Á Stefnufundi 1. maí 2019

1. maí, 2019 Guðmundur Beck


Á Stefnufundi 1. maí 2019


Á hátíðisdegi sem helgaður er

herjum sem arfleifðar njótum.

Virðingu þeim sem vera ber

vottum af innstu hjartarótum.


Við minnumst þeirra manna sem dugðu

í mótbyr lífskjarastríðsins.

Af fórnfýsi og elju til framtíðar hugðu

í forystu sveimhuga lýðsins.


Styrk var sú hönd og staðföst lund

stórhuga forystumanna

er bundu saman hvern baráttufund

með byltingar glóðina sanna.


Í verkföllum stóðu að verja sinn rétt

verkmenn og konur í svelti,

því örsmáu skammtað var öreigastétt

af auðvaldsins feita gelti.


Ég minnast vil einnig mæðranna góðu

er mæddar af kúgun höfðingja og presta,

fleyttu lífinu fram úr móðu

fátæktar, harðinda og pesta.


Engin nú mörkin arðránið virðir

okursins reiðir upp hjör.

Auðvaldskreppan ætíð hirðir

öreigans naumustu kjör.


Enn er þess þörf að efla vort stríð

með einingu á baráttumótum,

því frjálshyggjupestar feigðartíð

fólskunnar nærist á rótum


Af alhug oss lærist að elska vort land

enginn það trygglyndi svíki.

Eflum í dag vort einingar band

gegn arðráni og spillingar díki.


Guðmundur Már Beck.