1. maí-ávarp Alþýðufylkingarinnar

Nú er því ákaft haldið fram að kreppunni sé lokið, góðærið sé slíkt að fólk hafi það almennt gott á Íslandi og jöfnuður sé svo mikill hér. Samt er fátækt útbreidd og fjöldi fólks á erfitt með að standa undir húsaleigu og lifa af launum sínum.

Verkalýðssamtökin á Íslandi standa frammi fyrir miklum átökum um bætt kjör og réttlátari skiptingu á gæðum samfélagsins. Þar skiptir öllu máli að alþýðan láti ekki etja sér saman innbyrðis, heldur byggi upp stéttarsamstöðu gegn auðstéttinni og hagsmunum hennar. Það er eina leiðin til að vinna sigra, bæði í kjarabaráttunni og baráttunni fyrir samfélagsbreytingum.

Eftir nokkra daga eru 200 ár frá fæðingu Karls Marx. Hann er sá sem veitt hefur stéttabaráttu alþýðunnar mestan innblástur með verkum sínum og hvatningu. Hann sýndi fram á hvernig auðvaldsþjóðfélagið mótast af arðráninu og að laun verkafólks miðast aðeins við að geta lifað af til að halda áfram að vinna. Og að eina leiðin til að losna undan þessum aðstæðum er hlífðarlaus barátta gegn auðvaldinu. Höldum á lofti hugmyndum Karls Marx í þeirri baráttu sem framundan.

Öreigar allra landa sameinist!

Alþýðufylkingin