Sigurnarratívið hrynur
—
Orrustan um Kharkov
Nú berast fréttir af því að það að sé barist um Kharkov. Sumir hafa meira að segja talað um „fimmtu orrustuna um Kharkov“, þar sem fjórar slíkar áttu sér stað í seinni heimsstyrjöldinni: sú fyrsta árið 1941, önnur árið 1942, sú þriðja og sú fjórða árið 1943. Reyndar er að svo stöddu ekki barist um borgina sjálfa, heldur í Kharkov-héraði. En það var einnig þannig í þessum orrustum í seinni heimsstyrjöldinni, þar sem orrusturnar voru ekki alltaf háðar í borginni sjálfri, heldur mest megnis á svæðinu í kring. Það á sérstaklega við um orrustuna sem er kölluð önnur orrustan um Kharkov, sem er mjög þekkt orrusta í hernaðarsögunni, þegar Þjóðverjar umkringdu 20 herdeildir Sovétmanna sunnan við borgina (í „Barvenkovo salient“ eins og það var kallað), tóku 240.000 stríðsfanga og lögðu hald á 2.000 fallbyssur og nokkur hundruð skriðdreka (en samtals misstu Sovétmenn yfir 1.000 skriðreka í þessari einu orrustu).
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umfjöllun um Úkraínustríðið í vestrænum meginstraumsfjölmiðlum upp á síðkastið. Grein The Economist þann 20. maí er sérstaklega athyglisverð. Þar er haft eftir háttsettum embættismanni í Úkraínu að hershöfðingjar Úkraínuhers hafi verið að gefa forsetanum Zelensky fegraða lýsingu á stöðunni á vígvellinum, að þeir hafi verið að halda honum „í heitu baði“ (bein tilvitnun), sem sagt að segja honum ekki rétt frá raunverulega ástandinu og hversu alvarlegt það er. Þá segir þessi sami heimildamaður einnig, sem varð vitni að atvikinu, að Zelensky hafi „öskrað á hershöfðingjana sína“ (bein tilvitnun), vegna þess að hann telur þá ekki vera að segja sér rétt frá. Þetta minnir satt að segja á þekkt atriði í kvikmyndinni Der Untergang um síðustu dagana í neðanjarðarbyrginu.
Þarna er verið að fjalla um nýlega sókn Rússa í Kharkov-héraði (og víðar á víglínunni), sem virðist hafa valdið meiriháttar panikk í röðum Úkraínumanna, eins og The Economist greinir frá. Þetta er ekki bara einhver „rússneskur áróður“, heldur koma þessar lýsingar frá Úkraínumönnum sjálfum og vestrænum meginstraumsfjölmiðlum.
Frá upphafi þessa stríðs hefur það verið mjög áberandi í fjölmiðlaumfjöllun hér á Vesturlöndum hvernig reynt er að „stjórna narratívinu“. Það fara tvær andsæðar sögur af stríðinu, en samhliða raunverulegu baráttunni á vígvellinum er einnig háð „upplýsingastríð“ í netheimum, í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum, þar sem „sigur“ snýst um að sannfæra almenning um hvor hafi rétt fyrir sér, að vinna „the PR war“ eins og það er stundum kallað. Hið raunverulega markmið fjölmiðla í umfjöllun sinni um þetta stríð var látið í ljós í fyrirsögn NBC News í fyrra, í grein sem fjallaði um hina svokölluðu gagnsókn Úkraínuhers sumarið 2023, hvernig hún hafði misheppnast:
„Is Ukraine’s counteroffensive failing? Kyiv and its supporters worry about losing control of the narrative.“
Þýðing:
„Er gagnsókn Úkraínumanna að misheppnast? Stuðningsmenn Úkraínu óttast að missa stjórn á narratívinu.“
Eins og þekkt er þá hafa vestrænir fjölmiðlar hingað til verið að vinna „upplýsingastríðið“, en áróður Rússa þykir Vesturlandabúum almennt vera frekar ýktur, öfgakenndur og ófágaður. Áróður Vesturlanda er greinilega svona mikið fágaðri, fínpússaðri og áhrifaríkari! En núna erum við að horfa upp það að þetta sigurnarratív sem hefur verið spunnið af vestrænum stjórnmálamönnum og fjölmiðlum frá upphafi stríðsins er hrynja í sundur.
Mýtan um „umsátrið um Kíev“
Í sömu grein The Economist segir jafnframt um nýlega sókn Rússa í Kharkov-héraði:
„With an estimated 48,000 troops ready, Russia does not have the forces for a major attack on Kharkiv city, Ukraine’s second biggest.“
Þýðing:
„Með um 48.000 hermenn, hefur Rússland ekki nægan herafla til að reyna að hertaka borgina Kharkov, næststærstu borg Úkraínu.“
Á þetta ekki alveg eins við um hina þekktu sókn Rússa að Kíev í febrúar–apríl 2022? Þegar þeir voru einnig með aðeins um 40 þúsund manna herlið í þeirri sókn. Samkvæmt The Economist eru 48.000 hermenn ekki nógu stórt herlið til að taka næststærstu borg landsins (Kharkov). Hvað þá stærstu borg landsins með 3 milljón íbúa (Kíev)?
Markmiðið með sókninni að Kíev var þess vegna aldrei að hertaka borgina, eða hvað þá að hertaka alla Úkraínu, eins og okkur hefur stöðugt verið talin trú um ad nauseam (sem einhverskonar sönnun fyrir því að Pútín sé einhverskonar Hitler-týpa). Heldur var markmiðið að knýja Úkraínu að samningaborðinu svo að landið yrði hlutlaust og myndi ekki ganga í NATO. Þá var sóknin að Kíev einnig svokölluð hliðarsókn (sem er í hernaðarfræðum stundum kallað „feint“), á meðan aðalsóknin – þungamiðja innrásarinnar – var í Donbas, og einnig sunnanmeginn frá Krímskaga til að hertaka landbrúna yfir til Krím (sem Rússar gerðu strax á fyrstu dögum, ásamt umsátrinu um Mariupol).
Rússar drógu síðan þetta 40 þúsund manna herlið sitt til baka frá Kíev (og frá öllum norðurhluta Úkraínu) eftir að það hafði uppfyllt hlutverk sitt að binda herafla Úkraínu niður við höfuðborgina á sama tíma og aðalsóknin var annarsstaðar. En Rússar segja einnig að þeir hafi dregið þetta herlið til baka (frá Kíev og norðurhluta Úkraínu) í samræmi við það að samningaviðræðum var að miða áfram í Istanbúl, en ákvörðunin um að draga herliðið til baka var tilkynnt þann 29. mars 2022, sama dag og þegar samninganefndirnar voru að funda í Istanbúl og samningar voru næstum komnir í hús.
(Auka athugasemd: Núna erum við einnig að horfa upp á svipað í Kharkov-héraði. Sóknin þar virðist vera hliðarsókn eða „feint“, á meðan aðalsóknin er í Donbas hjá Chasiv Yar rétt hjá Bakhmut, þar sem markmiðið er í raun ekki að hertaka borgina Kharkov. Ásamt hliðarsókninni í Kharkov-héraði, eru Rússar einnig að sækja fram á mörgum öðrum stöðum á víglínunni, en þungamiðja sóknarinnar virðist aftur vera í Donbas. Eins og The Economist segir, þá eru Rússar aðeins með um 48.000 manna herlið í sókninni að Kharkov, og það hafa einnig borist fregnir að því að þeir hafa aðeins farið með um 15.000 hermenn yfir landamærin frá Belgorod yfir í Kharkov-hérað).
Hornsteinninn í sigurnarratívinu
En snúum okkur aftur að „umsátrinu um Kíev“ í mars 2022. Þessar staðreyndir sem voru taldar upp hér fyrir ofan ganga auðvitað í berhögg við sigurvímu-stríðsáróðursnarratívið sem hefur verið matreitt ofan í okkur frá upphafi, að Úkraínuher hafi hrakið Rússa til baka frá Kíev og öllum norðurhluta landsins með valdi. Að þetta hafi verið einhverskonar hernaðarsigur Úkraínuhers, sem tókst að stöðva innrásina að höfuðborginni og hrekja Rússa alla leið til baka að landamærunum. Þessi mýta er hornsteinninn í sigurnarratívinu og er notuð til að réttlæta þá fullyrðingu að Úkraína geti yfir höfuð sigrað Rússland á vígvellinum, og geti þar með farið með sigur af hólmi í þessu stríði. En sannleikurinn er sá að þessi saga af sigri Úkraínuhers í „umsátrinu um Kíev“ er bara mýta og ekki rétt lýsing á þeim atburðum sem raunverulega áttu sér stað.
Í fyrsta lagi drógu Rússar þetta herlið sitt til baka sjálfir. Þetta var svokallað „skipulagt undanhald“ („organized withdrawal“ en ekki „rout“). Hvaða gagnsókn Úkraínuhers var það eiginlega sem hrakti herlið Rússa til baka í mars–apríl 2022? Okkur hefur aldrei verið sagt það. Hvaða herdeildir Úkraínuhers tóku þátt í þeirri sókn? Okkur hefur aldrei verið sagt það. Það er vegna þess að það var engin slík sókn. Hún átti sér aldrei stað. Það eina sem Úkraínuher gerði var að fylla í skarðið eftir að rússneska herliðið hafði dregið sig til baka. Sem sagt að taka yfir borgir og bæi sem höfðu verið yfirgefnir af Rússum (bæir eins og Bucha sem var mest í fréttum þegar þessir atburðir áttu sér stað og einokaði mest alla athygli fjölmiðla á þeim tíma).
Í öðru lagi, ef Úkraínuher hefði raunverulega hrakið Rússa til baka með valdi, þá hefði þetta ekki verið svona snyrtilegt „withdrawal“, þar sem þeir drógu sig til baka á sama tíma þvert yfir alla víglínuna beint að landamærunum í öllum norðurhluta landsins. Heldur hefðu þá víglínurnar verið talsvert meira „messy“ og kaótískari, þar sem hluti af herliði Rússa hefði verið áfram innan landamæra Úkraínu á meðan öðrum hluta þeirra væri ýtt til baka. Þannig líta raunverulegar sóknir út. Þetta ber öll einkenni þess að hafa verið „organized withdrawal“, en ekki að Rússar hafi verið hraktir til baka með valdi í einhverskonar gagnsókn Úkraínumanna.
Tilgangur sigurfrásagnarinnar – að stigmagna og framlengja átökin
En hvers vegna vilja stjórnmálamenn og fjölmiðlar ólmir telja okkur trú um eitthvað sem stenst ekki nánari skoðun þegar að er gáð? Tilgangurinn með þessu sigurnarratívi er að „skapa samþykki“ fyrir áframhaldandi stríðsrekstri. Að réttlæta áframhaldandi fjárstuðning og vopnasendingar til Úkraínu. Að sannfæra skattgreiðendur á Vesturlöndum um að þetta sé þess virði. Að þetta sé ekki tapaður málstaður.
Í öllum stríðum er alltaf mikilvægt að stjórna narratívinu til að skapa stuðning við stríðsreksturinn. Við sáum þetta t.d. í Víetnamstríðinu, hvernig Bandaríkjastjórn missti á endanum stjórn á narratívinu, friðarsinnum sem mótmæltu stríðinu tókst að sannfæra fólk um að stríðið væri tilgangslaust og óvinnanlegt (sem var raunin, friðarsinnar höfðu rétt fyrir sér þá, eins og nú). En þetta leiddi til stefnubreytingar hjá stjórnvöldum þar sem þau fóru (eftir 1968) að draga herlið sitt til baka frá Víetnam og reyna að binda enda á stríðsátökin, vegna þess að það var ekki lengur stuðningur við stríðið meðal amerísku þjóðarinnar. Það var allavega ekki stuðningur við það að stigmagna stríðið enn frekar í því skyni að reyna að knýja fram sigur með vopnavaldi. Þegar Nixon réðist inn í Kambodíu í apríl 1970, þá vakti það gríðarmikil mótmæli um öll Bandaríkin, ein þau mestu sem höfðu átt sér stað fram að þeim tíma. Bandaríkjastjórn var greinilega ekki með stjórn á narratívinu. Það var enginn stuðningur við þessa innrás Nixon og Kissinger inn í Kambodíu, fólk var almennt hlynnt því að draga herlið Bandaríkjanna til baka frá Víetnam, ekki að stækka átökin enn frekar og inn í fleiri lönd.
Á svipaðan hátt, þegar almenningur Vesturlöndum fer að átta sig á því að stríðið í Úkraínu er tapað, eða í besta falli óvinnanlegt (eins og Víetnamstríðið á sínum tíma), sem sagt að Úkraína getur ekki unnið, og hefur í raun aldrei unnið neina raunverulega og þýðingamikla sigra á vígvellinum gegn Rússlandi (sigurnarratívið var mest megnis áróður), þá mun almenningur snúast gegn stríðinu, mun ekki halda áfram að styðja vopnasendingarnar, og fer í staðinn að kalla eftir vopnahléi og samingaviðræðum: friðsamlegri lausn átakanna, en ekki hernaðarlegri lausn. Þetta vilja valdhafar alls ekki. Þess vegna setja þeir svona mikinn kraft í stríðsáróður og upplýsingahernað. Til að stjórna narratívinu. Sem er gert til að skapa samþykki fyrir ríkjandi stefnu.
Þegar fólk sér loksins í gegnum áróðurinn, þegar það jafnar sig loksins eftir sigurvímuna og fer að sjá skýrt aftur, þá áttar það sig á því að vopnasendingarnar eru tilgangslausar, núverandi stefna stjórnvalda er óskynsamleg og jafnvel skaðleg, gerir ekkert annað heldur en að stigmagna og framlengja óvinnanlegt stríð, og ýta þannig undir meira óþarfa mannfall og eyðileggingu sem hægt væri að koma í veg fyrir. Þetta er í raun svipað ástand eins og skotgrafahernaðurinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Það var gjörsamlega glórulaust að halda þeim stríðsrekstri áfram, að halda áfram að senda mörg hundruð þúsund unga menn í hakkavélina mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Til hvers? Fyrir einhverja draumóra um glæstan sigur („glorious victory“) sem var aldrei áþreifanlegur, heldur í raun ekkert annað en óskhyggja.
Eina skynsamlega lausnin á þessum átökum í Úkraínu hefur alltaf verið að semja um frið sem fyrst við samningaborðið. En ekki að endurtaka þann harmleik sem átti sér stað í fyrri heimsstyrjöldinni, að fórna heilli kynslóð ungra manna í tilgangslausum skotgrafahernaði fyrir draumórakenndar hugmyndir um að „sigra Rússland á vígvellinum“ sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.