Gerum vinstrið stéttardrifið aftur

16. maí, 2025

Vinstrið síðustu áratugi hefur þróast yfir í hagsmunagæslu fyrir menntuðu millistéttina og sérfræðingastéttina og skortir öll tengsl við verkafólk. Það er eitt stærsta vandamál vinstrisins, hvernig því hefur tekist að einangra sig úti á jaðrinum og snúið baki við sósíalískum lexíum fortíðarinnar.

Vinstrið var sósíalískt og byggði baráttuna og skipulagði sig á grunni stéttabaráttunnar og efnishyggju. Þetta þýddi að samstaða var um að vandamálið væri kapítalisminn sem skipti samfélaginu í stéttir verkafólks og kapítalista og að það væru þessi efnahagslegu tengsl sem útskýrðu hvers vegna verkafólk yrði að standa saman og berjast. Ekki kyn, eða húðlitur, eða móralismi. Ástæðan fyrir því að verkafólk glímir við fátækt og aðra kúgun var efnahagsleg. Þú þarf efnahagslega stéttaskiptingu til þess að hægt sé að kúga fólk. Kapítalistar hefðu engin völd yfir okkur ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að verkafólk þarf að beygja sig undir fyrirtækjaeigendur til þess að fá vinnu, ef þú ert ekki með vinnu endar þú á götunni. Verkafólk er mikilvægasti hópurinn til þess að skipuleggja því verkafólk hefur vald til þess að stöðva hagnað eigendanna með verkfalli. Enginn annar hópur hefur það vald eða fjöldann til að knýja fram breytingar á samfélaginu líkt og verkafólk.

Vinstrið hefur hins vegar sveigt af leið. Vinstrið byggir ekki lengur baráttuna á þessu heldur er verkafólk í raun bara ein sjálfsmynd eða ímynd af mörgum. Engin ein barátta er mikilvægari en önnur er sagt. Vinstrið í dag setur að jöfnu baráttu allra þessar mismunandi sjálfsmynda og minnihlutahópa og svo stéttabaráttu. Jafnvel hafnar stéttabaráttu algjörlega eins og í Bandaríkjunum. Á Íslandi hefur umræða um stéttabaráttu aftur komið upp á yfirborðið undanfarin ár, þó það skorti oftar en ekki skilning á efnahagslegum rótum stéttahugtaksins. Þetta hefur leitt til þess að barátta vinstrisins hefur klofnað og sundrast.

Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við vinstrið í dag hafa fjarlægst verkafólk og þeim er ekki stjórnað af verkafólki. Vinstrið stendur því frammi fyrir stórum vanda því erfitt getur verið fyrir fólk úr stjórnmálaelítunni að samsama sér með kúgun og vanda verkafólks. Ef vinstrið væri í tengslum við verkafólk myndum við sjá það endurspeglast í samsetningu Alþingis.

Í raun snýst þetta um strategíu, að velja að heyja baráttuna eftir þeim leiðum sem líklegastar eru til árangurs. Barátta fortíðarinnar og lexíur segja okkur að barátta byggð á afli verkafólks sem stéttar sé eina leiðin sem sé fær til þess að ná fram efnhagslegu réttlæti. Martin Luther King Jr vissi þetta á sínum tíma þegar hann sagði: „Við vitum að það er ekki nóg að samþætta hádegisverðarborðið (lunch counter). Hvað græðir maður á að geta borðað á samþættum matsölustað ef hann hefur ekki efni á að kaupa hamborgara og kaffibolla?“

Hvers virði er að fá að sitja við sama borð og hvíta fólkið eða forstjórinn ef þú hefur ekki efni á að kaupa kaffibolla? King, eins og margir á þessum tíma, vissu að með formlegu eða lagalegu jafnrétti væri aðeins hluti baráttunnar unninn, raunverulegt réttlæti yrði líka að byggjast á efnahagslegu réttlæti.

Það þýðir ekki að barátta fyrir borgararéttindum væri gagnslaus, heldur aðeins að hún væri ekki nóg. Vinstrið í dag hefur snúið baki við þessari þekkingu sem var almennt viðhorf baráttufólks eftir seinna stríð. Ekki lengur, í dag er þessi þekking að mestu horfin og vinstrið þarf að byrja frá grunni.

Ef vinstrið byggir baráttuna ekki lengur á þessum efnahagslega og efnislega grunni og skilningi á stéttaskiptingu og kapítalisma, þá er vinstrið í dag ekki vinstri í raun.