Nýr kafli að hefjast í stríðinu gegn alþýðunni: Fyrsta maí-ávarp

3. maí, 2023 Jón Karl Stefánsson

Áhlaup á réttindi og kjör alþýðunnar er í uppsiglingu. Í þeirri baráttu sem blasir við er nauðsynlegt að verkafólk standi þétt saman og þekki andstæðinginn og þá sem vinna í hans þágu. Ef þetta tekst ekki er hætta á að stéttavinna sem tók kynslóðir að byggja upp verði fyrir bí og ný öld ofurstjórnar fjármagnsvaldsins renni upp.

Í klassískum Marxisma er samfélaginu skipt upp í tvo megin hópa. Þetta eru eigendur framleiðslutækjanna og svo þeir sem þurfa að reiða sig á það að selja vinnuafl sitt og tíma til að lifa af. Hugtakið framleiðslutæki felst í notkunarrétti og eignarhaldi á jarðnæði, náttúruauðlindum, fjármagni og öðrum eignum, og svo eignarhaldi á vinnuaflinu sem verkalýðurinn selur. Hægt er að líta á þessa tvo hópa sem stéttir sem hafa ósamrýmanlega hagsmuni. Það er í hag verkalýðsstéttarinnar að fá hærra verð fyrir vinnuafl sitt, betri aðbúnað, eignarhlut í framleiðslufyrirtækjunum og aðgang að ákvörðunarferlinu í fyrirtækjunum. En fyrir fyrrnefnda hópinn, stétt borgara og kapítalista, er það í þeirra hag að verð á vinnuafli (launin) séu eins lág og mögulegt er, að sem minnstu sé varið í aðbúnað, að arðrán (munurinn á verðmæti vinnuaflsins og svo það sem eigendur fjármagnsins borga fyrir það) sé sem allra mest og að verkalýðnum sé sem mest haldið fyrir utan ákvörðunartökuna í samfélaginu. Aðalmarkmiðið er að sem allra stærstur hluti virðisaukans verði eftir í höndum eigenda framleiðslutækjanna. Þessu markmiði hefur verið náð að því marki að um 300 ríkustu einstaklingar heimsins eiga nú meiri eignir en fátækari helmingur jarðarbúa, nærri 4,5 milljarðar þeirra. Blóðug stéttabarátta fyrri kynslóða hefur svo fært okkur ótal lífsnauðsynleg réttindi, velferðarkerfi, sameignir samfélagsins, betri kjör en ella og margt fleira sem við megum ekki glutra niður. Lokatakmarkinu, frelsun verkalýðsins frá arðráni og kúgun, hefur ekki verið náð enn.

Þetta er mjög einfölduð mynd af samfélagsrýni Marxismans. Þar eru fleiri stéttir, hagsmunatengsl geta verið flóknari, aðkoma og tilgangur hins opinbera er oft flókin o.s.frv., en þessi skil milli eigenda/stjóra framleiðslutækjanna og svo verkalýðsins eru algjört lykilatriði.

Hin þrjú bindi af Das Kapital voru skrifuð á síðari hluta nítjándu aldar. Í henni notaði Marx greiningu forvera sinna á borð við Adam Smith, George Hegels og margra fleiri, talaði niður til margra annarra kennismiða, og bætti svo við miklum greiningum á efnahagsástandi þess tíma sem Marx lifði á. Þessar bækur voru þvílíkir doðrantar og kraðak af rannsóknum og orðsifjafræði, og fjölluðu gjarnan um málefni sem voru í rauninni ekki nein álitamál, að síðari greiningar á efnahagskerfi Iðnríkjanna gátu ekki annað en verið tengdar þessu sem átti eftir að kallast Marxismi. Það þýðir ekki að allir sem notast við marxíska greiningu hafi sjálfir verið „Marxistar“. Meir að segja erkióvinir verkalýðsins, stétt eignafólks, hefur notast við þessi fræði alla tíð síðan. Kenningar Marx um að þegar tækniframfarir búa til nýjar stéttir öreiga sem svo geta ekki annað en gert uppreisn eru til dæmis í huga allra góðra kapítalista sem undirbúa sig ætíð fyrir slíka ógnartíma svo þeirra eigin hagsmunir séu ekki í hættu.

En frá því að Marx skrifaði doðranta sína hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þó að helstu þættir greiningarinnar haldist enn; það er enn svo að þeir sem eiga framleiðslutækin geta lifað af arðráni sínu, en þeir sem eiga þau ekki þurfa að selja vinnuafl sitt og tíma til að lifa af, markaðurinn tryggir að æ minni hluti fólks á æ stærri hluta af auðæfum heimsins o.s.frv., þá hefur ýmislegt breyst. Tæknin hefur breyst mikið, vísindalegur áróður hefur orðið æ fullkomnari, ný tegund framleiðslukerfa hefur þróast, fyrir utan allar styrjaldirnar og samfélagsbreytingar sem orðið hafa.

Eitt af því sem hefur breyst hvað mest frá dögum Marx er það hversu mikið hefur fjölgað í hópi þeirra sem taka ákvarðanir hjá hinu opinbera og hversu mikið bæði opinberar stofnanir, og svo alþjóðlegar stofnanir, hafa bólgnað út á síðustu áratugum. Æ fleiri milli- og regnhlífastofnanir hafa litið dagsins ljós, búið til æ fleiri reglur fyrir verkalýðinn og tekið til sín æ stærri hluta af framleiðslukökunni í leiðinni. Þessi stétt fellur hvorki mjúklega í stétt fjármagnseigenda, né í stétt verkalýðsins. Formlega séð þá selur þetta fólk vinnuafl sitt og tíma til að lifa af. Þetta er í grunninn launafólk sem ekki lifir af vexti fjármagns síns. En á hinn bóginn tekur þetta fólk virkan þátt í að taka ákvarðanir fyrir alla aðra í samfélaginu, fá oftar en ekki mun meira í sinn hlut af sameiginlegum framleiðsluafgangi samfélagsins en annað launavinnufólk, og vinnur náið með stétt eignamanna í þessari ákvörðunartöku. Þetta fólk vinnur innan ramma stofnana sem voru hannaðar með hagsmuni eignastéttarinnar að leiðarljósi, en myndar nú stétt sem virkar sem hemill milli sjálfra fjármagnseigendanna og verkalýðsins. Íslensk verkalýðsbarátta hefur sýnt að þessi stjórnunarstétt innan hins opinbera hefur tekið afstöðu með auðvaldinu. Sama gildir um stjórnmálastéttina, sem samþykkt hefur ótal lög sem henta fjármagnsstéttinni, en taka beinlínis frá almenningi. Þetta gildir um innleiðingu einkavæðingar á opinberum eigum, innleiðingu kvótakerfisins, innleiðingu hægrisinnaðra Evrópureglna um frjálst flæði vinnuafls og fjármagns og margt fleira.

Önnur stétt sem hefur orðið öflugri með ári hverju og vinnur í þágu fjármagnseigenda, eru almannatenglar og annað áróðursfólk. Þessi stétt vinnur á mörgum vígstöðvum við það að framleiða samþykki við ákvörðunum sem teknar eru á stjórnarfundum stórfyrirtækjanna. Þetta eru nútíma súfistarnir sem geta látið saur hljóma eins og blómabeð. Vopnaðir tækni sem fengin hefur verið úr félagssálfræðinni geta þessir sérfræðingar í almannatenglum sannfært stjórnendur hvaða opinberru stofnunar sem er að það sé góð hugmynd að selja einkaaðilum eignirnar, en leigja þær síðan til baka, að láta almenning byggja upp iðnað með skatti sínum, og horfa svo á eftir þessum iðnaði lenda í höndunum á stærstu fjárglæframönnunum, að það sé eðlilegt að erlendir fjármagnseigendur byggi upp mengandi og spillandi iðnaði í hjarta landsins og fái orkuna á litlu verði. Þessir sömu sérfræðingar í almannatengslum geta jafnvel sannfært almenning um að hata vini sína, elska þrælahaldarana og krefjast ritskoðunar. Þeim hefur orðið svo vel ágegnt að heyra má einhverja útgáfu af því að stríður sé friður, frelsi séu fjötrar og að fáviska sé styrkur óma í samfélaginu.

Meir að segja sjálf verkalýðshreyfingin hefur spillst af fagurgölum þessara sérfræðinga. Verkalýðsforkólfar hafa árum saman unnið beinlínis með fjármagnseigendum og leppum þeirra í hinu opinbera um að mynda það sem er dulbúið sem „stöðugleiki“. Þessi stöðugleiki á ætíð að vera borgaður af verkafólki, þau mega alls ekki krefjast of góðra kjara. Fjármagnseigendur eru aldrei beðnir um að taka þátt í þessum stöðugleika, með því að slá af okurlánastarfseminni sinni, borga meiri skerf af milljarða-arði sínum, eða minnka ásælni sína í eignir almennings. Ekkert er sagt við því að enn séu þrír fjárglæfrabankar í þessu litla landi sem skila milljörðum í arð í hverjum ársfjórðungi; arði sem virkar eins og falinn skattur fyrir almenning; þjófnaður fyrir allra augsýn.

Við höfum misst sparisjóðina, samvinnufélögin og raunhæfan möguleika á því að eignast þak yfir höfuðið. Við erum á undraverðan hátt að feta á slóðir sem básúnaðar hafa verið hjá stofnunum eins og Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF) sem tala um að almenningur muni brátt ekki eiga neitt, heldur leigja frá auðjöfrum, að öll samskipti og viðskipti séu sýnileg varðhundum auðvaldsins, að ríkið standi eftir með hið eina raunverulega hlutverk að geta beitt alþýðuna ofbeldi ef hún óhlýðnast fyrirmælum meistaranna. Þessa ráðstefnu sótti forsætisráðherra okkar og hefur básúnað slagorð Alþjóðaefnahagsráðsins æ síðan.

Frá árinu 2016, og sérstaklega frá árinu 2020 hefur svo bæst við það sem gæti verið hættulegasta vopn auðvaldsins fyrr og síðar: Samþykki almennings fyrir ritskoðun og þöggun, að hópar sem þiggja laun frá risafyrirtækjum á borð við Facebook, Apple og Microsoft, fái frjálsar hendur í því að ákveða hvað við megum heyra, hvernig og hvenær. Fjölmiðlar okkar eru nú orðnir algerlega gagnslausir fyrir almenning. Ekkert heyrist frá þeim yfir meðferð uppljóstrara á borð við Daniels Hale eða Julians Assange. Blaðamenn nútímans eru annað hvort gungur eða hentugir hálfvitar fyrir auðvaldið; allt í nafni öryggis og stöðugleika.

Raunverulegt baráttufólk fyrir frelsun almennings frá fjötrum auðvaldsins er ekki á hverju strái. Þau hafa lítið fjármagn og ekki gott aðgengi að fjölmiðlum. Það hefur ekki verið jafnmikilvægt hjá nokkurri núlifandi kynslóða en nú að hver einn og einasti sem hefur augun opin og hefur bolmagn til að standast áróður auðvaldsins að leita að þeim sem hægt er að treysta á. Ný fjármálakreppa mun brátt bresta á og auðvaldið er reiðubúið fyrir lokahnykkinn til að gera raunverulega byltingu nánast ómögulega. Alþýðan er ekki undirbúin fyrir það. Baráttan sem við stöndum frammi fyrir verður gríðarlega erfið, sérstaklega með tilliti til þess að auðvaldið hefur aukið við liðsafla sinn úr herbúðum hins opinbera og með æ betri tækni til áróðurs. Við verðum að þekkja hverjir eru með alþýðunni í liði í raun. Saman eigum við möguleika.