Neistar – og Hollvinafélag Neista

26. maí, 2023 Ritstjórn

Þetta er ávarp um vefritið Neista. Ritið er komið á nýjan rekstrarlegan grundvöll. Neistar voru stofnaðir árið 2017 sem málgagn Alþýðufylkingarinnar. Þannig hafa þeir verið reknir í á sjöunda ár. Ritstjórnarstefnan hefur þó í vaxandi mæli verið sjálfstæð og óháð. Mjög hefur dregið úr starfi Alþýðufylkingarinnar en Neistar halda sínu striki. Núna, í maí 2023, hefur verið stofnað sjálfstætt félag um reksturinn, Hollvinafélag Neista (sem hefur verið rúmt misseri í fæðingu). Breytingin er hugsuð til að koma fleiri fótum undir ritið og koma rekstri þess á breiðari grunn.

Neistar verða flokkspólitískt óháðir og alveg sjálfs sín ráðandi. Þetta þýðir samt ekki að ritið sé óháð og óskuldbundið sérhverjum pólitískum málstað. Hjartað slær á sínum stað. Í glugganum „Um okkur“ á forsíðu má lesa stefnugrundvöllinn sem við stöndum á: „Neistar eru gagnrýninn og upplýsandi andkapítalískur fjölmiðill sem leitast við að afhjúpa heimsvaldastefnu og alþjóðavæðingu á forsendum auðvalds og ómennsku, standa vörð um réttindi verkalýðs og undirokaðra hópa, verja tjáningarfrelsið á tímum vaxandi ritskoðunar og styrkja samfélagslega umræðu.“

Neistar hafa gegnum árin haft eigin rödd á þeim sviðum þar sem þeir hafa tekið til máls og lagt áherslur. Rétt er að taka það fram að í hollvinahópnum stendur áhugi manna einmitt til að varðveita þá rödd frekar en að taka upp nýja. Auðvitað með breyttum áherslum á breyttum tíma. Neistar hafa birt vandaðar greinar þar sem þjóðfélagsleg mál (íslensk og alþjóðleg) eru rædd, skoðanir viðraðar, en fúkyrðum yfirleitt stillt í hóf, heimildir eru gegnsæjar og rekjanlegar. Það er grundvallaratriði að það haldi áfram, þó á nýjum rekstrargrundvelli sé.

Að „verja tjáningarfrelsið“ er eitt stefnumála Neista. Enda full ástæða til. Tjáningarfrelsið skreppur saman og skilyrði samfélagsumræðu versna. A) Meginstraumsmiðlar hins vestræna heims  – ýmist í eigu stórfyrirtækja eða ríkisvalds – fylgja í sívaxandi mæli einni samræmdri línu. Í svokölluðum öryggismálum fylgja þeir opinberri línu NATO, punktur. Í efnahagspólitík fylgja þeir í öllum aðalatariðum markaðsfrjálslyndri hnattvæðingarhyggju skv. leiðsögn ESB og glóbalistanna vestan hafs. Í umhverfismálum ríkir hávær og ágengur grænþvottur, takmarkaður við aukin umsvif auðvalds og markaðslausnir. Í menningarefnum er fylgt svokölluðum sjálfsmyndarstjórnmálum og þau gerð að opinberri „rétthugsun“. B) Við þessa samræmdu línu bætist svo brotthvarf frá tjáningarfrelsis á samfélagsmiðlum – ritskoðun í samvinnu eigenda þeirra (tæknirisanna) og ríkisvaldsins. Þeir hafa skilgreint þann ramma umræðunnar sem „samþykki“ er fyrir (í öryggismálum, í menningarefnum, í heilbrigðismálum…). Þau sjónarmið sem ekki samræmast „samþykkinu“ eru fordæmd sem falsfréttir eða samsæriskenningar, og þau þögguð. 

En af því meginstraumsmiðlar tala allir með sömu rödd missa þeir hlustun og áhorf. Sú staða skapar eftirspurn eftir frjálsum „valkvæðum“  fjölmiðlum. Ekki síst pólitískum miðlum. Hugsandi fólk nennir ekki að hlusta á miðla sem eilíflega eingöngu „skapa samþykki“ við stefnumál og hugmyndafræði valdhafanna. „Valkvæðu miðlarnir“ verða að taka að sér þá umræðu sem meginstraumsmiðlar þagga. Neistar.is, Fréttin.is, Samstöðin.is (vefsíða), Krossgötur.is, Heimsfréttir.is (fésbókarsíða), Ogmundur.is o.fl. eru litlir, yfirleitt nýtilkomnir vefmiðlar hérlendis, sem fylgja langtífrá sömu hugmyndafræði en eru „andkerfislegir“ og stuðla að samfélagsumræðu út yfir hið „samþykkta“.

Neistar eru lítill fjölmiðill en þeir fylgja alveg eigin leiðsögn. Margt í málflutningi Neista þarf að sækja undir högg. Margt í málflutningi Neista er þeirrar tegundar sem býr nú við vaxandi þöggun. Þeim mun mikilvægara er að sá málflutningur sjáist og heyrist.

Neistarnir hrökkva, þeir rjúfa myrkrið sem leggst að, þeir lýsa upp málstað okkar, svo jafnvel má sjá veginn fram á við. Megi þeir hrökkva í allar áttir!

Í þessu ljósi stofnuðum við Hollvinafélag Neista. Sem er nú eigandi ritsins okkar og annast rekstur þess. Hver sá sem styður markmið félagsins og stefnu ritsins getur gerst þar félagi. Neistar bjóða velkomnar aðsendar greinar og sjálfboðapenna sem finna hér samhljóm eða vilja taka þátt í þeirri umræðu. Ábendingar og kvartanir sömuleiðis velkomnar.Neistar halda upp á breytt eignarhald og reksrarform með breyttu og bættu útliti, í nýju uppsetningarkerfi. En efni Neista, nýtt sem gamalt er hér áfram aðgengilegt, allt frá byrjun 2017. Við teljum að það sé nytsamlegur gagnagrunnur. Gjörið svo vel!