Femínismi vs. Kapítalismi

29. apríl, 2018 Karitas Bjarkadóttir
Kvennrettindahnefi

Femínisti. Orð sem ég hef í dágóðan tíman samsvarað mig við. Eins og flestir á mínum aldri kynntist ég femínisma aðallega í gegn um netið, samfélagsmiðla og fréttir, og fyrstu femínsíku fyrirmyndirnar mínar voru því, eins og margra annarra, stjörnur á borð við Emmu Watson og Beyoncé. Það er auðvitað gott og gilt út af fyrir sig, þetta eru sterkar konur sem vita hvað þær vilja, og það er gott að horfa upp til þeirra ef það er bara gert út frá þeim forsendum. Femínisminn sem bandarískar Hollywood stjörnur berjast fyrir er samt ekki fullnægur. Hann mun aldrei skila konum jafnrétti, heldur aðeins hálmstráum sem hægt er að grípa í á meðan efnahagskerfið og samfélagið er ennþá eins og það er. Litlir sigrar, sem halda femínistum uppteknum, á meðan þeir gera sér ekki grein fyrir hinu raunverulega vandamáli. Og það vandamál er kapítalismi.

Það er auðvelt að sjá hvers vegna núverandi kapítalískt hagkerfi og femínískt samfélag mun aldrei virka saman. Megináherslur kapítalisma og hægri stefnu eru í stuttu máli þær að enginn sé jafn, sem er augljós þversögn við boðskap femínismans, um að kynin séu jöfn og að allir fái jöfn tækifæri í lífinu óháð kyni, litarhafti, kynhneigð og samfélagslegri stöðu. Á meðan flest, ef ekki öll, láglaunastörf heimsins eru „kvennastörf“ á borð við hreingerningar, saumaskap, umönnun, framreiðslu matar og þjónustustörf, mun femínismi aldrei verða að fullu ríkjandi, og konur verða alltaf kúgaðar. Það hefur aldrei, og mun aldrei, verða hægt að aðskilja hagkerfi og samfélagið, og það liggur því í augum uppi að hagkerfi sem þrífst á misrétti mun aldrei leyfa því að viðgangast að barist sé fyrir jafnrétti af einhverjum toga.

Við skulum skoða femínisma nútíma vestræns samfélags. Þann arm hreyfingarinnar sem oft er kenndur við „hvítan“. Mig langar að taka fyrrnefnda Beyoncé sem dæmi. Þó svo að hún sé að vísu umdeild, hefur hún í gegn um tíðina verið máluð upp sem hið fullkomna femíníska „icon“, og eins og ég kom inn á áðan, þá er það svo sem skiljanlegt. Hún er sterk, ákveðin kona, sem veit hvað hún vill, og sækist eftir því. Og svo syngur hún líka um það. Hún hefur oft lýst því yfir á sviði að hún sé femínisti, en að sama skapi hef ég ekki enn fundið neitt um það á netinu hvað hún hefur lagt að mörkum til femíniskra málefna, annað en að selja varning með orðinu „feminist“ á, að því sem virðist í eigin hagnaðarskyni. Er nóg að segjast vera femínisti til að vera það?

Ef að femínisminn þinn nær ekki lengra en að selja varning í eigin hagnarskyni, er hann þá femínismi? Ef að femínisminn þinn er ekki innihaldsríkari en að kaupa boli merkta femínisima í H&M, sem konur í því sem næst þrælkunarvinnu saumuðu fyrir lítil sem engin laun, er hann þá femínisti? Ef að þú styður sumar konur, en ekki allar, ef þú neitar að opna augun fyrir því að feðraveldið og kapítalismi eru tveir óaðskiljanlegir hlutir, hver er þá tilgangurinn með femínismanum þínum? Ef hann er einungis fyrir þig, en ekki allar konur, þá er það ekki femínismi.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu, að skilja að fullu jafnrétti verður ekki náð í núverandi hagkerfi. Það er mikilvægt að berjast, og berjast af hörku. Að krefjast jafnréttis mun aldrei koma því alla leið, það þarf að berjast fyrir því, það þarf að umbylta öllu, svo þetta verði að raunveruleika. Og því bið ég alla þá, sem halda að jafnrétti verði náð í óréttlátu samfélags-og hagkerfi, um að endurskoða málið, lesa ykkur til, og endurskoða svo aftur. Þann 1. maí ætla ég að krefjast jafnréttis, réttlátra kjara, stöðvun arðrána, og stöðvun á kúgun kvenna, því þetta helst allt í hendur og til þess að taka niður kapítalisma, verður að taka niður feðraveldið, og til þess að taka niður feðraveldið, verður að taka niður kapítalisma.