Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna.
—
Hvers konar bylting var Októberbyltingin?
„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í Petrógrad, Moskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.
Hvað ef ekki bylting? Hvaða valkostir voru í boði?
Októberbyltingin er í ríkjandi umræðu oftast kölluð valdarán. Þá er líka gjarnan talað eins og borgaralegt lýðræði hafi verið á boðstólum í Petrógrad, jafnvel sósíaldemókratísk stjórn. Svo var þó ekki. Keisarastjórnin opnaði fyrir visst fulltrúalýðræði eftir byltingartilraunina 1905 en lokaði að mestu á það aftur 1907. Hún leyfði ekki heldur endurbótasinnaða verkalýðshreyfingu í landinu. Borgaralega bráðabirgðastjórnin 1917 sem tók formlega við stjórnartaumum eftir Febrúarbyltinguna hafði lítil völd og lítinn valdagrundvöll undir sér, svo þaðan var raunar litlum völdum hægt að ræna. Það var ekki borgaralegt lýðræði sem var valkosturinn við byltinguna sem kom heldur einhvers konar hernaðareinræði. Verkalýðsstéttin var tiltölulega lítill í Rússlandi en borgarastéttin þó bæði minni og pólitískt veikari. Með bráðabirgðastjórninni 1917 fékk borgarastéttin formlegt vald gegnum flokk sinn Kadettana sem leiddi bráðabirgðastjórnina framan af, seinna líka gegnum Kerenskí og Þjóðbyltingarflokkinn, en það vald var þó meira í orði en á borði. Eftir því sem leið á byltingarárið missti ríkisstjórnin og þar með borgarastéttin þetta vald. En skipulagning og vald verkalýðsins jókst stöðugt, fyrst og fremst gegnum eflingu verkamannaráðanna, sovétanna.
Þeir sem þá stóðu hvorir gegn öðrum voru verkamannaráðin og gamli keisaraherinn. Valið stóð á milli byltingar og gagnbyltingar. Kornilov æðsti hershöfðingi Rússlands (áður hershöfðingi í keisarahernum, nú skipaður í embætti af Kerenskí) reyndi snemma í sptember áhlaup gegn Petrograd, og fyrst og fremst gegn hinu öfluga verkamannaráði borgarinnar. Til að byrja með studdi ríkisstjórnin þetta áhlaup. En þegar Kerenskí forsætisráðherra varð ljóst – gegnum njósnir – að hershöfðinginn ætlaði sér ekki aðeins að uppræta sovétið heldur bráðabirgðastjórnina líka snéri hann við blaðinu og hvatti verkamannaráðið til að verjast Kornilof og skaffaði því m.a. vopn. Gagnbyltingarsveitir Kornilovs neituðu að hlýða skipunum frammi fyrir verkefninu í Petrógrad, vegna áhrifa frá byltingarsinnum. Þess vegna má segja að mikilvægur hluti byltingarinnar hafi verið hermannabylting.
Eftir þetta var ríkisstjórnin klofin í herðar niður og gjörsamlega valdalaus, og veitti ekkert viðnám þegar hún var svift völdum í nóvember. Gagnbyltingin lamaðist líka í bili af mislukkuðu áhlaupi Kornilovs. Hreyfing ráðanna efldist hins vegar að mun eftir Kornilov-upphlaupið og í framhaldi af því náðu Bolsévíkar meirihluta í sovétunum í Petrógrad, Moskvu og víðar. Gagnbyltingin var lömuð sem áður sagði – þar til borgarastríðið hófst 1918. Þegar það hófst var gagnbyltingin ekki borin uppi af borgaralegum öflum – þó þau styddu hana – heldur fyrst og fremst af gamla keisarahernum og gamla aristókratíinu. Því mátti ljóst vera að valkostirnir í Rússlandi voru annars vegar sósíalismi og hins vegar gamaldags einræði.
Þessir höfuðvalkostir voru ekki bundnir við Rússland eitt. Svipað munstur birtist á þeim stöðum í Evrópu þar sem spírur byltingarinnar voru barðar niður (sjá hér aftar). Og svo hoppað sé aðeins fram í tíma: Það einræðisstjórnarfar, víða fasískt og hálffasískt, sem breiddist út um stærstan hluta Evrópu – og austurhluta Evrópu nánast í heild – næstu tvo áratugi hafði andkommúnisma og andsósíalisma sem helsta sameiginlega bindiefni. Einræði fyrir elítuna og fasisminn á millistríðsárunum voru nefnilega fyrst og fremst svar ríkjandi stétta við byltingarhættunni og sósíalismanum. Þess vegna var það engin tilviljun að Sovétríkin urðu í aðalhlutverki í því að kveða niður fasismann í seinni heimsstyrjöldinni.
Pólitíska kreppan í Evrópu í lok fyrra stríðs
Októberbyltingin var ekki einangrað fyrirbæri. Undir lok styrjaldarinnar miklu og fyrst eftir stríðið, einkum árin 1917-20, kraumaði gríðarleg ólga meðal verkalýðs og alþýðu víða um Evrópu, gegn þeim auðvaldsstjórnvöldum sem höfðu leitt Evrópuþjóðirnar út í stríðið. Þar risu háar öldur allsherjarverkfalla og beinna uppreisna. Stríðið olli djúpri pólitískri kreppu sem allvíða ól af sér byltingarástand. Auk ráðstjórnarinnar í Petrograd varð til byltingarstjórn í Búdapest síðla árs 1918 og önnur sama vetur í þýska Bæjaralandi. Bylgja allsherjarverkfalla undir byltingarkröfum reið yfir víða um Þýskaland, í Finnlandi, í Ítalíu, í Búlgaríu og víðar árin 1917-20. Á nokkrum svæðum þar sem öldurnar risu hæst réði verkalýðurinn lögum og lofum um sinn, en hann náði ekki að halda þeim samfélagsvöldum neins staðar nema í Rússlandi, hinar uppreisnirnar voru ekki eins skipulagðar og markvissar – og þegar gömlu valdstéttirnar náðu vopnum sínum að nýju var hinn róttæki verkalýður laminn niður af miklu ofbeldi og grimmd.
Í hverju lá sérstaða Rússlands í þessu samhengi? Hin sósíalíska hreyfing hlýtur að skipta þar meginmáli, því án hennar verður auðvitað enginn sósíalismi. Árið 1914, við upphaf fyrra stríðs var Evrópa mjög mislangt komin í iðnþróun og hin sósíalíska hreyfing var því mjög misþróuð. Helstu öfl sósíalismans í álfunni voru annars vegar verkalýðshreyfing þessara landa sem víða var orðin vel skipulögð – og hins vegar sósíaldmókrataflokkar Annars Alþjóðasambandsins. Margir voru þeir orðnir að áhrifamiklum fjöldaflokkum, Sósíaldemókrataflokkur Þýskalands t.d. orðinn stærsti flokkur þar í landi með yfir þriðjung atkvæða, og fjöldaflokkar sósíalista döfnuðu einnig í Frakklandi, Niðurlöndum, Norðurlöndum og miklu víðar. Þeir kenndu sig við marxisma. Barátta þessara flokka og verkalýðshreyfingar skiptist milli annars vegar kjarabaráttu og hins vegar framboðs til þings í stjórnkerfi auðstéttarinnar. Gagnvart þeirri umbyltingu til sósíalismans sem þeir höfðu allir á stefnuskrá sinni biðu þeir þess eins að kapítalisminn kollvarpaði sjálfum sér fyrir tilstilli innri mótsagna, nokkuð sem þeir trúðu að myndi fyrst gerast í þróuðustu iðnríkjunum.
Þessir kreddubundnu flokkar vöruðu sig ekki á að kapítalisminn var kominn á nýtt stig, stig einokunar og heimsvaldastefnu. Byltingarsinnar eru ekki einir um að hugsa strategískt – það gerir auðstéttin líka . Hún notaði einokunar- og heimsvaldagróðann til að treysta og þróa valdakerfi sitt, sérstaklega með því að tengja við sig ákveðna lykilhópa í samfélaginu og búa til farveg fyrir endurbótasinnaða verkalýðshreyfingu og stéttasamvinnu í stað hinnar opinskáu stéttabaráttu sem skók þjóðskipulagið efst sem neðst og hótaði að kollsteypa byggingunni sjálfri. Það sýndi sig hins vegar að slíkt stéttasamvinnukerfi var lítt þróað í hinu vanþróaða Rússlandi.
Út á við leiddi heimsvaldastefnan til styrjaldarinnar miklu. Stríðshættan hafði legið í loftinu um skeið og á þingum Annars alþjóðasambandsins voru viðbrögð gegn stríðshættunni algert aðalatriði. Neyðarþing sambandsins í Basel 1912 ályktaði: Flokkar sambandsins verða að „gera allt til að til að hindra að stríð brjótist út og beita þeim aðferðum til þess sem þeir telja áhrifaríkastar..“ Og brjótist stríðið samt út beita þeir öllum ráðum til að stöðva það sem fyrst og „reyna eftir fremsta megni að nýta þá efnahagslegu og pólitísku kreppu sem stríðið veldur til að vekja alþýðuna og þannig fyrr en ella binda endi á hið kapítalíska stéttarveldi..“ segir í ályktunum þingsins. (Sjá Manifesto of the International Socialist Congress at Basel)
Þetta var stefnan. Svo kom raunveruleikinn. Evrópska auðvaldið hafði þá flækt stóru flokka Annars Alþjóðasambandsins svo rækilega í net sín, gegnum þingpallafríðindi, ríkisstyrki og aðra silkifjötra, að þeir kúventu flestir 180 gráður á fáum vikum sumarið 1914 og studdu hernaðar- og heimsvaldastefnu eigin auðstéttar undir merkjum þjóðrembu og boðuðu s.k. „borgarafrið“ inn á við frammi fyrir styrjöld út á við. Þegar stríðið braust út var því Annað Alþjóðasambandið gjörsamlega lamað. Í stað þess að beita alsherjarverkföllum og skipuleggja fjöldaaðgerðir gat það ekki einu sinni ályktað um málið. Þetta voru dramatískustu svik í gjörvallri sögu sósíalismans.
Í hverju fólst hin bolsévíska undantekning?
Svikin hlutu óhjákvæmilega að valda klofningi meðal sósíalista. Í mörgum löndum Evrópu árið 1914 börðust róttækir flokkar og flokksbrot einarðlega gegn stríðsstefnu eigin ríkisstjórna. Staðfastastur og áhrifaríkastur í þeim hópi var Bolsévíkaflokkurinn í Rússlandi. Bolsévíkar lögðust gegn öllum fjárveitingum til stríðsþarfa, og þegar stríðið braust út kröfðust þeir friðar strax, án landvinninga og héldu á loft fyrrverandi stefnu Annars Alþjóðasambandsins um að breyta heimsvaldastyrjöld í byltingarsinnaða uppreisn verkalýðs og alþýðu gegn eigin stjórnvöldum.
Lenín benti á að forneskjulegt efnahags- og stjórnkerfi Rússlands væri veikasti hlekkurinn í keðju heimsvaldastefnunnar, þar gæti keðja heimskapítalismans rofnað fyrst, öfugt við það sem Karl Marx áleit. Hin pólitíska kreppa stríðsáranna leiddi innri veikleikana í ljós. Það opinberaðist í Febrúarbyltingunni. Sumarið 1917 tóku Bolsévíkar svo mjög ákveðna stefnu á valdatöku verkamannaráðanna. Þá gerðu þeir það undir slagorðunum þremur sem reyndust hafa gríðarlegan sprengikraft: Brauð!, friður!, jarðnæði! – höfðandi til mikilvægustu byltingaraflanna: verkamanna, hermanna og bænda.
Lenín bætti við í áðurnefndri rökfærslu að þó að „keðjuna“ mætti fyrst slíta í Rússlandi væri á hinn bóginn erfiðara að halda byltingunni áfram til sósíalísks þjóðfélags þar en í hinum þróaðri löndum. Þegar byltingaraldan 1917-20 fjaraði út í Evrópu varð Sovét-Rússland engu að síður að horfast í augu við þann raunveruleika að byltingin hafði einmitt einangrast í veikasta og vanþróaðasta hlekknum.
Sem áður sagði var pólitíska kreppan víða í Evrópu í stríðslok lítið minni en í Rússlandi. En það sem vantaði upp á var hæf og afgerandi forusta fyrir verkalýðnum. Forusta sósíaldemókrata hafði svikið stétt sína, og reiði verkalýðs beindist þar ekkert síður að henni en að afturhaldinu sjálfu. Flokksbrot klufu sig þá frá krataflokkunum til vinstri en höfðu ekki áunnið sér forustustöðu meðal verkalýðs. Það einkenndi byltingarástandið á fyrrnefndum svæðum í Evrópu að verkalýðurinn sjálfur var róttækari og herskárri en þeir sósíalistar sem áttu að taka forustuna í stéttaátökunum. Þriðja Alþjóðasambandið, Komintern, var ýmist ekki orðið til eða aðeins til sem veikur vísir þegar byltingarólgan í Evrópu var mest árin 1919-20. Pólitísk forusta hins róttæka verkalýðs var því hikandi og óviðbúin því byltingarástandi sem myndaðist – allt þar til afturhaldið náði vopnum sínum að nýju til að berja hana niður.
Rússneska byltingin fór sínar eigin leiðir, og fylgdi engri kreddu
Kreddan sagði: Borgarastéttin hlýtur að hafa forustu í hinni borgaralegu byltingu. Það var stefna mensévíka. Bolsévíkar sögðu með Lenín strax árið 1905 að verkalýðurinn gæti orðið og hlyti að verða forustukraftur og leiðtogi hinnar borgaralegu lýðræðisbyltingar í Rússlandi. Sem hann líka varð.
Kreddan sagði: Það er kapítalisminn sem byggir og þróar efnahagsgrunninn undir sósíalismann. Það var stefna mensévíka. Bolsévíkar sögðu þvert á móti: Verkalýðsbyltingin þarf fyrst að byggja efnahagsgrunninn í Rússlandi til að geta síðan byggt sósíalismann.
Kreddan sagði: sósíalisminn felur í sér samyrkju í landbúnaði. Það var stefna bolsévíka fram að 1917. En eftir Febrúarbyltinguna þegar bændur höfðu hafið uppskiptingu jarðeigna aðalsins, þ.e.a.s. hafið bændabyltingu, þá studdu bolsévíkar þá uppskiptingu sem fól í sér einstaklingsrekstur í landbúnaði, þ.e.a.s. þeir yfirgáfu fyrri stefnu og tóku í raun upp stefnu Þjóðbyltingarflokksins. Á NEP-tímanum á 3. áratug héldu bolsévíkar áfram þessari smáborgaralegu landbúnaðarstefnu, en yfirgáfu hana er risaiðnvæðingin að þeirra mati útheimti meiri framleiðni í landbúnaði.
Bolsévíkar sáu ekki fyrir sér það einsflokks-ræði sem varð útkoma byltingarinnar. Um þetta var reyndar engin marxísk kredda til. Bolsévíkar gerðu nokkrar tilraunir með samsteypustjórnir en það strandaði endanlega í borgarastríðinu. Mensévíkar tóku sér yfirleitt stöðu gegn Rauða hernum og það gerði stærsti hluti Þjóðbyltingarflokksins einnig. Þeir flokkar voru þá bannaðir (sem varð upphafið að litlu pólitísku umburðarlyndi í Sovétríkjunum).
Kreddan sagði: Sósíalíska byltingin er alþjóðleg, bylting í nokkrum þróaðari iðnríkjum Evrópu er forsenda byltingar og sósíalisma í Rússlandi. En þegar Evrópubyltingin var sýnilega gengin til baka um 1922-24 varð „sósíalismi í einu landi“ eina mögulega framhaldið – nema ef Bolsévíkar vildu færa auðstétt og aðli aftur eignir sínar og völd. Andstaða trotskíista gegn „sósíalisma í einu landi“ var þess vegna kreddufesta og uppgjafarstefna – undir ofurróttækum slagorðum.
Alþjóðleg áhrif rússnesku byltingarinnar
Eftir rússnesku byltinguna varð það siður afturhaldsins að stimpla alla harðskeytta baráttu alþýðu í veröldinni sem „skipun frá Moskvu“, „skipun frá Stalín“ o.s.frv. Að stimpla hina byltingarsinnuðu bylgju áranna 1917-20 þannig var fráleitt af því „Moskva“ (eða Bolsévíkar) hafði harla lítil tök á „skipunum“. Hins vegar er óhætt að segja að rússneska byltingin hafi í bráð og lengd blásið róttæku verkafólki og alþýðu allra landa í brjóst eldmóði, bjartsýni og kjarki. Þetta gilti um Febrúarbyltinguna litlu síður en um Októberbyltinguna, þar sem sjálf holdtekja afturhaldsins í heiminum, Rússakeisari, hafði steypst af stalli sínum fyrir tilstilli lýðsins og var sópað burt. Öldur stéttaátakanna í Evrópu 1917-20 urðu hærri en ella vegna gríðarlegra áhrifa frá byltingunum tveimur í Rússlandi. Byltingarólgan hjaðnaði vissulega um eða upp úr 1920 og sósíalisminn einangraðist í Sovétríkjunum. En fordæmi byltingarinnar og tilvera Sovétríkjanna héldu áfram að hafa gríðarleg áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Ég nefni nokkra þætti alþjóðlegra áhrifa, en læt það bíða annarrar greinar að meta árangur byltingarinnar fyrir Rússland sjálft og Sovétríkin:
Stéttabarátta kreppuáranna í auðvaldsheiminum varð harðari og róttækari en ella af því verkalýðurinn vissi að auðvaldinu allsráðandi var hægt að steypa. Það hafði alþýða Rússlands sýnt.
Án hins mikla þáttar Sovétríkjanna hefði þjóðum Evrópu ekki tekist að hrinda af sér oki fasismans í seinni heimsstyrjöldinni.
Síðari alþýðubyltingar í Austur-Evrópu, í mismiklum mæli heimasprottnar eða útkoma sigra Sovétherjanna, byltingin á Kúbu eða byltingin mikla í Kína hefðu ekki orðið án þeirrar rússnesku og án Sovétríkjanna. Kínverska byltingin var einmitt tvíþætt eins og Rússneska byltingin, fyrst borgaraleg lýðræðisbylting sem þróaðist yfir í sósíalíska byltingu.
Fordæmi rússnesku byltingarinnar og tilvera Sovétríkjanna hafði gríðarleg áhrif til örvunar og eflingar þjóðfrelsisbaráttu og þjóðfrelsisstríðs í 3. heiminum gegn nýlendu- og heimsvaldastefnu á 20. öld. Áhrifin voru líka óbein í gegnum áhrif kínversku byltingarinnar sem eins og sú rússneska og þó enn frekar beindist gegn heimsvaldastefnunni.
Í fimmta lagi þarf að nefna áhrif rússnesku byltingarinnar á kapítalismann sjálfan. Í hinni þekktu bók sinni, „Öld öfganna“, skrifar Eric Hobsbawm eftirfarandi: að „varanlegustu áhrif októberbyltingarinnar – sem hafði það að markmiði að kollvarpa kapítalismanum á heimsvísu – voru þau að bjarga andstæðingnum bæði í stríði og friði – þ.e.a.s. með því að hræða hann til endurskipulagningar eftir seinni heimsstyrjöldina og með því að efla fylgi við áætlanagerð í efnahagsmálum…“ (Öld öfganna, bls. 19) Þessi „björgun“ er oft kennd við „samkeppni þjóðfélagskerfanna“ þ.e.a.s. að tilvera Sovétríkjanna og sósíalískra ríkja hafi þvingað fram breytingar á kapítalismanum til að forða honum frá byltingunni, breyta honum í átt til velferðarríkis. Í þeirri „björgun“ vitum við að kratisminn fékk mikið lykilhlutverk. Eftir að Austurblokkin gekk gegnum kreppu og síðan féll og Kína snérist líka til kapítalisma þá hvarf þessi ógnandi valkostur úr sýn um sinn. Við það missti kratisminn líka þetta björgunarhlutverk sitt og þar með mikið af stöðu sinni og áhrifamætti.
Að öllu samanlögðu rættust í Októberbyltingunni hin fleygu orð Karls Marx: „Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ Styrkur Bolsévíka 1917 fólst vissulega í byltingarsinnaðri stefnu en ekki síður í því að þeir sveigðu stefnu sína að raunveruleika stéttabaráttunnar fremur en að binda sig við fræðilegar uppskriftir.