Kvótann heim! – mikilvæg umræða

17. mars, 2020 Þórarinn HjartarsonÖgmundur Jónasson situr ekki í helgum steini í ellimannatilverunni. Hann hefur lengi staðið fyrir fjölsóttum fundum um brýn samfélagsmál – auð og valdi oftast til óþægðar – mætir á baráttufundi heima og erlendis og skrifar í fjölmiðla. Hann mætti vera okkur til fyrirmyndar.

Fundir Ögmundar ganga undir nafninu „Til róttækrar skoðunar“. Nú síðast hefur hann fengið til liðs við sig Gunnar Smára Egilsson blaðamann og þeir tveir voru farnir af stað um landið með fundarsyrpuna „Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim“ og höfðu fundað í nokkrum sjávarbyggðum. Hafa jafnan fengið húsfylli og mikil viðbrögð. Svo kom samkomubannið. Við því brugðust þeir félagar með því að gangsetja litla heimasjónvarpsstöð og streyma umræðunni þaðan á netið. Ekki þarf annað en klikka á tengilinn https://kvotannheim.is/ til að komast á fund. Fyrsti umræðufundur var þar sunnudaginn 15. mars og aðrir slikir verða komandi helgar.

Gunnar Smári hefur skrifað mikið gegnum árin um kvótakerfið og samfélagslegar afleiðingar þess. Umræðurnar eru mjög fróðlegar. Af þvi að þar birtist bæði staðgóð þekking á þessu kerfi og róttækt uppgjör við það er ástæða til að vekja athygli á því hér á Neistum og nefna nokkur atriði sem fram komu í fyrsta umræðuþætti. Það er vel þess virði að horfa á umræðurnar í heild.

  • Fiskveiðistjórnunarkerfið frá 1983 var engin bylting. Það var hins vegar kvótakerfið í núverandi mynd sem tekið var upp 1990. Þá var óveiddur kvóti gerður að eign og markaðsvöru, framseljanlegur og veðsetjanlegur.
  • Afleiðingin varð gríðarleg eignasamþjöppun.
  • Bankar og fjármálakerfi knúði samþjöppunina áfram og kaus að lána heldur stórum aðilum til uppkaupa á öðrum en að styðja við veikari útgerðir og byggðarlög.
  • Spegilmynd samþjöppunarinnar er byggðaröskunin.
  • Samþjöppunin fól í sér stórfellt kapítalískt eignarnám. Áður hafði arður í sjávarútvegi orðið eftir í strandsamfélögunum en nú rann hann til fárra stórra fyrirtækja gegnum samþjöppun, hagræðingu, róbótavæðingu o.s.frv. – fór einnig í útrás og yfir í aðrar greinar – meðan strandsamfélögin stóðu oft og tíðum mergsogin eftir.
  • Gunnar Smári hefur aðferðir til að reikna út hve miklu einstök strandsamfélög hafa tapað á kvótakerfinu og hvað það myndi kosta viðkomandi samfélög að kaupa kvótan aftur heim (Akranes 25 milljónir pr. fjölskyldu, Ísafjörður 45 milljónir, Ísafjörður 45 milljónir, Húsavík 28 milljónir…)
  • Í upphafi kvótakerfisins voru 10 stærstu útgerðarfyrirtækin með 10% aflans, nú nemur hluti þeirra 60%.
  • Þegar Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lofa íslenska kvótakefið hampa þau mjög mikilvægi „stöðuleikans“. En ekkert seinni tíma fyrirbæri á Íslandi hefur valdið meiri óstöðugleika en kvótakerfið.
  • Í efnahagsumræðunni er algengara að spyrja hversu stöðugt fyrirtæki er en hversu hraust samfélagið er. Grundvallarspurningin er: Eiga fyrirtækin að þjóna samfélaginu eða á samfélagið að þjóna fyrirtækjunum. Með kvótakerfinu var tekin ákvörðun um hið síðarnefnda.