Vondi kallinn: Um persónugervingu stríðsátaka

24. mars, 2022 Jón Karl Stefánsson

Brjálað illmenni er við stjórn í óvinalandi. Hann fremur óhæfuverk og stuðningsfólk hans ætlar sér hræðileg voðaverk. Þennan nýja Hitler og fylgismenn hans þarf að stöðva með öllum ráðum. Ráðast þarf á hann með efnahagsþvingunum, útskúfun á alþjóðavettvangi, styðja þarf óvini hans með vopnum, ráðum og dáð og ef nauðsyn krefst þarf að beita hervaldi til að stöðva hann. Allt sem kemur frá honum og þjóð hans er lygi og við verðum að hunsa allt sem víkur frá þeirri «sögu». Þá sem halda öðru fram ber að útskúfa. Að skoða aðra þætti deilunnar er meðvikni við illmennið. Höfum við heyrt þetta áður?

Markaðssetning stríðs

Í skáldskaparfræðum kallast það persónugerving þegar ekki-mennsk fyrirbrigði eru gædd mannlegum eiginleikum. Þetta er til dæmis notað í ljóðlist til að gera lesandanum kleift að finna væntumþykju um eitthvað á sama hátt og hægt er að þykja vænt um (eða fyrirlíta) manneskju. Í baráttunni um sjálfstæði persónugerðu þjóðskáldin Ísland sem glæsilega fjallkonu og gagnrýnendur kommúnismans sögðu byltinguna éta börnin sín. Sama aðferð er notuð í auglýsingum og mörg stærstu fyrirtæki heims hafa þann vana að tengja vörur sínar við geðþekkar persónur á borð við „Uncle Ben“ og „General Mills“ eða að manngera vörur sínar með því að segja þær gera hitt og þetta mannlegt. Þetta bragð virkar og skapar „jákvæðari tilfinningar, viðhorf og betri ímynd í garð söluvörunnar“ (Delbaere, M., MWuarrie, E. F. og Phillips, B. J. 2013. Personification in advertising. Journal of Advertising, 40, bls 121).

Á meðan auglýsendur nota persónugervingu til að skapa jákvæðari ímynd á söluvöru nota stríðsæsingarmenn sömu tækni við að selja sína vöru, hernað. Hér er persónugervingin notuð til að skapa hatur, viðurstyggð og ótta í garð persónu sem svo er notuð til að afla stuðnings við hernaðinn. Oftast er það einhver leiðtogi sem notaður er til að persónugera meintan andstæðing og styrjöldin seld sem herferð gegn þeim tiltekna einstaklingi. Alla sem víkja frá réttu „sögunni“ á einhvern hátt má svo tengja við þetta skrímsli og djöfulgera um leið. Í versta falli má svartmála alla þjóðina sem um ræðir og svo refsa henni í heild.

Djöflagerðariðnaður

Rojo (1995) lýsti því hvernig þessari tækni var beitt í Persaflóastríðinu árið 1991, hvernig og af hverju hún virkaði. Með því að persónugerva stríðið sem herferð gegn Saddam Hussein var hægt að búa til hugmynd um „okkur“ og „þá“, eða reyndar „hann“. Með því var um leið mögulegt að kalla fram:

„…tilfinningar um samkennd annars vegar og fordæmingu hins vegar og einfalda skilning á stríðinu… þegar tekist hafði, með hjálp undirliggjandi fordóma, að skapa tilfinningu fyrir algjörum einhug gegn þessari ímynd sem hafði verið kölluð fram um Saddam Hussein. Þar lék Hussein hina ókunnu og óskynsömu veru, brjálæðinginn, skepnuna og, á endanum, hið illa holdi klætt. Þetta eru einkenni skúrksins í ævintýrasögum um hið réttmæta stríð… [Þetta] er handritið fyrir atburðina sem kalla má fram í blöðum og nota til að útskýra átökin og gerendurna í þeim. Um leið er sköpuð jákvæð ímynd fyrir hin einstöku og hugmyndafræðilegu „okkur““ (Rojo, L. M. 1995. Division and rejection: From the personification of the Gulf conflict to the demonization of Saddam Hussein. Discourse and Society, 6, bls. 49).

Þessi sama áróðursaðferð hefur verið notuð í hverju einasta stríði síðustu ára. Þetta er þó engin ný iðja. Frá upphafi nútíma stríðsáróðurs, þ.e. þegar War Propaganda Bureau í Bretlandi og svo Creel nefndin í Bandaríkjunum voru stofnaðar árin 1915 og 1916, var þetta sú aðferðarfræði sem reyndist gagnast best. Fyrst að djöfulgera þjóðarleiðtoga óvinarins, fylla dagblöðin af sögum um hörmungar, stundum upplognum eða ýktum, og mála heilu þjóðirnar sem djöfla en ekki manneskjur. Síðan þá hefur nokkurn vegin sama sagan verið notuð í áróðursskyni við hver einustu alþjóðlegu átök sem við á Vesturlöndunum höfum tekið þátt í. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa vondu kallarnir meðal annars verið Jacobo Árbenz (leiðtogi sjálfstæðrar Gvatemala sem var svo steypt af stóli í valdaráni sem naut mikils stuðnings frá Bandaríkjunum), Mohammad Mosaddeq (forseti Írans áður en valdarán undir handleiðslu bandarísku leyniþjónustunnar átti sér stað árið 1953 og keisarinn var settur í staðin), Sukarno (forseti Indónesíu fram til valdaránsins 1965 þar sem a.m.k. ein milljón manns voru myrt af öfgasveitum Suhartos sem nutu stuðnings vestrænna leyniþjónusta), Ho Chi Minh (leiðtogi í frelsisbaráttu Víetnama gegn Frökkum og Bandaríkjamönnum), Fidel Castro, Muammar Ghaddafi, Salvador Allende (leiðtogi sósíalista í Chile frá 1970 til 1973 þegar valdarán hersins átti sér stað; bandaríska leyniþjónustan eyddi gríðarlegum fjármunum til að koma þessu til leiðar), Manuel Noriega (forseti Panama þangað til Bandaríkjamenn skipulögðu valdarán sem kom á leppstjórn Bandaríkjanna árið 1990), og Hugo Chavez, fyrrverandi forseti Venesúela, svo aðeins nokkrir séu nefndir.

Persónugerving einfaldar málið

Blaðamenn í stærstu fjölmiðlunum hafa algerlega brugðist í að útskýra nokkuð um þau ríki sem hafa verið kramin af stórveldunum í vestri og bandamönnum þeirra. Stríðsherrarnir framleiddu áróður til að sverta einstaka einstaklinga, leiðtogana, með alls kyns tröllasögum. Við fórum í stríð gegn þessum einstaklingum; Milosevic, Gaddafi og Maduro; ekki gegn heilum ríkjum með flókið stjórnkerfi, sögu, samfélagsgerð eða raunverulegan meirihlutastuðning við þau stjórnvöld sem taka skyldi út. Þegar leiðtoginn hefur verið svertur svo rækilega að á honum ríkir blint hatur, má svo kalla allar upplýsingar sem stangast á við stríðshrópin áróður frá þessu illmenni (meðvirkni) og hunsa þær/fjarlægja þær. Fjölmargir friðarsinnar hafa gengið í sömu gildru, en þá til þess að styðja einhverja innlenda andstæðinga stjórnarinnar sem kremja skal, sama hversu raunveruleg eða hve vinsæl sú andstaða er í landinu.

Þetta er hentug nálgun því hún virkar ætíð. Það er auðvelt fyrir almenning sem hefur ekki tíma né áhuga á því að kafa í efnið að sjá fyrir sér nýjan og nýjan Hitler. Bara þarf að pússa upp sömu gömlu söguna í huganum í hvert skipti. Eitthvað þarf að gera, illmennið þarf að fara. Þessi aðferð er líka hentug í ljósi þess að í raun eru svo gott sem allir leiðtogar ríkja heims spilltir og hægt að útmála þá sem illmenni ef þarf.

Hugmyndina um illa einræðisherrann má svo nota til að tengja alla þá sem annað hvort styðja það sem hann eða hún stendur fyrir, og einnig þá sem tala gegn sögunni. Þeir verða „Gaddafi-istar“, eða „Pútín-sinnar“. Allar flækjur um að hver manneskja hafi sinn eigin hug sem útskýrir hverja og eina skoðun á ákveðnum málefnum eru afmáðar. Gagnrýnendur átakanna í vestri eru í sama flokki: Stuðningsmenn ills einræðisherra. Þannig má þagga niður jafnvel vönduðustu gagnrýnisraddir. Og þetta virkar alltaf. Þeir sem lenda í þessum flokki geta orðið svo gott sem útilokaðir úr opinberri umræðu um langa hríð.

Þessi aðferð virðist virka betur í hvert skipti sem hún er notuð. Gagnrýnendur Íraksstríðanna 1991 og 2003 misstu ekki endilega orðstír sinn, en gagnrýnendur Líbýu- og Sýrlandsstríðanna hafa verið settir í skammarkrókinn. Jafnvel stórlaxar í friðarmálum á borð við Johan Galtung fá lítið að sjást í vestrænum fjölmiðlum eftir að hafa óhýðnast í umræðunni um þau stríð.

Það hversu áhrifarík persónugerving er fer eftir mörgum þáttum og tengingu hennar við annan boðskap. Það skiptir máli hversu trúanlega leiðtogar okkar eru teknir, og það hafði sína kosti þegar jafn alþjóðlega óvinsæll leiðtogi og Donald Trump stýrði stærsta herveldi nútímans. Það var líklegra þá en í stjórnartíð Obama að almenningur hefði efasemdir um fullyrðingar manns sem hafði lágt gildi á trúverðugleikaskalanum. En nú er Trump farinn frá, Demókratarnir, meistarar fortölulistarinnar í Bandaríkjunum, eru komnir á ný og nú stendur ekkert í vegi fyrir skarpri djöfulgeringu. Ófrægja þarf allar gagnrýnisraddir og saka þær um að starfa í annarlegum tilgangi eða vera sjálf ginkeypt fyrir áróðri frá „hinni hliðinni“. Helst allar fréttir þurfa að koma frá þeim sem við eigum að styðja, fréttir frá öðrum eru grafnar, hunsaðar eða ráðist á þá sem flytja þær. En mikilvægast er að pakka hatursáróðrinum í fallegar umbúðir.

Umbúðirnar skipta mestu

Umbúðirnar sem notaðar voru í stríðinu gegn Afganistan voru að hernaðurinn skyldi hefna fyrir árásirnar á New York 2001. Sú ástæða var auðvitað svo fráleit að hún virkaði ekki lengi. Í Íraksstríðinu var spilað á óttann og Saddam sagður ætla að smíða gjöreyðingarvopn sem hann myndi svo beina gegn okkur og þeim sem okkur þykir vænt um. Sú saga hrundi á endanum þegar ljóst var að hún átti engar stoðir í raunveruleikanum. Árásin á Írak olli miklum mótmælum og olli ráðamönnum miklum höfuðverk. Sérfræðingum þeirra var ljóst að höfða þurfti meira til fólks sem mótmælti og í kjölfarið varð meira notast við enn áhrifaríkari réttlætingu: Stríðið skyldi vera af „mannúðarástæðum“ (meðan aðalerindið var að stela olíu). Við ættum að styðja byltingarhreyfingar sem börðust fyrir frelsi og gegn spilltum stjórnvöldum. Þetta ruglaði þá sem áður fylktust á göturnar gegn árásarstríði. „Aktívistar“ og „byltingarhreyfingar“, þetta hlytu að vera fólk eins og við. Hugtakið „við“ náði ekki yfir stjórnvöld sem átti að kremja í duftið, það voru „þeir“. Hernaðarandstæðingar urðu nú margir hverjir stækir fylgismenn valdaskiptastríða. „Við“ studdum nánast gjöreyðingu líbíska ríkisins og í kjölfarið, eyðileggingu samfélagsins í heild. Enn heyrist óma að þetta hafi verið „nauðsynlegt“ því „eitthvað þurfti að gera“. Nánast algerlega tókst að skauta fram hjá því að rannsaka hverjir þessir „aktívistar“ og „byltingarmenn“ voru í raun, enda kemst hver sá sem það gerir í raun um að gjarnan var um viðurstyggilega glæpamenn að ræða.

Afmennskun þjóða

Hið sama hefur gilt um Úkraínu allt frá 2014. Um það sem átti sér stað áður en Rússland réðist inn í Úkraínu hef ég fjallað áður (í þessari grein sem birt var fyrir innrás) og óþarfi að endurtaka það hér. En það sem hér verður bætt við er að þessi einfeldningslega og síendurtekna söguskoðun um hinn nýja Hitler og afmennskun heillar þjóðar í kjölfarið eyðileggur alla möguleika til að skoða málin til hlítar og jafnvel leggja okkar af mörkum á vogaskálar friðar. Minsk samningarnir stara á heiminn, en heimurinn horfir í aðra átt.

Við fáum ekki að heyra allan sannleikann. Einungis hlið aktívista úr „réttu“ liði er sýnd í fjölmiðlum hér. Þannig erum við í þeirri stöðu að jafnvel vinstrisinnaðir „and-fasistar“ styðja her sem er gjarnan skipaður raunverulegum nýnasistum, í hjarta Evrópu. Við getum haldið eftir prinsippum okkar, við getum skoðað allar hliðar málsins. Eftir það getum við mótað skoðun, til dæmis að vera bæði á móti Pútín og fasísku Azovhersveitunum. En Hitlerssagan kemur ætíð í veg fyrir að sú umræða komist yfir höfuð af stað.

Gagnrýnisraddir fá nú, eins og alltaf, yfir sig holskeflu fordæmingar og persónuárása, ef þeir víkja frá línunni.

Það þarf að sjá við þessu áróðursbragði. Alla þjóðarleiðtoga er hægt að mála sem skrímsli til að afla fylgis við skuggastríð. Við getum bent á hvaða blett sem er á heimskortinu, fundið hver þjóðarleiðtoginn er og útmálað hann eða hana sem skrímsli. Trump og Biden, Netanyahu, Erdogan, May, Berdimuhammedov og jafnvel Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur má djöfulgera til að persónugera stríðsátök gegn ríkjunum sem þau stjórna eða í öðrum tilgangi. Þau sem búa í landinu og eru andsnúin þeim valdaskiptaáætlunum sem liggja að baki þessum áróðri skilja best hversu fáránleg skýring þetta er og hversu hræðilegar afleiðingar fylgja þeirri stefnu að vopna og fjármagna hættulega vígahópa, fjársvelta ríkið og almenning heilu ríkjanna og jafnvel ráðast á þau í kjölfarið með sprengjuregni.

Ef við látum af þessari Hitlerssöguskýringu getum við fyrst séð nánari drætti í svo alvarlegum deilumálum eða komist hjá því að detta í gryfju þjóðernahaturs. Við getum verið á þeirri línu að styðja ætíð alla saklausa borgara í öllum ríkjum og sama hvorri hlið af deilunni þeir tilheyra. Við munum jafnvel komast að þeirri niðurstöðu að það þurfi að hlusta á sjónarhorn beggja í deilumálum og reyna að gera það sem við getum til að koma á diplómatískum lausnum, friði og velsæld fyrir alla. Við gætum jafnvel lært eitthvað sem við vissum ekki fyrir í leiðinni án þess að froðufella yfir því að það passi ekki við fyrirfram mótaðar skoðanir. Eða kannski viljum við halda í þessa erkitýpu sem einfaldar heimsmyndina okkar? Kannski þykir okkur of vænt um þann samhug sem myndast þegar við í sameiningu hötum eitthvað? Ef svo er er kominn tími til að þroskast.