

En erum við ekki öll á sama báti? Margt smátt gerir eitt stórt? Verða ekki allir gera sitt til að að draga úr losun og bjarga okkur frá loftlagsvandanum gæti einhver spurt? Það er alveg rétt en að biðja fólk um að breyta neyslu sinni mun ekki duga. Jörðinni er sama hvort þú og vinir þínir hætti að ferðast til útlanda eða hvort þú hættir að borða morgunmat og ristabrauð með avókadó. Kapítalisminn mun aðeins aðlaga sig að slíkum breytingum í neyslu okkar. Það sem skiptir máli er hvernig við sem heild bregðumst við. Hvernig við beitum ríkinu til þess að taka á vandanum. Hvernig við tryggjum að byrðunum verð dreift með jafnari hætti. Það eru nefnilega fyrst og fremst hin ríku og fyrirtækin sem bera ábyrgð á loftlagsvandanum. Með því að tala stanslaust um það hvernig við sem einstaklingar getum breytt hegðun okkar vilja kapítalistar varpa vandanum yfir á almenning. Fyrirtækin þurfa ekki að breyta neinu og hin ríku geta haldið áfram að verða ríkari og ríkari. En þú lesandi góður verður að herða beltið til að halda sirkusnum gangandi.