Kvótann heim! – mikilvæg umræða

17. mars 2020 — Þórarinn Hjartarson


tilrotaekrarskodunarauglysing


Ögmundur Jónasson situr ekki í helgum steini í ellimannatilverunni. Hann hefur lengi staðið fyrir fjölsóttum fundum um brýn samfélagsmál – auð og valdi oftast til óþægðar – mætir á baráttufundi heima og erlendis og skrifar í fjölmiðla. Hann mætti vera okkur til fyrirmyndar.

Fundir Ögmundar ganga undir nafninu „Til róttækrar skoðunar“. Nú síðast hefur hann fengið til liðs við sig Gunnar Smára Egilsson blaðamann og þeir tveir voru farnir af stað um landið með fundarsyrpuna „Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim“ og höfðu fundað í nokkrum sjávarbyggðum. Hafa jafnan fengið húsfylli og mikil viðbrögð. Svo kom samkomubannið. Við því brugðust þeir félagar með því að gangsetja litla heimasjónvarpsstöð og streyma umræðunni þaðan á netið. Ekki þarf annað en klikka á tengilinn https://kvotannheim.is/ til að komast á fund. Fyrsti umræðufundur var þar sunnudaginn 15. mars og aðrir slikir verða komandi helgar.

Gunnar Smári hefur skrifað mikið gegnum árin um kvótakerfið og samfélagslegar afleiðingar þess. Umræðurnar eru mjög fróðlegar. Af þvi að þar birtist bæði staðgóð þekking á þessu kerfi og róttækt uppgjör við það er ástæða til að vekja athygli á því hér á Neistum og nefna nokkur atriði sem fram komu í fyrsta umræðuþætti. Það er vel þess virði að horfa á umræðurnar í heild.