Covid fréttir frá Portúgal

6. febrúar, 2021 Björgvin Leifsson


Í grein sem ég skrifaði í Neista í júlílok á síðasta ári (https://neistar.is/greinar/althjodasamstarf-a-timum-covid-19/) nefndi ég Portúgal sem dæmi um Evrópuland, sem hefði enn sem komið var farið nokkuð vel út úr kórónuveirufaraldrinum og tiltók nokkrar ástæður. Fyrsta bylgja (vorbylgja) nýrra tilfella stóð yfir frá upphafi faraldursins til aprílloka. Önnur bylgjan (sumarbylgja) var frá maí til ágústloka. Þessar tvær bylgjur voru mjög áþekkar því sem gerðist á Íslandi og raunar var varla hægt að tala um sumarbylgju þar sem hún var nánast engin frekar en víða annars staðar í Evrópu. Þriðja bylgjan, haustbylgjan, byrjaði í september og má segja að henni hafi lokið 26. desember sl. og er þetta svipað haustbylgjunni á Íslandi. Þá varð fjandinn laus ef svo má að orði komast.

Myndin er fengin af síðu, sem kallast Safe communities in Portugal og er hugsuð fyrir útlendinga, sem búa í landinu. Þessar upplýsingar eru uppfærðar daglega og er hlekkurinn á þær https://covid19.min-saude.pt/ponto-de-situacao-atual-em-portugal/. Þar eru m.a. upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Virk tilfelli (activos)
  2. Heildarfjöldi þeirra, sem hefur batnað (recuperados) ásamt þeim sem hafa náð sér síðasta sólarhring
  3. Heildarfjöldi látinna (óbitos) ásamt látnum síðasta sólarhring
  4. Heildarfjöldi staðfestra tilfella (confirmados) ásamt staðfestum tilfellum síðasta sólarhring
  5. Kort af Portúgal yfir uppsöfnuð tilfelli eftir sýslum
  6. Heildarfjöldi skimana (testes)
  7. Fjöldi á sjúkrahúsum (casos internados)
  8. Fjöldi á gjörgæslu (casos internados uc)
  9. Heildarfjöldi bólusetninga (vacinas administradas) ásamt skiptingu í fyrri og seinni bólusetningu.


Af hverju fór þessi 4. bylgja af stað í Portúgal?

Í upphafi faraldursins fór Portúgal svipaða leið og flest Evrópuríki, þ.m.t. Ísland. Nánast öllu var lokað nema matvörubúðum, heilsugæslu og apótekum og stóð lokunin frá u.þ.b. miðjum mars til maíloka. Meðal þess sem var lokað voru tannlæknastofur nema í neyðartilfellum og valkvæðar, ífarandi aðgerðir voru bannaðar. Enn fremur voru settar á strangar fjöldatakmarkanir og landamærunum að Spáni var lokað.

Portúgalar eru mjög frændræknir og hér tíðkast á hátíða- og tyllidögum ýmiss konar tíðkast að stórfjölskyldur hittist og geri sér glaðan dag. Um páskana voru því settar á ferðatakmarkanir frá skírdegi að öðrum páskadegi þannig að fólki var bannað að ferðast milli sýslna (concelhos) nema brýna nauðsyn bæri til og var sektum beitt á þá sem hlýddu ekki.

Eftir tiltölulega rólegt sumar fór haustbylgjan af stað í september. Hún reis hæst í nóvember og enn var ferðatakmörkunum beitt á sama hátt og um vorið til að reyna stemma stigu við því að of margir kæmu saman og eins og sést á myndinni hér að ofan virðist það hafa skilað árangri.

Svo komu jólin. Einhverra hluta vegna virðast yfirvöld ekki hafa treyst sér til að setja á ferðatakmarkanir yfir jólin sjálf þó að mælst væri til að ekki kæmu fleiri en sex saman nema allir væru í sömu fjölskyldu undir sama þaki. Afleiðingin varð náttúrlega sú að stórfjölskyldur komu saman til að halda upp á jólin saman og mátti sjá hér mikið af bílum með erlendum númerum, þ.e. brottflutta Portúgala, sem ýmist komu með veiruna með sér, nú, eða tóku hana með sér til baka. Þá var hér eitthvað af breskum ferðamönnum yfir jól og áramót, sem hafa borið með sér breska afbrigðið og er umhugsunarefni af hverju landamærunum var ekki lokað yfir hátíðirnar því að þrátt fyrir orð António Costa forsætisráðherra um annað var vitað um breska afbrigðið fyrir jólin.

Um áramótin var beitt svipuðum ferðatakmörkunum og hafði verið gert fyrr á árinu, þ.e bannað var að fara á milli sýslna frá 30. desember til 3. janúar. Skemmtana- og ferðaþyrstir Portúgalar sáu við því með því að ferðast einfaldlega deginum fyrr og fara svo til baka deginum síðar.

Nú er meðgöngutími covid-19 mjög misjafn eða frá ca. 3 dögum upp í allt að hálfan mánuð og á meðan er einstaklingurinn smitandi auk þess sem sumir fá aldrei einkenni en eru smitandi samt sem áður. Við sjáum á myndinni hve 4. bylgjan rís hrikalega hátt á mjög skömmum tíma þannig að 15. janúar var aftur settar á mjög strangar lokanir svipað og í 1. bylgju faraldursins auk ferðabanns milli sýslna um helgar. Viðurlög voru einnig hert þannig að nú má fangelsa þá sem brjóta bannið rétt eins og það sé skárra að fá covid í fangelsi en annars staðar.

Þrátt fyrir lokanir og ferðatakmarkanir hélt bylgjan áfram að rísa nánst út janúarmánuð og er það ekki fyrr en á allra síðustu dögum að árangur er farinn að sjást. Nú er einangrunartími kovidsmitaðra tvær vikur frá skimunardegi og þar af a.m.k. ein vika án einkenna þannig að það er augljóst að fólk hefur verið að hittast of mikið fyrri hluta janúar og ekki fylgt fyrirmælum um fjöldatakmarkanir. Þá má nefna að í þessu kaþólska landi hefur kirkjunni verið verið látið það meira eða minna eftir að ráða sínum takmörkunum þannig að messur eru ekki bannaðar. Þá fóru forsetakosningar fram 24. janúar eins og ekkert hefði í skorist og var Marcelo Sousa endurkjörinn forseti með um 55% atkvæða en kosningaþátttaka var mjög dræm eða innan við 50%.

Um framhaldið er ekki gott að segja. Fjórða bylgjan virðist á niðurleið en það má ekki mikið út af bera. Lokanir og ferðatakmarkanir eru enn í gildi til 15. febrúar og búast má við framlengingu í a.m.k. tvær vikur í viðbót. Lokanirnar eru þó ekki eins strangar og í fyrstu bylgju, t.d. eru tannlæknastofur opnar og valkvæðar, ífarandi aðgerðir leyfðar.