Setjum okkur í spor Venesúelabúa
—
Chris Murphy, þingmaður Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, útlistaði nýlega hvernig Bandaríkin skipulögðu nýjustu valdaránstilraunirnar í Venesúela. Í gegnum tíst hans skín að honum fannst ekkert sjálfsagðara en að Bandaríkin megi skipta um stjórnvöld í hvaða ríki sem er, hvernig sem er og hvenær sem er, og hann setti fram þessa lýsingu sem gagnrýni á Trump og hversu misheppnaður hann væri í að framkvæma valdarán.
Tíst Murphys eru enn ein staðfestingin á því að síðasta risaveldið stendur á bakvið aðgerðir Guaido-stjórnarandstöðunnar í Venesúela og að efnahagsþvinganirnar gegn ríkinu eru einfaldlega liður í valdaránsleik þess. Þetta á auðvitað að vera hverjum manni ljóst, en þrátt fyrir það eru fjöldamargir svokallaðir vinstrimenn sem enn berjast fyrir slíku valdaráni í orðum og gjörðum. Þá er oft vísað til bágrar efnahagsstöðu landsins sem á að sanna að byltingin í Venesúela sé misheppnuð.
Því má velta fyrir sér hvort þeir sem líta svo á málið myndu taka slíkri gagnrýni á Ísland á sama hátt, værum við í sömu sporum, og einnig hversu vel við myndum þola árásir á borð við þær sem Venesúelabúar hafa þurft að búa við? Íslenska efnahagskerfið hrundi árið 2008 eftir langvarandi sukk auðstéttarinnar með erlent lánsfé. Þegar bankarnir endanlega féllu beittu bresk stjórnvöld lögum sem kennd voru við viðbrögð við hryðjuverkum til að frysta eignir íslenskra banka sem farið höfðu offari í landinu. Einnig var settur þrýstingur á að íslenska ríkið stæði við skuldbindingar sem það undirgkkst þegar það skrifaði undir að ábyrgjast lánveitingar þeirra. Viðskiptaþvinganir vöktu upp reiði og grát hjá mörgum á Íslandi og farið var fram á að þær árásir á efnahagskerfi landsins yrðu afturkallaðar. Kröfur um ábyrgð á erlendum lánveitingum voru úthrópuð sem ósiðleg íhlutun í efnahag og stjórn sjálfstæðs ríkis.
Með dugnaði verkafólks, heppni og töluverðri aðstoð erlendis frá tókst Íslandi að jafna sig á efnahagskreppunni sem nýfrjálshyggjustjórnir fyrri ára höfðu skapað. Ísland hélt fullveldi sínu og einhverju af reisn sinni á alþjóðavísu.
Ef það væri Ísland
Ímyndum okkur að sagan hefði verið á þessa leið: Þegar efnahagskreppan skall á Íslandi myndu stærstu nágrannaríki okkar lýsa yfir að Ísland væri ógn við innra öryggi þeirra. Viðskiptaþvinganir væru settar á, fyrst á einstaka menn, svo á þau fyrirtæki sem skiluðu 95% af útflutningstekjum Íslands og loks á ríkið sjálft þannig að þau gætu ekki selt ríkisskuldabréf, ekki tekið lán og ekki innheimt eignir sínar erlendis. Viðskiptatengsl Íslands við umheiminn yrðu eyðilögð þannig að hverjum þeim sem myndi eiga viðskipti við Íslands yrði refsað. Á sama tíma væri hópur innan stjórnarandstöðunnar studdur í vopnuðum mótmælum gegn stjórnvöldum. Einstaklingum sem þegar höfðu verið staðnir að verki við að reyna að steypa löglegum stjórnvöldum úr stóli og koma á herstjórn yrði hampað sem nýjum leiðtogum stjórnvalda án þess að hafa til þess lýðræðislegt umboð. Innlendir kaupahéðnar væru staðnir að verki við að halda eftir vörum sem ættu að komast í smásöluverslanir til að skapa sýndarskort á vörum. Þessi hluti stjórnarandstöðunnar ættu í stöðugum viðræðum við stórveldi um hvernig væri hægt að einkavæða helstu eignir landsins og svo hvaða aðilar hrepptu hnossið. Áróðursapparat stórvelda yrðu sett í gang sem notuðu efnahagskreppu sem þau sjálf standa að baki til að sverta stjórnvöld. Stuðningsmenn stjórnvalda yrðu algerlega hunsaðir og einungis yrði rætt við andstæðinga þeirra. Ofan á allt væri Íslandi hótað hernaðarárásum ef ekki væri farið að öllu eftir kröfum þessarar stjórnarandstöðu.
Hversu brött værum við Íslendingar ef við stæðum í þessum sporum? Hversu vel gengi okkur? Við myndum spyrja okkur, hvers vegna er gengið svona framhjá alþjóðalögum sem banna einmitt slíkar efnahagslegar árásir og íhlutanir í lýðræðisferli sjálfstæðs ríkis?
Dæmið Chile
Þetta er það sem stjórnvöld og íbúar í Venesúela hafa staðið fram fyrir árum saman. Það sem meira er, þeir búa í heimsálfu sem hefur séð nánast nákvæmlega sömu atburðarrás aftur og aftur: Í Guatemala, í Chile, í Níkaragva, í Argentínu og Brasilíu, í Jamaica, Barbados og Haítí hafa sömu aðstæður komið upp.
Við vitum hvað gerðist í Chile vegna þess að sérstök þingnefnd náði að knýja bandarísku leyniþjónustuna að láta henni í hendur leyniskjöl um þátt þeirra í valdaráninu þar 11. September 1973. Ástæðan var einfaldlega sú að Chilebúar höfðu kosið stjórnvöld sem vildu bæta hag hinna fátækustu í landinu. Slíkan kommúnisma skyldi aldrei líða. Stjórn Allendes, sem kjörin var árið 1970, skyldi bolað frá, sama hvað það kostaði. Í skýrslu nefndarinnar sem rannsakaði þátt leyniaðgerða Bandaríkjanna sýndi að fyrsta skrefið var að ráðast á efnahaginn, því það áttu Bandaríkin auðveldast með. Nixon, þáverandi forseti, orðaði þetta svo: „Make the economy scream“ (orðsending til leyniþjónustunnar, CIA). Næsta skref var að hefja áróðursherferð með aðstoð nýjustu tækni í fortölum frá helstu félagsvísindamönnum Bandaríkjanna. Því var stjórnað í gegnum stærstu einkareknu fjölmiðla Chile. Skipulagðar voru mótmælagöngur efri- og millistétta gegn stjórnvöldum. Fyrsta búsáhaldabyltingin átti sér stað þegar bandaríska leyniþjónustan stóð að baki ákalli til ríkra húsmæðra um að mæta fyrir utan þingið með potta og pönnur. Svo voru þau öfl sem líkleg voru til að geta steypt stjórnvöldum af stóli með valdi fundin. Í tilfelli Chile voru þetta öfl innan hersins, auk hægriöfgaafla sem hægt var að vopna. Utanlands voru stjórnvöldin útmáluð sem óhæf, þar sem efnahagsmál væru í ólestri (þökk sé skemmdarverkum Bandaríkjanna), auk þess að vera hættulegir kommúnistar sem væru í slagtogi með Havana og Moskvu. Á endanum var forsetinn króaður af og ný stjórnvöld, undir forsæti fasistans Pinochets, tóku völd. Þúsundir voru pyntaðir og myrtir. Herstjórn ríkti í áratug. Chilebúar eru enn að ná sér.
Glæpur Venesúelabúa
Hið sama á að gera í Venesúela. Glæpurinn sem þeir hafa framið er að kjósa trekk í trekk stjórnvöld sem leggja áherslu á valdeflingu hinna fátækustu í samfélaginu. Frá árinu 1998 hafa Venesúelabúar verið í fremstu fylkingu við að mynda kerfi þar sem hinir mest kúguðu fá meiri rétt. Þetta eru kyndilberar vinstrisins. En vinstrið í Vestrinu hefur hins vegar brugðist, enn eina ferðina.
Þeir sem mynda stjórnarandstöðuna í Venesúela eru hinir ríku. Hatur þeirra byggir á ótta við að missa forréttindastöðu sína. Í blindu hatri sínu hafa þau bruggað launráð gegn eigin landi og hvatt til ofbeldisherferða. Gangsett hefur verið stóreflis áróðursherferð sem byggir á sömu klisjum og ætíð er þegar á að skipta um stjórnvöld. Sömu orðin eru ætíð notuð: stjórnin sem á að ryðja úr vegi er ólögmæt, óhæf og ofbeldisfull. Hún hættir að heita government og heitir nú „regime“. Átökin eru persónugerð í kringum mann sem búið er að djöfulgera. Persónugerving einfaldar alla umræðu. Litið er fram hjá efnahagsárásum Bandaríkjanna og látið eins og þrengingar þar séu einungis vegna vanhæfni og kommúnisma stjórnvalda. Öfgasinnaðir, ríkir hægrimenn eru studdir, þvert á alþjóðalög, með fé, áróðri og jafnvel vopnum. Þetta er fólk sem veit að það myndi aldrei sigra kosningarnar með réttu. Þegar hafa herdeildir komið sér fyrir í nágrannaríkjunum og bíða þess að koma á stjórnarskiptum með valdi.
Utanríkisráðherra Íslands hefur brotið alþjóðalög gegn Venesúela með því að viðurkenna ókosinn mann sem réttmætan stjórnanda landsins. Með heigulshætti og vanþekkingu hafa þeir dregið Ísland inn í enn eina ólögmæta herferðina um ofbeldisfull valdaskipti. Enn einu sinni á að koma stjórnvöldum hinna ríku að, eflaust með tilheyrandi hervaldi og fasisma.
Við verðum að standa með þeim í Venesúela sem standa gegn slíkri atburðarrás. Við verðum að taka afstöðu með alþjóðalögum og gegn þessum ofbeldisfullum aðförum að réttindum íbúa Venesúela. Okkur ber skylda til að krefjast þess að viðskiptaþvingunum verði aflétt og stöðvuð áform um ofbeldisfull stjórnarskipti.