Herferðin gegn Venesúela

5. ágúst, 2024 Ritstjórn

Enn eina ferðina er hafin alþjóðleg herferð um að afskrifa og ógilda niðurstöðu forsetakosninga í Venesúela. Og veruleg ólga og skemmdarverkauppþot hafa orðið víða í borgum og bæjum eftir að úrslit voru kunngerð,

Sitjandi forseti, Maduro, var lýstur sigurvegari með 51% atkvæða, strax morguninn eftir kjördag, 28. júlí sl. Kosningarnar voru rafrænar. En yfirvöld í Caracas viðurkenndu að heiftarlegar netárásir hefðu valdið því að aðeins 80% atkvæða hefðu enn verið talin.  

Bandaríkin hafa forustu um ófrægingarherferðina gegn  Venesúela. Þann 1. ágúst gaf Antony Blinken út yfirlýsingu þar sem sagði:

„Í ljósi yfirgnæfandi sönnunargagana er Bandaríkjunum og – sem meira er um vert – venesúselönsku þjóðinni ljóst að  Edmundo González Urrutia fékk flest atkvæði..“ Þetta sama er jafnóðum fullyrt á öllum helstu fréttastofum Vesturlanda – og auðvitað á RÚV og endurvarpsstöðvunum íslensku. Heimspressan segir okkur ennfremur að í uppþotunum sé „almenningur“ Venesúela í uppreisn gegn kúgunarvaldinu.

Þetta er ekkert nýtt. Washington, allar stóru vestrænu fréttastofurnar og RÚV hafa á undanförnum árum ekki viðurkennt kosningar í Venezúela, t.d. ekki forsetakosningarnar 2012 og 2018. Og kosningum í landinu fylgja tilraunir til valdaskipta (regime change). Alltaf. Þar sem öfgasinnaðir hægrimenn fara fyrir í uppþotum og skemmdarverkum. Alltaf. Og tengsl þeirra við bandaríska leyniþjónustu og stofnanir eru óopinber en mjög skýr. Alltaf. Í samstillingu við mikla herferð í fjölmiðlum – um frelsisbaráttuna miklu gegn kúgaranum illa. Þannig gengur valdaskiptamaskínan.

Áhersla Bandaríkjanna á að grafa undan Venesúela sýnir fyrst og fremst mikilvægi landsins a) vegna hinna miklu olíulinda Venesúela og b) vegna fordæmis hinnar bólivarísku byltingar sem hófst þar 1999.

Það er vandkvæðum bundið að dæma til eða frá um svindl í kosningunum 28. júlí, séð frá Íslandi, og yfir höfuð að dæma um innri mál landsins. Venesúela er einangrað land í fjandsamlegu umhverfi, inni á nánasta áhrifasvæði Bandaríkjanna. Og stöðugt í gapastokk fjandsamlegrar heimspressu.

Það verður þó ekki sagt með réttu að ekki hafi verið eftirlit með kosningunum. Yfir 630 alþjóðlegir eftirlitsmenn frá 65 löndum voru kallaðir til eftirlits, m.a. frá SÞ og Afríkusambandinu, auk óháðra samtaka og stofnana.  

Þekktasta alþjóðlega eftirlitsstofnunin sem kom nú að málum er bandaríska Carter Center (kennd við Jimmy Carter) sem oft áður hefur fylgst með kosningum í Venesúela og oft gefið þeim loflegar umsagnir. Henni var boðið að fylgjast með og hún sendi 17 sérfræðinga.

Að þessu sinni gaf Cartersetrið framkvæmd kosninganna nokkuð blandaða einkunn; gagnrýndi hana fyrir mjög ójafna aðstöðu frambjóðenda, og skort á gagnsæi og sundurliðun talna ólíkra kjörstaða, svo að „forsetakosningarnar uppfylltu ekki alþjóðlega gæðastaðla fyrir kosningar og geta því ekki kallast lýðræðislegar“. Hins vegar var því hrósað hvað kosningaþátttakan var góð og mikill kjöráhugi, og að „kosningarnar virtust fara almennt fram á siðaðan hátt.“ 

Efnahagslegar refsiaðgerðir: Það er ekki hægt að fjalla um stjórnmál í Venesúela án þess að tala um refsiaðgerðir. Réttara sagt: það er hiklaust gert, en það er  út í hött. Það ER vissulega kreppa í Venesúela  – sérstaklega VAR hún harkaleg þar til skamms tíma. Og langstærsti þátturinn sem skýrir hana eru efnahagslegar refsiaðgerðir.

Alla 21. öldina hafa Bandaríkin háð tvöfalt stríð við landið, pólitískt stríð og efnahagslegt. Pólitíska stríðið, eins og herferðirnar kringum um „sviknar kosningar“, er hugsað til að einangra landið. Efnahagsstríðið er hugsað til að kyrkja það efnahagslega.

Bandaríkin standa nú um stundir að meira en 900 efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Venesúela! Og ESB stendur að nokkur hundruðum líka. Samanlagt hefur það sett olíuiðnað landsins á hliðina. Refsiaðgerðir þessar eru ólöglegar, og hafa ekki stuðning SÞ.

Í febrúar 2021 birti Mannréttindaskrifstofa SÞ skýrslu um refsiaðgerðirnar gegn Venusúela umfang þeirra og áhrif á tekjur landsins og lífskjör. Skýrsluna samdi helsti sérfræðingur SÞ, Alena Duhan. Niðurstaðan er býsna sláandi:

„Einhliða refsiaðgerðir í síauknum mæli lagðar á af Bandaríkjunum og ESB og fleiri ríkjum hafa aukið á óskoranirnar. Samkvæmt skýrslum drógust tekjur ríkisstjórnarinnar saman um 99% svo að landið lifir nú á 1% af tekjunum frá því sem var fyrir refsiaðgerðirnar.“ 

Eftir að þessi skýrsla var samin hefur reyndar Venesúela rétt talsvert úr kút kreppunnar. Gert sig minna háð bandaríska olíumarkaðnum og  náð að snúa viðskiptum sínum í austur (Kína, Rússland, OPEC, Indland…). Svo landið stendur nú mun sterkar, en verulegan tíma tekur þó að snúa grónu efnahagskerfi. Og hinum fjandsamlega nærumhverfi verur ekki snúið.

Þess vegna á eftirfylgjandi grein enn við þó 5 ára gömul sé. Eftir Jón Karl Stefánsson. Hún var birt á Neistum 7. febrúar 2019. Þetta er efnismikil og sterk greining á baksviði kreppu, átaka og erlendrar íhlutunar í Venesúela. Hún hafði þá áður birst á ensku á Countercurrents.org og Globalresearch.ca og birtist svo einnig í Kvennablaðinu.


Óheiðarleiki, valkvæð fréttamiðlun og lygar um efnahagskreppu Venesúela

„Frá 2015 hefur Venesúela gegnið gegnum gríðarlega efnahagslega erfiðleika. Verðbólga hefur farið úr böndum og almenningur má þola efnahagssamdrátt sem klýfur landið. Og nú horfast Venesúelabúar ekki aðeins í augu við efnahagslega ólgu heldur beina hernaðaríhlutun. Heilbrigð viðbrögð hvers þess sem hjálpa vill Venesúelabúum í erfiðleikum er að reyna að skilja það sem gerist.

Því miður nálgast ekki öll skoðanaskrif né fréttagreinar málið á heiðarlegan hátt. Í raun virðast flestir fjölmiðlar jórtra sömu vondu og röngu frásagnirnar og halda almenningi óupplýstum. Það er nauðsynlegt að fjalla um nokkur algeng ósannindi sem dreift hefur verið varðandi efnahagsástandið í Venesúela og undirstrika mikilvægar staðreyndir sem að mestu leyti er horft fram hjá í ríkjandi fréttaflutningi.“

Lesa alla greinina