SVARTHVÍTUR HEIMUR BJÖRNS BJARNASONAR
—
Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður, ráðherra og aðstoðarritstjóri Morgunblaðins, gerir því skóna í grein hér í blaðinu, að þar sem ég sé andvígur því að Íslendingar fjármagni vopnasendingar til Úkraínu, heldur hvetji til friðarviðræðna, gangi ég erinda einræðisafla: “Það er ömurlegt að íslensk stjórnvöld séu hvött til að skipa sér með þessum einræðisstjórnum og skorast undan að styðja Úkraínumenn”.
Rússlandi verði komið á hnén
Ég á með öðrum orðum að vera vitorðsmaður einræðisiafla í löndum sem Björn vísar til en þau eru auk Rússlands, Belarús, Venesuela, Norður-Kórea, Íran, Kúba, Níkaragúa og Kína.
Þetta er nánast fullt hús sýnist mér; Björn Bjarnason kominn á ný í svarthvítan heim því að svona skrifaði hann þegar kalda stríðið var í hæstum hæðum og enn eru Sovétríkin ofarlega í hans huga: “Stuðningsmenn Rússa óttast að sama gerist í Rússlandi og í Sovétríkjunum, að stjórnkerfið springi á limminu og rússneska sambandsríkið leysist upp sem samstæð heild undir álagi stríðsins.”
Ef einverjr ætla að svo kunni að fara, þá er það ekki að ástæðulausu því að nákvæmlega þetta er skjalfest áætlun sem Rand-hugveita Pentagons, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, lagði fram í ráðgefandi skýrslu sinni til bandarískra yfirvalda árið 2019 undir heitinu, “Extending Russia”. Margir helstu ráðamenn BNA hafa síðan áréttað þessa stefnu: “Teygjum Rússland” og þreytum og “komum því niður á hnén” sagði Austin varnarmálaráðherra BNA þegar Úkraínustríðið var til umræðu.
En ef markmiðið er að veikja Rússland til frambúðar, helst liða það í sundur, eins og nýskipaður talmaður ESB í utanríkismálum, Kaja Kallas hefur sagt vera æskilegt, þá snýst stríðið í Úkraínu um meira en Úkraínu eina, það snýst um stöðu stórvelda, ekki aðeins Rússlands heldur einnig og ekki síður Bandaríkja Norður Ameríku, það snýst um aðgang að auðlindum og það snýst um hergagnaiðnaðinn; það snýst um það sama og árásarstríð undangenginna áratuga í Afríku og Asíu. Allt þetta þykir Birni greinilega fráleitt tal, “ekki er öll vitleysan eins”, og hneykslast hann yfir því að ég skuli “fjargviðrast” yfir þvi “að efnahags- og atvinnustefnu innan ESB eigi að laga að hergagnaframeiðslu ,“ líkt og Rússar geri. Þar horfir Björn til gagnrýni minnar á yfirlýsingu Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB frá því í mars síðastliðnum “að koma þurfi efnahagskerfum Evrópu í stríðsham”.
“Vel heppnuð innrás“
Og nú er NATÓ-vopnum beitt í vaxandi mæli innan landamæra Rússlands. Árásin á Kúrsk í Rússlandi í ágústbyrjun þótti einstaklega «vel heppnuð“ að mati álitsgjafa Ríkisútvarpsins.
Fyrir fáeinum dögum var skýrt frá því að meðaldrægum flaugum sem borið geta kjarnorkuvopn yrði komið fyrir í austanverðri Evrópu. Friðarhreyfingum tókst að hnekkja sambærilegum áformum á níunda áratug liðinnar aldar og var sá árangur síðan innsiglaður með INF samkomulagi þeirra Gorbatsjovs og Reagans árið 1987 um bann við slíkum vopnum og síðan samkomulagi á milli austurs og vesturs við sundurliðun Sovétríkjanna um að færa vopnin fjær landamærum stórvelda. Allt þetta hafa Bandarikin og NATÓ svikið og auk þess sagt upp INF samningnum árið 2019. Björn Bjarnason segir Rússa áður hafa farið á bak við INF samkomulagið með smíði flauga sem hafi ekki staðist kröfur INF samningsins. Þetta tel ég reyndar rangt vera hjá Birni en aðra grein þyrfti um það mál.
Hvers vegna svo vanstilt skrif?
En hvert skyldi vera tilefni þessara ofsafengnu skrifa Björns Bjarnasonar? Hinn 6. ágúst síðastliðinn fékk ég birta grein í Morgunblaðinu sem bar titilinn Hávamál eða Eysteinn? Þetta voru viðbrögð við skrifum varaformanns Framsóknarflokksins Lilju Daggar Alfreðsdóttur viðskipta- og menningarmálaráðherra um ágæti hernaðarbandalagsins NATÓ og mikilvægi þess að hvika í engu frá stuðningi við hernaðinn í Úkraínu; þvert á móti ættum við að halda hópinn með vinum okkar í NATÓ. Menningarmálaráðherrann klykkti út með því að vitna til Hávamála um gildi vináttunnar og í varnaðarorð við því að vingast við vini óvinar s íns, “en óvinar síns/skyli engi maður/vinar vinur vera“ líkt og Björn Bjarnason hefur nú tekið undir á sinn andheita hátt.
Vanrækja heilbrigðiskerfið en skattleggja fyrir drápstól
Hávamálin hafa margt gott að geyma en ekki allt enda réttarríkið á þeirra tíð fjarri og blóðhefndin meginreglan líkt og í lögmálinu sem Kristur vildi að kærleikurinn og fyrirgefningin leysti af hólmi. Í grein minni benti ég á að sumir meintra vina okkar í NATÓ hefðu ef til vill ekki eins hreinan skjöld og sjálfir vildu þeir vera láta.
Þá leyfði ég mér að gagnrýna það háttalag ríkisstjórnar og Alþingis að ákveða að verja milljörðum króna árlega á næstu árum til kaupa á manndrápstólum án þess að láta slíkt þingmál ganga til umsagnar, því að “allir væru þessu samþykkir“ á sama tíma og við horfðum á íslenska heilbrigðiskerfið að hruni komið vegna fjársveltis. Skrítin skepna Sjálfstæðisflokkurinn, skattlagning er í lagi ef NATÓ kallar, síður þegar Landspítalinn hrynur.
Um réttlæti og hefnd
En í umræddri grein minni sem ég beindi til varaformanns Framsóknarflokksins voru það þó ekki fjármunir heldur grunngildin sem voru mér efst í sinni. Þau sækja eðlilega á hugann í heimi sem menn vilja koma í stríðsham.
Séra Gunnlaugur Stefánsson, lengi vel prestur í Heydölum, sagði nýlega í hugvekju að sér þætti umhugsunarvert að nú þegar fórnarkostnaður stríðsins í Úkraínu væri talinn í hundruðum þúsunda mannslífa að valdamönnum heimsins þætti það vera “tilræði við sæmdina að biðja um frið, af hverju í ósköpunum heimurinn sé ekki kominn lengra á þroskabraut sinni en að sjá enga aðra leið til að leysa deilur ríkja í millum en að drepa fólk. Í alþjóðastjórnmálum gildir enn blóðhefnd endurgjaldslögmálsins sem fyrir löngu er búið að afnema innanlands í flestum sæmilega siðuðum ríkjum.“
Það er rétt athugað hjá séra Gunnlaugi að hefnigirnin og blóðhefndin hafi verið lofsungin í samtímanum, menn eigi að fá “makleg málgjöld“ er viðkvæðið.
Haustið 2022, þegar bandarísku leyniþjónustunni hafði tekist að ráða af dögum einn af foringjum Al Quaida sem að sögn þessarar sömu leyniþjónutu hefði borið á ábyrgð á dauða þrjú þúsund manns í Tvíburaturnunum í New York, í septmber 2003, þá fagnaði Biden Bandaríkjaforseti með þeim orðum að vafalaust muni nýafstaðin aftaka sefa sorg margra: “Ég ber þá von í brjósti að þessi markvissa aðgerð verði til þess að þau sem misstu feður og mæður, eiginmenn og eiginkonur, syni og dætur, bræður og systur, vini og samstarfsmenn þennan nístandi septemberdag komist nú nær því að öðlast hugarró.”
Þetta er eflaust í áttina að hinum “réttláta friði“ sem NATÓ segir barist fyrir í Úkraínu og íslenskir valdamenn taka síðan undir og norrænir einnig þegar þeir nú opna hver á fætur öðrum lönd sín fyrir nýjum herstöðvum sem þeir hefðu fyrr á tíð aldrei látið sér til hugar koma að gera enda ekki komist upp með það af hálfu vakandi friðelskandi þjóða.
Nú er leitun á líkum Eysteins Jónssonar sem hafði þetta til málanna að leggja þegar Ísland var lýst lýðveldi á Þingvöllum 17. júní 1944: “Vér Íslendingar munum kappkosta að koma þannig fram við aðrar þjóðir, að vér öðlumst vináttu þeirra og traust. Vér munum unna öðrum réttar og sannmælis, en halda á rétti vorum. Slíkar verða landvarnir þjóðarinnar og aðrar eigi.“
Kemur öllum við
En hvað með sjálfsákvörðunarrétt þjóða, á hann að vera ótakmarkaður? Nei, síður en svo. Ef Íslendingar ákvæðu að setja upp kjaronrkuhreiður á Íslandi, sem við erum reyndar æði nálægt því að gera með sífellt tíðari viðkomu árásarflugvéla sem bera kjarnorkuvopn, þá kæmi það öllum heiminum við. Það kemur okkur öllum við hvort Úkraína gangi í NATÓ með árásarvopn bandalagsins beint gegn grannríkjum. Það kemur öllum við á sama hátt og það kom öllum við þegar setja átti upp sovéskar kjarnorkuflaugar á Kúbu 1962 og bandarískar á Ítalíu og Tyrklandi á sama tíma.
Líf allra voru í húfi.
Síðustu fréttir eru þær að Pútin segir þörf á að hefna fyrir Kúrsk.