Icelandair og vinnulöggjöfin

3. september 2020 — Þorvaldur Þorvaldsson


asíicelandair


Miðstjórn ASÍ samþykkti á dögunum að stefna Samtökum atvinnulífsins til Félagsdóms fyrir hönd Icelandair vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta er jákvætt teikn um að verkalýðshreyfingin sé að snúa vörn í sókn á sviði vinnuréttarmála.

Ástæðan er margvísleg brot, sem Icelandair hafði í frammi gegn flugfreyjum í vinnudeilum þeirra fyrr í sumar þar sem fyrirtækið gekk hart fram um að knýja fram kjaraskerðingar og fór á svig við margar meginreglur, sem leiða af vinnulöggjöfinni, t.d. með afskiptum af innri málefnum stéttarfélagsins, uppsögnum í vinnudeilum, hótun um sniðgöngu Flugfreyjufélagsins með samningi við „annan aðila,“ svo dæmi séu tekin.

Samtök atvinnulífsins taka til varna í málinu og haft hefur verið eftir framkvæmdastjóranum að vinnulöggjöfin sér úrelt. Þetta er athygli vert, ekki síst vegna þess að í lok síðustu aldar beittu samtök atvinnurekenda einmitt þessari löggjöf um árabil til að hræða verkalýðsfélög frá aðgerðum með sífelldum kærum og hótunum um háar skaðabótakröfur ef ef eitthvað færi á svig við lagabókstafinn.


Umdeild lög

Vinnulöggjöfin hefur alltaf verið umdeild frá því hún var fyrst lögfest árið 1938. Aðdragandinn var í stuttu máli sá að í byrjun 20. aldar fór verkafólk á Íslandi að beita verkfallsvopninu eins og þekkt var í Evrópu og Ameríku. Skipulagning verkalýðsfélaga var þá að ryðja sér til rúms víða um land. Engin lög voru til um rétt og starfsemi verkalýðsfélaganna. Verkföll vou hvorki lögleg né ólögleg heldur stóðu og féllu með þátttöku og virkri samstöðu um kröfurnar. Hægt var að hefja verkfall fyrirvaralaust þegar það var ákveðið á viðkomandi vinnustað. Það gat aukið áhrif verkfallsins og ýmis sigursæl verkföll juku á baráttuvilja og trú á hina vaxandi hreyfingu. Verkfallsbaráttan fór vaxandi á 3. áratug aldarinnar og þó enn frekar í kreppunni miklu á 4. áratugnum.

Ekki var raunhæft að ætla að kæfa verkalýðsbaráttuna eða banna verkföll og verkalýðsfélög. Þess vegna var farin sú leið, svipað og í nágrannalöndunum, að leyfa verkföll og starfsem verkalýðsfélaga með verulegum takmörkunum til að taka úr þeim bitið.

Lögin voru nokkur ár í undirbúningi. Árið 1932 samþykkti 11. þing ASÍ „kröftug mótmæli gegn gerðardómum og öllum afskiftum ríkisvaldsins af launadeilum.“ 1935 eða 36 gaf Kommúnistaflokkur Íslands út bæklinginn „Vinnulöggjöf – Ráðabrugg um að taka verkafallsréttinn af verkalýðsfélögunum.“ Þar er farið hörðum orðum um áform sem koma fram í bók sem gengur leynilega milli manna, þar sem gert er ráð fyrir lagasetningum byggðum á þvingunarsamningi, sem segi m.a. til um 14 daga fyrirvara á verkfallsboðun, þrír fjórðuhlutar fundarmanna í verkalýðsfélagi þurfi að samþykkja verkfallsboðun til að hún sé lögleg. Loks er gert ráð fyrir valdamiklum sáttasemjara og gerðadómum ef ekki nást samningar.


Fyrirmynd frá Danmörku

Í bæklingi kommúnistaflokksins kemur fram að „ þessar tillögur Eggerts Claessens og co.“ í Vinnuveitendafélaginu séu byggðar á danskri vinnulöggjöf, sem á rætur sínar að rekja til þess sem Danir kalla hið alræmda „septemberforlig“ frá 1899 og enn er talvert vísað til í umræðum um verkalýðsmál þar í landi.

Þegar lögin voru loks afgreidd virðist þau hafa verið milduð nokkuð frá fyrri áformum til að draga úr andstöðu við þau. Boðunarfrestur verkfalla var 7 dagar í stað 14. Fallið var frá auknum meirihluta til verkfallsboðunar. Einnig voru sett ákvæði sem takmörkuðu rétt atvinnurekenda til að ofsækja félagsbundið verkafólk og knésetja verkföll með verkfallsbrjótum.

Ekki virðast aðrir flokkar en kommúnistaflokkurinn hafa beitt sér gegn lögunum, en líklegt er að ýmsir íhaldsmenn hafa gagnrýnt þau úr gagnstæðri átt, þ.e. að verköll og verkalýðsfélög hafi yfirleitt verið leyfð. Hitt er víst að lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru svo viðkvæm í samfélaginu að þeim var lítið sem ekkert breytt í um 60 ár. Stuttu fyrir aldamót voru gerðar ýmsar breytingar sem fylgdu upphaflegu markmiðunum um að hindra verkallsboðanir. Þar komu til kvaðir um viðræðuáætlanir og erfiðara var gert að fella samninga með kröfum um lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslum o.fl. Líklega hafa einhverjar breytingar orðið síðan en ekki umtalsverðar.


Hverjum þjónar vinnulöggjöfin?

Eflaust verður lengi deilt um hvort vegi þyngra þær takmarkanir á verkfallsrétti sem vinnulöggjöfin felur í sér eða þau réttindi sem hún færir verkalýðssamtökunum. Einnig má spyrja hvor þau réttindi hafi verkalýðsfélögin ekki þegar tekið sér með samstöðu í stéttaátökum fyrstu áratugina.

Þegar nýfrjálshyggjan var að ryðja sér til rúms á 9. áratug síðustu aldar tóku samtök atvinnurekenda upp þá stefnu að vísa öllum aðgerðum verkalýðsfélga til Félagsdóms ef á þeim var hugsanlega snöggur blettur í lagaskilningi. Þessu hefur minna verið beitt undanfarin ár en þó var eitt af verkfallsboðunum Eflingar dæmd ólögmæt á síðasta ári eftir stefnu frá Samtökum atvinnulífsins.

Stefna ASÍ á hendur Icelandair er hins vegar líklega sú viðamesta sem verkalýðssamtökin hafa beint til Félagsdóms og hún snertir allnokkur meginatriði er varða rétt verkafólks og samtaka þeirra. Það er mikilvæg viðspyrna gegn sérlega ófyrirleitinni atlögu fyrirtækis á hendur lögmætu stéttarfélagi. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig Félagsdómur tekur á málinu og hvaða áhrif sú niðurstaða hefur á framvindu stéttabaráttunnar í kjölfarið.

-Þorvaldur Þorvaldsson