Alþjóðasamstarf á tímum Covid-19

31. júlí, 2020 Björgvin Leifsson



Á fyrsta fimmtungi þessarar aldar hafa komið upp nokkrir faraldrar. Nægir þar að nefna svínaflensuna 2009, tvo ebólufaraldra, sem voru að mestu bundnir við lönd í Vestur-Afríku og zika faraldur, sem byrjaði í Frönsku Pólynesíu 2013, dreifðist þaðan um margar eyjar í Kyrrahafi og hefur líklega borist þaðan til Suður-Ameríku 2015.

Þessir faraldrar (og nokkrir aðrir) voru að ýmsu leyti frábrugðnir kórónuveirufaraldrinum, sem nú herjar á mannkynið. Svínaflensan var nýr stofn af þekktri H1N1 inflúensuveiru og tókst því tiltölulega fljótt að finna bóluefni. Ebólufaraldrarnir voru að mestu staðbundnir þó að nokkur tilfelli hafi komið upp í Bandaríkjunum og Evrópu, sem tókst að einangra. Þá hefur zikaveiran verði þekkt nokkuð lengi og tiltölulega auðvelt að ráða við hana.

Covid-19 er hins vegar dulítið annað fyrirbæri. Hún er þegar orðin að heimsfaraldri og ekkert bóluefni er þekkt enn þá. Hún er mjög smitandi en langflestir eru einkennalitlir (öfugt við inflúensu) og geta því óafvitandi smitað mjög marga. Með öðrum orðum er þetta ekki bara vandamál þriðjaheimsríkja, fátækra, minnihlutahópa o.s.frv. Ólíkt fyrrnefndum faröldrum hafa vesturlönd ekki stjórn á ástandinu. Þá er fjandinn laus og hriktir í stoðum velferðarkerfanna og alþjóðasamstarfsins.


Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO)

Tedrus Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, lýsti því yfir fyrir skömmu að covid-19 faraldurinn væri nú þegar orðinn versti faraldur þessarar aldar og langt í að við sæum fyrir endann á honum. WHO varaði alþjóðasamfélagið við covid-19 strax í janúar. Vesturlönd gerðu nákvæmlega ekki neitt fyrr en veiran fór að stinga sér niður hjá þeim sjálfum með ógnarhraða, enda vön því að svona faraldrar herji bara á þriðjaheimsríki, nú, eða að bóluefni verði komið á markað áður en þetta verður að vandamáli hjá þeim.

WHO gaf út leiðbeiningar þegar í janúar og ítrekaði hættuna í febrúar en lífið hélt áfram að ganga sinn vanagang. Að vísu hömstruðu Bandaríkjamenn byssur til að skjóta veirukvikindið á færi og Hvítrússar reyndu að drekkja bévítans vírusnum í vodka en að öðru leyti voru flestar ríkisstjórnir bara nokkuð bjartsýnar og kokhraustar. Þegar veiran fór loksins að grassera í Bandaríkjunum kenndi Trump bæði Kínverjum og WHO um allt saman og boðaði úrsögn Bandaríkjanna úr Alþjóða heilbrigðisstofnunni, sem eru náttúrlega hin einu réttu viðbrögð í kosningabaráttunni.

Segja má að covid-19 hafi verið og sé enn eins konar prófsteinn á getu WHO til að bregðast við heimsfaraldri – en um leið prófsteinn á vilja alþjóðasamfélagsins, sérstaklega Vesturlanda, að fara eftir ráðleggingum WHO. Það er langt í frá að WHO hafi tekist að samræma aðgerðir á heimsvísu og raunar hafa ráðleggingar þeirra á stundum reynst misvísandi og nægir þar að nefna grímunotkun. Þá þótti sumum skrýtið þegar stofnunin sá allt í einu ástæðu til að hrósa Svíum sérstaklega fyrir að gera nánast ekki neitt í baráttunni við veiruna, sem virðist mjög á skjön við annað, sem stofnunin hefur látið frá sér fara varðandi varnir gegn faraldrinum. Að lokum virðist stofnunin ófær um að leiða alþjóðlega samvinnu vísindasamfélagsins í baráttunni við sjúkdóminn, svo sem í þróun bóluefnis, sem einkageiranum virðist að mestu látið eftir og mun þá markaðurinn væntanlega fá að ráða að lokum.


Evrópusambandið

Þegar covid-19 fór að stinga sér niður í Evrópu seinni hluta febrúar reyndist ótrúlega lítið um varnir, sérstaklega þegar haft er í huga að löndin höfðu haft tíma frá því í desember á síðasta ári til að undirbúa sig. ESB gaf ekki út neinar ráðleggingar til aðildarríkjanna og er reyndar óvíst hvort eftir þeim hefði verið farið. Höfundur þessa pistils þurfti að ferðast til Íslands frá Portúgal í febrúar og flaug til baka gegnum París þann 9. mars með tveggja nátta stoppi. Þá var allt galopið; kaffihús, verslanir, skemmtistaðir o.s.frv. og enginn grímuklæddur nema kannski nokkrir japanskir túristar.

Viku seinna fóru svo að berast fréttir af lokunum. Smám saman lokuðu löndin sig af og fór þá Schengen samstarfið fyrir lítið. Öllu innan landanna var lokað nema matvöruverslunum, apótekum, heilbrigðisstofnunum og fjölmiðlum. Mörg landanna settu fljótlega á grímuskyldu í verslunum og jafnvel á götum úti og var þá ekki rætt um lög í sumum löndum, sem banna fólki að hylja andlitið að hluta eða öllu leyti. Mörg landanna (en ekki öll, t.d. hvorki Ísland né Portúgal) settu á mjög strangt útgöngubann með háum sektum ef brotið væri og var jafnvel vopnuð herlögregla notuð til að stöðva fólk á leið í eða úr matvöruverlsun eða apóteki og í sumum löndum varð fólk jafnvela að sýna eins konar vottorð eða skriflega yfirlýsingu um að það væri reyndar í löglegum erindagjörðum.

Með öðrum orðum stóð ESB gersamlega máttlaust hjá og leið aðildarríkjunum að meðhöndla þegnana sem grunaða glæpamenn. Engin tilmæli komu frá Brussel eða Evrópuþinginu eða öðrum stofnunum hins ágæta og alþýðuvæna sambands. Hins vegar telur ESB sig nú, þegar fyrstu bylgju faraldursins er lokið, þess umkomið að segja aðildarríkjunum og EES ríkjunum fyrir verkum varðandi opnun landamæra og afléttingu ferðatakmarkana og virðist þá pólitíkin oft ráða för frekar en heilsufræðileg eða faraldursfræðileg rök.

Eitt var það þó sem ESB tókst að gera eftir fjögurra mánaða atrennu og þóf: Að samþykkja björgunarpakka handa verst stöddu ríkjunum í álfunni, sem jafnframt eiga ekki jafn mikið aflögu eins og ríku þjóðirnar í norðri.

Fyrsta atrennan var gerð fyrir páska. Í stuttu máli náðist eins konar bráðabirgðasamkomulag í dymbilviku, sem virðist hafa runnið út í sandinn. Það var svo ekki fyrr en 21. júlí sl. að samkomulag náðist, sem "sparsama fylkingin" (Austurríki, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland) gat sætt sig við en einnig þurfti málamiðlun við fasistaríkin í austri, Pólland og Ungverjaland. Í stuttu máli hljóðar björgunarpakkinn upp 750 milljarða evra og þar af verða 390 milljarðar í formi óafturkræfra styrkja en sparsama fylkingin vildi hafa þá tölu lægri. Minnir óneitanlega á viðbrögð ríku þjóðanna í norðri í kreppunni 2008 gagnvart björgunarpakka til Suður-Evrópulandanna.

Þá eru og gerðar kröfur um að þriðjungur styrkjanna og lánanna fari í úrbætur í loftslagsmálum og enn fremur eru greiðslurnar háðar því að ríkin fari að lögum ESB og er þá sérstaklega horft til Póllands og Ungverjalands. Þó þurfa 55% aðildarríkjanna eða fulltrúar 65% íbúa þeirra að samþykkja neitun á grundvelli brota á reglum sambandsins og var það málamiðlun sem leiðtogar téðra landa gátu sætt sig við.

Þannig hefur kórónuveirufaraldurinn afhjúpað ýmsa veikleika innan ESB og sýnt fram á að aðildarríkin fara sínu fram þegar á bjátar hvort sem fyrirmæli koma að ofan eður ei.

Vert er að kíkja aðeins á Norðurlandasamstarfið, sem okkur er sagt að sé það besta og farsælasta í heimi. Við eigum t.d. öll að geta ferðast án vegabréfs á milli landanna, unnið í hvaða aðildarríki sem er og yfirleitt haft sömu réttindi hvar sem er á Norðurlöndunum sem værum við heima hjá okkur. Það hefur hins vegar komið örlítið babb í bátinn. Þegar opnað var á ferðir að nýju á milli Norðurlandanna að lokinni fyrstu bylgju covid-19 voru Svíar skildir eftir útundan (m.a. af íslenskum yfirvöldum að ráðleggingum sóttvarnalæknis) þó að Danir hafi nú opnað á ferðir Svía frá ákveðnum héruðum. Mér skilst að ekki sé laust við að Svíar séu dulítið sárir vegna þessa en á svo sem ekki von á að það muni hafa einhver áhrif á Norðurlandasamstarfið.


Viðbrögð einstakra ríkja

Ekki verður frá því vikist að viðbrögð einstakra ríkja við faraldrinum hafa áhrif á alþjóðasamstarfið og þar með alþjóðasamfélagið. Skoðum nokkur dæmi í stuttu máli.

Kínverjar einangruðu Wuhan hérað og náðu smám saman nokkuð góðum tökum á faraldrinum þó að enn blossi þar upp hópsýkingar. Kína er núna í 28. sæti á lista Worldometers (https://www.worldometers.info/coronavirus/#countries) raðað eftir heildarfjölda smita en kemur mjög vel út þegar hlutföll á hverja milljón íbúa eru skoðuð. Þá hafa Kínverjar látið WHO og vísindasamfélaginu í té allar upplýsingar um veiruna.

Bandaríkin tróna á toppi listans hvað heildarfjölda smita varðar og eru einnig ofarlega þegar hlutföll eru skoðuð. Þar á bæ töluðu stjórnvöld mjög digurbarkalega framan af en Trump virðist eitthvað vera að gefa eftir í fyrri afstöðu (jafnvel farinn að láta sjá sig með grímu), enda kosningar framundan. Framlag Bandaríkjanna á heimsvísu er úrsögn úr WHO og ásakanir á hendur Kínverjum að þeir hafi búið til veiruna og dreift henni um heimsbyggðina, væntanlega til að trufla kosningabaráttuna.

Brasilía með Bolsonaro í broddi fylkingar er núna í öðru sæti listans. Þrátt fyrir að kappinn sé farinn að láta sjá sig með grímu er þetta enn þá bara smávægileg flensa. Þar hafa nánast engin viðbrögð verið við faraldrinum og hefur Bolsonaro raunar barist gegn þarlenskum heilbrigðisyfirvöldum í aðgerðum þeirra og skiptir út ráðherrum og heilbrigðisyfirvöldum jafnvel hraðar en hann skiptir um grímu.

Það er raunar umhugsunarefni að í öðru til fimmta sæti listans eru fjögur BRICS ríkjanna svokölluðu, þ.e. Brasílía, Indland, Rússland og Suður-Afríka, en öll eiga löndin sammerkt að hafa brugðist seint og/eða illa við faraldrinum. Fimmta BRICS ríkið er svo Kína, sem virðist sigla nokkuð lygnan sjó í bili.

Litlu, einangruðu eyjaþjóðirnar í Norður-Atlantshafi, Grænlendingar, Íslendingar og Færeyingar, hafa sloppið nokkuð vel enn sem komið er. Í öllum þremur löndunum bjuggu heilbrigðisyfirvöld sig strax undir faraldurinn og í öllum þremur löndunum virðast stjórnmálamenn að mestu eða öllu leyti hafa farið eftir ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda en ekki tekið einhverjar skyndiákvarðanir eins og sums staðar í Evrópu og víðar þegar allt var í óefni komið.

Að lokum má nefna Portúgal, þar sem greinarhöfundur er farinn að þekkja nokkuð til. Þar virðast stjórnvöld hafa farið svipaða leið og á Íslandi og gert ráðstafanir mjög snemma í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Landamærunum að Spáni var lokað upp úr miðjum febrúar og sluppum við hjónin naumlega heim úr Íslandsför okkar áður en allt farþegaflug lagðist af. (Hér má benda á að landamærum Íslands var aldrei lokað né lögðust allir farþegaflutningar af). Í Portúgal var aldrei sett á útgöngubann frekar en á Íslandi en öfugt við Ísland er hér grímuskylda í verslunum og víðar þar sem fólk kemur saman. Portúgalar byrjuðu að slaka á ferða-, fjölda- og samkomutakmörkunum í júní svipað og í flestum öðrum löndum Evrópu. Heildarfjöldi smita hér frá upphafi faraldursins til dagsins í dag (29. júlí) er 50.410 eða 4.945 á hverja milljón íbúa. Dauðsföll eru nú 1.722 eða 169 á hverja milljón. Virk smit eru nú 13.062 og engin nýsmit hafa greinst síðasta sólarhringinn. Portúgal er enn skilgreint sem áhættusvæði af ýmsum löndum Evrópu, þ.m.t. Íslandi, og í fljótu bragði virðist það skjóta pínulítið skökku við miðað við árangurinn. Í einhverjum tilvikum kann pólitík að ráða för en ekki heilbrigðissjónarmið.

Merki