Krakk, gas og efnavopn: Ótrúleg saga Biden-feðganna í Úkraínu
—
Joe Biden hét því að beita ekki forsetavaldinu til að náða son sinn, Hunter Biden, og hlaut fyrir það hástemmt lof í fjölmiðlum fyrir að vera prinsippmaður og varðstöðumaður um réttarríkið. Forsetinn sneri hins vegar við blaðinu nú 2. desember með ekki alveg óvæntri aðgerð og veitti syninum náðun með ótrúlega víðtækri virkni. Náðunin verndar Hunter Biden fyrir öllum glæpum sem hann hefur framið síðastliðinn áratug, frá janúar 2014.
Árið 2014 er ekki tilviljunarkennd dagsetning. Hún markar upphafið að ókræsilegri og væntanlega ólöglegri starfsemi Biden fjölskyldunnar í Úkraínu. Árið 2014 var einmitt árið sem Vesturlönd studdu valdarán í Úkraínu. Sá maður í bandaríska stjórnkerfinu sem á þeim tíma einkum annaðist aðgerðirnar í Úkraínu var varaforsetinn, Joe Biden (og aðstoðarráðherrann Victoria Nuland). Sakaruppgjöf Joe Bidens fyrir feril sonarins í Úkraínu felur fyrst og fremst í sér náðun fyrir forsetann sjálfan. Í október sl. birtist á Neistum úttekt á ferli Bidenfeðga í Úkraínu. Núna er augljóslega enn ríkara tilefni til að taka fram, og lesa aftur, þá grein þó ekki sé gömul.
Hunter Biden – í boði gamla mannsins
Árið 2019 fékk tölvuviðgerðarmaður í borginni Delaware í Bandaríkjunum fartölvu til viðgerðar. Tölvan var í eigu Hunters Bidens, sonar forseta Bandaríkjanna. Þegar tölvan hafði ekki verið sótt í um rúmt ár sendi tölvuviðgerðarmaðurinn hana til Alríkislögreglu Bandaríkjanna og innihald hennar var þá skoðað (sjá fréttir frá New York Times, New York Post og Vox). Í október 2020 greindi dagblaðið New York Post frá því að á hörðum diskum tölvunnar væri að finna ógrynni af gögnum sem sýndu fram á glæpsamlega starfsemi og nú í lok maí hófst glæparannsókn á starfsemi Bidens í ljósi innihalds tölvunnar. Diskarnir geyma myndir og myndbönd af Hunter Biden að reykja krakk, kaupa vændi og ýmislegt í þeim dúr. Á þessum hörðu diskum eru einnig gögn sem sýna mjög mikla spillingu bæði hans og föður hans í málefnum Úkraínu.
Hunter Biden er annar elsti sonar Josephs Biden og starfar sem lögfræðingur fyrir vogunarsjóði, fjárfestingarfélög og ýmis vafasöm fyrirtæki og fjárfesta. Hann hefur einnig starfað sem lobbýisti, stjórnarmaður í bönkum, og starfrækt lobbýistafyrirtæki fyrir fjármálafyrirtæki. Honum var vísað úr þjónustu við Bandaríkjaher fyrir eiturlyfjanotkun á sínum tíma, og slík notkun hefur fylgt honum alla tíð síðan. Þetta hefur ekki hindrað föður hans og samstarfsmenn í að koma honum í ólíklegustu valdastöður.
Strax í kjölfar Maidan byltingarinnar hóf Hunter Biden umfangsmikil viðskipti í orkugeiranum í Úkraínu. Hann varð meðal annars stjórnarmaður í stærsta orkufyrirtæki Úkraínu, Burisma Holdings, og hélt þeirri stöðu til ársins 2019. Burisma er í eigu viðskiptaólígarkans Ihor Kolomoyskij, en hann fjármagnaði ýmsar stjórnmálahreyfingar, m.a. nýnasistahreyfinguna Asov og einnig forsetaframboð Zelinskis (sjá umfjöllun hér). Hunter hefur enga sérstaka þekkingu á orkugeiranum eða menntun á þessu sviði svo það var tæplega þess vegna sem hann náði að gerast stjórnarmaður í þessu fyrirtæki.
Árið 2019 greindi úkraínski þingmaðurinn Andriy Derkach frá því að Joe Biden hefði þegið andvirði 900 þúsund Bandaríkjadala fyrir ráðgjafastörf fyrir Burisma Group. Fyrirtækið millifærði einnig fé til Aleksanders Kwasniewski fyrrum forseta Póllands, og viðskiptafélaga Bidens, Devon Archer, auk Bidens sjálfs. Rannsóknir sem fjallað var um í New York Times sýna að Hunter Biden fékk meira en 11 milljónir Bandaríkjadala í greiðslur frá Burisma á árunum 2013 til 2019, en eyddi þeim svo hratt að hann leitaði til föður síns til að greiða 800 þúsund dala sekt í byrjun árs 2019.
Það sem tengist svo Úkraínudeilunni í þessu máli eru tölvupóstsamskipti Hunters við ýmsa vafasama viðskiptaaðila, einkum í Úkraínu. Um er að ræða á annað hundruð þúsund tölvupósta. Í samskiptum við Vadym Pozharskyi, ráðgjafa hjá Burisma, í aprílmánuði 2015, kynnti Hunter föður sinn, þá varaforseta Bandaríkjanna, til að mynda sem „gamla manninn“. Pozharskyi sendi Hunter þakkir fyrir fundinn í tölvupósti, og hafði áður sent fyrirspurn þar sem hann spyr hvernig fyrirtækið geti nýtt sér áhrif og stöðu Bidens. Svarið við þeirri spurningu kom svo í annarri uppljóstrun sem sýndi að árið 2016 Beitti Joe Biden sér einmitt fyrir því að kærur gegn Pozharskyi fyrir spillingu í Úkraínu yrðu felldar niður.
Símtöl Josephs Bidens við Úkraínuforseta
Andriy Derkash, þingmaður stjórnarandstöðuflokks í Úkraínu, lak árið 2020 til fjölmiðla upptökum af símtölum Petro Poroshenko, sem var forseti Úkraínu eftir Maidan-mótmælin og sat til ársins 2019, við Joe Biden, sem þá var varaforseti Bandaríkjanna, og John Kerry, ráðgjafa hans. Símtölin (sem má hlusta á í fullri lengd hér) áttu sér stað árin 2015 og 2016.
Meðal þess sem fram kom í þessum símtölum var að Poroshenko lét þáverandi ríkissaksóknara Úkraínu, Viktor Shokin, segja upp störfum að fyrirskipun Joes Bidens. Biden sagði Shokin hafa valdið „miklum skaða“ frá því að hann hlaut embættið árið 2015. Þetta væri ekki síst vegna þess að Shokin hafi komið í veg fyrir að réttarkerfi Úkraínu yrði „hreinsað“. Fyrir hlýðni Poroshenko stjórnarinnar fékk Úkraínustjórn milljarð Bandaríkjadala í lán, að sögn Bidens. Þegar Shokin var rekinn árið 2016 að meðal þeirra verkefna sem hann hafði á prjónunum var að rannsaka starfsemi Burisma.
Í símtölunum kom einnig fram að Poroshenko segist hafa hlýtt tilmælum Bidens um að endurskipuleggja embætti ríkissaksóknara og eftirlitsstofnana innan þess embættis, og spurði hvort hann væri ánægður með val í nýja ríkisstjórn. Hann bað svo Biden um leyfi fyrir að velja skoðanabróður sinn, Yuriy Lutsenko, sem nýjan ríkissaksóknara. Poroshenko klagaði stjórnmálamennina Yuliu Tymoshenko og Oleh Lyashko fyrir að hafa reynt að skipta sér af ferlinu sem leiddi til breytinga á embætti saksóknara og sagði að „verkefnið“ sem hann hefði fengið frá Biden hefði verið erfitt.
Poroshenko lýsti því að hann hefði beðið um og fengið sérstakan ráðgjafa frá Bandaríkjunum til að hjálpa við skipulagningu embættisins. Biden var ánægður með Poroshenko og sagði aðgerðir hans „augljóslega“ í þágu „okkar“. Biden fór loks fram á við Poroshenko að ríkisstjórnin legðist í kerfislægar breytingar á stærsta banka landsins, Privatbank, til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og hlýddi kröfum IMF um efnahagslega endurskipulagningu. Þessu sagðist Poroshenko einnig munu hlýða.
Fjölmiðlar á borð við Washington Post reyndu að gera lítið úr upptökunum með því að segja að í þeim hefði lítið nýtt komið fram, og að Biden hefði þegar viðurkennt að hafa lofað ríkisstjórn Úkraínu milljarði Bandaríkjadala í lán í skiptum við einhverja greiða. Málinu var stillt upp sem áróðursbragð Trumpista gegn Demókrataflokknum og þar var látið við sitja. Það virðist landlægt vandamál þar í landi að nánast öllum málum er stillt upp í tvo póla, repúblikanar-demókratar, og mál kæfð eftir því í hvorum hópnum hinn seki er.
Þegar hlustað er á þessar upptökur er hins vegar erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að í Úkraínu hafi verið leppstjórn Bandaríkjanna. Poroshenko segir síendurtekið setningar á borð við, „við höfum gert eins og þið báðuð okkur um“ og „þú verður ánægður með nýjustu fréttir“. Það voru Bandaríkjamenn sem tóku ákvarðanir um hvernig málum skyldi háttað í Úkraínu.
Eitt er alveg víst. Afskipti Biden-feðga í málefnum Úkraínu hafa verið meiriháttar, afbrigðilegar, og þaggaðar niður.