Alex Krainer: Efnahagshamfarirnar í Evrópu eru hafnar

1. september, 2025

Glenn Diesen á hér viðtal við Alex Krainer um horfurnar fyrir Evrópu eftir ósigurinn í Úkraínustríðinu. Þeir ræða hvernig stríðslokin, og sú staðreynd að Bandaríkin undir Donald Trump vilji losa sig þaðan, muni framkalla djúpa efnagaskreppu í Evrópu (og pólitíska líka).

Alex Krainer er markaðsgreinandi, fyrrum forstöðumaður vogunarsjóðs – höfundur margra bóka og tíður gestur valkvæðra hlaðvarpsþátta. Búsettur í Monaco.

Í þýðingunni er viðtalið stytt um ca. helming. Þýðing og stytting: Þórarinn Hjartarson

Drungalegar horfur i kjölfar Úkraínustriðs

Glenn Diesen: Það sem er áhugavert núna er sú efnahagsþróun í Evrópu sem leiðir af Úkraínustríðinu. Maður skilur auðveldlega afstöðu Úkraínumanna, maður skilur hvað Bandaríkjamenn eru að reyna a gera eftir að hafa tapað stríðinu, þeir vilja gjarnan draga sig eitthvað út, ná einhverju af peningunum tilbaka, koma nokkru af þessu yfir á Evrópumenn áður en þetta brotnar saman… Allt er skiljanlegt nema afstaða Evrípuleiðtoga, menn skilja hvorki upp né niður í því hvað þeir eru að gera. En ég bendi alltaf á það að Evrópumenn lögðu allt undir í þessu staðgengilsstríði við Rússa. Það er áhugavert að byrja á að ræða efnahagslegu afleiðingarnar framundan sem Evrópumenn þurfa að horfast í augu við.

Alex Krainer: Ja, ég held að þetta hafi verið í kortunum í nokkurn tíma. Allan þann tíma sem ljóst hefur verið að Rússland myndi hafa betur í Úkraínu, var vitað að efnahagslegar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir Evrópu, og sérstaklega fyrir Bretland, yrðu nokkuð alvarlegar… Ástandið fer versnandi. Þetta kemur í kjölfar ekki aðeins Úkraínudæmisins, heldur einnig heimsfaraldursins árið 2020. Áður en það byrjaði var smám saman verið að innleiða þessa stefnu um kolefnishlutleysi. Til dæmis í Þýskalandi – þar byrjuðu þeir árið 2000 – byrjuðu þeir að leggja niður kjarnorkuverin og luku því 2023 eða 2024, þegar þeir lokuðu síðasta kjarnorkuverinu sínu. Svo misstu þeir Nord Stream-gasleiðslurnar sem fluttu mikið magn af ódýru, áreiðanlegu jarðgasi frá Rússlandi fyrir þýska hagkerfið.

Hversu mikilvægt var það? Með orðum eins sérfræðings, þá var rússneskt gas að verðmæti um 20 milljarða dollara að knýja framleiðslu á þýskum iðnaðarvörum að verðmæti 2 billjóna dollara, sem þeir fluttu síðan út til Kína, Bandaríkjanna og annarra landa. Og nú er þetta allt í uppnámi.

Ég held að valdastéttin í Evrópu hafi vonast til þess að þeir myndu hafa betur í Úkraínu, sem myndi gera ýmislegt mögulegt. Þetta myndi grafa undan stöðugleika í Rússlandi. Eftir stjórnarskipti í Rússlandi myndu þeir svo fá sér sneið af rússneskum auðæfum og eignum. Hvað varðar 300 milljarða dollarana af frystum rússneskum eignum [innistæður Rússneska seðlabankans í vestrænum bönkum, frystar strax eftir innrásina, formlega samþykktu G7 ríkin að eignirnar væru „frystar þar til Rússland greiðir skríðsskaðabætur sínar til Úkraínu“, þýðandi], þá hefðu þeir haldið þeim. Þeir hefðu aldrei þurft að skila þeim. Nú er þetta allt í uppnámi.

Og ekki nóg með það, heldur hefðu hundruð milljarða dollara sem þeir lánuðu Úkraínu til stríðsins og til varnar verið „góðar skuldir“ [ef stríðið hefði unnist]. Þessi lán hefðu verið „góðar eignir“. Nú eru þetta slæm lán, og ekkert af þessu mun skila sér. Og það sem ég held að sé enn verra núna fyrir Evrópumenn er þegar Trump er farinn að teygja sig til Vladimírs Pútíns.

Ný stefna Trumps og versnandi horfur

Varðandi 300 milljarða dollarana af frystum rússneskum eignum sem eru á Vesturlöndum, þær eignir eru aðallega í Evrópu – það eru ekki nema um 5 til 8 milljarðar í Bandaríkjunum – um 180 milljarðar í Belgíu hjá Euroclear í Brussel, að sögn um 70 milljarðar í Frakklandi og um 37 milljarðar dollara í Bretlandi.

Ég held að einn af samningunum milli Rússa og Bandaríkjamanna verði sá að Rússar muni fjárfesta þessa peninga í Bandaríkjunum. Og þú veist, Donald Trump getur alltaf fegrað samninginn og sagt: „Allt í lagi, við afléttum frystingunni á þessum eignum ef þið fjárfestið þá í Bandaríkjunum. Við getum slakað á einhverjum refsiaðgerðum“, á sama hátt og hann hefur kynnt Bandaríkin sem fjárfestingarstað fyrir Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Katar. Hann mun gera það sama fyrir Rússa. Og fyrir Rússa er slík ráðstöfun líka skynsamleg.

Þetta verða enn frekari slæmar fréttir fyrir Evrópubúa. ESB og Bretland eru í skelfilegri stöðu ríkisfjármála. Þau höfðu reitt sig á þessa peninga til að endurgreiða hluta af tapi sínu og sem veð til að knýja fram nýja stóra lánahringrás í Evrópu – þú veist, til að skapa atvinnu, kannski fjármagna innviði og endurvopnunina, … Nú, ef þessir peningar flytjast yfir hafið, þá held ég að Evrópa sé komin á endastöð. Líkurnar á að þetta gerist eru, að mínu mati, 100%. Það er aðeins spurning um tíma.

Ef Trump segir, leysið þessar eignir og sendið þær til New York, þá verða Evrópubúar að hlýða. Og þetta hefur alltaf verið þannig. Þú veist, þetta stríð hefur aðeins afhjúpað hversu undirgefin staða Evrópubúa er gagnvart Bandaríkjunum. Og þetta hefur ekki með Trump að gera. Árið 2013, þegar CIA grunaði að Edward Snowden hefði farið um borð í flugvél Evo Morales forseta á leið til Bólivíu, skipuðu þeir Ítalíu, Spáni og Portúgal að loka lofthelgi sinni fyrir flugi Morales. Og þeir neyddu flugvél hans til að lenda í Vínarborg þar sem þeir héldu Evo Morales og áhöfn flugvélarinnar í 14 klukkustundir á meðan þeir yfirheyrðu þá og leituðu í vélinni. Þetta var algjörlega ólöglegt. Þetta var brot á alþjóðalögum, en Evrópubúar hlýddu beiðni CIA strax, án nokkurra spurninga. Þannig er eðli þessa sambands.

Ég hef alltaf haldið að Bandaríkin hafi mun meira svigrúm en önnur vestræn ríki í þessum skilningi og að þau gætu kannski komið á mjúkri lendingu. Þú veist, skuldirnar þeirra eru óborganlegar. Það verður verðbólga, efnahagskreppa, því hvernig endurgreiðir þú 37 billjónir dollara í opinberum skuldum? Og það eru bara opinberar skuldir – ef þú telur heildarskuldir bandaríska lánamarkaðarins með þá færðu út eitthvað í kringum 110 billjónir dollara. Ég held að það sé yfir 300.000 dollarar á hvern mann, konu og barn í Bandaríkjunum. Það er fáránlegt, einfaldlega óborganlegt.

Það verður kreppa með mikilli verðbólgu eins og við upplifðum á áttunda áratugnum eða kannski verri. Trump getur farið um allan heim og fengið aðrar þjóðir til að fjárfesta í Bandaríkjunum. Bandaríkin hafa varagjaldmiðil heimsins og viðskiptagjaldmiðilinn sem er bandaríkjadalur, svo það gefur þeim alls kyns leiðir til að stjórna kreppunni, á meðan það sama á ekki við um Japan, Bretland eða ESB.

Það er erfitt að mæla þessa hluti, segjum sem heildarupphæð, af því ríkisstjórnir eru að birta bulltölur og maður getur eiginlega ekki trúað neinu. En ef þú horfir á verðþróun ríkisskuldabréfa undanfarin ár, þá fór skuldabréfaverð á útsölumarkað sumarið 2021. Þetta féll nokkurn veginn saman við brotthvarf Bandaríkjanna frá Afganistan [ágúst 2021], sem var þegar ég taldi að heimsveldið hefði hlotið banvænt sár. Þá sástu að bresk, evrópsk og japönsk skuldabréf fóru yfir á útsölumarkað og bandarísk líka. Ef þú svo skoðar fimm árum síðar, þá lækkuðu bandarísku skuldabréfin kannski um 20% eða svo frá hámarki, en evrópsku skuldabréfin urðu fyrir miklu miklu meira tapi.

Nánar tiltekið: bara frá 1. janúar 2020 hafa bandarísk ríkisskuldabréf lækkað um u.þ.b. 13% og evrópsk skuldabréf um 24% og þau bresku um u.þ.b. 32%. Alþjóðlegir markaðir hafa misst traust á breska hagkerfinu og getu breskra stjórnvalda til að standa í skilum með skuldir sínar. Markaðurinn hefur stimplað Bretland og mögulega Japan sem viðkvæmustu þjóðirnar, fyrstu dómínókubbana sem falla. Traust á bandaríska hagkerfinu er ennþá mest meðal vestrænna þjóða …

300 frystir rússneskir milljarðar dollarar

Glenn Diesen: Hvað með 300 milljarðana af rússneskum eignum sem voru frystar? Evrópumenn hafa stolið vöxtum af þessum fjármunum. En ég hef á tilfinningunni að þeir hafi tekið meira, hafi þegar stungið sér ofan í einhverja ef þessum sjóðum. Hefur þú yfirsýn yfir það?

Alex Krainer: Sagt er að þau [evrópsk stjórnvöld] hafi aðeins notað vextina af þessum fjármunum – sem þau telja sig af einhverjum ástæðum eiga rétt á og að þetta sé í lagi. En það er það ekki. Auðvitað munu þau reyna að fela þetta. Þetta er þjófnaður. Þú veist, evrópsk stjórnvöld eru í raun að afnema sín eigin lög. Sérhver erlendur aðili, Brasilía, Kína, Indland, Sádi-Arabía, sem gæti átt eignir í evrópskum bönkum, mun taka eftir þessu og gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að treysta þessu fólki og mun ekki fjárfesta í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef getað fundið áttu frystar eignir að andvirði um 71 milljarðs dala að vera í Frakklandi. Nú virðist talan aðeins vera 25 milljarðar. Það er óljóst hvernig sú tala lækkaði svona mikið. En það er mjög líklegt að stjórn Macrons hafi ákveðið að fá sér sjálf af þessu [og notað meira en bara vextina]. Sem skýrir kannski hvers vegna Macron hefur verið svo ákafur í þessu stríði og svo skelfingu lostinn við tilhugsunina um að tapa því.

500 ára söguskeiði lýkur – þungamiðjan flyst

Glenn Diesen: Á það sama við um Þýskaland? Eitthvað mjög undarlegt er líka að gerast í Þýskalandi. Þeir hafa lagt niður allan þennan stóriðnað, hafa metnað til að skipta yfir í þennan hernaðarlega keynesisma, sem þýðir að smíða skriðdreka í stað bíla. Og nú þrýsta Bandaríkjamenn á Þjóðverja að kaupa vopnin frá Bandaríkjunum. Þegar Merz hitti Trump var krafan bara þessi: Við verðum að fá vopnahlé, við verðum að fá vopnahlé, vitandi að það mun ekki gerast.

Alex Krainer. Evrópa er orðinn staður sem á á hættu að verða algjörlega jaðarsett í heimsmálum. Við vitum að 500 ára skeið Evrópu-miðlægrar heimsskipanar er á enda runnið. Þungmiðja hnattrænnar efnahagsþróunar, verslunar og pólitískra áhrifa hefur flust í austur. Á heildina litið höfum við á því svæði Kína, Indland, Japan… Þegar göngin undir Beringsund verða grafin einhvern tíma í framtíðinni þá tengist ameríska meginlandið við þessa þungamiðju. Og ef þú horfir á það ofan frá Norðurpólnum þá er evrópska meginlandið algjörlega á jaðri þessa svæðis, og í þessa átt stefnir þróunin.

Og því miður eru evrópsku leiðtogarnir gjörsamlega aðlagaðir þægindunum af heimsskipan eftirstríðsáranna. Fundurinn sem við sáum í Washington, með Merz og Macron, von der Leyen og Melony sitjandi við borðið á móti Donald Trump eins og skólabörn á skrifstofu skólastjóra, það var óhugnanlegt, það var raunverulega mjög sorglegt. Viðbrögð þeirra eru afneitun, þau afneita raunveruleikanum, líklega af því raunveruleikinn hefur dæmt þau óþarfa leikmenn.

Þessi staða þeirra er afleiðing af því að þau hafa hugsunarlaust fylgt stefnu fjármálamiðstöðvanna, Wall Street og City of London og hafa ekki haft neina hugsun á þörfum eigin þegna. Nú, þegar Bandaríkin vilja draga sig út hefur Evrópuforustan ekkert plan B. Þau eru svo góðu vön í því að fylgja Bandaríkjunum og algjörlega óviðbúin þvi sem kemur. ESB á skilið allt sem því hlotnast. Ég held að þróunin muni óhjákvæmilega, m.a.s. ekki í svo fjarlægri framtíð, leiða okkur út í upplausn ESB, og upplausn NATO með. Frakkland og Bretland, mögulega Þýskaland líka, geta skriplað inn í samfélagsuppreisn, jafnvel borgarastríð. Til að forðast þá þróun ættum við að teygja okkur til Rússa og semja um frið og ræða sameiginlegt öryggiskerfi til framtíðar…

…Eitt atriði enn varðandi framtíð Evrópu. Núverandi forusta í Evrópusambandinu er orðin ákveðin í að taka beinan þátt í stríðinu gegn Rússlandi en verður ekki tilbúin í það fyrr en 2028-29 svo hún reynir í örvæntingu að framlengja núverandi stríð þangað til. En núna, þegar sýnilegt er orðið að Úkraínumenn munu ekki halda út til ársins 2029, er hún ákveðin í að opna aðra víglínu á Balkanskaga…

[Krainer ræðir svo í framhaldinu um hraðvaxandi spennu á Balkanskaga, einkum í Bosníu-Herzegóvinu, tengdum endurteknum ögrunaraðgerðum, með breskar leyniþjónustu-rætur. En það er, að segja má, hliðarefni miðað við meginfókus viðtalsins svo að við þýðum ekki meira að sinni en setjum hér punkt]

Sjá má viðtalið á Substack-síðu Glenn Diesens  

Annað öflugt viðtal Glenn Diesens við Alex Krainer frá í mars í vor má segja að sé undanfari þessa. Það nefndist «Alex Krainer: Economic Collapse & the End of Europe» og má skoða hér: