Kína miðlar einingu í Palestínu

24. júlí, 2024 Ritstjórn

Moon of Alabama (ritstjórn)

Þessi þróun er áhugaverð:               

South China Morning Post skrifar: Palestinian factions agree to end division in pact brokered by China

Palestínsk flokkssamtök í innbyrðis baráttu, þ.á.m. Fatah og Hamas, hafa undirritað samkomulag sem miðar að því að því að binda enda á klofning þeirra og byggja upp einingu eftir viðræður í Peking – sem er diplómatískur sigur fyrir Kína. 

Í áranna rás hafa Fatah og Hamas þegar undirritað nokkra samninga til að reyna að byggja upp sameiginlega stjórn. Þær tilraunir hafa allar mistekist.    

Það sem vekur von um að þetta samkomulag haldist er þátttaka allra annarra palestínskra hópa og ekki síður mikilvægi Kína sem ábyrgðarafls að baki:                                                                                                                                                               

Háttsettir fulltrúar 14 palestínskra samtaka náðu þessu samkomulagi – sem kallast Peking-yfirlýsingin – eftir sáttaviðræður sem hófust á sunnudag.

Sáttmálinn miðar að því að sameina Palestínumenn í átökunum við Ísrael sem hóf stríð gegn baráttuhreyfingunni Hamas á Gaza í október sl. 

Kínverska utanríkisráðuneytið segir að samkomulagið sé fyrsta skref til að stuðla að „alhliða, varanlegu og sjálfbæru vopnahléi“ á Gazabeltinu sem myndi á endanum opna fyrir aðgang Palestínu að Sameinuðu þjóðunum sem fullgildur meðlimur og fyrir stöðu hennar sem sjálfstætt ríki.

„Yfirlýsingin staðfestir ásetning um að stofna sjálfstætt palestínskt ríki með Jerúsalem sem höfuðborg  á grundvelli viðkomandi ályktana SÞ og tryggja löghelgi palestínsks svæðis, þ.á.m. Vesturbakkann, Jerúsalem og Gaza“, sagði talskona ráðuneytisins, Mao Ning.

Þetta þýðir að Hamas eins og allir aðrir hópar hafa fallist á tveggja ríkja lausn – markmiðið sem SÞ hafa samþykkt (en bara í síðustu viku hafnaði viðkomandi ráðuneyti í Ísrael slíkri lausn).

Mikilvægar eru einnig horfurnar á sameiginlegri stjórn fyrir Gaza:

Wang Yi utanríkisráðherra sagði á þriðjudag að undirritun samkomulagsins væri „mikilvægt, sögulegt augnablik fyrir málstað Palestínu“.

Hann sagði að í samningaviðræðunum hefðu hinir innbyrðis keppandi hópar sammælst um að setja upp „bráðabirgða-sáttastjórn“ til að stjórna Gaza eftir stríðið.

Vesturlönd munu auðvitað í byrjun hafna bæði ferli samninganna og niðurstöðu þeirra af því þau áttu enga aðkomu þar að.  

En samkomulag síðasta árs milli Sádi-Arabíu og Írans, sem einnig var miðlað af Kína, hefur staðist langt umfram lágar væntingar margra í byrjun.

Palestínska samkomulagið gæti með hjálp SÞ gefið nýjan drifkraft í átt að vopnahléi og nýja stöðu á Gaza sem væri að mestu laus við íhlutun Ísraels.

Treystum því að Kína hafi það hnattræna „soft-power“ sem nauðsynlegt er til að leiða þessa þróun til farsæls árangurs.

[Birt á Moon of Alabama 23. júlí 2024]  https://www.moonofalabama.org/2024/07/china-brokers-unity-in-palestine.html