Hugleiðingar um COVID-kreppu
—
Neistar eru kraftasmár fjölmiðill. Af því Neistar mátu það svo nokkrar fyrstu vikur COVID-tímans að veiki þessi þessi væri fremur heilsufarslegt vandamál en hápólitískt sagði ritið fátt um faraldur þann hinn mikla. En þar sem faraldurinn, og enn frekar viðbrögðin við honum, hefur með undaraskjótum hætti orðið þjóðfélagsmál af slíkri stærðargráðu að yfirskyggir allt annað – og af því að þetta hefðu Neistar mátt láta sér skiljast fyrr – þá gerir ritið sjálfsgagnrýni fyrir (næstum) þögn sína um málið.
Og þar sem Neistar búa ekki yfir (og ekki Alþýðufylkingin heldur) neinni samhæfðri stefnu gagnvart COVID-faraldri eða afleiðingum hans verða hér aðeins settar fram nokkrar lausar athugasemdir, á ábyrgð höfundar, og alls engin alhliða úttekt.
Varð skjótt að djúpri kreppu
Bandaríski seðlabankinn (FED) spáði í marslok allt að 32% atvinnuleysi þar í landi eða 47 milljónum atvinnuleysingja á örðum ársfjórðungi 2020. https://www.cnbc.com/2020/03/30/coronavirus-job-losses-could-total-47-million-unemployment-rate-of-32percent-fed-says.html Til að skilja dramatíkina í þeirri tölu má nefna að atvinnuleysið í Bandaríkjunum á 4. áratugnum – í upphafslandi kreppunnar miklu – varð aldrei meira en um 25%. Haft er nú eftir hagstofum OECD að atvinnustarfsemi í næstum öllum hagkerfum heims dragist saman um 25% á meðan hinar víðtæku rekstrarstöðvanir (lockdown) gilda. Tekjutap í tvo til þrjá mánuði hjá smáfyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum leiðir af sér neikvæða spírala gjaldþrota og atvinnuleysis. Og eftir þvísem rekstrarstöðvanir og lokanir dragast á langinn verða slíkar afleiðingar meiri.
Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu að reikna megi með að 6,3 prósent vinnustunda í heiminum tapist á öðrum ársfjórðungi 2020, sem tilsvarar 195 milljón heilsdagsstörfum. Framkvæmdastjóri ILO, Guy Ryder, segir kórónukreppuna verstu kreppu í 75 ár https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang–en/index.htm
Samkvæmt svartsýnustu spá sinni fyrir árið 2020 á Íslandi gerir Seðlabankinn ráð fyrir allt að 4,8% samdrætti. Nú þegar hefur Vinnumálastofnun gefið út spá um 14% atvinnuleysi í apríl sem er talsvert hærra hlutfall en var í kreppunni hér á landi á 4. áratug og miklu meira en mesta mánaðaratvinnuleysi eftir fjármálahrunið 2008 (hæst í febrúar 2009, 9,3%). Og nú gerist einmitt það að samfélagslegar lokanir framlengjast með hverri viku sem líður, og neikvæðir spíralar þar með. Að öllum líkindum verður atvinnuleysi í maí verra en í apríl. Og mikið af þessum störfum verður þá varanlega horfið.
En orsakast þessi mikla kreppa af kórónuveirunni? Getur ein veira sem er ekki sýnist afskaplega mannskæð miðað við sumar aðrar (sjá hér aftar) valdið þvílíkum skaða á efnahagslífi og samfélagi? Nei, en veiran kemur sem viðbót við aðra sjúkdóma sem hrjá hið kapítalíska efnahags- og samfélagskerfi og því verða afleiðingarnar meiri en sjúkdómurinn sjálfur gefur tilefni til. https://steigan.no/2020/04/tallenes-tale/
Það er misræmi milli fjármálamarkaða og raunhagkerfis. Hlutabréf hríðafalla viku eftir viku, olíuverð fellur, fyrirtæki eru rekin á lánum sem vaxa. Fjármálakreppan 2008 var aldrei leyst, aðeins var lengt í lánunum. Svona er markaðskerfið, störf gufa upp á markaðnum og efnahagskerfið er fullt af dóminókubbum.
Hnattvæðing andstæð öryggi
Ef eitthvað opinberast í þessari kreppu er það ólán hnattvæðingar. Hnattvæðing hefur fært framleiðsluna að miklu leyti frá Vesturlöndum þar sem þjónustugreinar (túrismi, veitingaiðnaður, skemmtanaiðnaður..) hafa komið í staðinn. Í þessari kreppu verða þjónustugreinar sérlega illa úti. Hnattvæðingin byggist á frjálsu flæði og hámarks frísverslun milli heimshorna og „just-in-time economy“ sem afnemur vörubirgðir, framleiðslan fer fram í hnattrænum keðjum með aðföngum og íhlutum sóttum yfir hnöttinn. Hnattvæddar keðjur skáka þjóðlegri framleiðslu út í horn af því hið hnattvædda gefur mesta „hagkvæmni stærðarinnar“ og hnattvætt arðrán er skilvirkast. En hnattvæðingarlíkanið er afleitt til að byggja samfélög á.
Í kreppum birtist skýrt hversu viðkvæmt þetta kerfi er. Þegar ítölsk rafkerfisverksmiðja lokar vegana kórónuveiru stöðvast bílaverksmiðjur um allan heim. Bandaríkin hafa útvistað lyfjaframleiðslu sinni að mestu til Kína, en ef Kína skyndilega þarf lyfin verður lyfjaþurrð í BNA. Er ekki öruggara að sækja hráefni, aðföng og íhlutina um skemmri veg? Fyrir utan hvað það er mikið umhverfisvænna? Um það ættu stjórnmálamenn að hugsa nú.
Hnattvæðingin heimtar „frjálst flæði vinnuafls“, vinnuafl á ferð og flugi. En í kreppunni verður farandverkafólkið strand í stórum stíl og hrekst svo til síns heima.
Fæðuöryggið er í öfugu hlutfalli við stig hnattvæðingar. Kreppan opinberar að „fæðuflæðið“ er líka mjög viðkvæmt. Það má ljóst vera, og tengist hnattvæðingarþróun, að sjálfbjargarstig Íslands hefur aldrei verið minna en nú. Í þessu efni eiga bændur og bæjarbúar (og umhverfissinnar) nú augljóslega sameiginlega hagsmuni af að byggja það aftur upp.
Að vekja óöryggi og skelfingu
Kórónuveiran er alveg nógu slæm og hættuleg þó hættan af henni sé ekki margfölduð með hræðsluáróðri. Einhvern veginn er það samt svo að frá fyrstu stundu hefur COVID-faraldurinn í fjölmiðlaheiminum verið miklu skæðari en veikin sjálf. Á þetta hafa fjölmargir bent en dæmið er flókið, upplýsingar misvísandi og miklar tilfinningar í spilinu. Það síðasta sem ég las um málið er ágætlega rökstudd grein í norska Aftenposten. Hún er skrifuð af þremur læknum í Noregi, þar af tveimur prófessorum. Þau gera eins og algengt er að bera COVID-sjúkdóminn saman við árstíðabundna inflúensu – sem er eðlilegt, hvort tveggja eru veirusjúkdómar sem haga sér ekki ólíkt. Þau hafa þrjú Norðurlönd undir: Svíþjóð, Danmörku og Noreg. Höfundar taka fyrir undangenginn mánaðartíma, frá 11. mars til 10. apríl, þegar veiran hefur geysað hvað mest. Niðurstaðan er sú að á þessum mánuði hafi dáið úr COVID-19 að meðaltali 28 manns á dag í Svíþjóð, 8 manns í Danmörku og 4 í Noregi, samanlagt 40. Höfundarnir bera saman við síðustu fjórar árstíðarbundnu inflúensur sem gengið hafa um Skandinavíu undanfarna tvo áratugi. Mælt var dagsmeðaltal 10 vikna sem flensan geysaði í hvert sinn. Niðurstaðan var sú að meðalfjöldi látinna á dag af þessum flensum var 53 í Svíþjóð, 23 í Danmörku og 21 í Noregi, alls 97 manns (höfum í huga að Svíþjóð er álíka fjölmenn og hinar þjóðirnar tvær saman). Niðurstaðan er þá sú að inflúensan gaf að meðaltali rúmlega helmingi meiri dánartíðni en COVID. Sjá hér: https://www.aftenposten.no/meninger/i/3Jb7rP/korona-sammenligning-med-andre-land-og-sykdommer-er-helt-avgjoerende-bretthauer-helsingen-kalager
Hamfarakapítalismi
Það verður sem sagt ekki séð að hin heilsufarslega hætta ein og sér nægi til að skýra af hverju þau viðbrögð sem gripið hefur verið til gagnvart Kóróna-veirunni hafa orðið svo fordæmalaus. Ekki ætla ég að halda því fram að eitthvert fjármálasamsæri úti í heimi hafi fundið veiruna upp. Hitt þykist ég hafa sannreynt ríkjandi auðvaldsöfl nota sérhvert gott tækifæri til að móta heiminn sér í vil. Og margt bendir til þess að valdamikil öfl hafi snemma tekið þá stefnu að notfæra veirufaraldur þennan til að koma á samfélagsbreytingum sem þau telja sér hagstæðar.
Þetta leiðir hugann að hugtakinu „hamfarakapítalismi“ eins og honum er best lýst í áhrifamikilli bók Naomi Klein frá 2007, Sjokkkenningin. Uppgangur hamfarakapítalisma. Klein skrifar: „Ég nota hugtakið „sjokkkenningin“ til að lýsa hinum ruddalegu aðferðum að nýta sér ráðaleysi almennings eftir sameiginlegt áfall – styrjöld, valdarán, hryðjuverkaárás, markaðshrun eða náttúruhamfarir – til að knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja, oft kallaðar „sjokkmeðferð“… Þessi hernaðaraðferð hefur verið þegjandi fylginautur innleiðingar á nýfrjálshyggju [markaðshyggju] í yfir 40 ár.“ https://www.theguardian.com/us-news/2017/jul/06/naomi-klein-how-power-profits-from-disaster Sjokkmeðferðin hefur sem sagt ekki snúist um neitt aukaatriði enda er uppgangur markaðshyggjunnar mesta grundvallarbreyting á vestrænu samfélagi síðustu rúmra þriggja áratuga. Svo að mikið var í húfi.
Klein nefnir ekki farsóttir en farsótt fellur vel að þeim tegundum „sameiginlegs áfalls“ sem hún taldi upp, ekki síst ef áhrif farsóttar eru mögnuð upp með hræðsluáróðri. Og nú um stundir erum við þjáðir menn í þúsund löndum skyndilega komnir í nýtt umhverfi. Við búum við samkomubann. Yfirvöld Íslands tala jafnvel um að bann við fjölmennum samkomum muni gilda „út árið“. Bankavaldið hefur fengið aukna innspýtingu til að drottna og ákveða hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja. Lífskjör skerðast stórkostlega. Lífskjarasamningurinn fokinn út um gluggann og miklu meira en það. Stórfellt fjöldaatvinnuleysi, og það gefur ekki góða viðspyrnu til að sækja fram.
Samkvæmt ILO tapast nú nærri 200 milljón störf (í hnattvæddum kapítalisma) vegna kórónaveiru. Það gerist án þess að alþýða reisi við rönd, af því lýst er yfir neyðarástandi vegna heimsfaraldurs og fjöldasamkomur bannaðar. Alþýðan mun vissulega hefja aftur baráttu fyrir rétti sínum en það verður út frá miklu verri stöðu en áður.
Aftenging lýðræðis?
Hamfarir hafa áður verið notaðar í fleira en bara ryðja nýfrjálshyggjunni braut. Svo sem til að koma á eftirlitssamfélagi. Árásin á Tvíburaturnana í New York voru slíkar hamfarir. Stjórnvöld notuðu „sjokkið“ ekki aðeins sem yfirvarp til að hefja „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“ heldur til að setja lögin Patriot Act sem þrengdu mjög að persónufrelsi, lög sem gáfu FBI, CIA og Þjóðaröryggisstofnun (NSA) stókostlega auknar heimildir til eftirlits og persónunjósna. Síðan eru liðin 19 ár undir nokkrum stjórnum í Washington en lögin eru enn í gildi mjög lítið breytt. Það er örðugara úr að komast en í að festast. Ringulreið, óöryggi, sjokk vegna hamfara skapar jarðveg fyrir hlýðni og undirgefni og fólk gengst inn á auknar heimildir til stjórnvalda að taka sér vald.
Ég ætla ekki að hafa mikla skoðun á réttum leiðum í sambandi við sóttvarnir (hvort koma beri upp hjarðónæmi, hvort hægja beri á smiti, stöðva smit…). En ákvarðanataka og stefnumótun á Íslandi gagnvart COVID-faraldri hafa verið mjög lokuð inni hjá fáum embættismönnum í samráði við ráðherra. Sérstaklega var ákvörðunin um hina víðtæku lokunarstefnu (og þróun hennar) var tekin án teljandi umræðu á Alþingi, og án sérhverrar opinnar og lýðræðislegrar umræðu í samfélaginu.
Eggert Gunnarsson og Markús Þórhallsson skrifa í Kjarnann (benda má líka á skarpleg COVID-skrif Hauks Arnþórssonar í sama miðil) og benda þeir á að þessi meðferð mála bjóði upp á verulegar hættur fyrir lýðræðið: „Heimurinn stendur á krossgötum í dag og þó að fókusinn sé allur á það að kveða niður þá ógn sem farsóttin COVID-19 svo sannarlega er þá verðum við líka að gæta þess að tapa ekki margvíslegum réttindum okkar sem barist hefur verið fyrir í gegnum aldirnar vegna tíma-bundinna vandamála.“
Þetta er ekkert sagt út í bláinn. Þeir félagar benda í varnaðarskyni: „Á Íslandi hefur rakningarapp verið tekið í notkun. Það hefur verið samþykkt af persónuvernd og er sakleysislegt að því leyti að einstak-lingarnir hlaða því sjálfir niður í snjalltæki sín. Ef þurfa þykir gefa þeir svo yfirvöldum leyfi til notkunar upplýsinganna sem safnast hafa við að rekja hugsanlegar smitleiðir.“
Þetta þarf líka að skoðast í ljósi þess sem gerist úti í hinum stóra heimi. Lokunarstefnan var naumast spunnin af fingrum fram á Íslandi.
Edward Snowden, uppljóstrarinn mikli, segir í viðtali: „Ríkisstjórnir nota kórónuveiruna til að byggja upp arkítektúr kúgunar“ https://www.vice.com/en_us/article/bvge5q/snowden-warns-governments-are-using-coronavirus-to-build-the-architecture-of-oppression
Victor Orban forsætisráðherra Ungverja er frægt dæmi. Honum hefur verið veitt vald til að stjórna landinu með tilskipunum, en þingið er ekki starfandi.
En voldugri menn en Orban hafa líka uppi alræðislega tilburði:
Bill Gates, næstríkasti maður heims sem veðjað hefur ófáum milljörðum á lyfjaiðnað og bóluefnaprógrömm – og sem hallast líka að sk. „hnattrænni stjórnun“ – mælir nú með samkomubanni þar til bóluefni er þróað og mælir ennfremur sterklega með almennum örmerkjum undir húð sem stafrænum persónuskilríkjum (svokallað Tattoo ID) svo bera megi kennsl á þá sem eru COVID-prófaðir. https://cloverchronicle.com/2020/03/18/bill-gates-pushes-for-digital-certificates-to-be-issued-to-those-who-have-been-tested-for-covid-19/
Á næstu grösum við Bill Gates eru fyrirtækin Google og Apple sem keppast nú við að bjóða fram rakningaröpp eða smáforrit í GSM-símum til að spora upp öll sambönd fólks. Það nefnist „samskiptarakning“ (contact tracking). Það er löngu vitað að CIA og NSA eiga innangengt í bæði Google og Apple https://www.vox.com/2017/3/7/14843494/wikileaks-cia-hacked-apple-iphone-google-androidsamsung svo allar hátíðlegar yfirlýsingar um persónuvernd þurfa að takast með þeim fyrirvara. Og Snowden upplýsti okkur einmitt um það árið 2013 að CIA og NSA vaka skipulega yfir öllum netsamskiptum í veröldinni. Næst má búast við að slíkt app í símanum verði forsenda fyrir ferðafrelsi!
Það er erfitt að ímynda sér að innleiðing slíkra persónunjósna gæti gengið í gegn nema með tilvísun til hins „fordæmalausa ástands“.
Niðurstaða þessara hugleiðinga er ekki mjög skýr. Það er þó ljóst að kórónukreppan er vond tíðindi; fyrir launafólk, fyrir verkalýðsbaráttuna, fyrir félagslega velferð þegnanna og fyrir lýðræðið.