Starfsmannaleigur eru tvöföld árás á verkalýðinn

18. ágúst, 2020 Jón Karl Stefánsson



Hinn skelfilegi bruni við Bræðraborgarstíg í sumar, þar sem ungt verkafólk lést í niðurníddu húsnæði starfsmannaleigunnar sem hafði ginnt það til landsins hefði átt að koma af stað stórfelldu uppgjöri og háværum og langvarandi umræðum um eðli slíkrar starfsemi. En því miður virðist ekkert vera að gerast í þeim efnum. Þetta þagnarástand má ekki líðast.

Starfsmannaleigur eru pýramídasvindl þar sem eigendurnir halda eftir ákveðnum hluta af því sem ætti með réttu að fara í laun og réttindi. Núverandi stjórnvöld halda hlífiskildi yfir þessari starfsemi, enda voru það einmitt áar núverandi fjármálaráðherra sem gerðust frumkvöðlar í slíkri starfsemi með innkomu ræstingafyrirtækisins ISS sem rústaði á sínum tíma kjörum ræstingarfólks og gerði hluthafa ISS ríka í leiðinni. Þá, eins og nú, studdu kratar bæði í hljóði og í verki innreið þessarar glæpastarfsemi og Reykjavíkurborg undir forystu R-listans var meðal fyrstu stóru viðskiptavina starfsmannaleigunnar ISS. Nú eru það Vinstri grænir sem bregðast alþýðunni með þögn sinni og aðgerðarleysi.

Framkoma samfélagsins í heild sinni við verkafólk frá öðrum löndum er til skammar. Í þrælageymslum í Vogunum, Höfðunum og öðrum verksmiðjuhverfum býr fólk sem hefur kannski 160 þúsund í ráðstöfunartekjur og vinnur erfið, vanþakklát störf, og lifir í stanslausri ógn við að vera kastað út þegar starfsmannaleigunni hentar. Vegna þess hversu viðkvæmri stöðu þetta fólk er í – það er algerlega háð vinnunni um afkomu og í raun mállaust – getur það lítið varið sig sjálft. Við þurfum að koma því til hjálpar.


Tilgangur “frjáls flæðis vinnuafls” fyrir eignastéttina

Auðvelt aðgengi íslenskra fyrirtækja og aðgerðarleysi stjórnvalda við að tryggja aðbúnað og kjör þessa fólks er ekki einungis árás á þessa erlendu verkamenn, heldur einnig á innlendan verkalýð. Þeir sem eiga ekki framleiðslutæki neyðast til að selja vinnuafl sitt til að lifa. Vald verkamanns til að stjórna sjálfur eigin kjörum felst í því að velja og hafna þeim störfum sem bjóðast. Þetta vald rýrnar eftir því sem færri störf bjóðast, og ef fleiri launþegar eru til en störf geta eigendurnir valið milli fleiri verkamanna en verkamaðurinn um störf. Slíkt ástand heldur, samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn, launum lágum og kjörum bágum. Samningsstaða launþega versnar því fleiri sem eru um hvert starf. Þegar hægt er að koma fram við verkamenn á þennan hátt, með smánarlaunum og óásættanlegum aðbúnaði, eru um leið send skilaboð til annarra verkamanna að standardinn hafi lækkað. Ef atvinnurekendur komast upp með að greiða lægri laun en gilda meðal íslenskra starfsmanna með því að skipta við starfsmannaleigur er það félagslegt undirboð og grefur undan kjörum og réttindum launafólks. Fyrirkomulagið gagnast einungis eignastéttinni. Ríkisstjórn sem ekki bregst við þessari tvöföldu árás á verkalýðinn þjónar hagsmunum eignastéttarinnar.

Erlendir starfsmenn sem hafa verið ginntir til landsins í gegnum starfsmannaleigur eru í raun fórnarlömb mansals og taka verður á þessu sem þeirri glæpastarfsemi sem það er. Það gildir einu þótt það sé eitt og eitt órotið epli inni á milli. Sem heild eru starfsmannaleigur öllu samfélaginu til vansa, einungis örfáir toppar fá rjómann af þeirri starfsemi, allir launamenn tapa. Þetta er krabbamein í okkar samfélagi. Íslenskt samfélag sem heild hefur komið fram við þetta verkafólk, sem oft sinnir mikilvægri grunnþjónustu, sem þræla. Þessu verður að linna. Allir starfsmenn á Íslandi verða að hafa sömu mannréttindi, sama hvaðan þeir koma. Starfsmannaleigur ætti að banna, í það minnsta að setja miklu strangari kröfur um það hvernig þær koma fram við verkafólk sitt og samfélagið í heild.