Litið til baka – dæmi um dómgreindarleysi !
—
Bretar urðu að flýja frá öllum búnaði sínum í Dunkirk á tímabilinu frá 26. maí til 4. júní 1940, yfir sundið til Bretlands. Búnaður þeirra fól í sér meira en 2000 fallbyssur, 60 þúsund farartæki, 76 þúsund tonn af skotfærum og 600 tonn af bensíni. Það munaði um minna !
Eftir var þá talið í Bretlandi búnaður handa 2 herfylkjum, með því að hirða gamlar byssur af söfnum, en Þjóðverjar réðu þá yfir meira en 200 herfylkjum. Tap Breta við liðsflutningana yfir sundið var eftirfarandi : Yfir 200 skip og 177 flugvélar, þar á meðal 40% af bestu sprengjuflugvélum Breta. Allt var þetta hin hræðilegasta útreið. Þeir björguðu samt meginhluta hersins, 338 þúsund allslausum hermönnum, breskum og frönskum, og má líklega segja að það hafi verið afrek út af fyrir sig !
En hvað hafði hinsvegar verið í gangi ? Aðeins 3 mánuðum áður höfðu Bretar og Frakkar ætlað að senda 100 þúsund manna hjálparher til Finna í Vetrarstríði þeirra við Sovétríkin, en Svíar neituðu að leyfa för hersins yfir sænskt land og því varð ekkert af því. Svíar vildu nefnilega meina að þeir væru hlutlausir. Það virtist þó allt annað viðhorf ráða hjá Svíum þegar þýskar hersveitir voru fluttar með járnbrautum yfir land þeirra til að berjast við Norðmenn og Breta í Narvik. Hlutleysi þeirra stóð ekki í vegi fyrir því. !
Og hinir allslausu Bretar sendu Finnum 144 flugvélar, 114 þungar fallbyssur, 185.000 fallbyssu-sprengjur, 50 þúsund hand-sprengjur, 15700 flugvélasprengjur, 100.000 hermannafrakka og 48 sjúkrabíla. Og hinir allslausu Frakkar sendu þeim 179 flugvélar, 472 fallbyssur, 795 fallbyssu-sprengjur, 5100 vélbyssur og 200 þúsund handsprengjur !
Hvorugt ríkið hafði nokkur efni á þessum hergagnasendingum og forsætisráðherra Breta hafði skömmu áður lýst því yfir að það væri mikil vöntun á herbúnaði í Bretlandi og franskir ráðamenn töluðu alveg á sömu lund hvað Frakkland varðaði. En Chamberlain og Daladier og þeirra fylgifiskar trúðu því eins og nýju neti, að Hitler færi að orðum þeirra og réðist á Sovétríkin. Það var því, að þeirra mati, allt í lagi að styðja Finna. En Frakkland hrundi strax upp úr júníbyrjun við árás Þjóðverja og Bretland var sem vitað er, alveg á nástrái hernaðarlega séð, um nokkurt skeið þar á eftir !
Hefði Hitler ekki óttast svo mjög Sovétríkin og talið þau allt of öflugt ríki á næstu grösum við Þýskaland og að þau settu honum skorður, hefði hann ekki hikað við að ráðast á Bretland í framhaldi flótta Breta frá Dunkirk og menn geta velt því fyrir sér hvað lengi Bretar hefðu þá getað varist ?
Auk þess hafði það alltaf verið ætlun nazistaríkisins að ráðast á Sovétríkin og Hitlersstjórnin vissi að tíminn skipti máli og að sú árás mætti ekki dragast lengi. Öll bið í þeim efnum þjónaði fyrst og fremst hagsmunum Sovétmanna !
Innrás Þjóðverja í Sovétríkin 22. júní 1941 kom endanlega í veg fyrir alla hættu á innrás Þjóðverja í Bretland. En þá fór ,,lýðræðisríkið“ Finnland með Nasista-Þýskalandi í beint árásarstríð gegn Sovétríkjunum. En uppbyggðar varnir Rússa eftir vetrarstríðið, vestan við Leningrad, áttu sinn þátt í að borgin gat varist Þjóðverjum í 900 daga og féll aldrei í hendur þeirra !
En glóruleysi breskra og franskra stjórnvalda frá þessum tíma virðist ekki síður fyrir hendi í dag. Þar eru litlir karlar við völd sem löngum fyrr, menn sem senda öðrum vopn þó birgðir séu litlar heima fyrir og treysta á Sám frænda handanhafs og bomburnar hans, ef í nauðir rekur. Og kannski eru forsendur til þess nú að það reki í nauðir og það verulegar nauðir. Og hvar er þá veröldin stödd með sitt brothætta fjöregg ?
Hefur áður birst á moggabloggi höfundar.