Lífið í Portúgal
—
Ágætu lesendur Neista. Loksins sé ég mér fært að byrja að skrifa í málgagnið á ný eftir allnokkuð hlé. Þessi fyrsta grein, sem ég sendi frá Portúgal verður reyndar ekki mjög pólitísk þó að eitthvað votti fyrir slíku. Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá því hvernig það er að vera innflytjandi í Portúgal.
Aðdragandi og fyrstu vikurnar
Við hjónin eigum okkur nokkur sameiginleg áhugamál og eitt af þeim eru ferðalög. Við vorum lengi búin að gæla við að flytja til útlanda þó ekki væri nema til að prófa og sumarið 2018 gafst okkur kostur á að vera á Madeira, sem tilheyrir Portúgal, í 3 mánuði. Eftir þessa reynslu ákváðum við svo að flytja til meginlands Portúgal árið 2019.
Við lögðum af stað frá Kópavogi á litla fjallajeppanum okkar í apríl 2019 og tókum ferjuna frá Seyðisfirði til Danmerkur. Í stað þess að aka beint í suður til Portúgal vorum við búin að ákveða að fara dulitla fjallabaksleið og tókum því ferju til Noregs og ókum á 8 dögum alla leið norður á Nord Kapp og svo til baka suður Finnland og tókum ferju frá Turku til Svíþjóðar með viðkomu á Álandseyjum. Við stoppuðum og hvíldum okkur í Stokkhólmi hjá frændfólki og ókum síðan til Kaupmannahafnar þar sem við stoppuðum sömuleiðis nokkra daga. Næst lá leiðin til Þýskalands og vorum við 10 daga að aka til Portúgal. Samtals ókum við tæpa tíu þúsund kílómetra, sem samsvararnæstum því vegalengdinni frá miðbaug að norðurpól.
Í Portúgal vorum við þegar búin að leigja okkur hús í litlu þorpi, sem heitir Tourais, til þriggja mánaða. Fyrstu vikurnar fóru í að finnan varanlegra húsnæði og lögfræðing, sem gæti hjálpað okkur með að fá bílinn skráðan inn í landið með undanþágu frá innflutningsgjöldum, sem eru svo svimandi há að bílar í Portúgal kosta u.þ.b. tvisvar sinnum meira en á Íslandi. Þessi innflutningsgjöld eru hugsuð sem eins konar mengunarskattur en afleiðingin af þeim er að meðalaldur bílaflotans hér er mjög hár, sem aftur leiðir til þess að hér er mikið um bíla, sem eru orðnir hættulegir í umferðinni sökum aldurs og menga enn fremur gríðarlega mikið, þannig að þessi skattur bítur svolítið í skottið á sér. Með því að leggja þennan skatt á bíla innflytjenda er Portúgal í raun og veru að brjóta reglur Evrópusambandsins um frjálst flæði fólks (bíllinn er hluti af búslóðinni þegar fólk flytur á milli landa) og greiða milljónir evra í sektir til ESB á hverju ári en eru greinilega búnir að reikna út að þetta borgi sig.
Þetta er reyndar eitt dæmi af mörgum um hversu máttlaust ESB er gagnvart aðildarríkjunum ef þeim þóknast að brjóta reglurnar. Í frönsku Ölpunum eru jarðgöng t.d. oft illa lýst og lítið um vegrið á snarbröttum og örmjóum fjallvegum. Reyndar sagði mér maður, sem þekkir vel til, að ESB ríkin brjóta þær reglur, sem þeim sýnist þegar þeim sýnist og ESB horfir máttlaust á. Máttleysi ESB kemur enn fremur vel fram núna á tímum COVID-19 en samabandið hefur reynst gersamlega ófært um að samhæfa aðgerðir milli landa. Þá má einnig nefna að Schengen samningurinn hefur sýnt sig að vera marklaust plagg þegar á bjátar.
Skráningin
Svo ég nefni hlutina í tímaröð, þá var næsta mál á dagskrá að skrá sig inn í landið. Hér ganga hlutirnir ekki mjög hratt fyrir sig og skriffinnska og formlegheit gríðarleg, sem er líklega arfur frá einræðistímanum. Rafrænar skráningar þekkjast varla og allt þarf að vera stimplað í bak og fyrir. Tourais heyrir undir ráðhúsið í Seia og því byrjuðum við á að fara þangað. Þar var okkur tjáð að við yrðum að koma með yfirlýsingu frá sóknarskrifstofunni (hér er sýslum skipt upp í sóknir) og fá þar yfirlýsingu um að við byggjum í þorpinu. Þar þyrfti að koma fram að við værum gift og enn fremur þyrftum við skila sönnun um að við gætum framfleytt okkur.
Ég fór því inn á Þjóðskrá Íslands og sótti hjúskaparvottorð og vottorð um búsetu á Íslandi og eftirlaunaseðil frá LSR í heimabankanum. Með þetta fór ég á sóknarskrifstofuna en þar talaði enginn ensku. Einhvern veginn tókst okkur að gera þeim skiljanlegt hvað við vildum og fengum við sína hvora yfirlýsinguna (atesado) fyrir hvort okkar. Við vorum hvorki beðin um búsetu- né hjúskaparvottorð. Með þetta fórum við aftur í ráðhúsið en þá var okkur tjáð að yfirlýsingin yrði aðvera sameiginleg fyrir okkur bæði á einu blaði. Nú vill svo til að sókarskrifstofan í Tourais er aðeins opin tvö kvöld í viku þannig að það tók okkur tíma að útvega nýja yfirlýsingu. Með hana í höndunum fórum við aftur í ráðhúsið og sýndum þeim enn fremur launaseðilinn.
Mér tókst að skýra það út fyrir þeim að þetta væri framfærslusönnun en þau höfðu engan áhuga á að vita hvers virði launin mín væru í evrum, heldur var þetta greinilega formsatriði. Næst þurftum við að fara með skráningarskölin (eitt fyrir hvort okkar en ekki á einu blaði eins og yfirlýsingin) á skattinn til að fá skattnúmer. Loksins, þegar við sýndum ráðhúsliðinu skráninguna frá skattinum, var þetta afstaðið og við fengum allt stimplað með upphleyptum stimplum.
Næsta mál á dagskrá var að afskrá okkur á Íslandi og tók það um þrjár mínútur á Þjóðskrá gegnum internetið. Til fróðleiks má geta þess að þegar við fluttum frá Tourais til Várzeas þar sem við búum núna þurftum við að fara í gegnum nákvæmlega sama ferli nema hvað við þurftum ekki að skila launaseðli og við héldum skattnúmerunum okkar. Nú brá svo við að á sóknarskrifstofunni lentum við í hálfgerðri yfirheyrslu og þurftum að sýna hjúskaparvottorðið sem við þurftum ekki að sýna uppi í Tourais. Það er greinilegt að opinberir starfsmenn hér taka hlutverk sitt mis alvarlega.
Verkfall
Í ágúst skall á verkfall olíuflutningsbílstjóra, sem stóð í nokkrar vikur. Launakröfur þeirra voru að okkar mati frekar hógværar en þeir vildu hækka úr um 900 evrum upp í 1000 evrur fyrir skatt! Já, Portúgal er láglaunaland og hér er mikill munur ríkra og fátækra. Verð á matvöru og drykkjarföngum er reyndar mjög lágt (hér er hægt að fá vínglas alveg niður í hálfa evru) og að meðaltali er Portúgal líklega ódýrasta evrulandið. Að vísu er Algarve dýrara en suðvesturhuti Spánar vestan Gíbraltar en ef við berum löndin saman sem heild er Portúgal ódýrara.Verkfallinu lauk með samningum. Bílstjórarnir náðu reyndar ekki fram ýtrustu kröfum sínum en það vakti athygli okkar meðan á verkfallinu stóð að "sósíalíski" forsætisráðherrann (sem var endurkjörinn í fyrra) hótaði málsókn gegn forsvarsmönnum hlutaðeigandi verkalýðsfélaga ef verkfallinu yrði ekki aflýst nú þegar. Hvort það hafði áhrif á lyktir málsins veit ég ekki en það er alveg ljóst að Sósíalistaflokkur Portúgal er í besta falli vinstri krataflokkur.
Bíllinn
Í september létum við lögfræðinginn okkar hafa öll gögn (að því að töldum) varðandi skráningu á bílnum okkar og umsókn um undanþágu frá mengunargjöldunum. Meðal gagna voru skráningin í Portúgal og afskráningin á Íslandi, lögheimilissaga okkar á Íslandi, upprunavottorð (coc skjal) bílsins, skráningarvottorð og skoðunar vottorð ásamt ýmsum reikningum, launaseðlum og fleira frá Íslandi til sönnunar þess að við hefðum raunverulega búið á Íslandi síðustu 6 mánuði áður en við fluttum til Portúgal. Skömmu síðar fengum við skjal frá lögfræðingnum, sem við fórum með á skoðunarstofu, til að fá portúgalska skoðun á bílnum. Það gekk þokkalega þrautalaust fyrir sig þó að þeir gerðu nokkrar athugasemdir. Ég sendi svo lögfræðingnum skoðunarvottorðið til baka og mánuði síðar fékk ég skjal, þar sem aðalstöðvar tollsins í Lissabon samþykktu skráningu bílsins og héldum við þá að þetta væri komið en það var nú aldeilis ekki. Næst á dagskrá var að sækja um undanþáguna frá mengunargjöldunum. Þar sem við búum í Leiria umdæmi varð lögfræðingurinn aðsenda þessa umsókn ásamt skráningarsamþykktinni til tollyfirvalda í Aveiro, sem er í Leiria umdæmi en svo vill til að hvergi í Portúgal eru tollyfirvöld jafn hörð og þar.
Við skulum aðeins skoða tímaröðina:
September: Lögfræðingur fær öll gögn varðandi bílinn.
Október: Við förum með bílinn í skoðun.
Nóvember: Tollurinn í Lissabon samþykkir skráninguna, skjölin send til tollsins í Aveiro.
Um miðjan desember fengum við bréf frá tollinum í Aveiro þar sem farið er fram á að við sendum þeim hina aðskiljanlegustu reikninga frá Íslandi fyrir síðustu 6 mánuðina áður en við fluttum út. Meðal þess sem þeir vildu voru vatnsreikningar, gasreikningar, rafmagnsreikningar og símareikningar. Nú vill svo til að á Íslandi eru engir mánaðarlegir vatnsreikningar, heldur er vatnsgjald hluti af fasteignagjaldi. Þá vill svo til að við eigum íbúð með dóttur okkar á Íslandi og eru flestir mánaðarlegir húshaldsreikningar á hennar nafni. Eftir að hafa talað við lögfræðinginn sendum við tollinum fult af launaseðlum, símreikningum og afborgunum af bankaláni og töldum þetta vera nóg. Á þorláksmessu fengum við aftur bréf frá tollinum. Þeir vilja fá portúgalska þýðingu á þremur skjölum, launaseðli, símreikningi og afborgunarkvittun.
Lögfræðingurinn útvegaði löggiltan skjalaþýðanda, sem þýddi skjölin, sem aftur urðu að vera stimpluð af lögbókanda. Fyrir þetta greiddum við um 200 evrur. Þetta var svo sent til tollsins.Um miðjan janúar fengum við svo enn eitt bréfið frá tollinum í Aveiro. Þar er umsókninni hafnað og okkur gert að greiða milli átján og nítján þúsund evrur í mengunarskatt fyrir 8 ára gamla bílinn okkar. Tollinum þótti sem sé ekki full sannað að við hefðum í raun og veru búið á Íslandi áður en við fluttum til Portúgal úr því að við gátum ekki framvísað mánaðarlegum reikningum. Þeir tóku sem sé ekki mark á yfirlýsingu um búsetu frá Þjóðskrá Íslands, sem er þó opinber stofnun. Lögfræðingurinn okkar reyndi allt sem hún gat til að fá þessu breytt (og útskýrði m.a. að vatnsreikningur væri innifalinn í fasteignagjöldum á Íslandi) en tollurinn var fullkomlega ósveigjanlegur. Á endanum var ekki um annað að ræða en að fara með bílinn aftur til Íslands og selja hann þar.
Við lögðum því af stað til Danmerkur föstudaginn 7. febrúar sl. og tók það okkur 8 daga að keyra til Hirtshals. Við tókum ferjuna daginn eftir og vorum svo heppin að ná í skottið á óveðurslægðinni "Denna dæmalausa" þannig að næturnar um borð fóru mest megnis í að halda sér svo maður dytti ekki fram úr kojunni. Við komum til Íslands á sumardekkjunum þriðjudaginn 18. febrúar og vorum einstaklega heppin með veður og færð á leið okkar frá Seyðifirði í Kópavoginn. Bíllinn fór í skoðun, fékk hana og var skráður á bílasölu. Hann seldist svo á mettíma á okkar verði (aftur heppin) og flugum við aftur út gegnum París þann 9. mars en það er ekkert beint flug milli Íslands og Portúgal.
Á þessum tíma var COVID-19 farinn að breiða úr sér í Evrópu þannig að við fórum í sjálfskipaða sóttkví þegar heim var komið eftir að hafa keypt okkur bíl samdægurs (heppin enn einu sinni) með góðri aðstoðleigusalans okkar. Þessi "nýi" bíll er jafn gamall gamla bílnum og næstum helmingi dýrari. Lærdómurinn sem draga má af þessari harmsögu er að ef einhver hefur á hyggju að flytja til Portúgal borgar sig að selja gamla bílinn heima og kaupa annan í Portúgal – eða vera með alla mánaðarlega húshaldsreikninga 6 mánuði aftur í tímann.
Portúgal á tímum kóvitsins
Hér ekki skimað eins mikið fyrir veirunni og á Íslandi. Portúgalar lokuðu landamærum sínum að Spáni nógu snemma þannig að faraldurinn hér er ekkert í líkingu við það sem er að gerast þar. Hér er strangt samkomubann svipað og á Íslandi og er flest lokað nema matvöruverslanir, heilsugæsla og apótek. Enn fremur gildir tveggja metra reglan en það fara reyndar ekki allir eftir því. Núna um páskana er þó hálfgert útgöngubann frá skírdegi til annars í páskum. Hér tíðkast að stórfjölskyldur hittist um páskana og borði saman hádegisverð. Nú er fólki hins vegar bannað að ferðast út fyrir sýsluna, sem það býr í yfir páskana og vonast yfirvöld að það minnki líkurnar á smitum. Dreifing veirunnar hér er dálítið óvenjuleg. Smitin eru flest frá Lissabon norður að Portó og er norðurhluti landsins suður að okkar svæði með mun fleiri smit en suðurhlutinn. Meira að segja eru tiltölulega fá smit á Algarve og vitum við ekki af neinum ferðamönnum, sem hafa orðið innlyksa þar. Við höldum okkur að mestu heima við, förum bara í búð tvisvar í viku. Við erum ekki smituð enn sem komið er eftir því sem við best vitum. Við fylgjumst með umræðunni á Íslandi og hlustum á daglega fundi þríeykisins. Árangur þess og annarra viðbragðsaðila er undraverður og er eftir því tekið á heimsvísu. Það er leitt að fyrrverandi þingmenn skuli finna hjá sér hvöt til að gera sig að fíflum með fáránlegri og maklausri gagnrýni á þríeykið – en það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem a.m.k. annað þeirra gerir sig að fífli því að fyrir nokkrum árum lét viðkomandi að því liggja að bólusetningar væru úreltar. Næstu greinar verða líklega dulítið pólitískari en þessi.
Baráttukveðjur til ykkar allra.
-Björgvin R. Leifsson.