Ég ætla að MAGA þig, beibý. Monroe-kenningin 2.0
—
[Donald Trump er settur í embætti í dag (20/1). Í eftirfarandi grein metur Pepe Escobar horfurnar. Hann leggur einkum út af mikið umræddum blaðamannafundi Trumps í Flórída 7. janúar, sjá hér]
Þetta er mesta „show“ í heimi – tvöföld sýning með bæði „New Paradigm“ og „Manifest Destiny“ á sterum: Við erum frábær. Við munum rokka ykkur – í öllum skilningi. Við munum kremja ykkur. Við tökum það sem við viljum, af því við getum það.
Ef þú ætlar að yfirgefa bandaríska dollarinn, karl minn, þá eyðileggjum við þig. BRICS, við náum þér!
Trump 2.0 – blanda af atvinnuglímu og blönduðum bardagalistum (MMA), glímd í risastóru búri sem nær yfir alla plánetuna – hefst á mánudaginn kemur.
Trump 2.0 ætlar sér að vera í stjórnunarsætinu í alþjóðlega fjármálakerfinu, í stjórnun olíuviðskipta og framboði fljótandi jarðgass í heiminum og stjórna stefnumótandi fjölmiðlum. Trump 2.0 ætlar sér að vera æfing í að særa Hinn. Hvern sem er. Fjandsamlegar yfirtökur – og blóð á brautinni [blood on the tracks]. Þannig „semjum“ við.
Samkvæmt Trump 2.0 verða tækniinnviðir heimsins að ganga fyrir bandarískum hugbúnaði, ekki bara á gróðahliðinni heldur einnig á njósnahliðinni. Gagnakubbar gervigreindar verða að vera bandarískir eingöngu. Gagnaverum úr gervigreind verður að vera stjórnað af Ameríku eingöngu.
„Frjáls viðskipti“ og „hnattvæðing“? Það er fyrir tapara. Velkomin til ný-imperial, tækni-léns-merkantílisma – sem knúinn er áfram af tækniyfirburðum Bandaríkjanna.
Ráðgjafi Trumps í þjóðaröryggismálum, Mike Waltz, hefur nefnt nokkur markmið sem framundan eru: Grænland, Kanada, Norðurslóðir, mismunandi einokunarhringir, Ameríkuflóinn [í stað Mexíkóflóinn], olía og gas, jarðefnaauðlindir. Allt í nafni þess að styrkja „þjóðaröryggið“.
Lykilatriði er: algjör yfirráð yfir „Vesturhveli“, Monroe-kenningin 2.0 – í raun Donroe-kenningin. Ameríka fyrst, síðast og um eilífð.
Af hverju þarf að hrista upp skákborðið?
Við skulum nú aðeins fjalla um óþægileg, efnisleg, knýjandi mál. Óreiðuveldið [Empire of Chaos] stendur frammi fyrir gríðarlegum opinberum skuldum við hina „venjulegu grunuðu“ lánahákarla, og sem aðeins er hægt að endurgreiða að hluta til með útflutningsafgangi. Það myndi útheimta enduriðnvæðingu – sem er tímafrekt og kostnaðarsamt mál – og að tryggja snurðulausar hernaðarlegar aðfangalínur.
Hvaðan koma aðföng til þessa Sísifos-verkefnis? [Sísifos, frægur úr grískri goðafæði fyrir að reyna sífellt og árangurslaust að velta bjargi upp á fjall] Stjórnvöld í Washington geta einfaldlega ekki treyst á kínverskar útflutningsvörur og sjaldgæf jarðefni. Það þarf að hrista upp taflið – með viðskiptum og tækni sameinuðum undir einhliða, einokunarstjórn Bandaríkjanna.
Áætlun A var að takast á við Rússland og Kína samtímis, tvö helstu ríki innan BRICS og lykilaðila í samrunaþróun í Evrasíu. Stefna Kína hefur frá upphafi árþúsundsins verið að skipta á auðlindum fyrir innviði og þróa markaði hins Hnattræna Suðurs á sama tíma og Kína sjálft heldur áfram að þróast.
Stefna Rússlands hefur verið að hjálpa þjóðum við að endurvinna fullveldi sitt, í raun að hjálpa þjóðum að hjálpa sér sjálfar í sjálfbærri þróun.
Áætlun A – gegn samstilltum aðgerðum í geóhagrænu og geóstrategísku samstarfi Rússlands og Kína – mistókst hrapallega. Það sem hin hræðilega fráfarandi Bandaríkjastjórn reyndi hefur aftur og aftur slegið illilega tilbaka.
Nú er því komið að áætlun B: Að ræna bandamennina. Þeir eru undirgefnir chihuahua-hundar hvort sem er. Það verður að halda áfram með nýtingarþáttinn. Og það er nóg af chihuahua-hundum til að nýta.
Kanada býr yfir miklu ferskvatni auk olíu og námuauðæfa. Kanadísku viðskiptastéttina hefur í raun alltaf dreymt um djúpa samþættingu við óreiðuveldið.
Trump 2.0 og félagar hafa gætt þess að nefna ekki nöfn. Þegar talað er um Norðurslóðir sem mikilvægan og síbreytilegan vígvöll er kannski óljóst hvað átt er við með Norðvesturleiðinni. En aldrei er minnst á það sem skiptir máli; Norðausturleiðina – sem er rússneska heitið; Kínverjar kalla hana Silkiveg Norðurslóða. Það er ein af lykilleiðum flutninga og samskipta í framtíðinni.
Norðursjávarleiðin nær yfir að minnsta kosti 15% af órannsakaðri olíu og 30% af órannsökuðu jarðgasi í heiminum. Grænland er í miðjum nýja „Mikla leiknum“ – það getur uppfyllt þarfir heimsins fyrir úran árum saman, framleitt jafnmikla olíu og Alaska (keypt frá Rússlandi 1867) og sjaldgæf jarðefni – svo ekki sé minnst á að það býður upp á gagnlegt landsvæði til eldflaugavarna og -sóknar.
Stjórnvöld í Washington hafa reynt að ná Grænlandi frá Danmörku síðan 1946. Samningur er í gildi við Kaupmannahöfn sem tryggir yfirráð hersins, aðallega flotans. Grænland verður nú dregið fram sem kjörinn vettvangur fyrir Bandaríkin í taflinu gegn Rússlandi á Norðurslóðum.
Á Sankti Pétursborgar-málþinginu í júní síðastliðnum fékk ég að fylgjast með einstöku hringborði um Norðausturleiðina: Það er óaðskiljanlegur hluti af þróunaráætlun Rússlands á 21. öldinni m.t.t. kaupsiglinga – „Við þurfum fleiri ísbrjóta!“ – og mun fljótlega fara fram úr Súes og Gíbraltar.
Rúmlega 50.000 Grænlendingar, sem nú þegar njóta sjálfstæðis, einkum gagnvart ESB, myndu gjarnan sætta sig við aðskilnað frá Danmörku, en Kaupmannahöfn hefur í raun yfirgefið þá síðan 1951. Grænlendingar munu gjarnan vilja hagnast á gríðarlegum fjárfestingum Bandaríkjanna.
Sergey Lavrov utanríkisráðherra sagði: „Fyrsta skrefið er að hlusta á Grænlendinga“ og bar það saman við hvernig Rússar hlustuðu á íbúa Krímskaga, Donbass og Novorossiya gagnvart Kiev.
Það sem Trump 2.0 vill fá út úr Grænlandi er kristaltært: algjör hervæðing, forgangur að sjaldgæfum jarðefnum og að útiloka Rússnesk og kínversk fyrirtæki frá viðskiptum.
Yu Chun, sérfræðingur í kínverska hernum, segir að „bráðum er búist við að hin langþráða „gullna siglingaleið“ norður í Norður-Íshafi opnist, sem gerir skipum kleift að sigla um Kyrrahafið og sigla meðfram norðurströndum Norður-Ameríku og Evrasíu inn á Atlantshafið.“
Þar sem Norðursjávarleiðin er „lykilþáttur í samstarfinu Kína-Rússland“ er óhjákvæmilegt að „strategísk sýn Bandaríkjanna sé að koma í veg fyrir að „gullin“ leið verði lögð á milli Kína, Rússlands og Evrópu með því að stjórna Grænlandi.“
Paník í chihuahua-herbúðunum
Á hinum breiðari chihuahua-vígstöðvum er ys og þys. Í stað úrvals Davos/ Deep State-tengrar elítu í NATO-ríkjunum – allt frá Evrópu til Kanada – er unnið að því að koma á fót nýrri elítu sem tengist Trump 2.0.
Það er óneitanlega tengt áætluninni um að ræna bandamennina: að eyðileggja enn frekar hið mikla hagkerfi ESB til að styrkja kjarna heimsveldisins.
Í Þýskalandi er Alice Weidel, málsmetandi og gáfuð, mjög áhugaverð í umfjöllun sinni um AfD. Hún leggur áherslu á að Þýskaland þurfi að hefja innflutning á hráefni og ódýru jarðgasi – opnum Nord Stream á ný – frá Rússlandi.
Það opnar fyrir þann óhugnanlega möguleika að Trump og meðhjálpari hans Elon Musk geri sér fulla grein fyrir því að Þýskaland sem af-iðnvætt bakland er lítils virði fyrir Bandaríkin – jafnvel innan ramma harkalegrar nýfrjálshyggju-eignaupptöku. Auðvitað mun Trump 2.0 setja upp hátt verð fyrir Þjóðverja til að þeir megi endurlífga land sitt á ný.
Trump 2.0 hefur að minnsta kosti þann – vafasama – styrk að vera tiltölulega raunsær í mati á skákborðinu; Rússland, Indland, Kína – Primakov-þríhyrningurinn – og Íran eru orðin of valdamikil til að hægt sé að ræna þau. Næsti kostur er því að ræna Chihuahuaana. Sprenging Nord Stream að fyrirmælum Biden-bófaflokksins – eins og Sy Hersh lýsir – var skínandi byrjun.
Framtíð NATO í „Great-America“ verkefninu er nú í uppnámi. Peningana eða: – framlag hvers aðildarríkis ætti að fara upp í 5% af vergri landsframleiðslu í stað núverandi 2%.
Hugsa sér, 150% verðhækkun. Trump hefur reyndar ekki í eitt skipti hingað til notað hið vitlausa orðalag „Indó-Kyrrahaf“. Í reynd er Trump að segja NATO að sigla sinn sjó.
Ef Kanada og Grænland verða tvöfalt NATO-ríki geta Bandaríkin jafnvel jafnað auðlindamagn Rússlands. Það er líklega lykilforsenda þess að hægt sé að leysa hinn nýja mikilleik úr læðingi. Gleymum „fjölpólun“. BRICS, takið eftir því!
Hið áhugaverðasta er auðvitað Elon Musk. Trump þarf nauðsynlega á hinum mikla samfélagsmiðli/áróðurssnjallsíma Musks að halda. Samtímis, á chihuahua-vígstöðvunum, vill hinn platínumiðaði aðstoðarmaður Trumps geta hagnast á Evrópu sem hafi næga orku, hráefni og neytendur með kaupgetu.
Staðreyndir á jörðu niðri segja að „reglumiðaðri alþjóðaskipan“ hafi þegar verið skipt út fyrir alþjóðlegt óreiðuástand sem ekki er bundið af reglum. Þegar allt kemur til alls hefur sjálft óreiðuveldið (það er tvíhliða) nú þegar afnumið alþjóðalög, hvað varðar ólöglegar, einhliða refsiaðgerðir, þjófnaði á fjármunum ríkja, réttlætingu þjóðarmorðs eða hálshöggvandi „hófsama uppreisnarmenn“.
Trump 2.0 verður ekkert nema framfylging á því sem þegar er staðreynd: eftir-söguleg óreiða. „Endalok sögunnar“ – það var alltaf bara fyrir auðtrúa asna.
Þessi íkveikju-keðjuverkun er á fleygiferð fyrst og fremst af einni ástæðu: óreiðuveldið tapaði staðgegilsstríðinu í Úkraínu. Það sem á eftir að ræða er skilmálar uppgjafarinnar. Það er því ekkert skrýtið að Trump hafi þurft að finna upp á tælandi – samt háskafullum sálfræðihernaði [psy-op], „bigger than life“ – til að snúa frásögninni.
Greinin birtist fyrst hjá Strategic Culture Foundation 14. janúar
Pepe Escobar er víðkunnur, óháður geópólitískur greinir sérstaklega um málefni Evrasíu