Stríðsöskur Dana koma í bakið á þeim
—
Strax í janúar 2025, þegar fyrir seinni innsetningu sína, lýsti Donald Trump yfir: „Við þurfum Grænland [og Panama] til að tryggja efnahagslegt öryggi.“ Þarna var sem sagt „efnahagslegt öryggi“ í meginfókus, og aðalógnin við það öryggi sögð vera frá Kína.
Við þessu brugðust Danir með loforðum um aukna hernaðarlega viðveru á Grænlandi. En það var til að verjast Rússum og Kína. Leitarvél Google segir mér: „Samkvæmt hættumati og yfirlýsingum árin 2024-2025 skilgreindi Mette Frederiksen forsætisráðherra Rússland sem helstu beinu hernaðarógn við Danmörku og Norðurslóðasvæðið, þ.m.t. Grænland.“ Í sama hættumati var Kína ógn númer tvö. (utanríkisráðherrar Íslands hafa haft uppi sams konar málflutning, talað um mikla rússneska kafbátaumferð smjúgandi um Íslandsála og fjölþáttaógnir Rússlandshers, sem allt er skáldaður stríðsáróður *)
Danir – í líki Mette Frederiksen – hafa verið meðal þeirra allra herskáustu í Evrópu, og hafa notað hærra hlutfall þjóðartekna í stríðsstuðning til í Úkraínu en nokkurt annað Evrópuland. Þeir hafa sigað þar stríðshundum ákaflega, „Ukraine skal vinde kriget!“ er vígorð Frederiksen sem mælir almennt gegn samningalínu í deilunni, af því: „Við eigum á hættu að friður í Úkraínu sé í raun hættulegri en yfirstandandi stríð.“
Donald Trump og hans menn eru sniðugir. Þeir tóku þetta ógnarmat Dana á orðinu og sögðu: Að mati Dana stafar helsta hernaðarhættan sem nú steðjar að Grænlandi frá hernaðrbrölti Rússa og Kínverja á svæðinu. Svo bættu þeir við: Það skapar sams konar hættu fyrir Ameríku – og fyrir heimsfriðinn. En Danir eru allt of veikir, þeir eru ekki í neinum færum til að verjast Kína og Rússum. Þess vegna þurfa Bandaríkin að ráða Grænlandi. Fyrir hernaðarlegt öryggi okkar, ekki bara það „efnahagslega öryggi“ sem Trump talaði um áður.
Trump notar semsé öryggismat Dana sjálfra til að réttlæta kröfur sínar um að taka Grænland frá þeim. Jafnvel með valdi. Stríðshundarnir sem Danir siga koma koma nú í bakið á þeim sjálfum, bítandi í hæl og rass.
Bandaríkin hafa lengi brotið alþjóðalög og troðið á fullveldi þjóða. Og sérstaklega síðustu tvo áratugina hafa þau gert það með nánast órofa stuðningi og oft virkri þátttöku Evrópuríkja. En nú gengur Donald Trump reyndar skrefi lengra og brýtur alþjóðalög á sínum dyggustu bandamönnum (og leggur refsitolla á alla sem malda í móinn). Ekki bara það: Á blaðamannafundi sérsktaklega um Venesúela og hótanirnar gegn Grænlandi var hann spurður hvort alþjóðalög heftu hann ekki neitt. Hann svaraði þá að bragði: “I don’t need international law” (ég þarf engin alþjóðalög).
* Um rússnesk herskipaumsvif við Grænland segir Albert Jónsson. „Það eru einfaldlega staðlausir stafir. Það eru engin slík umsvif við Grænland og sama á einnig við hafsvæði milli Íslands og Grænlands og reyndar önnur hafsvæði við Ísland.“
George Galloway er reyndur breskur (skoskur) stjórnmálamaður, afar vinsæll hlaðvarpsstjónandi og rithöfundur sem hefur sex sinnum setið á breska þinginu og er leiðtogi Vinnumannaflokks Bretlands (Workers Party of Britain). Í eftirfarandi snilldarmessu, eftirfarandi hlaðvarpsþætti (sérstaklega frá mín. 9:00) fjallar hann um ásælni Trumps í Grænland og varnarviðbrögðin við henni af hálfu Dana og ESB.

George Galloway: Geimverur og leiksýning á Grænlandi
Þá er að snúa sér að Carry On-myndunum. Aðeins þeir sem hafa náð ákveðnum aldri, muna eftir þessum miklu skopmyndum sem áður streymdu frá bresku kvikmyndaverunum. Þær voru kallaðar „Carry On-myndir“. Carry On Up the Khyber, Carry On up the Nile. Jæja, það hefur aldrei verið neitt Carry On eins og Grænland [„Áfram-myndirnar“ var þetta kvikmyndafyrirbæri kallað á íslensku].
Evrópubúar, eftir að hafa lítillækkað sig áratugum saman, á hverju einasta ári frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, gagnvart Bandaríkjunum, eftir að hafa skriðið undir skó Bandaríkjanna til þess eins að pússa þá og sleikja, eftir að hafa gert allt sem bandaríska heimsveldið bað þá að gera, leyft bandaríska heimsveldinu að velja óvini handa þeim, leyft bandaríska heimsveldinu að stýra þeim inn í stríð eftir stríð eftir stríð, eru nú að vakna upp við þann veruleika að eftir meira en hálfrar aldar áróður þar sem þeir undirbjuggu heilu þjóðirnar ítrekað, aftur og aftur, undir hættuna frá Rússum og síðar hættuna frá Kínverjum, hafa þeir vaknað upp við þá staðreynd að þeir eru við það að verða fyrir innrás, fá landsvæði sitt sundurlimað, rétt eins og fór með landsvæði Serbíu, Kosovo.
Hagsmunir þeirra eru bókstaflega kramdir, ekki af Rússlandi, ekki af Kína, heldur einmitt af þeim Bandaríkjum sem þeir litu á sem leiðtoga lífs síns, sem föður sinn, á hverju einasta ári frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Donald Trump hefur marga eiginleika, en sá magnaðasti þeirra er að vera holdgervingur hins ljóta Ameríkana í allri sinni nekt. Það er ekki fögur sjón.
Kamala Harris, Joe Biden og allir þeir sem voru á undan þeim höfðu að minnsta kosti nægilega sinnu til að staldra við framan við spegil og sjá til þess að förðunin væri í lagi. Ólíkt Donald Trump. Þau höfðu nægar áhyggjur af velsæmi, siðprýði og blekkingum til að tryggja að þau færu aldrei út óvaralituð. Niðurstaða stefnunnar var sú sama, en þetta leit betur út. Donald Trump vaknar á morgnana, klínir á sig förðun og fer í fyllerís-æði gegn hverjum þeim sem er óvinur þann daginn. Það gæti verið innri óvinurinn. Það gæti verið óvinurinn sem áður var innri en er nú utan við. Jeffrey Epstein? Einhver. The Swamp/Deep State? Einhver. Lokið þau inni! Russiagate-blekkingin?
Nei. Þessir óvinir eru allir nú horfnir inn í fortíðina. Óvinir dagsins í dag eru evrópsku leppstjórarnir sem eitt sinn sátu við fætur hans. Bókstaflega. Á einni frægri ljósmynd þar sem Donald Trump situr við skrifborðið og í kringum hann – eins og óþekk skólabörn – sitja leppstjórar Evrópusambandsins. Hann var að segja þeim – gaf þeim það merki í fyrsta sinn – hver það væri sem réði. Eftir að Trump hefur hótað að innlima Kanada sem 51. sambandsríkið, er Kanada nú nýbúið undirrita „strategískt samstarf“ við Alþýðulýðveldið Kína, við Frelsisher Alþýðunnar, við Sjóher Frelsishers Alþýðunnar, stærsta sjóher í heimi, stærsta her í heimi með ofurhljóðfráan flota kjarnavopna sem gætu breytt Bandaríkjunum í öskuhrúgu að minnsta kosti einu sinni, Kanada horfir nú austur, og það með réttu, til að leita verndar gegn ræningjanum – gegn George Armstrong Custer – sunnan landamæranna, svo að Grænland fær köldu kveðjurnar í staðinn.
Grænland er aðeins varið af Macron – sem fékk ekki bara eitt glóðurauga í vikunni heldur tvö – og birtist með sólgleraugu í yfirlýsingu sinni um 15 manna franska leiðangursher. Meloni, þar sem Ítalir eru alltaf minna herskáir, sendi fimm. Og Bretar, óvissir um hvernig þeir ættu að losna af þessum bandaríska staur sem hefur verið uppi í afturenda þeirra síðan 1945, gátu ekki sent neinn, svo þeir sendu einn. Fimm Ítalir, 15 Frakkar og einn Englendingur. Þeir mynda þann Dad’s Army [bresk skopsjónvarpssería frá 1968-1977] sem hefur nú lent á Grænlandi. Og þeir verða ekki mikið fleiri. Þeir eru þarna bara til að afhenda evrópskt land innrásarherjum Donalds Trump.
Og eins og með Carry On-myndirnar, finnst mér þetta allt svo hræðilega fyndið. Það er svo fyndið að tilhugsunin um að bandaríski fáninn „Stars and Sripes“ verði dreginn að húni yfir evrópsku landsvæði með hervaldi fyllir mig ekki þeim ótta og skelfingu sem hún hefði kannski einu sinni gert. Hún fyllir mig helst kátínu, því ef einhver á skilið slíka auðmýkjandi undirokun, slíka aumkunarverða, vesæla, barnalega smán, þá er það Evrópusambandið og leiðtogar þess. Ég hef ekki meiri tíma til að gera skil sögunni sem er rétt að koma í ljós. Þegar hún verður tilkynnt mun hún hefja nýtt tímabil í siðmenningu mannkyns, ef við getum kallað það svo. Henni verður skipt í tímann fyrir þessa vitneskju og tímann eftir þessa vitneskju.
Donald Trump, með fullkomnu og óvæntu leikhús-trixi [coup de théâtre], er í þann mund að tilkynna um tilvist geimvera. Ekki geimveranna í kringum ríkisstjórnarborðið hans. Nei, ég meina alvöru geimverur – á Grænlandi.
* * *
Eftirþankar:
Þrátt fyrir þessa skarplegu greiningu Galloways er ég ekkert viss um að niðurstaða Grænlands-krísunnar verði bein yfirtaka Bandarikjanna á Grænlandi. ESB vill ekki fara í svo hart að það spilli smvinnunni um Úkraínu.
Danmörk ætlar ekki heldur að taka það risaskref að hætta að vera dyggasti þjónn Bandaríkjanna á hernaðarsviði. Viðbrögð Dana við bandaríska yfirgangsseggnum eru þau að láta allt eftir honum og reyna að hafa hann góðan. Þeir segja: „It‘s all yours!“ Allt skal þér eftirlátið. Þú mátt setja upp eins margar herstöðvar og þú villt á Grænlandi. Þú færð líka fullan aðgang að öllum auðlindum sem þig listir.
Danir undirstrika líka að evrópski herleiðangurinn Operation Arctic Endurance til að verja Grænland, leiðangurinnsem Galloway kallar „Dad‘s army“ er þar ekki til að verjast Bandaríkjunum heldur Rússlandi. Yfirlýstur tilgangur var að „sannfæra Bandaríkin um að evrópsk Nató-ríki vildu í alvöru öryggi á Norðurslóum.“ Æðsti herforingi Dana á Norðurslóðum, Søren Andersen, spurður um aðgerðina segir: „It‘s all about Russia, not the USA. Russia Is the real Arctic threat.“ https://www.youtube.com/watch?v=W3mn8b8OjAQ
Við verðum að sjá til.
Myndin af evrópska herleiðangrinum sem er yfir greininni er sótt á síðuna https://steigan.no/ þann 19. jan







