Gleymum ekki rasismanum í Líbýu

2. ágúst, 2020 Jón Karl Stefánsson


Árið 2011 tókum við Íslendingar þátt í herferð Atlantshafsbandalagsins og konungsríkjanna við Persaflóa gegn Líbýuríki, í nafni mannréttinda auðvitað. Ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1970 og 1973, sem áttu upphaflega að snúast um vopnasölu- og flugumferðarbann, voru notaðar sem skálkaskjól fyrir grimmilegu árásar- og skuggastríði gegn lögreglu, her og stjórnvöldum í Líbýu sem og öllum sem ekki studdu hina meintu “uppreisn”. Eitt af því sem gleymdist að greina frá var eðli þeirra uppreisnarsamtaka sem við studdum svo dyggilega í nafni lýðræðis. Þetta voru hópar á borð við “Líbýsku íslömsku vígasveitirnar” (en. Libyan Islamic Fighting Group), forvera þess sem seinna var kallað Daesh eða ISIS, Múslimska bræðralagið, Al Kaída í Líbíu og svo ótal glæpagengi sem gengu á lagið og nýttu sér ástandið. Ógrynni peninga og vopna flæddu til þessara hópa og þeir voru nýttir til hins ítrasta.

Eitt af því sem hvað mest einkenndi markmið þessara hópa var einhver öfgafyllsti rasismi sem heimurinn hefur orðið vitni af á síðari tímum. Eftirfarandi grein var unnin úr frumheimildum og fyrstu fréttum um atburði sem stuðningsmenn, hljóðir og háværir, þessara árása virðast vilja hunsa eða gleyma. Því miður var það svo að margir vinstrisinnar studdu þetta stríð og létu líklega áróðursherferðir um hetjulega byltingu gegn vondum einræðisherra glepja sig. Hræsnin sem þetta fól í sér er aftur að sýna sig. Þrátt fyrir að mikil mótmæli undir yfirskyninu “black lives matter” eigi sér stað í hinum vestræna heimi virðist enn eiga að skauta framhjá þessum smánarbletti á sögu okkar og sögu íslamista í Líbíu. Fórnarlömb ofbeldisherferðar sem við berum hluta ábyrgðar á fá enn ekki að upplifa réttlæti, ekki einu sinni von á því að framtíðin beri nokkuð betra í skauti sér, ekki einu sinni afsökunarbeiðni af okkar hálfu.

Hér verða rifjuð upp tildrög einhverra alvarlegustu rasistaárása síðasta áratugar. Greinin tekur að mestu til þess sem átti sér stað í hinni svokölluðu “uppreisn” en sagan endaði því miður ekki þar fyrir fólk í Líbíu, sem enn býr við vargöld og ofbeldi.


Þjóðernishreinsanir á svörtu fólki í Líbýu í okkar nafni


Á meðan áróðursstríðið gegn þáverandi ríkisstjórn Líbýu, Jamahiriya stjórnarinnar, og Muammars Gaddafis stóð sem hæst birtist fjöldi frétta þess efnis að Gaddafi notaðist við málaliða frá öðrum Afríkuríkjum til að berjast gegn uppreisnarmönnum. Einnig var það látið fylgja að herir Gaddafis fengju sérstakar sendingar af stinningarlyfinu Viagra svo þeir ættu auðveldara með að nauðga fórnarlömbum sínum. Rannsókn sem gerð var af Human Rights Watch sýndi strax að sögurnar áttu enga stoð í raunveruleikanum (1). Þetta kom fram strax þann annan mars, en þá lýstu samtökin því yfir að þau hefðu ekki fundið neinar vísbendingar um að málaliðar hefðu verið notaðir í Benghazi, austurhluta Líbýu (2).

Fjórðungur íbúa Líbýu var aftur á móti dökkur á hörund og í Líbýu, sem ár eftir ár gat stært sig af bestu lífskjörum Afríkuálfu, var einnig mikill fjöldi farandverkamanna sem komu sunnar úr álfunni. Ströng herferð Jamahiriya-ríkisstjórnarinnar gegn kynþáttafordómum og áhersla stjórnarinnar á sterka samvinnu við önnur Afríkuríki gerðu Jamahiriya-kerfið og Gaddafi vinsælt meðal hörundsdökkra í Líbýu (3). Af þessum sökum var oft dekkra litarhaft á hermönnum Jamaharyia hermanna en gerðist og gekk, og þetta gaf skröksögum um málaliðaheri byr undir báða vængi.


Pólitískt samhengi

Á fyrrihluta 10. áratugarins sneri Líbía baki við Samtökum Arabaríkja og hóf mun nánari samvinnu en áður við önnur Afríkuríki. Gaddafi var undir miklum áhrifum frá Kwame Nkrumah, byltingarleiðtoga og fyrrum forsetisráðherra Gana, en sá var mikill talsmaður samstarfs Afríkuríkja. Pan-Afrísk stefna var sett af stað með miklum krafti og það var Líbía sem var í forystu í þeirri vinnu. Ríkið lagði fram gríðarmikla fjármuni í ýmis þróunar- og fjárfestingarverkefni víðsvegar um álfuna og Gaddafi var í forsvari fyrir stofnun Afríkubandalagsins. Líbía, Alsír, Egyptaland og Suður Afríka lögðu fram 75 hundraðshluta fjármagnsins sem fór í stofnun sambandsins sem var stofnað árið 1999 í borginni Sirte í Líbíu (Capbell, 2013, bls 134).

Verkefni Afríkubandalagsins voru stór og fjölbreytt. Stefnt var að því að koma á fót sameiginlegum afrískum varnarher auk sérstaks milliríkjadómstóls. Einnig var unnið að stofnun alþjóðlegs fjárfestingarbanka og gjaldmiðils í anda Evrunnar, sá á gullfæti. Á þingi Afríkubandalagsins árið 2009, sem haldið var í Líbíu, ákváðu aðildarríkin að stofna sérstakt afrískt varnarráð undir forystu nýrrar yfirþjóðlegrar al-afrískrar stofnunar. Þetta var bein ögrun og ógn við hernaðarumsvif vesturlanda í Álfunni, en þar var AFRICOM, deild bandaríska hersins, með algjöra yfirburði. Ráðamenn í Bandaríkjunum voru uggandi vegna þess yfirlýsta markmiðs að þó að almennur tilgangur afríska varnarráðsins væri að ganga á milli stríðandi fylkinga innbyrðis ætti einnig að koma til varnar aðildarríki- eða ríkjum sem yrðu fyrir árásum utanaðkomandi afla (Forte, 2012, bls 168). Þetta sýndu skjöl sem Wikileaks birtu árið 2010. Ríkisstjórn Baracks Obama var fjandsamleg þessum fyrirætlunum. Auk þess voru stórir og valdamiklir hópar í landinu sem voru æfir yfir þessu, einfaldlega á rasískum forsendum.


Rasískir vígahópar

Á meðan stjórnvöld í Líbýu voru mjög afgerandi á móti allri tegund rasisma, og líklega flestir meðal almennings, átti það ekki við um ýmsa ofbeldisfulla hópa í landinu sem fyrirlitu þessa stefnu ríkisins. Hjá mörgum uppreisnarhópanna var rasismi ekki einungis hluti af því sem hvatti hermenn þeirra áfram, heldur beinlínis helsta kappsmálið. Að styðja þessa uppreisnarhópa, eins og stjórnvöld okkar gerðu, var að styðja mjög ofbeldisfulla rasíska stefnu, og þetta átti eftir að hafa hræðilegar afleiðingar

Amnesty International tókst heldur ekki að finna sönnunargögn um að líbýsk yfirvöld hafi notað málaliða frá öðrum Afríkuríkjum. Það sem rannsóknir þeirra samtaka leiddu í ljós var að uppreisnarmenn í Benghazi höfðu vísvitandi og kerfisbundið borið fram rangar ásakanir og falsað sönnunargögn um þetta efni (4).

Rannsóknir annarra óháðra alþjóðastofnana fundu heldur ekkert sem sýndi fram á óeðlilega notkun Viagra hjá líbískum hermönnum né heldur kerfisbundinni notkun nauðgana (5). Eina vísbendingin um notkun Viagra meðal hervarna Jamahiriya var myndbirting á nokkrum vel með förnum kössum af Viagra auk smokkapakka sem stóðu við hliðina á brenndum skriðdrekum. Nokkuð augljóst má þykja að þessi myndbirting hafi verið hluti af áróðursherferð. Annars voru sögurnar einungis byggðar á munnlegum frásögnum uppreisnarmanna. Donatella Rovera, ráðgjafi Amnesty, sem var í Líbíu í þrjá mánuði eftir að uppreisnin hófst, sagði í viðtali við Der Standard:

„Við könnuðum þetta án þess að finna neinar sannanir. Uppreisnarmennirnir dreifðu þessum sögusögnum og þetta hafði hræðilegar afleiðingar fyrir farandverkafólk frá sunnanverðri Afríku: Þetta leiddi til kerfisbundinna ofsókna á innflytjendum, sumir voru pyntaðir og myrtir og margir voru handteknir. Síðan þá hafa jafnvel uppreisnarmenn viðurkennt að í liði Gaddafis hafi ekki verið málaliðar“(6).


Uppreisnarmennirnir fengu stuðning og viðurkenningu frá “alþjóðasamfélaginu”

Strax 18. febrúar hengdu uppreisnarmenn 50 hörundsdökka menn í ljósastaura í bænum Bayda (7). Sama dag brenndu uppreisnarmenn niður lögreglustöðina í borginni Derna, sem var full af fólki. Amnesty International í Líbýu lýsti því að herferð uppreisnarmannanna hafi einkennst af illri meðferð, pyntingum og drápum á svörtu fólki og innflytjendum (8). Það mátti því frá upphafi vera ljóst að margir uppreisnarmanna voru ekki menn sem okkur bæri að styðja. Sögurnar um stríðsglæpi eru margar. Simon Deneyer, blaðamaður hjá the Post, komst á snoðir um fjöldagrafir óbreyttra borgara með dökkt litarhaft sem höfðu verið bundnir og drepnir af uppreisnarmönnunum. 19. júlí fundu blaðamenn frá Telegraph fjöldagrafir í Nafusa-fjöllum sem innihéldu lík hermanna stjórnvalda. Einn mannanna var hálshöggvinn og aðrir menn báru þess merkis að hafa verið pyntaðir. Eftir að blaðamenn fóru að spyrja um afdrif mannanna var svæðið fyllt með jarðvegi, að því er virðist til að hylja verknaðinn (9). Alex Crawford hjá Sky News sá nokkur tilvik þar sem uppreisnarmenn náðu saman stríðsföngum og drápu án laga og réttar. Þann 26. ágúst 2011 fengu blaðamenn frá the Independent myndir af uppreisnarmönnum sem stóðu sigri hrósandi yfir líkum um 30 svartra manna sem þeir höfðu myrt. Margir mannanna voru með hendur bundar fyrir aftan bak en aðrir lágu á sjúkrabörum. Þetta voru fórnarlömb fjöldamorða sem framin voru af uppreisnarmönnum innan neyðarviðbragðssvæðis Rauða hálfmánans. Leiðtogi uppreisnarmanna, Ahmed Bin Shabri, hrópaði á blaðamennina: „Komið og sjáið. Þetta eru svertingjar, Afríkubúar, ráðnir af Gaddafi sem málaliðar“. Þegar blaðamenn spurðu af hverju menn, sem fengu læknisaðstoð frá hjálparsamtökum, voru drepnir með þessum hætti, yppti hann öxlum. „Það virtist honum óskiljanlegt að einhverjum þætti að þetta væri rangt,“ sagði blaðamaðurinn (10).

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við slíkum árásum voru takmörkuð við veikar kröfur um að hið svokallaða Bráðabirgðarráð (National Transition Council, NTC – stofnun sem notuð var sem pólitísk afsökun fyrir hinni uppreisninni í Líbýu) yrði að tryggja sanngjarna meðferð fanga. En þar sem það voru einmitt hermenn sem tengdust þessu bráðabirgðaráði sem stóðu að baki árásunum voru slíkar kröfur markalausar. Atlantshafsbandalagið sveik loforð sín um að vernda óbreytta borgara sem, þegar allt kemur til alls, var yfirlýst ástæða þess að ályktanir 1970 og 1973 sem leiddu til loftárásanna á Líbýu voru samþykktar af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.


Hvatt til kynþáttafordóma

Samkvæmt blaðamanninum Patrick Cockburn (11) voru uppreisnarmenn í Líbíu upp til hópa einfaldlega fjandsamlegir svörtum Afríkubúum. Þegar hann varð vitni að því að þeir söfnuðu saman stórum hópi svartra manna og settu fangelsi og spurði hvers vegna þetta væri gert sagði leiðtogi uppreisnarmanna að „Líbýumönnum líkar ekki fólk með dökka húð, jafnvel þó að sumir þeirra séu saklausir“. Diana Eltahawy, rannsóknarmaður Amnesty International í Líbýu, fullyrti að margt af hörundsdökku fólki sem myrt var í Líbýu í uppreisninni hafi verið flutt nauðugt frá heimilum sínum, vinnustöðum og á götum úti, einfaldlega vegna húðlitar þess. Byggingarstarfsmaður frá Tyrklandi sagði við BBC, til dæmis: „Við vorum með 70 til 80 starfsmenn frá Chad með okkur. Þeir voru drepnir með sveðjum og spjótum. Árásarmennirnir hrópuðu á okkur: Þú gefur Gaddafi herlið! Súdönum var einnig slátrað. Við sáum það með eigin augum “(12). Mushab Abdullah, uppreisnarmaður frá Misrata, talaði um morð hans á svörtum Líbýumönnum og bætti við að „þeir vita að þegar Gaddafi getur ekki lengur verndað þá eru þeir í miklum vandræðum“ (13).

lybia
Svart fólk í borgum á borð við Misrata, Tawergha og Derna var kerfisbundið elt uppi, pyntað og myrt. Mynd, Al Jazeera.


Tawergha

Þann 12. ágúst 2011 réðust uppreisnarmenn á bæinn Tawergha, skammt norðan stórborgarinnar Misrata. Flestir íbúar borgarinnar voru hörundsdökkir eða innflytjendur. Mánuði síðar heimsótti Andrew Gilligan, blaðamaður frá Telegraph, borgina og fannst hún tóm. Allir íbúar þessarar um 40 þúsund manna borgar (14) voru horfnir og á veggjum mátti lesa fyrirsagnir rasista frá herliði sem kallaði sig „herdeildin fyrir útrýmingu þræla og svartrar húðar“. Eina skiltið sem varð eftir með orðinu Tawergha var málað yfir með orðunum „nýja Misrata“. Í viðtali við Wall Street Journal (15) sagði Ibrahim al-Halbous, yfirmaður uppreisnarmanna í Misrata, „Tawergha er ekki lengur til, aðeins Misrata“.

Samkvæmt Amnesty International (16) voru margir íbúa Tawergha pyntaðir, margir voru horfnir og fregnir hermdu að slasaðir íbúar borgarinnar sem flúðu til annarra borga hefðu verið drepnir á sjúkrabeði sínu. Sjónvarpsskýrsla frá Al Jazeera, ríkisrás Katar, sýndi að uppreisnarmennirnir höfðu fyllt gáma með Tawerghabúum en fréttaritaranum var neitað að taka kvikmyndir inni í gámunum (17).

Ghoushi hverfið í Misrata, þar sem flestir íbúar voru dökkir á hörund eða farandverkafólk, varð einnig fyrir þjóðernishreinsunum. Þetta var gert áður en innrásin í Tawergha átti sér stað. Þeir íbúar sem lifðu þessa helför af eru enn á flótta, en margir þeirra hafa drukknað í Miðjarðarhafinu í tilraunum sínum til að flýja landið (18).


Þáttur NATO í hörmungunum

Hinn 9. maí 2011 reyndu um 600 flóttamenn að komast undan borgarastyrjöldinni í Líbíu með bát sem sökk. Þrátt fyrir að herskip NATÓ væru nálægt voru engar tilraunir gerðar til að bjarga bátnum og allir flóttamennirnir létust (19). Þetta var þriðji báturinn fullur af flóttamönnum sem sökk í sjónum eftir að borgarastyrjöldin hófst. NATÓ kom engu af þessu fólki til hjálpar, þrátt fyrir að hafa mikinn fjölda herskipa í næsta nágrenni sem hljóta að hafa fengið SOS um að bátarnir væru í hættu.

Ábyrgð NATO á þjóðernishreinsunum á hörundsdökku fólki í Líbýu er mikil. Árásirnar sjálfar hefðu ekki verið mögulegar án aðstoðar NATÓ. Þann 22. október hafði bandalagið framkvæmt 26.281 herverkefni í Líbíu, þar af 9646 sprengjuárásir (20), á land með jafn marga íbúa og Noregur. Þessar árásir eyddu flestum vörnum Líbýu, borgaralegum varnarhópum og lögreglu. Bandalagið gerði einnig fjölda árása á borgaraleg skotmörk, þar á meðal á fjölmiðla, sjúkrahús, skóla og svo vatnskerfi Líbýu (bein árás var gerð á stofnrásir hins svokallaða “mikla manngerða fljóts” sem færði vatn til íbúa eyðimerkurinnar), íbúðablokkir og verksmiðjur. Allt þetta var gert til að styðja uppreisnarhópa sem margir hverjir voru yfirlýstir trúarofstækismenn og rasistar.

Erlendar hersveitir fengu að veita uppreisnarmönnum herstuðning og færa þeim vopn og vistir. Bandarískir embættismenn og leiðtogar uppreisnarmanna viðurkenndu strax í marsmánuði að vopn hefðu verið flutt frá Egyptalandi til uppreisnarmanna í Líbýu (21). Þetta var samkvæmt Wall Street Journal og The Independent í kjölfar tilskipunar frá Washington (22). Smygl á vopnum til Líbýu voru samt brot á ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnasölubann í Líbýu. Ályktanir 1970 og 1973 gáfu í raun heldur ekki leyfi fyrir hernaðarárásum NATÓ og bandamanna þess í konungsríkjum Persaflóa. Aðgerðir þeirra voru því að öllu leyti skýlausir stríðsglæpir.

Ísraelska fréttastöðin Debka greindi frá því í ágústmánuði 2011 að Bretland, Frakkland, Katar og Jórdanía hefðu sent sérsveitir og þungavopn til Líbýu til að styðja baráttu uppreisnarmanna (23). Bandaríkjamenn sóttu einnig inn málaliða frá öðrum löndum. Pakistanska dagblaðið, The Nation, greindi frá því að bandaríska leyniþjónustan hefði ráðið 1.500 bardagamenn Íslamista frá Mazar-e-Sharif í Afganistan til að berjast við uppreisnarmennina í Líbýu (24). Þessir erlendu hermenn virðast hafa tekið meira eða minna leyti þátt í pyntingum og morðum á saklausu fólki í Líbýu. Hvað varðar þjóðernishreinsun Tawergha, fullyrða sumar skýrslur (25) að árásirnar hafi verið samræmdar af NATÓ.

Fangelsi Líbýu hafa verið yfirfull síðan stríðinu lauk og í þeim er vitað að skelfilegar pyntingar eru daglegt brauð (26). Bráðabirgðaráðið (NTC) í Líbýu byggði aldrei upp það sem kalla má starfandi dómskerfi. „Í raun og veru er ekki til almennilegt réttarkerfi. Fangar mega ekki koma fram í réttarsalnum. Þeir fá ekki lögfræðinga, ekki núna, “sagði Abdul Busin, yfirmaður herlögreglunnar árið 2011. Við getum því ekki treyst því að fangarnir í yfirfullum fangelsum hafi tækifæri til að verja sig í dómssölum. Það eru ekki bara hörundsdökkir Líbýumenn sem eru í hættu á þjóðarmorði sem ný ríkisstjórn Sharia hefur framið. Skýrslur benda til þess að ættbálkarnir Gaddafa og al-Meshashyas séu í sérstakri hættu á þjóðernishreinsun (27).


Ábyrgð okkar

Stuðningsmenn stríðsins gegn Líbýu, bæði þeir sem beint börðust fyrir því og svo hinir sem studdu það í hljóði eftir að hafa trúað áróðursherferð, mega aldrei leyfa sjálfum sér að trúa því að fjöldamorð og pyntingar vegna kynþáttahaturs séu óheppilegar aukaverkanir svokallaðs mannúðarstríðs. Blaðamenn sem dreifðu lygasögum um málaliða og Viagra er skylt að tilkynna um mistök sín, annars eru þau beinlínis meðsekir í því sem gerðist. Hið sama gildir um stjórnmálamenn sem héldu því fram að þeir hafi verið í stríði til að vernda óbreytta borgara en hafa ekkert gert til að koma í veg fyrir, eða bæta fyrir, þá glæpi gegn mannkyninu sem framdir voru með stuðningi Atlantshafsbandalagsins. Við megum aldrei gleyma gjörðum þeirra. Þeir sem rökkuðu niður þá fáu sem reyndu að berjast gegn þessum hildarleik á meðan hans stóð ættu að læra af reynslunni og hlusta með opnari huga á þá sem í framtíðinni berjast gegn svo yfirgengilega miklu róti í öðru landi. Þeir sem hæst hrópa gegn rasisma á Vesturlöndum voru svo margir hverjir stuðningsmenn þessa stríðs sem var að svo stórum hluta byggt á rasisma.


Eftirmáli

Við megum ekki gleyma afleiðingunum af því sem við gerðum í raun í sameiningu í Líbýu og öðrum ríkjum og enn er margt hægt að gera til að bæta fyrir ódæðið. Sveitastjórnir í Líbýu hafa meðal annars grátbeðið um að fá það fjármagn sem var fryst á þeim forsendum að það væru leynisjóðir Gaddafis. Aðrir fóru ránshendi um þessa sameiginlegu sjóði sem þarf svo nauðsynlega til að tryggja öryggi og stöðva hina ofsafengnu glæpahópa sem hafa fengið frjálsar hendur í nærri því áratug í landinu. Íbúar Tawergha hafa enn ekki getað snúið til baka til heimkynna sinna vegna ógnanna frá rasistasveitunum í Misrata. Þetta er ólíðandi. Allir sem þykjast berjast gegn rasisma verða að beina athygli sinni að þessum heimshluta nú. Þeir sem þóttust vera að taka þátt í að verja mannréttindi árið 2011 hafa enn tækifæri til að sýna að það voru ekki innantóm sýndarmennska eða mannvonska.

Hægt er að fylgjast með baráttu Tawerghabúa fyrir réttindum sínum á síðunni https://www.tawergha.org/ Í gegnum þá síðu má styðja baráttu þeirra fyrir eðlilegu lífi.


Heimildir:

1 Human Rights Watch. 02.03.2011. No mercenaries in eastern Libya.

2 HRW. 02.03.2011. HRW: No mercenaries in eastern Libya. Benghazi: Human Rights Watch.

3 RadioNetherlands. 02.03.2011. HRW: No mercenaries in eastern Libya. Benghazi: RN worldwide. Hentet den 14.07.2011 av http://www.rnw.nl/africa/article/hrw-no-mercenaries-eastern-libya-0

4 Cockburn, P. 24.06.2011. Amnesty questions claims that Gaddafi ordered rape as a weapon of war. London: The independent.

5 Micklaszewski, J. 29.04.2011. US intel: No evidence of viagra as weapon in Libya. NBC News.

6 Eder, B. 06.07.2011. Es fand eine regelreche Jagd auf migranten statt. Der Standard.

7 Black, I. og Bowcott, O. 18.02.2011. Libya protests: Massacres reported as Gaddafi imposes news blackout. London: The Guardian.

8 Amnesty International. 31.08.2011. Libya: Fears for detainees held by anti-Gaddafi forces. http://amnesty.org.uk/news_details.asp?NewsID=19660

9 Sherlock, R. 20.07.2011. The headless corpse, the mass grave and worrying questions about Libyas rebel army. London: The Telegraph.

10 Sengupta, K. 27.08.2011. Rebels settle scores in Libyan capital. London: The Independent.

11 Cockburn, P. 30.08.2011. ’Libyans don’t like people with dark skin, but some are innocent’. London: The Independent.

12 BBC. 25.02.2011. African viewpoint: Colonel’s continent. http://www.bbc.co.uk/news/world-africa-12585395

13 ibid

14 United Nations Environment Program. 2005. Mediterranean action plan. Libya: UNEP.

15 Dagher, S. 21.06.2011. Libya city torn by tribal feud. The Wall Street Journal.

16 Amnesty International. 07.09.2011. Tawarghas must be protected from reprisals and arbitrary arrest in Libya. Libya: Amnesty International

17 Al Jazeera. 13.08.2011. Libya rebels capture Tawurgha town. http://www.aljazeera.com/news/africa/2011/08/20118131635565144.html.

18 Se Video: http://humanrightsinvestigations.org/2011/09/26/libya-ethnic-cleansing-tawargha-genocide/

19 Stewart, C. 10.05.2011. Ship with 600 people aboard sinks as refugees flee from Libya. London: The Independent.

20 NATO. 23.10.2011. Nato and Libya: Operational media updater for 22 october. Napoli: Naples media and information centre. Hentet den 26.10.2011 fra http://www.nato.int/nato_static/assets/pdf/pdf_2011_10/20111023_111023-oup-update.pdf

21 Levinson, C. og Rosenberg, M. 17.03.2011. Egypt said to arm Libyan rebels. New York: The Wall Street Journal.

22 Fisk, R. 07.03.2011. America’s secret plan to arm Libya’s rebels. London: The Independent

23 Black, I. 14.04.2011. Libyan rebels receiving anti-tank weapons from Qatar.

24 Masood, A. 31.08.2011. CIA recruits 1.500 from Mazar-e-Sharif to fight in Libya.

25 Al Jazeera. 13.08.2011. Libya rebels capture Tawurgha town. http://www.aljazeera.com/news/africa/2011/08/20118131635565144.html.

26 Hill, E. 05.09.2011. Libyas NTC shackled by prisoner overload.

27 Human Rights Investigations. 26.09.2011. Ethnic cleansing, genocide and the Tawergha.