Niður með orkupakkann!

3. apríl, 2019 Þórarinn Hjartarson


Þórarinn Hjartarson fjallar um markaðsvæðingu og fullveldisafsal í orkupakkamálinu.

Niður með orkupakkann!

Tillaga utanríkisráðherra og ríkisstjórnar er að heimila Alþingi „að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara“ við innleiðingu 3 orkupakkans í EES-samninginn. Ef þjóðþing allra EFTA-landanna samþykkja verður pakkin að lögum á EES-svæðinu og þar með Íslandi.

Stuðningsmenn pakkans, m.a. ráðherrar Sjálfstæðisflokks og VG, flytja málið þannig að annars vegar hafi pakkinn „engin áhrif á Íslandi“ og hins vegar að höfnun hans setji „EES-samninginn í uppnám“.

„Það yrðu stórtíðindi í íslenskri pólitík ef þriðji orkupakkinn yrði felldur vegna þess að það gæti sett EES-samninginn í uppnám. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.“ (RÚV 14.11.2018)

Viðskiptablaðið skrifar 1. apríl: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn… Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar – sem hafa engra hagsmuna að gæta í þessu máli – færu að hafna pakkanum.“ („Mikil óvissa ef Alþingi segir nei“)

Markaðsvæðing – orkan sem vara

Þriðji pakkinn fjallar um verslun með orku: Orka á að vera vara sem á að fljóta frjálst á innri markaði ESB/EES. Öll ákvæði EES-samningsins um frjálsa flæðið – „sál ESB“, fjórfrelsið – munu taka gildi fyrir raforkugeirann (sem og jarðgas), strax við samþykkt Alþingis á Pakkanum, ekki við lagningu mögulegs sæstrengs. Þriðji markaðspakkinn felur í sér markaðsvæðingu. Um það er ekkert deilt. „Orkupakkarnir voru ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji er það líka“, sagði orkumálaráðherrann Þórdís Kolbrún Gylfadóttir um daginn á ársfundi Landsvirkjunar (Mbl. 28.febr.).

Dæmi: Umrædd markaðsvæðing leiðir af sér bann við hvers konar niðurgreiðslu orku og pólitískri stjórnun orkumála, svo sem út frá umhverfisáherslum (orkuskipti í samgöngum), lýðheilsu, matvælaöryggi o.s.frv. Markaðurinn skal ráða og orkan seljast hæstbjóðanda sem þýðir útilokun á aðkomu lýðræðislegra stofnana. Það er engin tilviljun að helsta andstaðan við pakkanum kemur frá samtökum bænda. Og garðyrkjubændur sjá sína sæng upp reidda í nýrri verðsamkeppni.

Sæstrengur er svo framkvæmdaratriði. Alþingi skal setja þann fyrirvara að Alþingi eigi að ákveða hvort leggja skuli streng. Hvort sem sá fyrirvari heldur gagnvart ESA eða ekki (og fyrirvarar í kjötmálunum halda greinilega ekki): Ef peningavaldið og evrópskt stofnanavald taka að kalla á sæstreng og glittir í gull, er þá Alþingi líklegt til að standa í lappirnar? (við munum ICESAVE-afgreiðslu Alþingis) Og ef strengur er lagður er fullveldi okkar í orkumálum farið.

„Orkuverð á Íslandi mun hækka gríðarlega“ við innleiðinguna, segir Jón Baldvin Hannibalsson. Styrmir Gunnarsson skrifar: „Verði orkupakkinn samþykktur hefur Evrópusambandinu verið opnuð leið til þess að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga.“

Orkusamband – liður í samrunaþróun

EES-samningurinn og evrópska stofnanavaldið er nú notað sem pískur á Alþingi og þjóðina. Samþykkið pakkann eða EES-samningurinn er „í uppnámi“! Og EES-sinnar beygja sig hver af öðrum. Af hverju? Af því höfnun á orkupakkanum felur í sér höfnun á EES eins og það er nú orðið. Að fella samninginn ætti þess vegna að leiða af sér gagngert uppgjör við EES.

Þetta á ekkert að þurfa að koma á óvart. EES-samningurinn hefur forgang fram yfir þjóðlega löggjöf. EES-lög er hluti, stór hluti, af ESB-löggjöf. EES var frá upphafi hugsað sem forgarður að ESB. „Jafnræðisreglan“ í samskiptum ESB og EFTA-ríkja hefur einmitt virkað þannig að EES-samningurinn felur í sér hæga og bítandi aðlögun að ESB.

Árið 2008 fór að bera á svæðisbundnum orkuskorti innan ESB. Það flýtti fyrir því að miðstöðvar sambandsins ákváðu að koma á einu sameiginlegu orkukerfi samkvæmt svokallaðri „Kerfisþróunaráætlun“. Eins og í öðru frá Brussel er stefnan „miðstýrt frelsi“, miðstýrð markaðsvæðing, miðstýrð frjálshyggja.

Orkupakkarnir eru einn þáttur í evrópska samrunagangverkinu. ESB yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum aðildarríkja, í einum málaflokki af öðrum, svo sem fjármálaeftirliti, fjármálaregluverki, persónuvernd, innflytjendastefnu, vinnumarkaðsmálum, lýðheilsu, orkumálum. Það er gert á þann hátt að setja einfaldlega á stofn valdamiklar stofnanir sem lúta bara eftirliti Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Og í mörgum tilfellum nær vald þeirra yfir allt EES-svæðið, ekki síst ef valdsviðið snertir fjórfrelsið.

Eins slík stofnun er ACER, orkustofnun Evrópusambandsins, stofnuð 2010. Samkvæmt orkupökkunum er hún æðsta stjórnvald, setur bæði markaðsreglur og tæknilegar reglur í orkumálum. ACER tekur ákvarðanir um flutningskerfi (raforkunet) sem liggja yfir landamæri og setur yfirþjóðlegar reglur um orkuöryggi og „sameiginlega hagsmuni“ og sker úr í deilumálum meðal aðildarríkja um kostnað við sameiginlegt orkukerfi. Eitt markmið ACER er að jafna orkuverð í ESB/EES.

Þáttur VG

Þáttur VG í málinu er raunalegur, en svo sem í samræmi við „ESB-andstöðu“ þess flokks undafarin misseri, og flokkurinn aðhyllist æ meir þá markaðskratísku hundalógík sem tengir ESB við „vinstrimennsku“. Katrín Jakobsdóttir fullyrðir bara að fyrirvarar utanríkisráðherra haldi til að tryggja „forræði íslenskra stjórnvalda“ í málinu. Hins vegar segir hún eða flokkssystkini hennar á þingi harla fátt um það hver ávinningur Íslands sé af að ganga í þetta orkusamband. Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra skrifar að ríkisstjórnin verði „að gera okkur grein fyrir því hver ávinningur okkar er“: „Hvers vegna eruð þið að þessu yfir höfuð?“ (Bændablaðið 6. Tbl. 2019)