Rauðir minningardagar í Berlín

16. janúar, 2019 Ritstjórn


Um miðjan janúar árlega safnast kommúnistar og sósíalistar margra landa saman í Berlín og ganga þar fjöldagöngu til minningar um uppreisn alþýðu, „ófullgerðu byltinguna“, sem brast á í nóvember 1918 en var kæfð með miklu ofbeldi í janúar 1919. Þann 15. janúar það ár voru helstu leiðtogar byltingarinnar, Karl Liebknecht og Rósa Luxemburg, myrt og þúsundir verkamanna í framhaldinu. Þar sem nú er öld liðin frá atburðunum var meira haft við en venjulega í Berlín.

Vésteinn Valgarðsson var þar; Á aldarafmælinu, 15. janúar, birti Vésteinn svohljóðandi fésbókarfærslu:

Í dag er slétt öld frá því hvítliðar/fasistar myrtu Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht, aðalleiðtoga þýskra kommúnista, og brutu þar með á bak aftur þýsku nóvemberbyltinguna, ófullgerðu byltinguna. Þessi morð voru framin með vitund og velþóknun Eberts og annarra krata í ríkisstjórn.
Í fyrradag gengu mörgþúsund manns í árlegri minningargöngu um Rósu og Karl, þar á meðal við nokkur frá Íslandi. Þessi árlega ganga er stærsta reglulega samkoma kommúnista í Evrópu, ef ekki heiminum. Gengið er frá Frankfurter Tor, um 4 km leið að minnisvarða sósíalista, þar sem margir frægustu píslarvottar og leiðtogar þýskra sósíalista eru grafnir.
Á laugardaginn var stór ráðstefna sem við fórum líka á. Og á fimmtudag og föstudag fórum við á söguslóðir, Landwehrkanal þar sem Rósu Luxemburg var kastað út í eftir að hafa verið skotin. Ekki er vitað hvort hún var með lífsmarki þá, en það var hún að minnsta kosti ekki þegar hún var slædd upp úr síkinu nokkrum dögum seinna.
Við skoðuðum líka Treptower Park, til minningar um Rauða herinn sem frelsaði Berlín undan nasistunum. Og styttuna af Marx og Engels.
Þetta var góð ferð.“


Uppreisnir í Evrópu 1917-20

Fyrir ári birtist hér á Neistum ræða Þórarins Hjartarsonar vegna aldarafmælis rússnesku byltingarinnar 1917. Þar segir um hina pólitísku kreppu í Evrópu á sama tíma:

„Undir lok styrjaldarinnar miklu og fyrst eftir stríðið, einkum árin 1917-20, kraumaði gríðarleg ólga meðal verkalýðs og alþýðu víða um Evrópu, gegn þeim auðvaldsstjórnvöldum sem höfðu leitt Evrópuþjóðirnar út í stríðið. Þar risu háar öldur allsherjarverkfalla og beinna uppreisna. Stríðið olli djúpri pólitískri kreppu sem allvíða ól af sér byltingarástand. Auk ráðstjórnarinnar í Petrograd varð til byltingarstjórn í Búdapest síðla árs 1918 og önnur sama vetur í þýska Bæjaralandi. Bylgja allsherjarverkfalla undir byltingarkröfum reið yfir víða um Þýskaland, í Finnlandi, í Ítalíu, í Búlgaríu og víðar árin 1917-20. Á nokkrum svæðum þar sem öldurnar risu hæst réði verkalýðurinn lögum og lofum um sinn, en hann náði ekki að halda þeim samfélagsvöldum neins staðar nema í Rússlandi, hinar uppreisnirnar voru ekki eins skipulagðar og markvissar – og þegar gömlu valdstéttirnar náðu vopnum sínum að nýju var hinn róttæki verkalýður laminn niður af miklu ofbeldi og grimmd.“

Þýskaland: byltingartilraun í stríðslok

Varðandi Þýskaland 1918-19: Atburðina þar þarf að skoða í ljósi þess að þýsk verkalýðshreyfing (og víðar um álfuna) var um þetta leyti gríðarlega sterkt afl, og róttæk. Flokkur hennar, Sósíaldemókrataflokkur Þýskalands (SPD), var orðinn stærsti flokkur þar í landi með yfir þriðjung atkvæða, og stærsti og áhrifamesti flokkur Annars Alþjóðasambandsins (sósíalista). Í aðdraganda styrjaldarinnar 1914 stóðu auðstéttir Evrópu froðufellandi hver gegn annarri. Á þingum Annars Alþjóðasambandsins höfðu viðbrögð gegn stríðshættunni haft algeran forgang. Neyðarþing Sambandsins í Basel 1912 ályktaði: Flokkar Sambandsins verða að „gera allt til að til að hindra að stríð brjótist út og beita þeim aðferðum til þess sem þeir telja áhrifaríkastar…“ Ef stríð brytist samt út mælti neyðarþingið fyrir um allsherjarverkfall.

En orð og gjörðir hættu nú að fara saman. Evrópska einokunarauðvaldið hafði nú flækt stóru flokka Annars Alþjóðasambandsins svo rækilega í net sín, gegnum þingpallafríðindi, ríkisstyrki og aðra silkifjötra, að þeir kúventu flestir 180 gráður. M.a. sá þýski; sumarið 1914 studdi hann hernaðar- og heimsvaldastefnu eigin auðstéttar undir merkjum þjóðrembu og boðaði s.k. „borgarafrið“ inn á við frammi fyrir styrjöld út á við (aðrir helstu flokkar evrópskra sósíaldemókrata gerðu slíkt hið sama).

Eftir þessi mestu svik í sögu sósíalista Þýskalands – og heimsins – klofnaði hinn mikli flokkur sósíaldemókrata, SPD. Í janúar 1916 höfðu Rósa Luxemburg og Karl Liebknecht forgöngu að stofnun Spartakus-sambandsins. Aðalmál þess var andstríðs-barátta, tilraunir til að skipuleggja allsherjarverkfall og uppreisn gegn stríðinu. „Aðalóvinurinn er hér heima“ skrifuðu þau. Þau Karl og Rósa voru fangelsuð í júní 1916 og sátu inni stríðið á enda.

Rautt – og síðan kolsvart

Í lok stríðsins féll áróður spatakistanna í æ frjórri jarðveg. Rósu og Karli var sleppt út. „Kapítalistar allra landa eru upphafsmenn fjöldamorðanna“, skrifuðu þau. Víða um Þýskaland í byrjun nóvember 1918 hófust víðtæk verkföll og stofnuð voru ráð verkamanna, bænda, og hermanna að rússneskri fyrirmynd. Eftir nokkra daga voru 60 stærstu bæir Þýskalands í höndum verkalýðs. Það var byltingarástand og 9. nóvember í Berlín lýsti Karl Liebknect yfir stofnun sósíalísks lýðveldis. SPD leiddi nýja ríkisstjórn, fyrstu stjórn Weimar-lýðveldisins undir forustu Friedrich Ebert, en flokkurinn settist líka í stjórn ráðanna og gat þannig stöðvað allsherjarverkföllin og látið verkamenn skila vopnum sínum en taka aftur upp fyrri störf.

Um jólin skipulagði afturhaldið sig: iðnjöfrarnir, bankavaldið og jarðeigna-júnkerar. Snemma í janúar réðist herinn inn í Berlín einkum svokallað „Freikorps“ hægriþjóðernissinna, með samþykki hinna kratísku stjórnvalda. Blóðug átök hófust í borginni en þar var verkalýðurinn vopnlaus, öfugt við Pétursborg 1917. Vopnin ráða úrslitum. Þau Karl og Rósa voru myrt og þúsundir verkamanna sömuleiðis.

Valkostirnir voru þessir: Annars vegar afturhaldið, iðnjöfrarnir, bankavaldið, jarðeignajúnkerarnir og hægri-þjóðernissinnar; Hins vegar verkalýðsbylting. Krataforingjarnir kusu fyrrnefnda kostinn í janúar 1919. Sá valkostur mótaði þýska sögu (og evrópska) næstu áratugi. Verkalýðurinn hefur ekki komist eins nálægt völdunum í vestur-evrópsku landi síðan. En minningunni um „ófullgerðu byltinguna“ 1918-19 er viðhaldiðhaldið í Berlín með árlegum fjöldagöngum hinna rauðu.


LLL gangan 2019 mynd:Vésteinn