Byltingardagatalið 2019 komið út!
—
Byltingardagatal fyrir árið 2019 er komið út. Að þessu sinni prýða forsíðuna myndir af Rósu Luxemburg og Karli Liebknecht, en í janúar 2019 verða liðin 100 ár síðan þau voru myrt, þegar hvítliðar brutu á bak aftur byltingartilraun spartakista í Berlín. Dagatalið prýðir fjöldi annarra mynda, auk hundruða dagsetninga: úr sögu stéttabaráttu, friðarbaráttu og þjóðfrelsisbaráttu og fæðingar- og dánardagar þekktra leiðtoga, píslarvotta, skálda og annarra.
Sem fyrr standa fjögur félög sameiginlega að útgáfunni, það eru Alþýðufylkingin, DíaMat – félag um díalektíska efnishyggju, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur. Dagatalið má nálgast hjá félögunum sjálfum, en auk þess í betri bókaverslunum: Bókaversluninni Sjónarlind á Bergstaðastræti, Bókabúð Máls og menningar, Bóksölu stúdenta, Kjötborg á Ásvallagötu og Bláhorninu á Grundarstíg.