Palestína – þjóðfrelsisstríð og breytt umhverfi

19. desember, 2023 Þórarinn Hjartarson

Ástandið á Gaza er ekki bara mannúðarkrísa og slátrun í sláturhúsi – og „endanleg lausn Palestínuvandamálsins“ samkvæmt kynþáttahugmyndum síonista. Það er líka stríð. Stríð Ísraels og Hamas. Hvers eðlis er það stríð? Joe Biden setur það í flokkinn „stríð gegn hryðjuverkum“ módel 2003, og vestrænir fjölmiðlar éta það upp eftir honum. Hið ljóta þjóðarmorð á Gaza er skýrt sem „réttur Ísraels til að verja sig“ og – eftir því sem morðinu vindur fram – sem „ýkt viðbrögð“ Ísraela. En þetta er rangt. Stríðið í Palestínu er þjóðfrelsisstríð. Í flokki með stríðinu í Víetnam eða í nýlendum Frakka, Breta, Portúgala o.fl. í Afríku og Asíu. Að sumu leyti sýnist það því eins og stríð frá síðustu öld. Og nú er 2023, ekki 2003.

 Mikið misvægi virðist vissulega vera með stríðsðilum. Ójafn leikur. Eins og gjarnan var milli landræningja og frumbyggja í nýlendun um. Samt eru úrslitin ekki gefin. Til að dæma um líkleg úrslit þarf að horfa á málstaðinn, afstöðu og viljastyrk palestínsku þjóðarinnar, grasrótarstuðning Hamas, alþjóðlegt baksvið, hin andstæðu öfl, hvernig bandalagslínur liggja o.fl.

Andstæðar herbúðir í Gazastríði eru þannig að annars vegar stendur Ísrael með sinn mikla hernaðarlega/efnahagslega bakmann og verndaraBandaríkin (sem sér nánast alveg um að vopna og vígbúa Ísrael) ásamt Vesturlöndum (Bretlandi og ESB/NATO), þ.e.a.s. stjórnvöldum þeirra. Hinum megin stendur Hamas, framvörður palestínskrar þjóðfrelsisbaráttu. Hamas á nánustu bandamenn í því sem kallað hefur verið „Andspyrnuöxullinn“ (The Axis of Resistance) í Miðausturlöndum, öxull sem myndast hefur í bandarísk-drifnum styrjöldum á svæðinu undanfarna áratugi. Það eru Hizbollah í Líbanon, Sýrland, Íslamska andspyrnan í Írak, Ansarallah (Hútí-hreyfingin) í Jemen og loks meginaflið sem er Íran, hinn mikli andstæðingur Bandaríkjanna á svæðinu. Þar á bak við, Palestínumegin í stríðinu, standa Arabaríkin, miseinarðlega að vísu, og ennfremur – eins og smám saman verður skýrara – hið hnattræna Suður.

Í ögn einfaldaðri mynd eru það vestrænir heimsvaldasinnar á móti rest – og birtist dável í vopnahlés-atkvæðagreiðslunni hjá SÞ þar sem Ísland sat hjá. En stór og vaxandi hluti almennings í Norðrinu sættir sig ekki við slíka afstöðu og styður baráttu Palestínu og setur þrýsting á Ísrael/USA. Sjá hér aðgerðir 10 desember. 

Í húfi er meira en staða Palestínu, líka staða og vald Bandaríkjanna í heimshlutanum. Það mikla vald birtist m.a. í um 100 herstöðvum sem Bandaríkin byggðu upp í Miðausturlöndum, einkum á árunum 1985-2005, þaðan sem þau hafa háð sín fjölmörgu stríð í heimshlutanum síðustu 30 ár. Stærsta og mikilvægasta „herstöðin“ er Ísrael sjálft, lykilhlekkur í kerfi bandarískra yfirráða (áður breskra) á þessu efnahagslega og valdapólitíska lykilsvæði.

Þessi stríð hafa þó ekki gengið sem skyldi fyrir Bandaríkin og vestræna bandamenn þeirra, og staða USA á heimsvísu veikist smám saman, eftir því sem fjölpóla heimur vex fram. Síðustu misserin hefur ein helsta aðferð Bandaríkjanna til að endurvinna skerta stöðu sína í Miðausturlöndum verið að vinna að sátt Ísraels við Arabaríkin, „normalíseringu“ milli þeirra, þar sem Palestínuvandamálinu er alveg ýtt til hliðar. Út úr þessu komu sk. Abraham samningar (Abraham accords): Bandaríkin komu um 2020 á friðarsamningum milli Ísraels og skjólstæðinga sinna Barein og Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna, samningaviðræður voru hafnar við Sáda en þó engir samningar þar í höfn. Í vikunni fyrir áras Hamas 7.október sagði öryggisráðgjafi Hvíta hússins nokkuð brattur: „Miðausturlönd eru rólegri en þau hafa verið í tvo áratugi.“ Aðgerð Hamas reif þá blekkingu rækilega í tætlur, og viðbrögð Ísraela gerðu enn frekar út um slíka „normalíseringu“.

„Israel will loose this war“

Einn best búni og harðvítugasti her í heimi berst við lítinn skæruliðaher á mjög þröngu svæði og beitir dæmafárri hörku og grimmd. Engu að síður hefur Ísrael ekki unnið stríðið enn. Toppmenn meðal bandarískra hermálagreinenda segja nú m.a.s. sem svo:  „Og samt er það alveg mögulegt að stríðið í Gaza verði fyrsta stríðið í sögu Ísraels sem her þess heyr og tapar. Sá ósigur væri katastrófa fyrir Ísrael og afar skaðvænlegur fyrir Bandaríkin.“  Ritið gamalgróna The Nation (nú vefrit) birti 8. desember allítarlega og upplýsandi grein eftir þá Tony Karon og Daniel Levy  og þeir komast að eftirfarandi niðurstöðu: „Israel will loose this war“

Þarna má lesa:

„Hin óvænta árás sló út herútbúnað Ísraels, braut upp hlið stærstu fangabúða heims og gekk hroðalegan berserksgang þar sem um 1200 Ísraelar, a.m.k. 845 af þeim óbreyttir borgarar, voru drepnir. Hamas rauf línurnar kringum Gazasvæðið af slíkum léttleika að minnti marga á Tet-sóknina í Víetnam 1968. Ekki bókstaflega – það er reginmunur á herleiðangri Bandaríkjanna í fjarlægt land og stríði Ísraels til að verja hernám heima fyrir, sem háð er af herskylduher drifnum áfram af tilfinningu fyrir tilvistarháska. En gagnsemin í hliðstæðunni liggur í hinni pólitísku rökvísi sem leiðir menn til uppreisnaráhlaups.

Árið 1968 töpuðu Víetnamskir byltingarmenn orustunni og fórnuðu miklu af pólitísku og hernaðarlegu neðanjarðarstoðkerfi sínu sem þeir höfðu byggt af mikilli þolinmæði um árabil. Samt var Tet-sóknin lykilatriði í ósigri Bandaríkjanna – en fyrir afar hátt verð í föllnum Víetnömum. Með því að framkvæma dramatískar og áberandi árásir gegn meira en 100 skotmörkum á einum degi gátu léttvopnaðir Víetnamskir skæruliðar rifið niður blekkinguna  um sigurför sem dreift var af Johnson-stjórninni. Þetta sýndi Bandaríkjamönnum að stríðið sem þeir voru beðnir um að fórna tugþúsundum sona sinna í var óvinnanlegt.

Víetnamska forustan mældi áhrif hernaðaraðgerða sinna eftir pólitísku gildi þeirra frekar en á hernaðarlegan mælikvarða. Þannig skældi Kissinger árið 1969: „Við háðum hernaðarlegt stríð en andstæðingar okkar háðu pólitískt stríð. Við leituðumst eftir að uppgefa þá líkamlega en þeir stefndu á sálfræðilega örmögnun okkar.“

Almennir áhorfendur og hlustendur í vestrænum fjölmiðlaheimi hafa vissar hugmyndir um hernaðarlegan og efnahagslegan styrk Ísraels og stuðningsliðs þess. Minna vita þeir um styrk andstæðinganna. Gerum þá litla liðskönnun.

Hamas

Fyrra og seinna Intifada, Osló-friðarferlið og loks friðsamlega Endurkomugangan mikla á Gaza; allt þetta hafði ekki skilað Palestínumönnum neinu, ástandið hafði aðeins versnað hjá íbúunum: Sívaxandi landrán síonista, innilokun Gaza í herkví, þrúgandi líf við skort, réttleysi og ofbeldi hernámsins. Hamas og þjóðhollir Palestínumenn sjá í óbreyttu ástandi ekkert annað en „hægan dauða Palestínu“. Og eftir því sem fleiri pólitísk og diplómatísk úrræði sigla í strand og verða að engu færist valkostur Hamas um vopnaða andstöðu ofar á úrræðalistann, þar sem hann reyndar var áður hjá hinu byltingarsinnaða PLO fyrir ca. 1990 (PLO gekkst svo inn á afvopnun í kringum Oslóar-friðarferlið). Fyrst: Hvers konar hreyfing er Hamas? Karon og Levy skrifa:

„Með því að mölbrjóta þann status quo sem Palestínumönnum er óbærilegur hafa Hamas sett pólitík á dagskrá. Ísrael hefur mikið hervald en er pólitískt veikt. Bandaríska valdakerfið sem styður hernað Ísraels er mikið til þeirrar skoðunar að hefta megi það ofbeldi sem sprettur úr kúguðu samfélagi með ofurefli valdbeitingar…

Vestrænir stjórnmálamenn og fjölmiðlar fimbulfamba um að Hamas séu níhilískir vígamenn af ISIS-gerð. En Hamas er í reynd fjölhliða pólitísk hreyfing með rætur í þjóðfélagsgerð og þjóðlegum metnaði Palestínsks samfélags. Hún felur í sér þá trú, harkalega studda af áratuga palestínskri reynslu, að vopnuð andstaða sé miðlæg í frelsisbaráttu Palestínu vegna strandsiglingar Óslófriðarferlis og óaflátanlegs fjandskapar andstæðingsins.  Og áhrif og vinsældir Hamas hafa aukist eftir því sem Ísrael og bandamenn þess gera að engu friðarferlið og aðrar friðsamlegar leiðir til að styðja frelsun Palestínu.“

Andspyrnuöxullinn

Þeir Karon og Levy skrifa nokkuð um þann stuðning sem Hamas fær utanfrá. Ég ætla samt að benda á aðra grein sem fjallar meira um þann þátt málsins. Pepe Escobar er kunnur brasilískur greinandi geopólitíkur sem skrifar í nokkur rit, er m.a. dálkahöfundur í ritinu The Cradle. Þar skrifaði hann greinina: „BRICS og Andspyrnuöxullinn – sameiginleg markmið“

„Það sem við höfum til þessa eru dreifðar, stakar árásir: Hizbollah sem eyðileggur fjarskiptaturna Ísraels sem snúa að suðurlandamærum Líbanon, andspyrnuhreyfing Íraks sem gerir  árásir á bandarískar herstöðvar í Írak og Sýrlandi, og Ansarallah í Jemen sem áþreifanlega lokar Rauða hafinu fyrir ísraelskum skipum. Allt þetta myndar þó ekki samtaka og samtillta sókn – ennþá.“

Við skulum staldra aðeins betur við þau atriði sem hér voru nefnd. Hizbollah kom heiminum á óvart með afar öflugri landvörn í árás Ísraels á landið árið 2006 svo að árásin mistókst og Ísrael náði engum stríðsmarkmiðum sínum. Hizbollah hefur miklu öflugri og betur útbúinn her en Hamas, og á landamæri að Ísrael.

Fyrir skömmu bárust þær fréttir úr bandaríska utanríkisráðuneytinu að bandarískar hersveitir og herstöðvar í írak og Sýrlandi hefðu orðið fyrir árásum í 76 skipti síðan 7. október. Þar á meðal er drónaárás sem olli verulegum skemmdum í herstöð nærri Erbil í Norður-Írak. Sú herstöð ein hefur orðið fyrir 12 árásum. 

Endurteknar árásir frá Jemen á skip tengd Ísrael eða á leið til Ísraels. Houtihreyfingin í Jemen hefur með þeim hætti (með Íran að baki sér) yfirtekið stjórn á skipaumferð um Rauðahaf.  Það birtist m.a í Eilat, eina hafnarbæ Ísraels sem snýr að Rauðahafi. Höfnin þar er nú nánast tóm vegna aðgerða Houtía. The Cradle skrifar að Mærsk, fimmta stærsta skipafélag heims, hafi ákveðið að senda ekki skip sín gegnum Rauða hafið heldur hina löngu sjóleið suður fyrir Afríku. Nýjustu fréttir herma að fimm stór skipafélög geri slíkt hið sama, sem þýðir að Rauðahafið og Súez hafi í reynd lokast fyrir verslunarumferð!  

Íran er yfirburðastærsta aflið í Andspyrnuöxlinum. Iran hefur stóran og öflugan her. Herstyrkur Írans hefur verið meginverkfæri í að hindra enn stórfelldari átök í Mið Austurlöndum – á tímum kolgrimmrar hernaðarstefnu bandaríska hnattveldisins. Án svo öflugs hers hefði Íran að öllum líkindum fengið sams konar útreið og Írak, Sýrland, Afganistan og Líbía. Íran mun varla endalaust horfa aðgerðarlaust upp á Ísrael fremja þjóðarmorð á Gaza. Nýlega var íranski utanríkisráherrann Hossein Amir-Abdollahian spurður um möguleg írönsk afskipti af deilunni. Svarið var á þessa leið:

„Við sögðum að við vildum ekki að stríðið breiddist út en vegna þeirrar stefnu og framferðis sem Bandaríkin og Ísrael hafa á svæðinu, ef glæpirnir gegn fólkinu á Gaza og Vesturbakkanum eru ekki stöðvaðir, yrðu allir möguleikar skoðaðir, og útbreiðsla átakanna gæti reynst óhjákvæmileg.“

Umheimurinn – og breytt mynd Vestur Asíu

Escobar byrjar grein sína svo: „Gazastríðið hefur hraðað samvinnu milli risa hins hnattræna Suðurs til þess að bregðast við deilu sem vakin er af Vestrinu. Rússlandsstýrt BRICS [Rússland fer þar nú með forurstu] og Íranstýrður Andspyrnuöxull geta búið til „USA-lausa“ Vestur-Asíu.“

Forseti Rússlands Vladimir Putin and forsesti Írans Ebrahim Raisi funda í Tehran í Júli 2022.

Árin 2001 og 2003 hóf BNA tvö mikil stríð í Austurlöndum nær, í Afganistan og Írak, og þurfti varla hafa samráð við aðra eða biðja neinn leyfis. Bandaríkin ein réðu (sú staða var uppi sérstaklega eftir fall Sovétríkjanna 1990). Og enn brugðust Bandaríkin við að sínum hætti, þau hafa eftir 7. október sent 75 herskip á svæðið. En staðan og umhverfið er breytt. Á undaförnum árum hafa orðið stóraukin tengsl milli Arabaríkja, Írans og Rússlands og Kína. Sem hefur gjörbreytt valdapólitíkinni á þessu svæði. Og það er bersýnilegt að Gazastríðið herðir bara stórlega á þeirri þróun. Bandaríkin eru langtífrá  einráð eins og þau voru. Escobar skrifar um mikla heimsókn Vladimírs Putín með föruneyti snemma í desember í tvö af helstu hefðbundnu bandalagsríkjum Bandaríkjanna og Ísraels í Arabalöndum: Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi Arabíu. Það var í trássi við eftirlýsingu Alþjóðlega sakamáladómstólsins á Pútín sem glæpamanni. Ekki nóg með það, honum var tekið sem konungi og þjóðhetju í senn. Þá er þess að geta að bæði Sameinuðu arabísku og Sádi Arabía eru á leið inn í fjölpóla orkustöðina  BRICS nú um áramótin (ásamt þriðja Vestur-Asíulandinu Íran). Þeir ræddu komandi efnahagssamvinnu (við komu landanna tveggja inn í BRICS). Þetta má bera saman við heldur snautlegar móttökur sem Antony Blinken fékk tveimur mánuðum fyrr. Síðan flaug Pútín heim aftur til að hitta þar Ebrahim Raisi forseta Írans í Moskvu. Þetta er vitnisburður um þá „miklu einangrun Rússlands“ sem RÚV tönnlast sífellt á. Escobar skrifar:

„Alhliða samstarf Rússlands við Íran þróast á geysilegum hraða, samhliða samstarfi við Sádi Arabíu (sérstaklega varðandi OPEC+) og við Sameinuðu arabísku furstadæmin (fjárfestingar). Þetta hefur þegar leitt til róttækra breytinga á gagnkvæmum tengslum þvert yfir Vestur-Asíu í varnarmálum. Langtímaáhrif fyrir Ísrael, langt út yfir Gazaharmleikinn, eru gríðarleg.“

Heimsóknin sýndi að vald og áhrif Bandaríkjanna í heimshlutanum eru á fallanda fæti. Pútín sannaði – segir Escobar – að þetta er ný Vestur-Asía þar sem bandaríska yfirráðaveldið er gerandi í aukahlutverki og arabísk og írönsk innganga í BRICS mun að lokum umskrifa reglurnar í Vestur-Asíu, til skaða fyrir hið síoníska prósékt.

Ísrael verður látið svara fyrir gerðir sínar

„Það eru m.a.s. góðar líkur á að í þetta sinn muni staðfestir stríðsglæpir Ísraels í Gaza mæta ákæru þar sem Palestínumenn, Arabar og þjóðir með íslamskan meirihluta og með fullum BRICS-stuðningi skapa rannsóknarnefnd viðurkennda af hnattræna Suðrinu sem dregur Tel Aviv og her þess fyrir dóm“.

Á fundunum í Moskvu 7. desember hittust forusturíki BRICS, Rússland [fer nú með forustu í BRICS], og helsta ríki Andspyrnuöxulsins, Íran. Efni þess fundar númer eitt, skv. fréttum, var tengt Gazastríði.  Enn skrifar Escobar:

„Vafalaust hefur mest glóandi fókus í hinum ítarlegu umræðum í Moskvu undanfarna daga verið sá að við séum að nálgast þann punkt þegar „gefið merki“ mun vekja samstillt viðbragð anspyrnuöxuls.“

Streð Bandaríkjanna eftir fullum yfirráum í Miðausturlöndum sem staðið hefur frá 1990 er á leiðinni að tapast, Gazastríðið birtir þann veruleik. Þróun geópólitíkur kringum það stríð gefur til kynna  að Bandaríkin og Ísrael munu líklega ekki græða á að láta Gazaátökin breiðast út fyrir landamærin, það yrði framtíð hnattveldisins líklega örlagaríkt, lífshættulegt. Að því marki sem strategistarnir í Washington (og Tel Aviv) átta sig á þeim veruleik hamlar það gegn áframhaldandi dauðamarsi þeirra.